laugardagur, apríl 12, 2003

Dimissio revisited
Ef þetta var ekki það skemmtilegasta sem ég hef gert þá veit ég ekki hvað! Dagurinn byrjaði með gífurlegu frosti og kulda (enda klukkan bara 6:00) en endaði í steikjandi hita og glampandi sól.
Við byrjuðum í morgunpartýi þar sem við fórum í indíánabúningana og máluðum okkur. Þar næst fórum við í fyrsta tíma og héldum áfram að hafa okkur til. Leiðin lá upp í sal að því loknu, þar sem rektor mælti speki yfir hópinn og nýr inspektor var vígður. Sungin voru nokkur lög og allir voru glaðir.
Við héldum út á tún þar sem búðir voru settar upp á besta stað. Ýmsar árásarferðir voru farnar og þá helst á Mario-bros sem voru að spila sama lagið aftur og aftur og aftur. Og aftur. Eftir að kennarar höfðu fengið þakkargjafir (mútur) í hendur og verið kvaddir fórum við upp í gámabíl og var ekið um bæinn þar til komið var að Pizza-Hut. Eftir að hungrið hafði verið satt fórum við niður í bæ og skemmtum okkur á Ingólfstorgi. Þar hittum við meðal annars fyrir Jackass gengið. Þeir voru að taka upp hjólabrettastökk, enda Ingólfstorg staðurinn til þess. Eftir að hafa verið þarna góða stund gengum við upp Laugaveginn þar sem nokkrir heltust úr lestinni. Farið var heim og sofið þar til partý byrjaði um kveldið.

Allt í allt fær þessi dagur ********** af ***** mögulegum