laugardagur, mars 03, 2007

Fnus...
Já, þetta var ekki skemmtilegasti febrúar í heimi. Ég hef held ég bara aldrei haft um svo margt leiðinlegt að hugsa í einum og sama mánuðinum. En nú eru horfur betri og um leið og hraðkúrsinn í japönskum bókmenntum byrjar í næstu viku hef ég ekki tíma til að anda, hvað þá hugsa. Ætli þessi færsla verði því ekki bara að duga í bili ;).

Óóóperurýni...
Ég fór um daginn með Maríunum á Flagara í framsókn í Óperunni. Verkið kom mér skemmtilega á óvart og bætti mikið til upp fyrir það hvað Tosca var fáránlega leiðinleg um árið. Það sem stóð upp úr í sýningunni var Madonna í Material Girl myndbandinu og rauðu latexgallarnir. Hverjum sem tekst að koma slíku inn í uppsetningu á óperu á skilið gott klapp á bakið. Það kom mér algjörlega að óvörum að svona týpa eins og asíska stelpan á 'We will Rock you' skyldi einmitt lenda fyrir aftan mig þetta kvöld. Þegar sýningu lauk stappaði hún fótunum (á pinnahælum) af ákefð í gólfið svo glumdi í öllu húsinu. Á meðan á þessu stóð klappaði hún svo það söng í eyrunum á mér, öskraði BRAVÓ!!! eins hátt og lungu hennar leyfðu (ég er ekki frá því að hún hafi verið hálf antilópa miðað við lungnarými) og klikkti svo út með því að hósta þvílíkum halló-ég-er-með-ógeðslega-smitandi-flensu hósta í hárið á mér. Ég held, svei mér þá, að hún vinni asísku stelpuna í fagnaðarlátum og réðu þar lungun úrslitum.

Wiiiiiiiiiiiiiii...
Þó ekki leikjatölvan, heldur bara almenn fagnaðarlæti. Búin með eitt midterm af tveimur (booya!), búin að skila heimaverkefni í bókmenntafræði og byrjuð á hópverkefni. Ný og endurbætt Kristín? Það getur bara vel verið!

Eurovision...
Eftir sérlega skemmtilegt afmælispartý hjá Mörtu Maríu skelltum við stelpurnar okkur á Eurovision eftirpartý á Nasa. Þar þeytti góðkunningi minn hann Páll Óskar skífum og skellti sér meira að segja í gallann og tók nokkur lög! Hápunktur kvöldsins var tvímælalaust þegar Silvia dró mig með upp á svið (þar sem hálf dansgólfið skók sig sem mest það mátti) og ég tók sjálfsmynd af mér og Palla. Og viti menn, þessi mynd er svo fáránlega vel heppnuð að ég hef aldrei séð annað eins. Ég hef alla veganna ekki tekið svona fína sjálfsmynd síðan þá og mun líklegast aldrei gera. Ef ég hitti einhvern tímann Captain Jack Sparrow vona ég bara að það sé myndavélin mín sem bregst svona vel við þegar uppáhöldin mín eru fyrir framan linsuna ;).