laugardagur, desember 17, 2005

Ertu geim?
Nú tröllríður þessi spurningalisti flestum bloggsíðum sem ég hef farið á. Ég hef fengið svör um mig hjá Dagbjörtu, Eyrúnu og Atla Viðari. Á síðu þess síðastnefnda er sagt að maður verði að setja listann upp á sinni eigin síðu og ekki get ég skorast undan því.

Kommentaðu í kommentakerfið og:
1. Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig
2. Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig
3. Ég segi þér hvaða bragð/matur minnir mig á þig
4. Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér eða þá eftirminnilegustu
5. Ég segi þér hvaða dýr þú minnir mig á
6. Ég spyr þig að einhverju sem ég hef velt fyrir mér lengi um þig
7. Ef þú lest þetta verðuru að setja þetta á bloggið þitt

Hvernig er það...
Á ekkert að taka eftir breytingunum á blogginu? Mig langar alveg að vita hvernig þér finnst beinin mín koma út ;)!

mánudagur, desember 05, 2005

...

Ég er bara orðlaus. Horfðu og hlæðu að þessu. Tónlist er algjört möst!

Edit: Það virðist bera búið að taka þetta niður á mínum link. Prófið þennan hérna.

föstudagur, desember 02, 2005

Er klukkan orðin jæja?
Það gerist stundum að ég hef frá svo miklu að segja að ég kem því ekki frá mér. Ég hef sest niður níu sinnum staðráðin í því að koma ferðasögunni og öðru 'niður á blað' en allt kom fyrir ekki. Bloggstíflan herjaði á mig og virtist ekkert ætla að láta undan. En viti menn! Upplestrarfríið kom mér til bjargar líkt og riddarinn á hvíta hestinum. Því hvað gerir maður ekki frekar en að læra fyrir próf?

America: Fuck yeah!
Við Bryndís lögðum af stað þann 10. nóvember síðast liðinn í heimsókn til pabba hennar í Kanalandi. Flugferðin með flugvélinni Bryndísi var leiðinleg, löng, heit og ókyrr en Charlie & the Chocolate Factory kom okkur til bjargar. Hvað er málið með að hafa ekki nóg af drykkjum til staðar í flugvél? Það er ekki eins og maður geti bara skroppið út í sjoppu og keypt sér vatn á miðri leið. Róbert tók á móti okkur og eftir að hafa borðað á Piccadilly pub þar sem "the Piccadilly gift card is the right'pic'!" (physically painful) fórum við að sofa. Það sem gerðist næstu daga er hægt að segja í örfáum orðum: kapítalisminn í sínu æðsta formi. Já, það var keypt, keypt og keypt. Í mínum töskum á leiðinni heim var t.d.= ný myndavél :), kærleiksbjörn(af því ég er 5 ára), föt fyrir næstu árin og fallegasti kjóll í geimi. Auk annars góðgætis. Róbert eldaði fyrir okkur eitt kvöldið og það var einhver besti matur sem ég hef borðað. Filet mignoin (sp?), bakaðar kartöflur og Ranch dressing. Namminamminamm. Og ekki má gleyma elsku Walmart, Best buy og BigY sem að sjálfsögðu voru heimsótt. Einhverjir strákar hlógu að mér þegar ég faðmaði hillur í BigY. Ég þyki greinilega eðlileg í Ameríku...

Viltu sjá læknamistök?
Reyndar er ekkert um læknamistök að ræða. Meira bara lýsandi dæmi um líf mitt almennt og hversu gasalega heppin ég er alltaf ;). Fyrir þá sem ekki vita þá fékk ég nýtt gigtarlyf í sumar. Lyf sem er gefið í æð á átta vikna fresti. Það virkaði svona líka ljómandi vel eins og ég hef áður lýst, t.d. gekk ég á Helgafell í Mosfellsdalnum í sumar sem var mikið afrek. En að kjarna málsins: Í síðustu lyfjagjöf fékk ég bráðaofnæmi fyrir lyfinu góða og má því ekki fá það meir. Enda finnst mér gott að geta andað og kæri mig ekkert um lyf sem lokar á mér öndunarveginum (sástu House í gær? hrollur, hrollur) :). En ekki er öll nótt úti enn, bráðum fæ ég nýtt lyf sem verður bara miklu, miklu betra (krossa putta og allar tær). Er það ekki bara málið?

Girls on film...
Nánar um nýja barnið mitt: Hún heitir Canon eos 350D og er bjútífúl. Það er svo mikið af fítusum í henni að ég er ekki hálfnuð með að læra á þá alla. Ég skemmti mér konunglega við að taka myndir af mismygluðu fólki í kringum mig.


bjútífúl


Tónlistin...
Hljómsveitin er ennþá Death cab for cutie enda eðalband þar á ferð. Platan er Transatlantism sem er fyrri plata þeirra. Ég get ekki gert upp á milli Plans og Transatlantism, þær eru báðar svo góðar. Lagið What Sarah said er af plötunni Plans. Ég veit ekki hvað það er við það sem mér líkar svona vel. Hvað sem það er þá er þetta uppáhalds lagið í dag:

What Sarah said
And it came to me then that every plan
is a tiny prayer to Father time
As I stared at my shoes in the ICU
that reeked of piss and 409
And I rationed my breaths 'cause I said to myself
that I'd already taken too much today
As each descending peak on the LCD
took you a little farther away from me

Amongst the vending machines and the year-old magazines
in a place where we only say goodbye
It stung like a violent wind that our memories depend
on a faulty camera in our minds
But I knew that you were a truth I would rather lose
than to have never lain beside at all
And I looked around at all the eyes on the ground
as the TV entertained itself

'Cause there's no comfort in the waiting room
Just nervous pacers bracing for bad news
Then the nurse comes round
and everyone lifts their heads
But I'm thinking of what Sarah said:
"Love is watching someone die."

So who's gonna watch you die?

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Karókí...
Í gær fór ég í fyrsta sinn í partý með japönskunemum. Fyrst var matarboð þar sem japanskur mautr var á boðstólum. Dálítið mikill fiskur fyrir minn smekk en ramenið bætti það algjörlega upp. Kennararnir okkar og tveir japanskir skiptinemar voru með í boðinu og ekki var annað að sjá en að þau skemmtu sér vel. Ég held að Umezawa sensei hafi verið sérstaklega upprifin þegar Diðrik san og Steinn san tóku One með Metallica og við þurftum að loka þá inni í herbergi til að bjarga hljóðhimnunum. Karókí síðan sló algjörlega í gegn og sérstaklega fór Kuma san á kostum. Öllum til mikillar gleði fór hann samt ekki úr buxunum þegar hann söng Total eclipse. Í falsettu might I add. Okkur tókst meira að segja að fá Umezawa sensei til að syngja eitt lag með okkur. Yukiko beilaði því miður...


Þetta eru strákar úr japönskunni, þeir Louise, Ben og Dóri vicegrip. Eins og sést eru þeir Selfyssingar í húð og hár og Hyundai-inn hans Louise er með þrjá spoilera. Tvo að aftan og einn að framan.


Lagið...
...er I will follow you into the dark með sveitinni Death cab for cutie. Það gerir mig svo mushy inni í mér.

You and me we've seen everything to see
From Bangkok to Calgary and the soles of your shoes
Are all worn down: the time for sleep is now
But it's nothing to cry about
'Cause we'll hold each other soon in the blackest of rooms

But if heaven and hell decide that they both are satisfied
And illuminate the NOs on their vacancy signs
If there's no one beside you when your soul embarks
Then I'll follow you into the dark

miðvikudagur, október 26, 2005

Bird Gehrl...
Mér finnst ég frjáls eins og fuglinn því miðannarpróf eru á enda. Nú þarf ekki að læra fyrir nein stór próf fyrr en í desember sem er bara endalaus hamingja! Verst að jólaprófin standa sem hæst þegar bróðir vor mætir á Klakann en það verður bara að hafa það.

