þriðjudagur, maí 23, 2006

Ferðasagan heldur áfram...
Það gildir sem fyrr að allar villur og rangfærslur er hægt að leiðrétta, ef ferðafélagar mínir koma auga á slíkt.

Dagur 2
Keyrslan gekk vel og ég man ekki eftir neinum sköndulum í svipinn. Helst það að þegar við komum til Lansing, Illinois þá villtist Kellingin allillilega og Eyrún keyrði í tvo stóra hringi þangað til við loksins rötuðum á mótelið. (Ég mana þig til að telja l-in í þessari setningu). Það var heldur hrörlegt og hvorki meira né minna en í frekar fátæku hverfi. Við vorum 3 af kannski 10 hvítum sem við sáum. (Reyndar voru MJÖG flott hús og bílar nokkrar götur í burtu. Við vorum bara vitlausu megin við brautarteinana svo ekki sé meira sagt). Áður en við fengum okkur að borða skunduðum við í ekta amerískt moll svo Eyrún gæti fengið amerískuna beint í æð. Þar fundum við forláta passamynda-kassa (þann eina í ferðinni) og skelltum okkur að sjálfsögðu í hann. Eftir það gerðust undur og stórmerki: Ég keypti mér Rainbow Brite náttföt! Eftir sú kaup sagðist ég geta farið heim þá og þegar. Þetta yrði ekki toppað.
Þegar við höfðum ekið nokkra hringi í viðbót ákváðum við að borða á Bennigan’s. Það hefði eflaust verið mjög skemmtileg lífsreynsla ef að sumir *hóst*ég*hóst* hefðu ekki gleymt að drekka um daginn. Ég þurr og þreytt í frekar leiðinlegu hverfi í Bandaríkjunum er ekki skemmtileg upplifun, ef þú varst að velta því fyrir þér. (Krít anyone?) Að lokum stakk Bryndís upp á því að sumir ættu kannski að hætta bara að tala sem fyrst. Sem betur fer fyrir áframhaldandi vinskap okkar þriggja tók ég það til greina og opnaði ekki munninn fyrr en ég sagði góða nótt.
Morguninn eftir fengum við morgunmat hjá hressustu konu veraldar. Það beinlínis lak af henni þjónustulundin og hún hreytti matnum ekki í okkur. Alls ekki.
Þegar við keyrðu svo burt frá þessu skúmmel Day’s Inn móteli sáum við barnaheimili í nágrenninu. Það væri svo sem ekki í frásögu færandi ef ekki væri fyrir háspennulínurnar sem mættust fyrir ofan það.

Dagur 3
Við keyrðum sem leið lá til North Platte, Nebraska. Sá bær er betur þekktur sem bærINN í ferðinni. Það gerðist allt í tengslum við þennan bæ. Í fyrsta lagi vorum við á góðum tíma og ákváðum að stoppa og fá okkur Pizza Hut í kvöldmatinn.
Fyrir þá sem ekki vita eru alls staðar við Highways og interstates svona þjónustusvæði eða litlir bæir. Áður en maður kemur að afreininni sem leiðir mann að slíkum stöðum, sér maður skilti sem segja hvað er á hverjum stað.
En aftur að Pizza Hut. Þar hittum við vinkonu okkar, hana Rhondeu. Hún var eiturhress og fannst hreimurinn okkar spes (líkt og öðrum í ferðinni, en það er önnur saga). Við vorum líka eina fólkið á staðnum svo hún hefur verið fegin að fá von um þjórfé. Pizzurnar komu eftir stutta stund en hún sagðist hafa gleymt brauðstöngunum og fór eftir þeim. Rétt fyrir sjö kom hún í hefðbundna “Hvernig bragðast þetta?” heimsókn (sem ætíð á sér stað þegar ég er nýbúin að stútfylla á mér túlann). Þegar við spurðum svo um brauðstangirnar sagði hún að þær hefðu verið gamlar og hún hefði látið búa til nýjar handa okkur. Þær kæmu að vörmu spori. Tíminn leið og sporið kólnaði en ekki kom Rhondea. Við sáum engan nema einvherja stelpu sem var að þrífa. Við vorum ekkert að flýta okkur og biðum bara sallarólegar. Reyndar þótti okkur heldur skrýtið að glösin okkar stóðu tóm í lengri tíma. Í þjórfés-samfélagi sem BNA er það mjög óalgengt. Héldum að Rhondea hefði kannski farið út á akur að skera hveitið í stangirnar. Ég skellti mér á klósettið og þegar ég kom til baka sást hvorki tangur né tetur af stöngunum. Þá vorum við komnar á það að Rhondea væri að sá hveitinu, hvaða önnur skýring gæti verið á öllum þessum töfum. Nú var klukkan orðin átta og ræstitækni-stelpan kom til okkar með reikninginn og sagðist halda að við ættum þetta. Þegar við kíktum svo á reikninginn voru brauðstangirnar þar, svart á hvítu. Þegar við svo spurðum starfsmann út í þetta kom í ljós að Rhondea var búin í vinnunni klukkan sjö og þar af leiðandi löngu farin heim. Hún hafði engum sagt frá okkur eða brauðstöngunum okkar og konurnar þarna héldu að við værum einvherjir ruglaðir útlendingar sem ætluðu bara ekkert að fara. Eftir enn eitt hláturkastið drifum við okkur út af þessum skemmtilegasta Pizza Hut stað sem ég hef nokkurn tímann farið á.
Ferðin á Howard Johnson’s Inn gekk vel og það leit ekki illa út. Og punkturinn yfir i-ið: það var sundlaug á staðnum. Við drifum okkur í bikini og röltum (í fötum yfir að sjálfsögðu) að sundlauginni. Á leiðinni sáum við kalla á öllum aldri að drekka bjór á bílastæðinu. Sitjandi í sólstólum. Á meðan við syntum og svömluðum í innanhúss lauginni var einhver gaur alltaf að labba framhjá gluggunum. Geðveikt smooth og ekkert grunsamlegur. Eftir sundið fórum við bara beint að sofa og ekki dró frekar til tíðinda þann daginn.

