fimmtudagur, mars 20, 2008

This is one doodle that can't be un-did, Homeskillet...
Mánudagur er hreint ekki til mæðu hjá mér. Nýliðinn slíkur var síður en svo undantekning á þeirri reglu. Fyrir utan vikulegan hádegismat með Bryndísi, þar sem við hittum hálfa Reykjavík eða í það minnsta hálfan árgang úr MR, kom Dagbjört til sögunnar og gerði það að verkum að þessi tiltekni mánudagur varð hálfævintýralegur.

Í fyrsta lagi fékk ég að fara með henni í Blóðbankann. Hversu kúl er það? Ég geri ekki ráð fyrir að eiga þangað erindi aftur, þó ég vildi gjarnan hafa það öðruvísi, þannig að þetta var þvílíkt stuð. Það kemur í ljós að nálastungur og blóðtökur eru mjög spennandi þegar viss skilyrði eru uppfyllt. Og takið eftir, því þetta er mikilvægt: Það þarf bara að vera að stinga einhvern ANNAN en mig. Sönnun lokið. X er fundið. Leyndardómar lífsins afhjúpaðir.

Eftir þessa hugljómun og skemmtilegu upplifun, fyrir mig alla vega, skelltum við okkur í bíó á Juno. Við (og hinir fimm Reykvíkingarnir sem ekki höfðu séð hana þá þegar) skemmtum okkur vel. Við Dagbjört skemmtum okkur reyndar áberandi best í salnum, en það er svo sem ekkert nýtt. Þessi mynd er eitthvað svo heillandi, ég veit samt ekki af hverju það er. Kannski vegna þess að hún er svo eðlileg. Og hún reynir ekki of mikið. Það er sjaldgæft í indí mynd. En þó ekki jafnsjaldgæft og í Hollywood-myndum.

Og já, stanslaust vesen á tollinum, póstinum og flugfélögum. Vill heimurinn ekki að ég sleppi nördanum lausum? Er þetta alheims samsæri til að láta mig einbeita mér að skólanum? Maður spyr sig.


Og og já, ég veit ekki hvort þú hefur tekið eftir því, en ég ætla að breyta textanum efst nokkuð reglulega (lesist: þegar ég man eftir því). Allar eru tilvitnanirnar fengnar úr Discworld bókum Terry Pratchett. Svona ef þú hefur áhuga á að lesa meira ;).

laugardagur, mars 15, 2008

Lúmsk...
Seinasta vika fór að miklu leyti í að snúa á skötuhjú sem afar erfitt er að gabba. Hér á ég við afmælisóvissuferðahefðina sem skapast hefur á seinustu árum. Sú hefð felur í sér að í kringum afmæli viðkomandi er honum eða henni rænt, bundið er fyrir augun og farið út í óvissuna.

Óvissan hefur nú ekki verið meiri en svo að við höfum alltaf gert það sama, Friday's og bíó. Það stendur jú alltaf fyrir sínu en það má alltaf breyta til.

Þar sem það fórst fyrir að fara með Snorra í óvissuferð í október og líka Bryndísi í desember þá ákvað ég að slá tvær flugur í einu höggi. Reyndar vissi ég það fyrirfram að það væri lítil von til þess að mér tækist a) að fá þau til liðs við mig, sitt í hvoru lagi og án þess að vekja grunsemdir og b) að kjafta ekki óvart frá öllu saman sjálf.

Þetta tókst þó á endanum, stórslysalaust. Reyndar talaði ég af mér við Snorra, svo hann grunaði að við Bryndís værum eitthvað að bralla, en hún var bara svo sannfærandi saklaus að hann var ekki viss.

Við enduðum á að borða á Reykjavík pizza co. og fara á Horton hears a who í Regnboganum. Róttækar breytingar það ;). Sú mynd er einber snilld og skylduáhorf fyrir fólk með hláturtaugar í lagi. Reyndar er mikilvægt að fara gætilega, á tímabili var fólk hætt að anda af hlátri.