Back to the middle of nowhere...
Vegna tímaskorts hef ég eingöngu horft á tvær af nýju myndunum mínum. Nausicaä og Kiki urðu fyrir valinu og stóðu algjörlega undir væntingum mínum til þeirra. Reyndar fær maður nett á tilfinninguna að þeir hafi verið of seinir með skilin og bara skellt endanum einhvern veginn á Nausicaä. Ætli mér finnist það ekki bara vegna þess að ég hef lesið bækurnar og ætlaðist þess vegna til að myndin fylgdi sömu sögu. Hvernig sem það er þá mæli ég með þessum myndum fyrir alla. Þær eru jette kjul!

Beeeeestur í ööööllum heiiiiminum...
Ætli ég hafi ekki gert margt skemmtilegt núna seinustu vikur. Verst að ég man ekkert eftir því hvað það var. Skemmtilegt er ekki það sama og merkilegt eftir allt saman. Reyndar plönuðum við Bryndís afmæli fyrir selinn en öll plönin enduðu í útaðborða á Friday's (með stjörnuljósaafmælisís) og í bíó á Wallace & Gromit. Ekki var annað að sjá en að kappinn væri vel sáttur með herlegheitin og spiladósinni frá okkur var vel tekið. Eyrún kom með og var sérlegur hnýta-trefil-fyrir-augun umsjónarmaður kvöldsins.

Lagið...
Þessa dagana er það Both sides now með Joni Mitchell. Alls ekki í meðförum Hildar Völu. Ég bara get ekki tekið hana alvarlega þegar hún syngur um hvað ástin og lífið séu erfið viðureignar. Röddin hennar er bara ekki nógu hrjúf og svo flækist spékoppurinn eitthvað fyrir mér líka. Er hún ekki bara of sweet, greyið?

laugardagur, október 15, 2005

Góðar fréttir...
Nær algjörlega skemmtanalaus vika skilar sínu. Haldiði ekki að ég hafi fengið 9,5 á miðannar-prófi í Breskum bókmenntum!!! Heillaóskir og peningargjafir eru vel þegnar ;).

...á góðar fréttir ofan
Í fyrradag fékk ég langþráða sendingu frá Asíulöndum fjær. Þetta er pakki frá anime_dvd_club sem seldi mér Studio Ghibli safn af tólf myndum eftir Hayao Miyazaki. Hann er einmitt einn af uppáhalds leikstjórunum mínum, svo nú horfi ég á sjónvarp mér til óbóta. Þ.e.a.s. eftir að öllum prófum er lokið í næstu viku :/!

Heaven can wait we're only watching the skies...
Lagið er Forever Young með Youth Group. Mér er sagt að það sé spilað í seríu þrjú af OC. Gaman að því.

mánudagur, október 10, 2005

Jibbý-kóla...
Ég fæ að fara í tvö próf sama dag. Gleði, gleði, gaman.

sunnudagur, október 09, 2005

Stjarnfræðilega gaman...
Þetta var læri-helgi vetrarins hingað til. Ég held ég hafi aldrei áður verið heima á föstudagskvöldi til að læra fyrir próf. Alla veganna ekki síðan í MR. Ég er mjög ánægð með hversu dugleg ég er og ætlaði að verðlauna sjálfa mig með því að fara á Howl's moving castle í gær. En nei, það var uppselt og þetta var síðasta sýningin. Þ.a.l. fór ég bara heim að læra og var extra dugleg. En viti menn, það kom sér vel að ég hafði lært aukalega um daginn því mér var "boðið" í stjörnuskoðun við Þingvelli. Það var í einu orði sagt: MAGNAÐ! Ætli það sé ekki bara ein besta upplifun lífs míns að fá að skoða stjörnurnar í gegnum alvöru kíki, með fólk í kring sem gat útskýrt allt sem ég velti vöngum um. Mér var m.a. sýnt hvar og hvernig stjörnumerkið tvíburinn er og ég vonast til að hitta það afur á förnum vegi (nú eða stjörnubjartri nóttu). Takk fyrir mig, strákar :).


laugardagur, október 08, 2005

I'm a bird now...
Heldurðu að það sé! Ég bara steingleymi að minnast á mín bestu kaup nýverið. Ég náði, með því að hertaka kennaratölvuna (þó ekki frá Umezawa sensei, því hefði ég ekki þorað), að festa kaup á tveimur miðum á aukatónleikana með Antony & the Johnsons. Ég missti af miðum á fyrri tónleikana þar sem ég komst ekki í tölvu fyrr en 20 mínútum eftir að miðarnir seldust upp. Nú hef ég þó bætt fyrir svekkelsið og er það vel.

fimmtudagur, október 06, 2005

Aulahrollurinn...
...er kominn til að vera. Sá rétt í þessu brot úr "rósaathöfninni" í íslenska Bacherlornum. Ég átti erfitt með að horfa á meira en nokkrar mínútur og læt þessa þætti þar af leiðandi í friði í framtíðinni. Hvað er fólk að hugsa?
Og á svipuðum nótum: María, ef þú lest þetta þá er þetta bara alls ekki nógu gott! Ef þú nennir ekki að fara með mér á kvikmyndahátíð þá er alveg nóg að segja bara frá því, það er algjör óþarfi að flýja alla leið til Tyrklands!

Takk sömuleiðis!
Björgin mín kom færandi hendi frá landi Skota. Diskurinn Takk... með Sigur Rós hefur ekki stoppað í tækinu síðan ég fékk hann í hendurnar (fyrir utan eitt stykki gíslatöku). Þetta er einhver besti diskur sem ég hef nokkurn tímann hlustað á. Og þá sérstaklega lagið Hoppípolla. Það lætur mér líða vel og hressir mig við sama hvað bjátar á. Þegar ég hlusta á það langar mig að fara í stígvél og hoppa í pollunum sem eru víðsvegar þessa dagana. Ertu með?

fimmtudagur, september 22, 2005

Christmas time has come...
þetta er algjörlega málið. Ég ætla að skrapa saman nægum peningum til að kaupa mér heildarpassa á þetta batterí. Man, hvað ég hlakka til!

þriðjudagur, september 20, 2005

I'm a klukk-coo...
Ég hélt ég væri vaxin upp úr eltingarleik en svo virðist ekki vera. Ég var sem sagt klukkuð af Eyrúnu og semi-klukkuð af Dagbjörtu.
Málið snýst sem sagt um þetta:

"Klukk er internetfár sem tröllríður bloggheimum þessa klukkutímana og felur í sér að viðkomandi fórnarlamb klukks á að skrifa fimm handahófskennd persónuleg atriði (sem hinn sótsvarti almúgi vissi ekki fyrir væntanlega) og klukka svo nokkur stykki bloggara til viðbótar."

Og þá er bara að vinda sér í málið:

1. Ég skammta sjálfri mér lesefni. Það er ekkert grín að í heiminum eru til alltof margar bækur. Ef ég læsi allt sem mig langar til, þegar mig langar til að lesa það þá færu aðrir hlutar lífs míns fyrir lítið. Ein bók í einu er málið í dag...

2. Alveg frá því ég man fyrst eftir mér hef ég ekki getað sofnað nema ég annað hvort búi til sögur eða syngi inni í mér. Reyndar hefur söngurinn minnkað með árunum en sögunum hefur fjölgað að sama skapi. Það tekur sem sagt allt upp undir hálftíma fyrir mig að sofna nema ég sé alveg hrikalega þreytt.

3. Allar bækur eru heilagar. Ef einhver fer illa með bók þá er hann fífl. Ef einhver fer illa með mínar bækur skal hann geta hlaupið, og það hratt.

4. Ég man allt það sem mig dreymir. Og mig dreymir á hverri nóttu. Eftirminnilegir draumar eru m.a. Star Trek-draumurinn, Grænmeti sem steppar-draumurinn og martröðin sem ég fékk þegar ég var þriggja ára. Og já, mig dreymir a.m.k. einu sinni í mánuði að einhver sem mér þykir vænt um deyji. Það er ekki gott að vakna grátandi.

5. Mér finnst fólk sem tekur sig og alla aðra alvarlega alveg hryllilega leiðinlegt. Hversu óspennandi væri veröld þar sem allir væru eðlilegir, ég bara spyr?

