Ferðasagan enn og aftur...
Dagur 5
Á leiðinni til San Francisco fórum við yfir Salt Lake eyðimörkina. Bryndís og Eyrún voru nú ekki á þeim buxunum að gútera þetta sem eyðimörk. Það væri gróður þarna og líka eitthvað af vatni. Ætli Sahara hefði ekki verið þeim meira að skapi. Við gættum okkur á því að fylla tankinn áður en við lögðum inn í sjálfa eyðimörkina. Það var gert á Skull station (minnir mig) bensínstöðinni þar sem hauskúpa af longhorn nauti hékk uppi. Villta vestrið er sem sagt ekki dautt, það var bara keypt af Shell eða einhverri annarri bensínstöðvakeðju og gert fjölskylduvænt og plastað að hætti ameríkana. Eftir langan og tíðindalausan akstur í eyðimörkinni komum við aftur að fjöllum. Í þetta skiptið vorum við þó að fara niður í móti og það var heldur betur ævintýri. Alls staðar við hlykkjóttan og brattan veginn voru skilti sem ráðlögðu vörubílstjórum að gefa bremsunum frí. Það er nefnilega tiltölulega algengt að bremsurnar eyðist upp og bílarnir verða stjórnlausir. Einmitt þess vegna eru nokkurs konar malar-afreinar sem liggja samhliða veginum. Þangað stýra þeir stjórnlausum bílum til að stöðva þá. Malar-afreinin, eða run-away truck lane, liggur upp þegar vegurinn liggur niður svo að það hægist verulega á bílnum þegar hann fer inn á hana.
Þegar við keyrðum inn í Californiu settum við að sjálfsögðu the Beach boys á hæsta styrk í tækið. Það gengur ekkert annað í gullfylkinu. Reyndar var fyrsta sýn okkar á Californiu eitthvað sem ég persónulega hafði ekki búist við. Eintóm fjöll og grenitré. Efst í fylkinu örlaði meira að segja á snjó! Ekki að það sé slæmt að geta farið á skíði fyrir hádegi og slappað svo af á ströndinni síðdegis :). Að keyra niður þessa hlykkjóttu vegi tók heldur betur á taugarnar. Það voru líka leysingar á svæðinu svo að smávegis af vatni rann yfir veginn á stöku stað. Það þýddi ekkert nema að hægja verulega á sér í verstu hlykkjunum. Kambarnir my behind! Ég keyrði fyrri partinn af leiðinni niður og svo tók Eyrún við. Þegar við vorum komnar niður sáum við fyrstu semi-pálmatrén. Þau voru nú bara fá og það bar meira á lauftrjám og grenitrjám. Ekki mjög Californiu-legt ennþá. Á leiðinni sáum við svakalegt slys. Þar hafði svona átján hjóla trukkur farið út af okkar megin á veginum og yfir á hinn helminginn í gegnum steinsteypublokkir. Hann lá á hliðinni og löggubílar allt í kring. Við sáum glitta í bílstjórann og það virtust ekki hafa orðið nein slys á fólki en þetta var samt svakalegt. Út af þessu hægðist dálítið á umferðinni á okkar vegarhelmingi en það er ekkert miðað við umferðarstoppið á slys-helmingnum. Bryndís mældi það og komst að því að það var 10 kílómetra löng röð af bílum sem voru alveg stopp. Fólk var farið út úr bílunum og allt. Alveg eins og í bíó.
