mánudagur, ágúst 28, 2006

Kristínarnám?...
Var að koma af fundi uppi í skóla, þetta er vægast sagt mjööög spennandi. Þeir eru líka búnir að breyta stundatöflunum þannig að ég er mun betur sett en áður. Það eru sko engir árekstrar sem stoppa mig í vetur :).

Okrið...
Ég keypti mér skólabækur fyrir 18.000 kr. áðan. Hvað voru þær margar? Þrjú stykki.
Þetta er ekki í lagi.

Myndin...
Lucky number Slevin. Fléttumynd sem kemur á óvart og er vel þessi virði að sjá.

föstudagur, ágúst 25, 2006

Hvert fór sumarið?...
Komið haust og ég gerði ekkert í sumar frekar en venjulega. Ég þoli ekki framtaksleysið í mér, það er alveg sama hverjar áætlanirnar eru í byrjun sumarsins, að hausti standast þær ekki. Orðin frekar þreytt á þessu.
En það þýðir ekki að vera að væla, það er bara að gera eitthvað í málunum í vetur ;)!

The New Pornographers...
...er frábær hljómsveit. Hún fer ekkert úr tækjunum hjá mér í bráð. Tjékk it.

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Ferðasaga af öðru tagi...
Þar seinustu helgi skellti ég mér í sumarbústað með Bryndísi og hennar föruneyti. Ég hef sjaldan, ef nokkurn tímann, gist í svo troðnum bústað en það var bara partur af upplifuninni. Það sem stóð hæst í þessari ferð var upptaka fyrsta grænmetisins úr garðinum mínum, svakalegt heilsdags-sólbað og síðast en ekki síst: Pólska fjölskyldan sem reyndi við mig, Bryndísi en þó aðallega Betu á Loga balli á Útlaganum. Ég hef sjaldan lent í öðru eins og þessu blessaða balli. Fyrsta sveitaballið mitt olli mér a.m.k. ekki neinum vonbrigðum.

Það var þrennt sem stóð upp úr á fyrrnefndu balli. Fyrst kom albínóinn, sem var þó enginn albínói. Hann gerði sig til við Betu með því að setja upp og taka niður hettuna á hettupeysunni sinni í tíma og ótíma. Þetta toppaði hann með því að toga í kragann á jakkanum sínum, svona eins og Danny Zuko forðum. Stærri hlutverk í drama kvöldsins lék þó pólska fjölskyldan, sem samanstóð af mömmu, pabba, syni og dóttur sem voru óð í að næla sér í íslensk tengdabörn. Fyrst komu þau dótturinni á sauðdrukkin strák sem var fyrr en varði kominn með lúkurnar upp undir peysuna hennar, fyrir framan foreldrana sem brostu út í bæði. Því næst tóku þau til við að dansa við okkur stöllurnar við eitthvað kántrí lag sem þau höfðu beðið um. Við tókum nú vel í það enda bara flipp að taka smá vondudansakeppni við útlendinga sem vita ekki hvaðan á þá stendur veðrið. Þegar þau slepptu okkur ekki í burtu þegar laginu lauk fór gamanið að kárna. Strákurinn var sem límdur við Betu en pabbinn slefaði á hendurnar á okkur Bryndísi og snéri okkur, nauðugum viljugum í endalausa hringi. Loksins sluppum við þó í burtu með því að gefa honum ekkert færi á okkur og nota hvora aðra sem skjöld. Því miður fyrir Betu var strákurinn nú orðinn hálfsamgróinn henni og lítil von virtist fyrir frelsun. Þegar laginu lauk stukkum við á hana og góluðum: Pissa? í eyrun á henni. Hún uppveðraðist öll og næstum öskraði yfir staðinn: JÁ! JÁ! PISSA! Þar með sluppum við frá Pólverjunum og þóttumst góðar með að hafa haldið öllum útlimum. Það sem eftir var dvalar okkar þarna héldum við okkur hinum megin í "salnum" og gættum okkur á að þau kæmu ekki auga á okkur. Allt í einu stekkur strákurinn, með mjaðmirnar (og sitthvað fleira) á undan, út úr mannmergðinni og gerir sig líklegan til að ráðast á Betu á nýjan leik. Við ýttum honum í burtu og sendum honum eitrað augnaráð en það tók hann samt laaaaangan tíma að fatta að hann var ekki velkominn.


Hressir Pólverjar með mjaðmirnar á undan


Þegar þessi hætta var liðin hjá tók lítið betra en mun fyndnara við. Að dansa rétt hjá okkur voru nokkur lesbíupör. Þegar ein þeirra skellti sér á barinn gerði hún sér lítið fyrir og kleip hressilega í rassinn á Bryndísi. Svipurinn sem kom á mína var hreint óborganlegur og ég er ekki frá því að þetta hafi fullkomnað skemmtunina. En kvöldið var ekki úti enn og þar sem við röltum heim í bústað tókum við eftir strák sem kom í humátt á eftir okkur. Beta upphóf í snarhasti hræðsluáróður sem McCarthy hefði verið stoltur af. Hún hélt því fram að þetta væri pólski strákurinn og því hringdum við í Nönnö sem kom um hæl og sótti okkur. Þar sem við stigum upp í bílinn kom í ljós að þetta var hreint ekkert sá pólski og við héldum heim á leið.

Tónleikar á tónleika ofan...
Seinasta fimmtudag fórum við Björg saman á Belle & Sebastian og Emiliönu Torrini tónleika á Nasa. Það er ekki lítið sem við vorum búnar að hlakka til en við vorum þó dálítið seinar að vanda. Þegar ég kem inn sný ég mér við til að leita að Björgu og sé þá Hildigunni þjóta hjá. Hún bættist í hópinn og við tróðum okkur eitthvað inn í salinn. Því miður sá ég ekki nema rétt glitta í Emiliönu en það bætti úr skák að hún flutti tvö glæný lög og það seinna var alveg geðveikt. Þegar Belle & Sebastian voru svo að koma sér fyrir tókst okkur að troða okkur alveg fremst hægra megin við sviðið. Þegar hér var komið sögu var Hrönn mætt og hitastigið í húsinu fór stighækkandi. Tónleikarnir voru æðislegir og ég hef sjaldan séð jafnskemmtilega live hljómsveit. Ég held að einungis Sigurrós toppi þetta.



Á sunnudaginn var ég þvílíkt slöpp svo við systurnar tókum því rólega heima í sófa. Við gerðumst reyndar svo frægar að rölta niður eftir og hlusta á göngunni en hlustuðum svo bara með svaladyrnar opnar. Ég hef sagt það áður og segi það enn: Sigurrós live er ólýsanlegt. Ég hef í alvörunni engin orð sem að lýsa réttilega þeirri tilfinningu að standa og finna tónlistina þeirra flæða yfir sig. Þetta er bara eitthvað sem að hver og einn verður að upplifa.



Det var brennivin i flasken da vi kom...
Danmerkur ferðin færist nær og nær og ég er að ærast úr spenningi. Ég elska Kaupmannahöfn og gæti verið þar í marga mánuði á hverju ári. Núna er stefnan sett á gott veður (sem er nú reyndar mætt hingað líka), Strikið, girnilega garða með tónlist og bókalestri, Glyptotekið, fjölskylduhitting og vonandi strandferð. Eintóm gleði og hamingja.