-end-

Það er erfitt að klukka fólk þar sem ég er ekki alveg viss um hver les þetta blessaða blogg. But here goes:

Björg (& Begga), María, Jóhanna Himinbjörg, allar stelpurnar í "ekki neitt"-hópnum sem blogga bara á MR-friends, Una Sighvats, Atli Viðar og Sævar (bara til að tjékka hvort tjéður lesi bloggið eftir margendurtekna sönnun á gullfiskaminni). Sem sagt allir á linkalistanum mínum sem ekki hafa verið klukkaðir (svo ég viti til) og sem einhver von er á að muni gegna tjéðu klukki. Svo kemur þetta bara allt í ljós...

Af því að ég er nörd...
????????????????????????????????????????????????????
(Af hverju sé ég þetta sem japanska stafi í blogger.com en bara sem spurningarmerki hér? Veit einhver það?)

sunnudagur, september 11, 2005

The Weekenders...
Ég gerðist bara ágætlega framtakssöm um þessa helgi. Tók til dæmis vel til í herberginu mínu, umsnéri þar öllu og náði í yndislega bekkinn sem Harald afi og Björg amma gáfu mér. Nýja rúmið og eldgamli bekkurinn eru sem sagt í óformlegum slag um það hvort fær að vera uppáhalds húsgagnið mitt þessa stundina. Já, ég fékk mér sem sagt nýtt rúm í seinustu viku. Það er æðislegasta rúm í heimi (...obviously!) og ég held ég hafi aldrei sofið betur en einmitt núna. Reyndar tekur það heldur meira pláss en gamla rúmið (ástæðan fyrir ofangreindum umsnúningi) en það er vel þess virði.

Skemmtiveisla...
Á föstudaginn (þegar ég á næstum því frí allan daginn) fór stór og skemmtilegur hópur fólks (og einn ódauðlegur nammipoki) á Charlie and the Chocolate factory. Sú mynd olli mér engum vonbrigðum enda getur þessi samsetning ekki klikkað: Saga eftir Roald Dahl, Tim Burton, Johnny Depp, Freddie Highmore og Danny Elfman. Það er bara ekki fræðilegur möguleiki að fólk fíli ekki þennan gullmola. Þetta var þó einungis byrjunin á mjög svo skemmtilegri helgi. Þar sem spil í hrönnum, óskilgetin (og nær óæt) börn vaffla og pönnukaka bökuð klukkan 01:00 og "verumandstyggilegarviðSnorra-kvöld" komu við sögu.



Fnus!
Ég er komin með fráhvarf frá þessu fólki: Félögum í David sem búa uppí sveit ;), Katrínu, Halla bró, Ninu og Marthe og Gumma og Söru, Halla bró, Sjöfn og Helgu Þóru, Támínu, Félögum í klúbbnum sem heitir ekki neitt sem ég hef ekki hitt í óratíma, Halla bró, fólki í útlöndum sem ég hef enga von um að hitta fyrr en um jólin eða seinna og [þitt nafn hér]. En geri ég eitthvað í málunum? Nei, ég þykist of upptekin og þykist vita að aðrir séu of uppteknir.

mánudagur, september 05, 2005

Hvurslags eiginlega...
Helgin var fremur viðburðalaus utan saumaklúbbs á laugardagskvöldið. Þar voru einungis fimm píur af tólf mættar en ég held samt að umræðurnar hafi aldrei verið jafnkrassandi og einmitt núna. Auk þess sem að skemmtiatriði í boði nágranna Óskar og gormadýnunnar þeirra vakti mikla kátínu. Það er samt vonandi að fleiri geti mætt í næsta mánuði.

edit: Já, ef þið viljið lesa næstum því sömu færslu á öðru bloggi kíkið þá til Dagbjartar ;).

Enn af japönsku...
Fyrsti dagurinn gekk svona líka glimrandi vel. Reyndar brá mér dálítið þegar að kennarinn gekk inn og byrjaði bara að tala á fullu á japönsku. En smátt og smátt rann það upp fyrir mér hvert hún ætlaði og síðan gekk þetta allt saman. Á japönsku heiti ég: KU RI SU TÍ N. Það er alveg óendanlega skemmtilegt að vita eitthvað meira á japönsku en bara já og góðan dag :).

mánudagur, ágúst 29, 2005

Cha-cha-cha-changes...
Nú fá skólabækurnar ekki lengur að vera með í Ég er að lesa. Frekjan og yfirgangurinn í þeim er alveg nógur án þess að þær komist á alþjóðlegan vettvang.

Hlíðarhátíðin svíkur engan...
Á laugardaginn var gífurlegt húllumhæ í landinu sem fjölskyldan á sumarbústað í. Þar hittust allir parteigendur og grilluðu saman. Allt voða skemmtilegt og kósí þrátt fyrir eitt slitið flugdrekaband. Eftir matinn fóru fjórar fræknar frænkur í okkar land og báluðum dáldið í nýja eldstæðinu. Marshmallows komnir yfir Atlantshafið léku stórt hlutverk þetta kvöld. Á sunnudeginum hélt svo Björg amma upp á áttræðisafmælið sitt. Þar var besti matur sumarsins á boðstólum og ég óskaði svo heitt og innilega að ég væri með stærri maga. Eftir matinn brunuðum við frænkurnar svo í bæinn og skemmtum okkur vel þrátt fyrir of-át og of-þreytu.

We rule the school...
Nú er Iðnskólinn byrjaður enn og aftur. Reyndar verður námið þar mjög ljúft þessa önnina. Ég er eingöngu að hnýta lausa enda og búa í haginn fyrir útskrift næsta vor. Til dæmis er enginn skóli á morgun og mun ég því sofa út í kósíheitum par exelance meðan aðrir heimilismenn troða sér í leppana og velta hálfsofandi út um dyrnar. Það hlakkar alveg hreint í mér! Reyndar verður sagan önnur í næstu viku. Þá er bara skóli (-ar) 8 til 4 á hverjum degi. Það er leitt.

I think I'm turning Japanese...
Á fimmtudaginn fór ég í óvissuferð í Blómaval (nei, nei það er ekkert skrýtið). Þar rákumst við Bryndís á Bonzai-tré í hrönnum og urðum að sjálfsögðu að eignast eitt stykki hvor. Maður getur ekki stúderað tungumál án þess að kynna sér sögu og hefðir þjóðarinnar sem það talar, er það nokkuð? Nú er sem sagt næst á dagskrá að kynna sér allt um Bonzai-tré og umhirðu þeirra. Ef einhver lumar á góðri vefsíðu eða bók sem hann vill mæla með er það velkomið í meira lagi.

Í boði Terry Pratchett...
'And when were you in Ephebe?' asked Caleb the Ripper.
'Went bounty hunting there once,' said Cohen the Barbarian
'Who for?'
'You, I think.'
'Hah! Did you find me?'
'Dunno. Nod your head and see if it falls off.'

Ef þér finnst gaman að hlæja, nældu þér þá í Terry Pratchett bók. Helst stykki þar sem Granny Weatherwax og Nanny Ogg koma við sögu.

sunnudagur, ágúst 21, 2005

Diversions galore...
Það var ekki seinna vænna að koma sér upp mjög svo vanabindandi leik. Þá verður hann kannski orðinn off þegar jólaprófin byrja. Kannski.

mánudagur, ágúst 15, 2005

I want to ride my bicycle, I want to ride my bike...
Ég er nýbúin að kaupa mér yndislegt hjól. Það er ekki rautt og það eru ekki fótbremsur á því en það er svo þægilegt að hjóla á því að ég fyrirgef jafnvel vöntun á slíkum grundvallarefnum. Hér má sjá dýrið:



Því miður var ekki til mynd af kventýpunni en eini munurinn á henni er sú að efri stöngin snertir þá neðri eiginlega. Ég þarf varla að lyfta fætinum til að komast á hjólið :). Og já, svo vantar líka körfuna sem ég keypti mér á myndina. Hún er svona "the Danish touch" og virkar svona líka vel.

