sunnudagur, mars 28, 2004

Hárið...
Nei, ekki hárið á mér, þó svo að ég sé nýkomin úr klippingu. Ég meina myndina Hárið, einhverja bestu söngleikja mynd sem gerð hefur verið! Hún var einmitt að koma í hús frá the U.S. of A. ásamt The Sound of Music (annarri frábærri mynd) og því verður glatt á hjalla hjá söngglöðu systrunum :). Og þar sem myndin var mætt á svæðið varð ég auðvitað að sýna lit og setja geisladiskinn Hárið í spilarann. Helber schnilld!

Týnd í bókalausri auðn...
Borgarbókasafnið gerði mér þann óleik að loka í heila ellefu daga. Reyndar eru þeir að skipta yfir í MIKLU betra útlánakerfi (sem er ekki DOS-based, hallelúja lofið Drottni) en engu að síður er skrýtið að geta ekki skroppið á bókasafnið. Ég fór reyndar þangað til að birgja mig upp, daginn áður en lokaði, þannig að ég hef svo sem nóg af bókum, en engu að síður vantar eitthvað í tilveruna.

Lagið...
Í spilaranum þessa stundina er lagið Syndir holdsins/lifi ljósið úr söngleiknum Hárinu. Svaka lag. Svaka vel þýddur texti.

miðvikudagur, mars 24, 2004

Kvef og læti...
Ég er nú stigin uppúr úr veikindunum eins og fönix úr ösku. Líkt og endurfædd og til í hvað sem er. Núeh, eða ekki. En ég er þó loksins komin í skólann og skemmti mér ágætlega í AutoCAD tíma. Og ég má til með að deila því með alþjóð að ég svaf í heila níu (!) klukkutíma í nótt. Geri aðrir betur!

Tónleikastand...
Mig langar að skella mér á meirihlutann af tónleikunum sem verða á næstunni. Hefði meira að segja alveg viljað fara á Sugababes til að vökva gelgjuna í mér. En löngunin er samt mun meiri að fara á tónleika hjá Pixies, Placebo og slíku og hvað ég hefði viljað hlusta á Damien Rice live. Það er svakalegt að vera svo útúr umheiminum að maður veit ekkert hvað er að gerast, fyrr en það er búið :(.

Ég elska þig, þótt þú sért úr steini...
Þar sem ég átti inneignarnótu í Hagkaupum ákvað ég að gera eitthvað sem ég geri MJÖG sjaldan. Ég keypti mér eitt stykki spánnýjan geisladisk. Og svo annan ekki alveg jafnnýjan :). Fyrri diskurinn er enginn annar en Placebo: Sleeping with ghosts og hann venst mjög vel. En það er seinni diskurinn sem að stendur upp úr. Já, og tilvitnunin að ofan er einmitt af honum. Diskurinn Borgarbragur er snilldin ein. Við áttum svoleiðis hljómplötu (já, hljómplötu!) þegar ég var lítil og það var mikið dansað og sungið með þeirri plötu í den! Og alltaf af og til yfir árin, höfum við systurnar fengið brot úr lögum á heilann. Og nú loksins getum við sungið heil lög, með textann fyrir framan okkur, diskinn í tækinu og hátalarana í botni! Vúhú, segi ég nú bara! Og í tilefni dagsins ætla ég að setja textabrot úr lagi hér fyrir neðan...

Vesturgata
Hann afi minn gekk um á alræmdum flókaskóm
með albönskum hrágúmmísólum sem skelltu í góm.
Hann klæddist vínrauðum náttfötum nótt jafnt sem dag
og nótaði í örsmáar kompur stef eða lag.
Og þeir Steingrímur rakari hlustuðu á Händel og Bach
og horfðu á skýin og sögðu í lotningu: Takk!

...

Víðast í heiminum heyrist nú urgur og kíf.
Hvar er vor draumur um fegurra og betra líf?
Erum við öllsömul dauðadæmt drullupakk?
Er takmarkið kannski að deyða þá Händel og Bach?

Ó, hlustaðu bróðir, ég strengina varlega strýk;
helgnýrinn þagnar, þín sál verður aftur rík.
Sittu hjá mér, hlustum á Händel og Bach
og horfum á skýin og segjum í lotningu: Takk!

fimmtudagur, mars 11, 2004

I'm fine-d...
Ég er að deyja úr kvefi. Bara langaði að deila því með umheiminum.

It's a small world after all...
Fann svona kortagerðardæmi. Mér finnst svona svo gaman og hugsaði með mér að nú gæti ég sýnt heiminum hversu mikið af honum ég hefði séð með eigin augum. Svo kom í ljós að ég hef ekkert komið til það margra landa. Og það lítur út fyrir að ég hafi ferðast um ÖLL Bandaríkin, sem er náttúrulega ekki satt...



create your own visited country map
or write about it on the open travel guide

þriðjudagur, mars 09, 2004

Akureyri taka 2...
Það reyndist vera dálítið af snjó í Hlíðarfjalli svo að við gátum sýnt tilþrif í hálfslöppu færi. Það r sem skíðin mín eru biluð voru leigð handa mér carving skíði og þvílíkur munur! Ég ætla svo innilega að fá mér þannig. Reyndar var ég bara á skíðum annan daginn því á sunnudaginn var svo klikkað veður að ég barasta treysti mér ekki upp í fjall. Og á leiðinni heim, vá! Ég hélt að bíllinn myndi fjúka þegar við keyrðum í 21 m/s uppi á Holtavörðuheiði. Mikið ævintýri.

Já, og nokkurn vegin svona leit Hlíðarfjall út um helgina:

fimmtudagur, mars 04, 2004

Öðruvísi dagar...
Já, í dag og í gær eru öðruvísi dagar í Iðnskólanum í Reykjavík. Allir nemendur á hönnunarbraut þurftu að vera með í undirbúningi fyrir a.m.k. eina vinnustofu og ég var í kaffihúsanefnd. Bakaði ca. 150 bollur og skemmti mér vel við það. Í gær slysaðist ég svo inn í vinnustofu í bókbandi og kom ekkert út þaðan aftur. Vá, hvað það var gaman! Ég bjó til mína fyrstu bók og er alveg rosalega stolt af henni!

Akureyri...
Á morgun skundum við fjölskyldan og ýmist vinafólk hennar á Akureyri. Þetta á náttúrulega að vera skíðaferð en sökum snjóleysis verður bara slappað af og veðurguðunum færðar fórnir.



Á skíðum skemmt' ég mér, tralalalala, tralalalala, tralalala!