miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Jájájá...
Ekki komnar þrjár vikur og ég bara búin að blogga aftur. Voða, voða dugleg.

Deluxe David...
Það var David fundur í seinustu viku. Þetta var eiginlega Jóla-David en var þó ekki með neinu jóla-ívafi. Ég veit ekki betur en óvænti glaðningurinn sem ég keypti á ebay fyrir skid og ingenting hafi bjargað mánuðinum ef ekki árinu fyrir hópinn. Ég var alla veganna ekki svikin. Það toppar enginn Hoffarann ;)! Nú er bara að redda fundi sem fyrst aftur stelpur. Hvernig væri að flytja lókalinn yfir á ykkar heimaslóðir næst? Það er alltaf gott að prufa eitthvað nýtt.

Lagið...
Er að þessu sinni Let go með Frou Frou. Það fær 7,5 af 10 mögulegum í einkunn á gæsahúðarstuðlinum og telst það bara nokkuð gott. Ekkert textabrot gefur rétta hugmynd um lagið svo ég læt það ekki fylgja með. Ef þú hefur ekki séð myndina Garden State (snilld á snilld ofan) ættirðu að gera það hið fyrsta. Ef þú hefur séð myndina en tókst ekki mikið eftir tónlistinni í henni, ættirðu annað hvort að sjá myndina aftur eða hreinlega verða þér út um soundtrack-ið úr henni. Hildigunnur á það ef þú ert í vandræðum ;) !

Bókin...
Er Zeit zu leben und Zeit zu sterben eftir Erich Maria Remarque (reyndar á ensku þar sem ég er ekki nógu sleip í þýskunni til að lesa heilu skáldsögurnar án mikillar heilaleikfimi). Frábær bók enda ekki við öðru að búast úr bókasafni afa. Eintakið sem ég á hefur verið lesið svo oft að það er að detta í sundur (kápan datt af henni í dag og ég fékk sáran sting í bókataugarnar). Ég veit ekki hvaðan titillinn er fenginn en hann minnir mig óneitanlega mikið á lagið Turn, turn, turn með The Byrds sem hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Textinn í því er sóttur í Biblíuna eins og texti Trúbrots í laginu Kærleikur (annað uppáhald) svo það virðist vera formúla sem varla bregst. Alla veganna hefur það virkað vel á mig, en ég er nú svo mikil bibliophile í mér ;) (varúð: nördahúmor!).