D.E.B.S.
Er garanterað á topp tíu listanum yfir fyndnustu myndir sem nokkurn tíman hafa verið gerðar. Það má eiginlega lýsa henni sem svona Charlie's angels spoof-i sem að hefur heppnast virkilega vel. Ég elska myndir sem eiga að vera dáldið vitlausar. Ég ætla ekki að segja neitt meira þar sem ég ætlast til þess að lesendur skelli sér á að leigja hana hið fyrsta. Já, og ekki drekka gos meðan horft er á hana. Það fer bara aftur út um nefið í hláturgusunum ;).

Les quotes...eða eitthvað
Dominique: (Með sterkum frönskum hreimi)You need to put it here. Don't be an idiot for once.
Janet: You need to speak French or English. Frenglish is not a language.

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

It's never too late...
Seint skrifa sumir en skrifa þó! Ég hef reyndar þá afsökun fyrir litlum skrifum að ég barasta hef ekki komist almennilega á netið í háa herrans tíð. Nú er ég sem sagt komin heim af heilsustofnuninni (nei, þetta hættir ekkert að vera fyndið!) og uni mér vel hérna heima. Það er munur að vera staðsett þannig að ég get tekið þátt í því sem vinirnir gera. Var komin með fráhvarfseinkenni á háu stigi af vinaskorti og ó-vídjóglápi. En þetta stendur allt til bóta!
Það er helst að frétta af seinustu vikunum mínum í sveitinni, að ég lét gamlan draum úr hitabylgjunni rætast og stökk af bryggjunni út í Hafravatn. Fullklædd. Og síðan gekk ég upp á Helgafell með góðum hópi fólks. Ekki slæmt fyrir stelpu sem byrjaði í göngu 1!


Á toppnum!


A very merry unbirthday, to me!
Ég hélt upp á afmælið mitt á óafmælisdeginum mínum þann 6.ágúst síðastliðinn. Það var gaman. Það var MJÖG gaman. Frá sjónarhóli vinkvenna minna varð ég fimm ára þennan dag þar sem í pökkunum leyndust m.a. bangsi sem er líka koddi (og ég man aldrei hvað hann heitir Dagbjört, Centrino?), pezkall sem er líka belja og lyklakippa og sápukúlur. Og grænt fiðrildi líka. Það segir kannski mest um mig að ég var hæstánægð með þessar gjafir og aðrar. Þetta afmæli mitt var sögulegt af þeirri einföldu ástæðu að þarna voru allar MR-gellurnar saman komnar í fyrsta sinn síðan fyrir útskriftina úr MR. Algjört met! Sólveig fékk líka að vera papparazzi á fjórum eða fimm myndavélum. Hún stóð sig eins og hetja :)! Það komu allir sem boðið var nema Katrín sem var fjarri góðu gamni. Nú verður hún að fara að velja: mig eða bílinn, borgin er ekki nógu stór fyrir okkur bæði ;)!

Comics between us...
Núna nýverið festi ég kaup á dásamlegri bók. Sú heitir "The life & times of Scrooge McDuck" og er eftir meistara Don Rosa. Þegar ég frétti að hún væri komin í Nexus þá beinlínis rauk ég af stað og nældi í eintak. Og ég sé hreint ekkert eftir því. Nú vantar bara bók með nýrri sögum eins og andþyngdargeislanum, öllum fjársjóðsleitunum og svarta riddaranum. Ég elska svarta riddarann. Glorp!

Pitseleh...
Jóakim: Goggi, ef við drukknum þá drep ég þig!

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Ho-hum! Rumdumdumdum...
Veit einhver af hverju Haloscan kommentakerfið lætur eins og ofdekraður krakki með fráhvarf frá sykri? Það sýnir oft miklu færri komment en komin eru í raun. Til dæmis við seinustu færslu það sem það sýnir 5 svör þegar þau eru 10. Kannast einhver annar Haloscan notandi við þetta?

Hey, I've got some new frequencies for you...
Nú hafa þrír nýir bloggarar bæst á listann hérna vinstra megin. Reyndar er einungis ein þeirra ný í blogginu en það breytir litlu. Hin þrjú útvöldu eru Óska, Sævar og Sara litla frænka. Endilega tjékkið á þeim.

It's just a fond farewell to a friend, it's not what I'm like...
Varúð! Löööng færsla framundan!

Enn eitt ferðalagið að baki hjá minni. Það gerðist svo endalaust margt og ég skemmti mér svo vel að það tæki meira pláss en ég nenni að fylla að segja frá því öllu hér. Þar af leiðandi verður einungis stiklað á stóru eins og því að: Ég hitti stóra bróður minn í fyrsta skipti síðan um jólin. Ég skil ekki hvernig aðrar þjóðir meika það að fjölskyldur búi mörg þúsund kílómetra frá hvert öðru. Ég skil það bara alls ekki!

Tilgangur þessarar ferðar var sem sagt að heimsækja stóra bróður í Edinborg. Þar er hann að taka Mastersgráðu í einhverju sem er of flókið fyrir litlu mig. En það tengist verkfræði og stærðfræði og þar sem þetta er hann Halli minn mun bestun á einhverju koma við sögu ;). Ég hafði aldrei áður til Stóra-Bretlands komið og var því vel spennt fyrir ferðinni. Kemur í ljós að Edinborg er mjög svo sjarmerandi borg, þrátt fyrir marserandi anarkista sem valda því að saklausar stúlkur frá Íslandi lokast inni í verslun og týnast svo í rigningunni. En eins og einhver spámaðurinn sagði þá kynnistu ekki borg fyrr en þú hefur týnst í henni. Og ég komst þó tilbaka að lokum og það er það sem skiptir mestu. Plús það að ég fékk að ganga upp mjög svo spennandi þröngt og bratt sund (Cubbar's Close) þar sem vatnselgurinn náði mér í ökkla og ég fékk að hífa mig upp sundið á handriðinu. Óóógeðslega gaman :)!

Fyrir þá sem ekki vita það þá eru þrjár tegundir af götum í Edinborg; Götur sem eru fyrir ofan, götur sem eru fyrir neðan og götur sem liggja upp/niður og tengja hinar göturnar saman. Þar af leiðandi er mikið af götum/göngustígum sem að eru hrikalega brattir. Og þar með varhugaverðir í mikilli rigningu og almennum sleipleika.

Eftir þessa rigningar upplifun brostu veðurguðirnir við mér, enda búnir að hlæja sig máttlausa á tilþrifum mínum við að komast upp Cubbard's Close. Glampandi sól og þrjátíu stiga hiti bætir, hressir og kætir ;).

Prince's street heitir aðalverslunargatan í Edinborg. Ég gerðir þrjár og hálfa atlögu en tókst þó ekki að komast á enda hennar. Stóru verslunarhúsin reyndust vera Akkilesarhæll minn í þessari ferð. Ég get ekki sagt að ég komi tómhent heim og alla veganna mun ég ekki þurfa að fara í fataverslun aftur fyrr en að ári. Að minnsta kosti. Auk þess sem að plötubúðin Avalanche Records gerði góða hluti. Þar keypti ég tvo Elliott Smith diska og nýja Röyksopp diskinn á undir 2.000 krónum. Geri aðrar plötubúðir betur!

Stóru upplifanirnar tvær í þessari ferð voru þó tvímælalaust tónleikarnir sem við fórum á. Live 8 Edinburgh og Sigur Rós í Glasgow. O, my good Lord! Live 8 tónleikarnir voru gífurleg upplifun. Þeir flytjendur sem stóðu upp úr hjá mér voru Yussouf N'dour (ásamt Neneh Cherry tóku 7 Seconds), Snow Patrol(tóku Run) og Travis(tóku Driftwood og Why does it always rain on me). Við misstum því miður af the Proclaimers en ég söng bara lagið þeirra inni í mér í staðinn. Á milli atriða voru sýnd video frá Afríku af neyðinni þar en í myndbandinu sem hafði mest áhrif á mig voru sýndar ljósmyndir frá Afríku með textabrotum úr lögum við og undir var spilað Bedshaped með Keane. Ég mátti hafa mig alla við til þess að fara ekki að gráta og ég er ekki frá því að eitt tár hafi sloppið og flúið niður í hálsakot. Það sem mér fannst best við þetta myndband var að það voru líka sýndar myndir af brosandi vannærðum börnum að leika sér. Ljósið í myrkrinu skín alls staðar.