þriðjudagur, maí 16, 2006

Varúð! Löng færsla framundan...
Svakalegt ferðalag er á enda og það reyndist bæði æðislegt og leiðinlegt að koma heim. Hér á eftir fylgir ferðasagan, frá mínum sjónarhóli séð. Gefið er að ég gleymi einhverju og að mig misminni annað en ferðafélagar mínir verða þá bara að láta í sér heyra ;).

Formáli
Ferðin hófst, eins og flestar ferðir, í Leifsstöð. Þar var fríhafnarrúnturinn tekinn en vegna breytinga voru ýmsar búðir hreinlega horfnar. Þegar við löbbuðum í áttina að okkar hliði (sem var að sjálfsögðu eins langt í burtu frá innganginum og mögulegt er) komumst við að heldur óskemmtilegum breytingum á stöðinni. Þar er búið að koma fyrir eins konar ormagöngum sem fara þarf í gegnum til að komast að öllum hliðunum. Um leið og komið er inn í göngin er eins og maður sé í útlöndum, þetta er ekki ósvipað tilfinningunni sem hellist yfir mig þegar ég kem inn í Smáralindina. Eftir að hafa hitt mömmu mína, sem var að koma frá Brüssel, gengum við um borð í vélina. Við vorum óvenju óheppnar með sætin þar sem Eyrún sat ein í röð 17 en við Bryndís sitthvoru megin við ganginn í öftustu röð. Auk þess var vélin full af breskum skólakrökkum (13-15 ára) sem voru á stöðugu rápi fram og til baka. Ég var nú sátt við það þar sem stelpurnar sem sátu með mér voru alltaf með vinum sínum fremst í vélinni, svo ég hafði þrjú sæti fyrir mig eina. Hljóðið var líka bilað hægra megin í vélinni svo hvorki ég né Eyrún gátum horft á sjónvarpið. Sem betur fer var Terry Pratchett með í för og svo sofnaði (!) ég líka á leiðinni. Þriðja óskemmtilega atvikið í þessu flugi var það að maturinn kláraðist áður en kom að mér að fá að borða. Í staðinn fékk ég mat sem einhver af áhöfninni átti að fá og hann var heldur betri en annar flugvélamatur sem ég hef bragðað.

Boston
Þegar vélin lenti á Boston Logan fórum við Eyrún í röðina hjá vegabréfaskoðuninni. Bryndís, kaninn að tarna, fór í mun styttri röð með græna kortið sitt. Við Eyrún þurftum að bíða í klukkutíma í röðinni, í hitabrækju og blaðrandi krökkum. Þar sem við komum út hafði Bryndís gert sér lítið fyrir og náð í allar töskurnar okkar og sett á vagn. Miðað við þyngd minnar tösku einnar verður það að teljast til afreka hennar í ferðinni.

