Ho-hum! Rumdumdumdum...
Veit einhver af hverju Haloscan kommentakerfið lætur eins og ofdekraður krakki með fráhvarf frá sykri? Það sýnir oft miklu færri komment en komin eru í raun. Til dæmis við seinustu færslu það sem það sýnir 5 svör þegar þau eru 10. Kannast einhver annar Haloscan notandi við þetta?
Hey, I've got some new frequencies for you...
Nú hafa þrír nýir bloggarar bæst á listann hérna vinstra megin. Reyndar er einungis ein þeirra ný í blogginu en það breytir litlu. Hin þrjú útvöldu eru Óska, Sævar og Sara litla frænka. Endilega tjékkið á þeim.
It's just a fond farewell to a friend, it's not what I'm like...
Varúð! Löööng færsla framundan!
Enn eitt ferðalagið að baki hjá minni. Það gerðist svo endalaust margt og ég skemmti mér svo vel að það tæki meira pláss en ég nenni að fylla að segja frá því öllu hér. Þar af leiðandi verður einungis stiklað á stóru eins og því að: Ég hitti stóra bróður minn í fyrsta skipti síðan um jólin. Ég skil ekki hvernig aðrar þjóðir meika það að fjölskyldur búi mörg þúsund kílómetra frá hvert öðru. Ég skil það bara alls ekki!
Tilgangur þessarar ferðar var sem sagt að heimsækja stóra bróður í Edinborg. Þar er hann að taka Mastersgráðu í einhverju sem er of flókið fyrir litlu mig. En það tengist verkfræði og stærðfræði og þar sem þetta er hann Halli minn mun bestun á einhverju koma við sögu ;). Ég hafði aldrei áður til Stóra-Bretlands komið og var því vel spennt fyrir ferðinni. Kemur í ljós að Edinborg er mjög svo sjarmerandi borg, þrátt fyrir marserandi anarkista sem valda því að saklausar stúlkur frá Íslandi lokast inni í verslun og týnast svo í rigningunni. En eins og einhver spámaðurinn sagði þá kynnistu ekki borg fyrr en þú hefur týnst í henni. Og ég komst þó tilbaka að lokum og það er það sem skiptir mestu. Plús það að ég fékk að ganga upp mjög svo spennandi þröngt og bratt sund (Cubbar's Close) þar sem vatnselgurinn náði mér í ökkla og ég fékk að hífa mig upp sundið á handriðinu. Óóógeðslega gaman :)!
Fyrir þá sem ekki vita það þá eru þrjár tegundir af götum í Edinborg; Götur sem eru fyrir ofan, götur sem eru fyrir neðan og götur sem liggja upp/niður og tengja hinar göturnar saman. Þar af leiðandi er mikið af götum/göngustígum sem að eru hrikalega brattir. Og þar með varhugaverðir í mikilli rigningu og almennum sleipleika.
Eftir þessa rigningar upplifun brostu veðurguðirnir við mér, enda búnir að hlæja sig máttlausa á tilþrifum mínum við að komast upp Cubbard's Close. Glampandi sól og þrjátíu stiga hiti bætir, hressir og kætir ;).
Prince's street heitir aðalverslunargatan í Edinborg. Ég gerðir þrjár og hálfa atlögu en tókst þó ekki að komast á enda hennar. Stóru verslunarhúsin reyndust vera Akkilesarhæll minn í þessari ferð. Ég get ekki sagt að ég komi tómhent heim og alla veganna mun ég ekki þurfa að fara í fataverslun aftur fyrr en að ári. Að minnsta kosti. Auk þess sem að plötubúðin Avalanche Records gerði góða hluti. Þar keypti ég tvo Elliott Smith diska og nýja Röyksopp diskinn á undir 2.000 krónum. Geri aðrar plötubúðir betur!
Stóru upplifanirnar tvær í þessari ferð voru þó tvímælalaust tónleikarnir sem við fórum á. Live 8 Edinburgh og Sigur Rós í Glasgow. O, my good Lord! Live 8 tónleikarnir voru gífurleg upplifun. Þeir flytjendur sem stóðu upp úr hjá mér voru Yussouf N'dour (ásamt Neneh Cherry tóku 7 Seconds), Snow Patrol(tóku Run) og Travis(tóku Driftwood og Why does it always rain on me). Við misstum því miður af the Proclaimers en ég söng bara lagið þeirra inni í mér í staðinn. Á milli atriða voru sýnd video frá Afríku af neyðinni þar en í myndbandinu sem hafði mest áhrif á mig voru sýndar ljósmyndir frá Afríku með textabrotum úr lögum við og undir var spilað Bedshaped með Keane. Ég mátti hafa mig alla við til þess að fara ekki að gráta og ég er ekki frá því að eitt tár hafi sloppið og flúið niður í hálsakot. Það sem mér fannst best við þetta myndband var að það voru líka sýndar myndir af brosandi vannærðum börnum að leika sér. Ljósið í myrkrinu skín alls staðar.