Annað ótrúlega magnað atriði var þegar að sýnt var myndband af hinum ýmsu "celebrities" að smella fingrum á þriggja sekúndna fresti. Það er vegna þess að á þriggja sekúndna fresti deyr eitt barn úr fylgifiskum fátæktar. Eftir myndbandið segir kynnirinn að nú sé komið að okkur. Hann sagðist ætla að leiða okkur áfram og að allir ættu að smella fingrum á þriggja sekúndna fresti í nokkrar mínútur. Það hefði mátt heyra saumnál detta á milli smellanna. 50.000 manns sátu grafkyrrir á milli þess sem þeir smelltu fingrum, allir samtaka. Ég fékk gæsahúð um allan líkamann og smellti þangað til ég gat ekki meir. Og þá smellti ég bara meira. Þetta er eitthvað sem ég mun alltaf muna eftir.

En frá væmninni og að fallegustu tónleikum sem ég hef verið á. Sigur Rósar tónleikarnir voru haldnir í Glasgow í pínkulitlum sal sem varð eins og gufubað þegar líða tók á tónleikana. Ég er lítil að eðlisfari og sá því ekki neitt en það gerði barasta ekkert til. Ég fann mér bara þægilegt sæti þar sem ekki var of heitt, lokaði augunum og gaf mig tónunum á vald. Ég skil ekki hvernig þeir finna þessi hljóð í hljóðfærunum sínum. Þegar tónleikunum var að ljúka klifraði ég upp á bekkinn sem ég sat á og tók video af lokaatriðinu. Það var svo miklu meira en magnað. Því miður getur videoið ekki geymt alla upplifunina af því að vera á staðnum en það hjálpar mér að muna eftir henni.

sunnudagur, júlí 03, 2005

A picture perfect evening, I'm staring down the sun
Nú er ég komin heim frá Reykjalundi í bili. Dvöl mín þar hefur verið tíðindalaus að mestu en núna seinustu viku áttu nokkur söguleg atvik sér stað. Þannig vildi til að á mánudaginn fór ég í fyrsta skipti á hestbak í mörg ár. Það var ótrúlega gaman eins og við var að búast en mér fannst við fara frekar hægt, enda er ég ekki beint rómuð fyrir þolinmæði. Á miðvikudeginum ákvað ég því að fá að fara hraðar og fór því í hóp þar sem kanadísku sjúkraþjálfaranemarnir voru fyrir (Jimmy hinn kanadíski er einmitt minn sjúkraþjálfari). Það gekk rosalega vel að fara hratt þegar ég loksins náði því að það þurfti að taka Muninn (hestinn minn) föstum tökum til þess að fá hann á tölt. Hann er dálítið (allsvakalega) brokkgengur greyið. Á leiðinni til baka í hesthúsið riðu þeir sem á undan mér voru yfir lítinn drullupoll og þegar ég sá að Muninn ætlaði yfir líka hugsaði ég með mér: "Hesturinn dettur í pollinum". Og viti menn ca. 2 sekúndum síðar hrasar Muninn og dettur næstum því. Það var ekkert næstum með mig, ég bara flaug af baki! Melanie, sem var fyrir aftan mig, sagði mér að ég hefði farið einn og hálfan kollhnís í loftinu áður en ég loksins lenti. Á slæmu hliðinni að sjálfsögðu. Eftir að hafa náð andanum settist ég upp og eftir smá umræðu þar sem fram kom m.a. að ónefndur aðili ætlaði sko ekki aftur á bak og einnig að það væru rúmir 2 kílómetrar sem sami ónefndi aðili þyrfti þá að ganga heim í hesthús, sættumst ég og hestastelpan á að láta hestana fara hægt restina af leiðinni. Svo skellti ég mér aftur á bak, alveg sjálf nota bene, og við fórum fetið heim í hesthús. Það var svo ekki fyrr en um kvöldið sem að ég fann að ég hafði tognað í öxlinni. En þá var ég líka löngu búin að fyrirgefa hestinum :).
En þá kemur að hinum sögulega atburðinum. Þegar ég var komin heim úr útreiðartúrnum hringdi Bryndís í mig og sagði mér að drífa mig inn í bæ ef ég vildi láta langþráðan draum rætast. Óli bróðir var sem sagt búinn að redda okkur valtara til að keyra! AÐ sjálfsögðu lét ég slag standa og dreif mig að ná í hana. Það er heilmikil upplifun að fá að taka í eitt stykki 6 tonna valtara en það sem fyndnast var að allir verkamennirnir tóku sér pásu til að fylgjast með þessum rugluðu gellum sem voru virkilega spenntar yfir að keyra valtara! Nú á ég eitt stykki útflatta Mackintosh-dós sem bíður þess að komast upp á vegg ;)! Og ég er búin að strika eitt atriði út af things-to-do-before-I-die listanum mínum. Ekki slæmt dagsverk það.



Wee bit of a brough, lassie!
Nú skunda ég til Skotlands á þriðjudaginn og er orðin vel spennt yfir því. Það sem stefnt er á með ferðinni: Fyrst og síðast að hitta Halla bró í fyrsta sinn síðan um jólin, að komast í bókabúðir (nýjar og second-hand) og í tónlistarbúðir eins og Championship Records (ef þú veist í hverju sú búð er(og heitir ekki Björg) þá ertu snillingur!), að kaupa leðurjakka og skó, að kíkja á bókasafna flóruna í Edinborg og síðast en alls ekki síst að fara á Sigur-Rósar tónleika og Live8 tónleikana í Edinborg. Þetta verður geðveikt, gott fólk!

sunnudagur, júní 12, 2005

Camp Nowhere
Þessa dagana má helst finna mig á endurhæfingarstöðinni Reykjalundi. Ég er með gemsann með mér og svara símtölum í þeirri röð sem þau berast. Það má ekki gleyma mér þó ég sé svona út úr siðmenningunni. Það er sem sagt helsta ástæða þess að ekki verður mikið um blogg hér á síðunni. Reyndar stefni ég að því að blogga í hverju einasta helgarleyfi svo þið getið farið að láta ykkur hlakka til ;). Að öllu gríni slepptu þá fíla ég mig eins og ég sé í sumarbúðum. Á morgnana fer ég í sund og svo í nudd/sjúkraþjálfun. Því næst er það iðjuþjálfun (sem er föndur en ekki æfingar fyrir litlu liðina *hóst*Ásgerður*hóst*...) og ræktin. Síðan er boðið upp á golf eða reiðmennsku eftir því hvað hentar manni best. Eftir brjálæðislega annasama daga er allt húsið farið að sofa um hálf ellefu leytið, en þeim háttatíma man ég líka eftir úr sumarbúðum. Þetta er í einu orði sagt frábær staður. Ef ekki væri fyrir jevla kanínufæðið þá fyndist mér ég bara vera komin til himna.

Ahem
Bara pínusmá égáafmælibráðum áminning fyrir púbblikúmið.

Grjóthaltu kjafti!
Eða Tas toi! eins og hún heitir á frummálinu er mikið fyndin mynd. Við erum að tala um Taxi 1, 2 og 3 fyndin. Þó ég hlæji mikið og auðveldlega að gamanmyndum þá er það nú ekki á hverjum degi sem ég stend á öndinni af hlátri yfir bíómynd. Þannig að ef þú ert komin/n með nett ógeð á Bandarísku fjöldaframleiðslu gamanmyndunum þá skaltu skella þér á næstu leigu og redda þér Tas toi! eða Ruby & Quentin eins og hún heitir á ensku. Þú sérð ekki eftir því ;)!

sunnudagur, maí 29, 2005

Singstar eður ei?
Þegar ég var úti nældi ég í eintak af Singstar Pop, þriðja Singstar leiknum, fyrir Bryndísi og partýið hennar. Sá diskur vakti að sjálfsögðu mikla lukku og fyrir mína parta þá söng ég mig hása þetta kvöld (nótt?). Ég hitti Ingu og Dagbjörtu í fyrsta sinn síðan um jólin og þurfti alltaf að vera að koma við þær og athuga hvar þær væru til að fullvissa mig um að þær væru örugglega ennþá með. Svona fer margra mánaða aðskilnaður með mann! Ég veit ekki hvernig þetta verður ef ég flyt út. Jeremías minn. En aftur að partýinu: Ég hef ekki skemmt mér svona vel lengi og augljóst á sumum *hóst*Sævari*hóst* að Singstar er málið. Þessir sömu sumir tóku líka Shut up með Black eyed peas, kvenpartinn, við mikinn fögnuð samgesta sinna. Lifi Singstar! Ég hlakka mest til í júní ;)!

