sunnudagur, júlí 03, 2005

A picture perfect evening, I'm staring down the sun
Nú er ég komin heim frá Reykjalundi í bili. Dvöl mín þar hefur verið tíðindalaus að mestu en núna seinustu viku áttu nokkur söguleg atvik sér stað. Þannig vildi til að á mánudaginn fór ég í fyrsta skipti á hestbak í mörg ár. Það var ótrúlega gaman eins og við var að búast en mér fannst við fara frekar hægt, enda er ég ekki beint rómuð fyrir þolinmæði. Á miðvikudeginum ákvað ég því að fá að fara hraðar og fór því í hóp þar sem kanadísku sjúkraþjálfaranemarnir voru fyrir (Jimmy hinn kanadíski er einmitt minn sjúkraþjálfari). Það gekk rosalega vel að fara hratt þegar ég loksins náði því að það þurfti að taka Muninn (hestinn minn) föstum tökum til þess að fá hann á tölt. Hann er dálítið (allsvakalega) brokkgengur greyið. Á leiðinni til baka í hesthúsið riðu þeir sem á undan mér voru yfir lítinn drullupoll og þegar ég sá að Muninn ætlaði yfir líka hugsaði ég með mér: "Hesturinn dettur í pollinum". Og viti menn ca. 2 sekúndum síðar hrasar Muninn og dettur næstum því. Það var ekkert næstum með mig, ég bara flaug af baki! Melanie, sem var fyrir aftan mig, sagði mér að ég hefði farið einn og hálfan kollhnís í loftinu áður en ég loksins lenti. Á slæmu hliðinni að sjálfsögðu. Eftir að hafa náð andanum settist ég upp og eftir smá umræðu þar sem fram kom m.a. að ónefndur aðili ætlaði sko ekki aftur á bak og einnig að það væru rúmir 2 kílómetrar sem sami ónefndi aðili þyrfti þá að ganga heim í hesthús, sættumst ég og hestastelpan á að láta hestana fara hægt restina af leiðinni. Svo skellti ég mér aftur á bak, alveg sjálf nota bene, og við fórum fetið heim í hesthús. Það var svo ekki fyrr en um kvöldið sem að ég fann að ég hafði tognað í öxlinni. En þá var ég líka löngu búin að fyrirgefa hestinum :).
En þá kemur að hinum sögulega atburðinum. Þegar ég var komin heim úr útreiðartúrnum hringdi Bryndís í mig og sagði mér að drífa mig inn í bæ ef ég vildi láta langþráðan draum rætast. Óli bróðir var sem sagt búinn að redda okkur valtara til að keyra! AÐ sjálfsögðu lét ég slag standa og dreif mig að ná í hana. Það er heilmikil upplifun að fá að taka í eitt stykki 6 tonna valtara en það sem fyndnast var að allir verkamennirnir tóku sér pásu til að fylgjast með þessum rugluðu gellum sem voru virkilega spenntar yfir að keyra valtara! Nú á ég eitt stykki útflatta Mackintosh-dós sem bíður þess að komast upp á vegg ;)! Og ég er búin að strika eitt atriði út af things-to-do-before-I-die listanum mínum. Ekki slæmt dagsverk það.



Wee bit of a brough, lassie!
Nú skunda ég til Skotlands á þriðjudaginn og er orðin vel spennt yfir því. Það sem stefnt er á með ferðinni: Fyrst og síðast að hitta Halla bró í fyrsta sinn síðan um jólin, að komast í bókabúðir (nýjar og second-hand) og í tónlistarbúðir eins og Championship Records (ef þú veist í hverju sú búð er(og heitir ekki Björg) þá ertu snillingur!), að kaupa leðurjakka og skó, að kíkja á bókasafna flóruna í Edinborg og síðast en alls ekki síst að fara á Sigur-Rósar tónleika og Live8 tónleikana í Edinborg. Þetta verður geðveikt, gott fólk!