Annað ótrúlega magnað atriði var þegar að sýnt var myndband af hinum ýmsu "celebrities" að smella fingrum á þriggja sekúndna fresti. Það er vegna þess að á þriggja sekúndna fresti deyr eitt barn úr fylgifiskum fátæktar. Eftir myndbandið segir kynnirinn að nú sé komið að okkur. Hann sagðist ætla að leiða okkur áfram og að allir ættu að smella fingrum á þriggja sekúndna fresti í nokkrar mínútur. Það hefði mátt heyra saumnál detta á milli smellanna. 50.000 manns sátu grafkyrrir á milli þess sem þeir smelltu fingrum, allir samtaka. Ég fékk gæsahúð um allan líkamann og smellti þangað til ég gat ekki meir. Og þá smellti ég bara meira. Þetta er eitthvað sem ég mun alltaf muna eftir.
En frá væmninni og að fallegustu tónleikum sem ég hef verið á. Sigur Rósar tónleikarnir voru haldnir í Glasgow í pínkulitlum sal sem varð eins og gufubað þegar líða tók á tónleikana. Ég er lítil að eðlisfari og sá því ekki neitt en það gerði barasta ekkert til. Ég fann mér bara þægilegt sæti þar sem ekki var of heitt, lokaði augunum og gaf mig tónunum á vald. Ég skil ekki hvernig þeir finna þessi hljóð í hljóðfærunum sínum. Þegar tónleikunum var að ljúka klifraði ég upp á bekkinn sem ég sat á og tók video af lokaatriðinu. Það var svo miklu meira en magnað. Því miður getur videoið ekki geymt alla upplifunina af því að vera á staðnum en það hjálpar mér að muna eftir henni.
fimmtudagur, júlí 14, 2005
sunnudagur, júlí 03, 2005
A picture perfect evening, I'm staring down the sun
Nú er ég komin heim frá Reykjalundi í bili. Dvöl mín þar hefur verið tíðindalaus að mestu en núna seinustu viku áttu nokkur söguleg atvik sér stað. Þannig vildi til að á mánudaginn fór ég í fyrsta skipti á hestbak í mörg ár. Það var ótrúlega gaman eins og við var að búast en mér fannst við fara frekar hægt, enda er ég ekki beint rómuð fyrir þolinmæði. Á miðvikudeginum ákvað ég því að fá að fara hraðar og fór því í hóp þar sem kanadísku sjúkraþjálfaranemarnir voru fyrir (Jimmy hinn kanadíski er einmitt minn sjúkraþjálfari). Það gekk rosalega vel að fara hratt þegar ég loksins náði því að það þurfti að taka Muninn (hestinn minn) föstum tökum til þess að fá hann á tölt. Hann er dálítið (allsvakalega) brokkgengur greyið. Á leiðinni til baka í hesthúsið riðu þeir sem á undan mér voru yfir lítinn drullupoll og þegar ég sá að Muninn ætlaði yfir líka hugsaði ég með mér: "Hesturinn dettur í pollinum". Og viti menn ca. 2 sekúndum síðar hrasar Muninn og dettur næstum því. Það var ekkert næstum með mig, ég bara flaug af baki! Melanie, sem var fyrir aftan mig, sagði mér að ég hefði farið einn og hálfan kollhnís í loftinu áður en ég loksins lenti. Á slæmu hliðinni að sjálfsögðu. Eftir að hafa náð andanum settist ég upp og eftir smá umræðu þar sem fram kom m.a. að ónefndur aðili ætlaði sko ekki aftur á bak og einnig að það væru rúmir 2 kílómetrar sem sami ónefndi aðili þyrfti þá að ganga heim í hesthús, sættumst ég og hestastelpan á að láta hestana fara hægt restina af leiðinni. Svo skellti ég mér aftur á bak, alveg sjálf nota bene, og við fórum fetið heim í hesthús. Það var svo ekki fyrr en um kvöldið sem að ég fann að ég hafði tognað í öxlinni. En þá var ég líka löngu búin að fyrirgefa hestinum :).
En þá kemur að hinum sögulega atburðinum. Þegar ég var komin heim úr útreiðartúrnum hringdi Bryndís í mig og sagði mér að drífa mig inn í bæ ef ég vildi láta langþráðan draum rætast. Óli bróðir var sem sagt búinn að redda okkur valtara til að keyra! AÐ sjálfsögðu lét ég slag standa og dreif mig að ná í hana. Það er heilmikil upplifun að fá að taka í eitt stykki 6 tonna valtara en það sem fyndnast var að allir verkamennirnir tóku sér pásu til að fylgjast með þessum rugluðu gellum sem voru virkilega spenntar yfir að keyra valtara! Nú á ég eitt stykki útflatta Mackintosh-dós sem bíður þess að komast upp á vegg ;)! Og ég er búin að strika eitt atriði út af things-to-do-before-I-die listanum mínum. Ekki slæmt dagsverk það.
Wee bit of a brough, lassie!
Nú skunda ég til Skotlands á þriðjudaginn og er orðin vel spennt yfir því. Það sem stefnt er á með ferðinni: Fyrst og síðast að hitta Halla bró í fyrsta sinn síðan um jólin, að komast í bókabúðir (nýjar og second-hand) og í tónlistarbúðir eins og Championship Records (ef þú veist í hverju sú búð er(og heitir ekki Björg) þá ertu snillingur!), að kaupa leðurjakka og skó, að kíkja á bókasafna flóruna í Edinborg og síðast en alls ekki síst að fara á Sigur-Rósar tónleika og Live8 tónleikana í Edinborg. Þetta verður geðveikt, gott fólk!