Tilvitnunin

Kiss of all kisses. No debate.

úr Bollywood/Hollywood, sem er með betri myndum sem ég hef séð. Allar myndir þar sem fólkið byrjar að syngja út af engu (og allir kunna textann og dansinn) eru að mínu skapi...

fimmtudagur, maí 26, 2005

Komin heim í heiðardalinn
Jæja, önnur megastór færsla í tilefni heimkomu frá Danaveldi. Þolinmæði þín, lesandi góður, að nenna að kíkja aftur á þessa síðu þrátt fyrir sjaldgæfa uppfærslur, fær mig til að skammast mín. Ég stend mig að því að hlaupa yfir ákveðin blogg á "bloggrúntinum" vegna lítilla skrifa höfundanna. Ætti kannski að endurskoða það...

Kunstakademiens Arkitekskole með meiru
Ég gisti hjá Birgit frænku minni í góðu yfirlæti fyrstu tvær næturnar en flutti mig síðan inn í hjarta Kaupmannahafnar til hennar Jóhönnu vinkonu. Fagnaðarfundir miklir hjá tveimur ruglurum áttu sér stað ;). Á þriðjudagsmorguninn, klukkan 8:45 vorum við mættar upp í skóla og prófið hófst klukkan 9:00. Ein matarpása. Klukkan 17:00 leit ég upp frá verkefninu mínu, gekk frá og við Jóhanna hjóluðum heim. Ég fékk meira að segja hjólið hennar lánað því löggiltir aumingjar geta ekki verið á erfiðu túristahjólunum. Jóhanna massaði það eins og sannur Hjóla-Dani. Vorum sofnaðar klukkan hálf tólf eftir amstur dagsins. Miðvikudagurinn fór eins, 9:00 til 17:00 sat ég yfir verkefninu mínu, nema engin matarpása var tekin. Glorhungruð staulaðist ég út úr prófinu en Jóhanna reddaði deginum og fór með mig á besta bakaríið í Kaupmannahöfn, Lagkagehuset við Christianshavn. Þar keypti ég mér m.a. brownie sem mér tókst að gleyma að borða þangað til í flugvélinni á leiðinni heim. Húrra fyrir mér og súperheilanum! Fimmtudagurinn fór svo eins og miðvikudagurinn, með engri matarpásu þ.e.a.s., en um kvöldið var próflokum fagnað. Við Jóhanna fórum út að borða á Rimini, ótrúlega ódýrum ítölskum veitingastað og mættum síðan í íslenskt Eurovision partý á Öresundskolleginu. Þvílík vonbrigði sem þar áttu sér stað. Hvað er með að við komumst ekki einu sinni upp úr forkeppninni?! Við þóttum ekki einu sinni betri en Lettland. Come on, people! Eftir partýið fórum við bara snemma að sofa, yet again. Föstudagurinn fór í rölt á Strikinu eftir útsofelsi og eftir að hafa kvatt Jóhönnu (óvelkomin þögn eftir að hafa talað/hlustað nær stanslaust síðan ég hitti hana) var stefnan tekin á Alleröd að nýju. Þar var allt á hvolfi í eldhúsinu vegna eldavéla-skipta svo við Birgit fórum bara út að borða áður en hún skutlaði mér á flugvöllinn. Hún er svo mikið yndi :)!
Það er gott að vera komin heim!

föstudagur, maí 13, 2005

Sjö, níu, þrettán
Mér fannst ekki annað hægt en að blogga á föstudaginn þrettánda. Sem ætti í raun ekki að vera óheilladagur því þegar ráðist var á musterisriddarana var júlíanska tímatalið í notkun. Þannig að það var ekki föstudagur og ekki þrettándi dagur mánaðarins heldur. Merkilegt!

The Hitchhiker's Guide to the Galaxy
Yep, honum tókst það. Að gera fína mynd eftir einni fyndnustu bók í heimi. Ég hélt það væri ekki mögulegt að kvikmynda Hithchiker's guide. Var alveg handviss um að þeir myndu ameríkanisera söguna og láta Orlando Bloom leika Arthur og Keiru Knightly leika Trillian. Guði sé lof að svo er ekki. Þeim tókst að láta Arthur Dent leika Arthur Dent. Ég held, án gríns, að Douglas Adams hafi byggt Arthur Dent á Martin Freeman. Þessi mynd er algjörlega að gera sig þó að mér sé nú ekki vel við breytingarnar sem gerðar voru. Er sátt við að fá meira af Trillian (samt ekki sátt við hve mikið var gert úr Arthur+Trillian) en saknaði Marvin-lætur-löggugeimskipið-fremja-sjálfsmorð-bara-með-því-að-tala-við-það atriðsins mikið. Ég hlæ bara við að hugsa um það. Hlæhlæhlæ!

FF = Fyndin Flygildi



Vá, þetta eru næstfyndnustu fuglar sem ég hef séð! Allir á www.indietits.com!

Garden State...
...er uppáhaldsmyndin mín í heiminum. Hún er frábær. Og tónlistin maður. Gæsahúð. Það ætti að setja hana á skyldulista hvers manns og Napoleon Dynamite líka. Ég er búin að sjá hana fimm sinnum og hún hættir ekkert að vera fyndin. Cast-listinn á matnum er frábær. Hvernig fær fólk þessar hugmyndir?

mánudagur, maí 09, 2005

Eurovision/Evróvisjón
Ég er algjör Eurovision fíkill. Hef horft á keppnina á nær hverju ári (líkt og meirihluti þjóðarinnar) og engst yfir því hversu hryllilega lélegt framlag okkar er (á nær hverju ári líka). Mér líst heldur betur á framlagið í ár en það er kannski bara vegna þess hve stjarnfræðilega lélegt það hefur verið seinustu tvö skipti. Angel með 2-Tricky? Don't even get me started...

Sumargjöf
Ég finn fyrir óstjórnlegri löngun í brennibolta. Svona brúnan gamaldags. Þá gæti ég farið í eggja-varp-hoppleikinn og sprite(?). Þ.e.a.s. ég gæti það ef ég gæti hoppað. Ég er hoppheft. Og hlaupheft. Og, eins og sannaðist núna rétt áðan (enn einu sinni), labba-upp/niður-stigann-heima-hjá-mér heft. Gaman að þessu!

Tónlistin
Aðallagið þessa dagana er lagið Afi með Björk. Hversu mikil snilld er þessi texti?

Afi stundum segir mér,
hve hrikalega virtur
okkar ættstofn er,
útfríkaðir fræðimenn - fyndnir og allt.
Sjáðu nú með sjálfum þér,
hvernig þetta færi mér - ég meina 'ða.
Með spekingssvip í feisinu,
þambandi Malt.


Ég á svona ömmu. Og afi minn heitinn átti alltaf Malt. Malltaf.

miðvikudagur, maí 04, 2005

Celebrate good times, come on!
Ég fékk mjög svo skemmtilegt bréf frá Danmörku á mánudaginn. Það var frá arkítektaskóla konunglegu dönsku listakademíunni og í því stóð að ég hefði komist inn í inntökuprófið í skólann! Það fer fram 17. 18. og 19. maí svo ég er á leiðinni til Danmerkur þann 14. maí og verð til 20. maí. Gaman gaman :)! Það voru ca. 600 manns sem sóttu um skólann og rétt tæplega 300 komast í inntökuprófið. Ég var búin að ákveða að ég kæmist ekki inn og þar af leiðandi búin að sætta mig við að fara í ensku í HÍ í haust. Svo þetta bréf kom mér mjög skemmtilega á óvart ;).