Þar sem töskurnar voru komnar á vagn fórum við beina leið niður í anddyri og hringdum á rútu frá bílaleigunni sem kom og sótti okkur eftir dálitla bið fyrir utan flugstöðina. Á bílaleigunni afgreiddi hann Harry okkur. Og þarna fyrsta kvöldið kom í ljós að það er hreint ekki slæmt að vera þrjár sætar, íslenskar stelpur einar á ferð í Bandaríkjunum. Harry hafði nefnilega unnið lengi hjá Icelandair og meira að segja komið á Klakann. Honum fannst við svo æðislegar að hann bauð okkur upp á annað hvort blæjubíl eða svakalegan Dodge Charger. Þótt blæjubíllinn hafi vissulega kitlað hégómagirndina völdum við Dodge-inn. Hann var stærri, öruggari og mun betra að keyra hann, fullvissaði Harry okkur um. Við vorum að sjálfsögðu sáttar og eftir að hafa fengið gsm númerið hjá Harry (call me if ANYthing happens...), troðið töskunum í bílinn, kveikt á GPS-tækinu og komið okkur fyrir keyrði Bryndís sem leið lá í gegnum The Big-Dig og heim til pabba síns.

Hér verður að skjóta inn að ofantalið GPS-tæki, sem við vorum fljótar að nefna Kellinguna, er algjörlega ómetanlegt í svona ferð. Ég veit ekki hversu oft við hefðum týnst og tekið vitlausa exit-a ef hennar hefði ekki notið við. Hvað þá þegar við vorum að keyra inni í borgunum. Reyndar er ég fegin, núna þegar ferðin er búin, að ég fái gott frí frá frösum eins og “Keep left”, “Keep right”, “Recalculating” og síðast en ekki síst “As soon as possible, make a U-turn”.

Róbert var að sjálfsögðu glaður að sjá okkur og bauð okkur upp á fínustu steikur. Ranch-dressingin átti sitt fyrsta innslag í ferðinni þetta kvöld og kom svo mikið við sögu þegar salöt voru annars vegar, þjónustufólki oft til mikillar undrunar. Eftir matinn endurpökkuðum við í töskurnar og fórum svo í háttinn. Morguninn eftir fór í undirbúning, fyrst fórum viðí BJ’s wholesale club, sem er Gripið og greitt í hundraðasta veldi. Eftir að hafa kvatt Róbert með knúsi í stórum pakkningum héldum við í Big-Y að klára innkaupin. Og síðan var það bara kall þjóðvegarins sem glumdi í eyrunum.

Samkvæmt frábæru skipulagi okkar byrjaði ég að keyra þennan dag. Fyrrnefnt skipulag hefur örugglega átt stóran þátt í að viðhalda geðheilsu okkar í ferðinni þar sem sætaskipan var rist í stein áður en við fórum frá Íslandi. Þannig var að ein byrjaði að keyra. Sú sem sat í farþegasætinu þurfti að vera vakandi, halda bílstjóranum vakandi með öllum tiltækum ráðum og fylgjast með Kellingunni og kortabókinni. Aftursætisdýrið mátti gera það sem henni sýndist sem oftar en ekki reyndist vera langþráður lúr með púðann góða. Þegar bílstjórinn hafði keyrt í um tvo tíma stoppuðum við á bensínstöð, pissuðum, tókum bensín og fengum okkur eitthvað að borða. Eftir stoppið fór bílstjórinn aftur í, kortamaðurinn í bílstjórasætið og aftursætisdýrið í farþegasætið. Svona gekk þetta alla ferðina og með þessu var enginn ósáttur við sitt hlutverk J.

Dagur 1
Fyrsti dagurinn gekk mjög vel, framar öllum vonum m.a.s. Þrátt fyrir dálítil vandræði á gatnamótum á leiðinni frá Big-Y keyrðum við eins og vindurinn þar til við stoppuðum til að fá okkur kvöldmat. Þá völdum við hið víðfræga veitingahús Country Pride, sem oftar en ekki er staðsett í svokölluðum TA travel center-um. Sá kvöldmatur var frekar ómerkilegur en, eins og sjá má á myndum, mjög svo seðjandi ;). Þegar við héldum aftur af stað keyrðum við þangað til við gátum ekki meira og fundum þá Days-inn motel og gistum þar. Voða fínt Days-inn, með bestu mótelum sem við gistum á í ferðinni.

Ahem...<
Ég hef farið með ósannindi. Síðurnar tvær sem ég hafði skrifað voru einungis fyrsti dagurinn í ferðinni sem og undirbúningur. Þetta verður því að teljast sem kafli 1 í ferðasögunni og þú verður bara að bíða spennt/ur eftir framhaldinu ;)!

þriðjudagur, maí 09, 2006

Jæja...
Ég kom heim fyrir viku og hef lítið gert annað en að læra, svala hittingsþorsta og skrifa ferðasöguna. Og ég er samt ekki búin með hana. Svo þessi færsla er bara svona til friða lesendur og láta þá vita að það ER færsla á leiðinni, en hún kemur líklegast ekki fyrr en eftir síðasta prófið sem er 15. maí ;)!