Zurück zu Zukunft 3 minn rass...
Jæja, enn einn parturinn af ferðasögunni er tilbúinn fyrir bloggheima. Eitthvað sækjast mér skrifin nú hægt en ég ætla að reyna að herða mig. Það gengur ekki að vera lengur að skrifa ferðasöguna en ferðin sjálf tók.
Dagur 4
Að morgni dags ætlaði ég í sakleysi mínu út í bíl að ná í eitthvað. Þar sem ég opnaði dyrnar á herberginu blasti við mér undarleg sjón. Á jörðinni lá pakki með ‘German garlic sausage’ sem hafði runnið út daginn áður. Líklegast hefur gefandinn haldið að við værum þýskar (eins og svo margir aðrir í ferðinni) og viljað gleðja okkur með einhverju sem minnti okkur á föðurlandið. Bryndís tók mynd af gjöfinni og fjarlægði hana svo með aðstoð tissjús. Að morgunverði loknum (mmmmm, pakkahafragrautur!) lögðum við af stað til Salt Lake City.
Þegar við keyrðum inn í Utah fór landslagið loksins að breytast. Allt í einu voru fjöll mætt til leiks og við keyrðum mikið upp og niður til skiptis. Þegar við stoppum á bensínstöð sjáum við sprungu í framrúðunni á bílnum. Okkur fannst það skrýtið en við ákváðum að fylgjast bara með henni. Þegar við lögðum aftur af stað fór sprungan svo að stækka. Það var lítið hægt að gera annað en halda áfram að keyra. Þegar við fórum að nálgast Salt Lake City hringdum við í Thrifty, bílaleiguna okkar, og spurðum þá ráða. Þau áttu engan bíl handa okkur í Salt Lake City en buðu okkur að fá bíl daginn eftir í San Francisco. Sprungan væri hreint ekkert hættuleg meðan hún væri ekki fyrir okkur við aksturinn. Við önduðum léttar og héldum áfram að keyra. En viti menn, allt í einu varð grunsamleg þögn í bílnum. Var þá ekki ísskápurinn, með lyfjunum mínum í, steinhættur að virka. Mér var hreint ekki skemmt og leist ekkert á blikuna. En sem betur fór var ekki langt í áfangastaðinn og þegar þangað var komið brunuðum við beint út í næsta Walmart sem, ótrúlegt en satt, var bara í næstu götu. Þar skiluðum við ísskápnum og fengum nýjan, í Walmart hefur viðskiptavinurinn nefnilega ALLTAF rétt fyrir sér. Ef þú ert ósátt/ur við vöruna færðu bara nýja. Þar með héldum við að hasarnum væri lokið þann daginn og eftir ágætis kvöldverð á einhverjum lókal stað skelltum við okkur í sund á mótelinu. Þegar við komum að sundlauginni sá ég mér til mikillar gleði að þar leyndust einnig æfingatæki, þar á meðal gönguskíðavél. Svoleiðis tæki eru í miklu uppáhaldi hjá mér og að sjálfsögðu skellti ég mér á það. Stelpunum leist ekkert á svoleiðis vitleysu í fríinu og skelltu sér beint í laugina. Þar sem ég stend á tækinu skrikar mér fótur og handfangsdæmið á tækinu þeytist af öllu afli í upphandlegginn á mér og klemmir hann upp að stjórnborðinu. Ég man voða lítið eftir næstu mínútum. Ég veit að ég staulaðist inn á klósettið hjá sundlauginni og stóð þar smástund, frá mér af sársauka og ógleði. Síðan rankaði ég örlítið við mér og fór þar sem stelpurnar sátu í heita potti. Þar hnipraði ég mig saman á stól og þegar þær spurðu mig hvað væri að sagði ég ekki að ég hefði meitt mig heldur stundi ég upp: Það er rétt hjá ykkur, líkamsrækt er stórhættuleg! Eftir frekari útskýringar skellti ég mér í pottinn og svo voru teknar sundmyndir í lauginni. Morguninn eftir skartaði ég heljarinnar kolsvörtum marbletti til minningar um þetta ævintýri. Og ég er ekki frá því að það leynist örlítil dæld í upphandleggnum á mér ennþá ;).
Gönguskíðatækið er ekki þarna en þetta er engu að síður herbergið þar sem hin fólskulega árás átti sér stað
Edit: Þegar ísskápurinn bilaði fór ég alveg á taugum vegna hræðslu við að lyfin myndu skemmast svo ég, (sem var að keyra) setti loftkælinguna í kaldasta svo ekkert heitt loft kæmi neitt nálægt ísskápnum. Bryndís og Eyrún og ég sjálf vorum því að frjósa á leiðinni til Salt lake city.
When I get older, losing my hair...
Afmælishelgin var heldur betur kósí og skemmtileg. Ég fór upp í sumarbústað með fjölskyldunni og skemmti mér vel. Á þjóðhátíðardaginn var fólki boðið í mat, sem einnig taldist sem afmælismatarboðið mitt og þar át ég eins og Loki í Útgarði forðum. Á afmælisdagsmorguninn fékk ég pakka í hausinn, engin myndlíking hér á ferð: Björg þrykkti pakkanum í mig þar sem ég lá nývöknuð á dýnu við hliðina á henni. Innihald pakkans gaf þó tilefni til fyrirgefningar þar sem pils og eyrnalokkar gleðja mig alltaf. Ég er einmitt að nota bæði þegar þetta er skrifað og fíla mig svakalega pimpin'. Reyndar gaf ég mér eiginlega sjálf bestu gjöfina. Ég bjó nefnilega til matjurtagarð upp í sumarbústað, með dyggri hjálp fjölskyldunnar. Ég elska nefnilega garða þó svo ég hafi engan slíkan átt sjálf. Svo er bara að bíða og sjá hvenær afmælispartý verður haldið :)!