Bráðavaktin
Sei, sei serían bara búin. Og lokaatriðið alveg naga-sig-í-handarbökin spennandi. Ég veit ekki hvernig ég tóri þangað til næsta vetur! Á ekki einhver allar seríurnar?

sunnudagur, maí 01, 2005

Ekki fyrst með fréttirnar...
Nýja frænkan var skírð í gær. Hún hlaut nafnið Vaka Líf. Nafnið Vaka þýðir sú sem vakir og 46 Íslendingar bera það sem 1. eiginnafn. Nafnið Líf skýrir sig sjálft og 342 Íslendingar bera það sem 2. eiginnafn. Þannig er nú það.

föstudagur, apríl 29, 2005

How handy!
Jahá! Það er sem sagt hægt að kaupa íslenskt nammi og gos á netinu og láta senda til útlanda. Sneddí! Fólkið sem á Nammi.is ætti samt að auglýsa meira held ég...

Don't stop me now!
Miði til Edinborgar er kominn í hús. Þetta er allt að gerast. Nú er bara að massa próf og verkefnaskil og koma sér í sumarfrí. Þá fer ég og kaupi mér hjól. Með körfu.


< Rant begins >
Það sló mig í dag (úff, enskuskotinn andskoti!) hversu margar litlar stelpur (sem virðast ekki hafa mætt í einn einasta stafsetningartíma á sínum stutta skólaferli) blogga. Ég játa nú að ég sjálf er engin mannvitsbrekka og hef kannski ekkert áhugavert að segja fyrir aðra en mína nánustu en fyrr má nú aldeilis fyrr vera! Persónulega finnst mér sorglegt að lesa blogg þar sem tólf-þrettán ára smástelpur eru að lýsa því yfir hversu fullar þær voru í þessu og þessu partýi og hversu mörgum strákum þær hafa sofið hjá. Og það skiptir ekki máli hvort þetta sé bara til að vera kúl í augum annarra krakka. Tólf ára krökkum á ekki að finnast kúl að drekka og sofa hjá hverjum sem er. Mér verður bara illt!
< Rant ends >

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Puff the magic dragon
Ég hef þrisvar sinnum byrjað á nýrri færslu til þess eins að fatta að ég hef ekkert að segja. Bömmer! Verð samt að setja eitthvað inn. Nýja frænka getur ekki alltaf verið að fæðast í gær.

Úje!
Hver fær að fara í sex vikur á Reykjalund? Me baby! Ég er með fiðrildi í maganum af tilhlökkun. Og svo var minni boðið að koma til Edinborgar að sletta úr klaufunum. Lífið er gott lömbin mín.

Bókahönnun er ávanabindandi
Mig klæjar hendurnar mig langar svo mikið til að kunna að teikna. Mig langar í svona Matrix dæmi; Jó, Dozer! Eitt stykki lærðu-að-teikna-eins-og-Darick-Robertson forrit takk. Drífðu þig maður!

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Til hamingju heimur!
Ný frænka leit dagsins ljós í gær. Hún er í boði Kidda og Erlu og eru þeim þakkir skyldar fyrir það :).

Og svona er stýrið í allri sinni dýrð:





Sniðugt
Þetta er helvíti sniðugt finnst mér. Rambaði á þetta á síðu gamals skólabróður úr grunnskóla og ákvað að deila þessu með ykkur.

1. Open up the music player on your computer.
2. Set it to play your entire music collection.
3. Hit the “shuffle” command.
4. Tell us the title of the next ten songs that show up (with their musicians), no matter how embarrassing. That’s right, no skipping that Carpenters tune that will totally destroy your hip credibility. It’s time for total musical honesty.
5. Write it up in your blog or journal and link back to at least a couple of the other sites where you saw this.
6. If you get the same artist twice, you may skip the second (or third, or etc.) occurances. You don’t have to, but since randomness could mean you end up with a list of ten song with five artists, you can if you’d like.

Og þá er það minn listi:

1. I am the walrus - The Beatles
2. Babylon - David Gray
3. Say hello to the angels - Interpol
4. Shoot the sexual athlete - Belle & Sebastian
5. Glory box - Portishead
6. We're not right - David Gray
7. Japanese policeman - Kimono
8. The chicken song - Mugison
9. Fuck her gently - Tenacious D
10. One more robot/Sympathy 3000-21 - The Flaming Lips
11. The way it is - The Strokes


Ákvað að skella einu auka inn þar sem David Gray kom tvisvar fyrir. Ég verð nú að segja að ég er nokkuð ánægð með útkomuna. Það vantar samt eitt stykki Damien Rice lag til að toppa þetta. Og allir gera líka, ef þú átt ekki blogg gerðu þetta þá bara í kommentakerfinu (já, Halli ég er að tala við þig;).

Hipphipphúrra!
Það er að koma nýr Zelda leikur!





Úff! Svona grafík gefur mér gæsahúð! Ég verð að fá Gamecube lánaða hjá einhverjum held ég bara. Það er einum of gróft að kaupa hana útaf einum leik...reyndar á ég alveg eftir að spila Zelda: Wind waker líka...ég held samt að ég þekki engan sem á svona stykki. Dæs!

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Orangutans are sceptical of changes in their cages
Helgin var temmilega fín eftir allt aðgerðarleysið að undanförnu. Ég horfði á Bride & Prejudice með Katrínu, The Spongebob Squarepants movie með Bryndísi & Co. og fór á Spanglish í bíó. Auk þess sem ég fór tvisvar í sund í Breiðholtslaug í sólskini og góðu veðri :). Mér var líka boðið í mat og vídjó hjá Ólafíu og Maríu. Kínverskur matur og íslenskar klassíker myndir í góðum félagsskap er algjör schnilld. Takk fyrir mig en og aftur!

Setning helgarinnar:
Ósk: Stelpur, ef löggan stoppar okkur förum við allar að gráta, nema Ásgerður sem verður geðveikt sexí!

fimmtudagur, mars 31, 2005

Flufluflufluflufluflulfluflannel!
Ég hef verið mikkið(haha, mús!) veik núna undanfarið og hef þess vegna lítið gert. Er þar af leiðandi hægt og rólega að ganga af vitinu af inniveru og húkinpúkaskap. Reyndar fór ég upp í bústað með familien um páskahelgina, og mér reiknast þannig til að ferðin sú hafi seinkað innlögn minni á Klepp um 1.5 vikur. Sem er mjög gott...

ER
Bráðavaktin mín snéri (sneri?) aftur á skjáinn í gærkvöldi og hvað það gladdi mitt litla hjarta að sjá alla vinina mína aftur. Svo frétti ég að það verði ekki þáttur í næstu viku vegna íþrótta smíþrótta :(. Eins og þetta endaði spennandi! Ó mæ gollí sko!

Mig langar...
Mig langar mig langar mig langar mig langar mig langar mig langar mig langar mig langar mig langar mig langar mig langar mig langar mig langar mig langar mig langar mig langar mig langar mig langar mig langar mig langar í heildarsafn mynda eftir Hayao Miyazaki. Hvað langar þig í?

fimmtudagur, mars 24, 2005

Funeral Blues
Stop all the clocks, cut off the telephone,
Prevent the dog from barking with a juicy bone,
Silence the pianos and with muffled drum
Bring out the coffin, let the mourners come.

Let aeroplanes circle moaning overhead
Scribbling on the sky the message He Is Dead,
Put crepe bows round the white necks of the public doves,
Let the traffic policemen wear black cotton gloves.

He was my North, my South, my East and West,
My working week and my Sunday rest,
My noon, my midnight, my talk, my song;
I thought that love would last for ever; I was wrong.

The stars are not wanted now: put out every one;
Pack up the moon and dismantle the sun;
Pour away the ocean and sweep up the wood,
For nothing now can ever come to any good.

W.H. Auden

Þetta ljóð er algjörlega í topp tíu. Sérstaklega í flutningi John Hannah. Auden plús skoskur hreimur er alveg killer blanda, me wee sleekit wonner!

