sunnudagur, apríl 25, 2004

Gleðilegt sumar!
Vorið er komið og grundirnar gróa, gilin og lækirnir fossa af brún! Samkvæmt dagatalinu er vorið reyndar búið og sumarið sjálft mætt í góðum gír. Veðrið hefur verið svona venjulegt snemm-sumarveður, sól-rigning-vindur-logn-sól-rigning og svo framvegis allt á einum hálftíma :) ! Eins og einhver útlendingur sagði: Hvergi nema hér getur maður upplifað allar árstíðirnar á einum og sama deginum. Ísland, bezt í heimi!

Afmælisgjöfin góða
Bókaormurinn átti eins árs afmæli í mars síðastliðnum. Ég er nú ekki betri en það að ég tók bara ekkert eftir því og til þess að gera gott úr öllu saman ákvað ég að skrifa síðuna upp á nýtt, enn eina ferðina. Það má sem sagt líta á þessa breytingu sem síðbúna afmælisgjöf!

Bíó, bíó og aftur bíó
Í gærkvöldi horfði ég á myndina A mighty wind í góðra vina hópi. Algjör steypa af bestu gerð og ég hló eins og brjáluð korktafla ;) ! Þess má líka geta að þó ég horfi svona mikið á bíómyndir þá horfi ég voða lítið á sjónvarps-dagskrána. Ég horfi bara á sjónvarpið á mánudögum og stundum á föstu-dögum, svo það ætti að gefa mér plús í kladdann!

laugardagur, apríl 24, 2004

Akið varlega, vegavinna framundan...
Já, framkvæmdir standa yfir á útliti Bókaormsins. Við biðjum lesendur um að sýna þolinmæði þó comment væru vel þegin hvatning :Þ !

mánudagur, apríl 12, 2004

Páskahérinn...
Gleðilega páska! Vonandi voru þínir eins góðir og mínir :). Við systurnar og aðrir fórum upp í sumarbústað og eyddum páskunum í ró og næði með sjálfum okkur. Páskaegg, góður matur og Trivial í góðra vina hópi. Himnaríki á jörð!

Bíóferðir...
Ég fer oft í bíó. Mér finnst það gaman, er til í að borga fyrir forréttindin og finnst bíóvélagos miklu betra en það sem fæst út úr búð. Nokkrar af mörgum ástæðum þér til ánægju og yndisauka :Þ. Núna nýlega fór ég að sjá myndirnar Whale rider, 50 first dates, Starsky & Hutch og The whole ten yards. Og já, ég tel þær upp í gæðaröð.
Whale Rider er meistaraverk að mínu mati. Þetta er mynd sem að allir ættu tvímælalaust að sjá. Undantekningarlaust. Hún er í alla staði frábær en vissara er að hafa vasaklút við hendina. Og ekki mæta eftir að myndin er byrjuð því að ólíkt flestum myndum byrjar sagan á fyrstu sekúndu.
Í 50 first dates fer Adam Sandler á kostum. Að öllu jöfnu fer maðurinn óstjórnlega í taugarnar á mér, þar sem hann getur ekki leikið fyrir fimmaura, en þessi mynd kom mér skemmtilega á óvart. Hún er ólík öðrum Adam Sandler myndum, sem venjulega eru háð á alvarlegri myndir. Sem dæmi Happy Gilmore = gert grín að íþróttamyndum og Big daddy = gert grín að rómantískum gamanmyndum. 50 first dates er rómantísk gamanmynd þó að gamanið sé hærra sett en rómantíkin.
Starsky & Hutch er bara svona lala mynd. Hún er í sama stíl og þættirnir voru (þ.e.a.s. ekki færð í nútímalegan búning eins og Charlie's angels) og þess vegna er hún falleg ásýndar en við nánari kynni minnkar álitið heldur.
The whole ten yards nenni ég ekkert að segja um nema þetta: Videospólu-mynd!!!

Too lost in you...
Mér áskotnaðist fríkeypis miði á Sugababes tónleikana seinasta fimmtudag. Þar sem Katrín og sameiginlegir kunningjar okkar voru á leiðinni þangað ákvað ég að slást í hópinn með þeim og berja dýrðina augum. Ja, sér er nú hver dýrðin. Það var ekkert "show" í kringum þetta hjá stúlkunum þremur, Heidi, Keisha og S e-ð. Þær voru bara í ofur venjulegum fötum og stóðu bara og sungu. Ég skemmti mér nú samt ágætlega og mér virtist sem restin af áheyrendum sveitarinnar (sem flestir voru ekki mikið hærri en 140 cm) skemmti sér stórvel, enda án efa fyrstu tónleikar meirihluta salarins. Það var ofgnótt af píkuöskrum og öðrum aðdáunarhljóðum og það kitlaði hégómagirndina hjá mér að vera allt í einu orðin hávaxin í samanburði við aðra hlustendur. Queen of the world o.s.frv.
En stóra augnablikið mitt þetta kvöld (já, og reyndar þessarar viku) átti sér ekki stað fyrr en að tónleikunum loknum. Ég kvaddi Katrínu og stelpurnar inni og labbaði ein út um aðaldyrnar, á leið minni í bílinn. Þar er að sjálfsögðu löng bílalest sem bíður eftir að komast í burt og meðan ég geng meðfram henni er ég að slefa yfir svörtum Mercedes Benz jeppa. Þegar ég kem að jeppanum sjálfum þá sé ég að afturglugginn er opinn og að fyrir innan sitja allar þrjár Sugababes og allar sem eina brosa þær til mín (ég leit næstum við til að athuga hvort þær væru að horfa á einhvern annan...). Sú svarta (ég held hún heiti Keisha) segir:
Hi, thanks for coming!
og þar sem ég er veluppalinn Íslendingur rétti ég þeirri sem var næst mér (það reyndist vera Heidi) hendina og segi:
Thanks for a great show!
að því loknu (því ég "fancy-a" sjálfa mig sem ó-uppáþrengjandi manneskju) veifaði ég til þeirra og gekk sem leið lá að bílnum mínum. Ég var að rifna úr stolti yfir því að vera svona kúl augliti-til-auglitis við heimsfrægar manneskjur. Það að þessar heimsfrægu manneskjur eru yngri eða jafngamlar mér og virka þar að auki mjög baby-legar á sviði vona ég að gleymist snögglega ;).