Ég sofnaði aftur í og veit því ekkert hvað fram fór, hvorki innan bílsins né utan hans, fyrr en rétt hjá Sacramento. Þá vakna ég upp við einhvern dynk og hélt fyrst að það hefði farið stór grein eða eitthvað upp undir bílinn (sem gerðist einmitt oft). Þegar ég hins vegar opnaði augun sá ég að ekki var allt með felldu. Það var RISA stór sprunga í framrúðunni og gamla sprungan hafði stækkað um helming. Eyrún og sérstaklega Bryndís voru kríthvítar í framan og ég held ég hafi sjaldan séð jafnsvakalega stór augu á nokkurri manneskju. Svona undirskálar eins og á hundinum sem dátinn hitti. Ennþá hálfsofandi fór ég eitthvað að röfla um að festa þetta á video, svo að fólkið heima myndi nú trúa okkur. Stelpunum leist ekki vel á þá hugmynd, skiljanlega ennþá í sjokki. Þær sögðu mér að jeppi á harða spani hefði keyrt yfir einhvern málmhlut og skotið honum á bílinn okkar. Hluturinn skrapaði húddið og lenti á framrúðunni með svaka höggi. Ef hann hefði farið í gegn hefði hann líklegast lent framan í Bryndísi. Persónulega líkar mér vel við andlitið á henni eins og það er og finn enga þörf fyrir að breyta því. Ætli forsjóninni hafði ekki fundist það sama því að við fengum ekkert meira en slæmt sjokk þennan dag. Stelpurnar ákváðu að taka þetta föstum tökum og innbyrða sem mestan sykur á sem skemmstum tíma. Þeim gekk bara ágætlega held ég og ekki spillti fyrir að við lentum í alvöru traffic-jam á leiðinni inn í San Francisco. Fyrr um daginn höfðum við komist að því að engin okkar var með San Francisco lagið á iPodinum sínum. Algjör byrjendamistök. Þess vegna ákvaðum við að syngja lagið bara sjálfar þegar við loksins ækjum inn í borgina. Við byrjuðum hressilega en komumst að því að engin okkar kunni lagið og textann í heild sinni. En því var fljótt reddað, byrjunin var bara sungin aftur og aftur.
Til að komast inn í sjálfa San Francisco (og við teljum ekki úthverfin með í slíku) þurftum við að keyra yfir Bay bridge, sem er svakalega flott brú. Fyrst þurftum við samt að borga $3 í toll-booth og við veltum því mikið fyrir okkur hvað myndi gerast ef við ættum ekki 3 dollara. Hvað ef við ættum bara 2.50? Þyrftum við þá að snúa við? Það var alla veganna hvergi staður til þess að gera það og allt of mikið af bílum fyrir einhverjar akreina-skipta kúnstir. En við áttum 3 dollara svo að það skipti litlu máli. Við komumst heilu og höldnu á Days Inn mótelið sem við ætluðum að gista á í tvær nætur. Það var í the Theater district og leit bara svona allt í lagi út. Reyndar var beygjan niður í bílageymsluna mjög svo brött og kröpp en það var ekkert í samanburði við fyrri ævintýri dagsins. Sem betur fer kom maður til okkar á hótelið með nýja bílinn, því enga okkar langaði til að keyra meira þann daginn. Það tók sinn tíma að taka allt draslið úr gamla bílnum en þetta hófst og nýi bíllinn okkar, sem fljótlega fékk nafnið Helgi, leit miklu betur út en sá gamli.
Eftir ævintýri dagsins ákváðum við bara að panta mat á hótelherbergið og einhver pizza-staður varð fyrir valinu. Pizzan bragðaðist ágætlega, enda vorum við glorsoltnar og síðan var bara farið í bólið.
Sól, sól skín á mig...
Loksins er sumarið komið. Ég ætla að skunda út úr bænum og upp í sumarbústað um leið og samferðarmenn ljúka vinnu á morgun. Fyrri part dags ætla ég að liggja í sólbaði á einhverjum skjólgóðum stað og jafnvel synda eitthvað örlítið. Svona hljómar planið mitt fyrir þessa tilvonandi æðislegu helgi. Hljómar þitt jafnvel?
Búin að meikaða...
Ætla að skella mér til Köben með litlu frænku í byrjun ágúst. Við verðum 5. - 8. ágúst og það verður sko slappað af eins og ég veit ekki hvað. Og nú spyr ég eins og Atli Viðar gerir gjarnan: Hvað gerir maður í Köben á 3 og 1/2 degi?
Tilvitnunin...
Too much rock for one hand!
Ef þú ert ekki búin að sjá Stick It! skaltu gera það sem fyrst. Eðal hlæja-asnalega mynd, en gættu þín á öllum miðaldra köllunum sem mæta einir til þess að sjá 16 ára stelpur hlaupa um í þröngum fimleikabolum. Svakalegur ick-factor.
fimmtudagur, júlí 20, 2006
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)