þriðjudagur, mars 15, 2005

Ehhhhh...
Mér líður kjánalega þegar ég blogga eftir svona langt hlé. Það hefur svo margt gerst að það er alltof margt sem ég get sagt frá. Sem orsakar hvað? Jú, algjöra bloggstíflu. Ég ákvað samt að láta mig hafa það og reyna að greiða eitthvað út úr þessari flækju í höfðinu á mér. Lesendum míum til ánægju og yndisauka...

Danmerkurferð
Ég skellti mér til Danaveldis eins og allir sem lesa þetta blogg vita. Það var að sjálfsögðu æðislega gaman. Highlight-in í ferðinni voru, í engri sérstakri röð, þessi:
Að hitta Jóhönnu mína og sprella með henni.
Að vera í útlöndum með vinkonum mínum.
Að vera í Kaupmannahöfn.
Að hitta Birgit og krakkana.
Að ferðast með ömmu.
Að kaupa, kaupa, kaupa.
Að fara í Louisiana safnið.
Að fara á þorrablót Íslendingafélagsins í Köben.
Að skoða vonandi tilvonandi skólann minn.
Að koma aftur heim, sem er jú alltaf gott.
Þessi ferð var frábær að öllu leyti, nema einu. Hitastigið var á við fljótandi nitur. Ef maður fór með banana út þá gat maður neglt nagla með honum. Í alvöru. En eins og ég segi þá gerði ég allt of margt skemmtilegt til að lýsa því öllu hér. Það verður bara áfram í ferðadagbókinni minni.

Stress...
Núna í dag var seinasti skiladagurinn fyrir heimaverkefnið sem gefur umsækjendum kannski próftökurétt í inntökuprófinu í Arkítektaskóla Konunlegu Listaakademíunni í Kaupmannahöfn. Nú er bara að krossleggja puttanna og vonast eftir stóru umslagi í póstinum. Ég varð herfilega veik og var þar af leiðandi langt á eftir í verkefninu. Það sannaðist enn og aftur að kæruleysis- og verkjalyf eru ekki hvetjandi fyrir skapandi hugsun. En haldiði ekki riddarinn minn á hvíta hestinum, í þessu tilfelli Jóhanna Himinbjörg arkítektanemi extraordinaire, hafi ekki reddað mér algjörlega! Hún prentaði þetta út fyrir mig, skilaði því og stóð í ýmsu stússi. Þar af leiðandi fær hún nafnbótina vinkona ársins, að öðrum vinkonum mínum ólöstuðum. Er ekki bara fínt að vera best af þeim langbestu?

Vestfirska áralagið
Og nú berast mér þær fréttir, einmitt í kommentakerfinu á þessari síðu, að það sé til kona á Ítalíu sem er með þumla. Ekki að það sé neitt í frásögur færandi utan þess að þumlarnir hennar eru ískyggilega líkir mínum. Þessar fréttir færir Dagbjört útlandakona mér, beint frá Ítalíu. Fyrir þá sem ekki vita það þykja þumlarnir mínir frekar *hóst*mjög*hóst* sérstakir í laginu. Þetta er fjölskylduþumallinn og kallast "Vestfirska áralagið" af einhverri annarlegri ástæðu. Ég og frænka mín eru einu manneskjurnar sem ég hef heyrt af með svona þumal, þangað til nú! Takk Dagbjört mín fyrir að láta mér finnast ég ekki alveg eins sérstök og áður, ég á nóg með alla hina skrýtnina mína ;)!
og með símann, þá hafði síminn hennar Bjarneyjar vinninginn sem aldursforseti. En það munaði nú ekki miklu. Ég átti það bara til að gleyma hversu mikill forngripur síminn minn var orðinn. Og SonyEricsson er algjörlega að massa Nokia núna. Ég stóð sjálfa mig að því að geta ekki tekið lásinn af Nokia símanum hennar mömmu eftir að hafa notað minn SonyEricsson í ca. mánuð. Þetta venst ótrúlega hratt ;)!

Ameríkuliðið: Heimslögregla
Kim yong-Il að syngja:
I'm so ronery! So ronery!

Need I say more? Þessi mynd er algjört must-see ;).

föstudagur, janúar 21, 2005

Bloggen Sie bitte!
Nú er bíó-, sjónvarps- og vídjógláp mitt farið út fyrir allan þjófabálk. Það viðurkenni ég fúslega í votta viðurvist. Er það slæmt? Já. Ætla ég að hætta, eða a.m.k. minnka áhorfið? Nei. Finnst mér gaman að svara mínum eigin spurningum? Klárlega...

RingRingRingRingRingRingRingRing Bananaphone!
Ég festi kaup á nýjum farsíma á þriðjudaginn og er húrrandi hamingjusöm yfir því. Stykkið er SonyEricsson K700i og venst bara vel. Reyndar eru þumlarnir mínir svona þrem númerum of stórir miðað við optimum þumlastærð við SMS-gerð, því takkarnir eru svo litlir og þétt saman. En ég pikka þetta bara með vísifingri ;). Ástæðan fyrir þessum kaupum mínum er sú að gamli síminn minn (Nokia 6110 sem orðinn var 5 1/2 árs) gafst upp eftir gífurlega baráttu við skjáflensu nokkra, sem tók sér bólstað í honum. Ég sakna hans þrátt fyrir nýja símann.

Gleðigleðigaman
Katrín kemur líka til Köben! Reyndar verður hún bara yfir helgi en þetta verður all svakalegt engu að síður!

sunnudagur, janúar 16, 2005

What a wonderful world...
Ég hef verið að reyna að kaupa mér nýjan síma í tvær og hálfa viku. Ástæðan fyrir því er sú að síminn sem ég vil er uppseldur og ný sending af honum er á leiðinni frá Svíþjóð, og sú kemur vonandi fljótlega. Ég er nú þegar búin að fara þó nokkrar fýluferðir til Gumma frænda í Símabúðinni í Kringlunni og fór í enn eina slíka á síðastliðinn föstudag. Þar sem ég geng inn upp rampinn hjá "Ævintýraveröldinni" (frekar súr vegna verkefnaskila og símaleysis) þá kemur manneskja hlaupandi fyrir hornið og á mig. Ég gerði mig líklega til að blasta aumingja manneskjuna fyrir að rekast á hæstvirta mig en sleppti því þegar ég sá hver þetta var.
Rauðar fléttur sem standa út í loftið.
Nóg af freknum á nefinu.
Stuttur blár kjóll.
Mislitir háir sokkar með sokkaböndum.
Já, það er rétt. LÍNA LANGSOKKUR hljóp mig niður. Ég sá það auðvitað í hendi mér að í veröld, þar sem maður rekst (bókstaflega) á Línu Langsokk á harðaspretti í Kringlunni, þar er gott að búa. Ég steinhætti við að vera súr og sagði sem satt var við Línu: "You made my day!"

miðvikudagur, janúar 05, 2005

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla!
Árið tvöþúsundogfjögur var að mestu leyti gott ár. En eins og alltaf var að sjálfsögðu dálítill rússíbani þar sem gleði og sorg skiptist á. En þannig er lífið bara. Ég held samt að ég hafi komið út í plús að mestu leyti þessi áramótin og er það að mestu honum Gumma litla uppáhaldsfrænda að þakka. Og það bara fyrir að vera til!

Klippi-kvendið
Fann mér nýja klippikonu áðan. Frasinn -Another one bites the dust- á vel við í þessu tilfelli þar sem að flestar vinkonur mínar eru einnig klipptar af þessari sömu dömu (sniðugt, ha?!). Mér sýnist á öllu að hún sé almennt að gera góða hluti og þrátt fyrir þó nokkra óánægju í fyrstu ætlar þetta bara að verða að geðveikri VIÐRÁÐANLEGRI klippingu. Og það gerist sko ekki á hverjum degi á þessum bæ.
Dagbjört: Ég redda þér mynd á morgun ;)!

Svampur Sveinsson
Vá, hvað ég ætla að sjá Sponge-Bob Squarepants the movie. Var að sjá trailerinn áðan og sé hálf eftir því. Ég missti af því að skrækja af óvæntri ánægju í bíó og gerði það í staðinn heima hjá mér. Sem er ekki nándar nærri því eins gaman. Viva la Hoff!