Dude, you're a warrior poet!

föstudagur, mars 14, 2008

Vúhú...
Ert þú jafn spennt/ur og ég? Tjékk it!

fimmtudagur, mars 13, 2008

Kór og kvein...
Þar sem við systurnar erum einlægir áhugamenn um kórsöng og kórtónlist almennt, ákvað mamma að bjóða okkur á páskatónleika Vox feminae sem haldnir voru í gærkvöldi. Við urðum voða glaðar og buðum ömmu að koma með okkur. Ég var, þrátt fyrir áðurnefnda gleði, frekar þreytt og þar sem ég gekk að kirkjunni í kuldanum langaði mig mikið að vera undir teppi með góða bók. Það breyttist snögglega þegar ég heyrði Á föstudaginn langa óma úr kirkjunni. Þar var fyrir kórinn á lokaæfingu. Það minnti mig á ást mína á kórsöng en ég velti því jafnframt fyrir mér hvers vegna í ósköpunum kórinn var að æfa HÁLFTÍMA fyrir tónleika, inni í kirkjunni, fyrir framan tilvonandi tónleikagesti. Ekki hefur slíkt tíðkast í mínum kórum.

Eníhú, hálftíma síðar hófust svo tónleikarnir á verkinu Stabat mater, sem samið var fyrir kórinn. Og hvað fannst mér? Leiðinlegasta kórverk sem ég hef nokkurn tímann heyrt. Alltof þungt og einhvern veginn enginn heillandi hljómur. Ég þekki ekki fræðilegu orðin til að lýsa þessu en niðurstaðan er, Stabat mater = grútleiðinlegt.

Ég hélt mér vakandi á meðan flutningi stóð með því að fylgjast með Margréti Pálmadóttur, kórstjóra flestra barnakóra landsins, syngja með nótnamöppuna fyrir andlitinu. Fyrir þá sem ekki þekkja til í kórum, þá er þetta big no-no. Af og til sveiflaði hún reyndar möppunni frá og kastaði höfðinu nokkrum sinnum til en annað sást ekki af henni á meðan hún söng.

Þegar þessu hræðilega þunga og leiðinlega verki lauk loksins tók annað og mun betra við. Þær dreifðu sér dálítið um gangana og sungu nokkra páskasálma, á íslensku, þýsku og latínu og tókst bara ágætlega til. Þær fá plús í kladdann fyrir að flytja Á föstudaginn langa eftir Davíð Stefánsson og Maríukvæði eftir Laxness, sem eru báðir í uppáhaldi hjá mér.

Mínusstig fær kórinn fyrir að standa engan veginn undir væntingum okkar systranna. Miðað við hvað allir lofa þennan kór í hástert hefði ég haldið að mér þætti meira til þeirra koma. Svo var ekki, niðurstaða tónleikanna er að ég hef næstum misst allan áhuga á þessum kór. Ætla engu að síður að gefa þeim annað tækifæri ef það býðst, en þó ekki ef Stabat mater kemur við sögu.

miðvikudagur, mars 12, 2008

Vesenis tesen...
Ég kann ekki nógu vel á þetta nýja útlit. Lenti í heljarinnar vandræðum við að koma kommentunum inn, sat við tölvuna og fiktaði og fiktaði og fiktaði. Komst svo að því að ég þurfti einungis að haka í eitt box og þá komu þau inn. Jahá.
Auk þess kann ég ekki að setja inn svona title fyrir póstana mína. Ef ég gæti gert það þá yrði listinn með gömlu póstunum mun snyrtilegri. Ef einhver blogger notandi á leið um síðuna væri það kærkomið að fá smá leiðsögn um þennan frumskóg. Maður getur gleymt ansi mörgu á einu ári, það er nokkuð ljóst :).

þriðjudagur, mars 11, 2008

Heimt úr helju?

Það er kannski einum of mikið sagt en ég hef snúið aftur eftir ársfrí frá bloggi. Nú er spurning hvort fríið hefur gert mér gott eður ei.

Ég byrjaði á þessari færslu full bjartsýni og vonar. Dettur svo ekkert í hug til að skrifa um. Vísbending að ofan? Eða kannski neðan? Mér er spurn.