fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Úff!
Ég trúi því ekki hvað ég hef verið löt að blogga. Eina afsökunin mín er hreinn og klár bloggleiði. Nennti bara ekki að setjast niður og skrifa. Nennti heldur ekki að setjast niður og skoða síður annarra. Það er mér, netfíklinum, ekki eðlilegt.

Jólin...
Voru svona líka glimrandi fín. Gaf margt gott, fékk margt gott og allt var eftir kúnstarinnar reglum. Heimkoma stóra bróður var algjörlega toppurinn á hátíðinni í þetta sinn. Og vegna einstaklega skemmtilegra einkunna úr jólaprófum gat árið eiginlega ekki endað betur.
Og já, ég söng á kórtónleikum um jólin líka.

Ammli...
Björg systir, Anna Lísa og Eyrún áttu allar afmæli. Til hamingju!

Japan Festival...
Nemar við japönsku skor Háskóla Íslands héldu heilmikið húllum hæ 21. janúar. Allur undirbúningurinn reyndist vera þess virði þar sem að um 500 manns létu sjá sig. Ég veit ekki hvort ég mun nokkurn tíman bera þess bætur að hafa brotið saman origami í fjóra klukkutíma samfleytt. Ef að Óskin mín hefði ekki verið að hjálpa mér veit ég ekki alveg hvernig þetta hefði endað. Hún fékk einmitt vinkonuverðlaun janúarmánaðar fyrir vikið.

Leikhús...
Amma bauð stórfjölskyldunni að sjá Túskildingsóperuna í uppfærslu Þjóleikhússins. Fínasta sýning og mér fannst mjög skemmtilegt hvernig hún var færð í nútímalegri búning. Hin uppfærslan sem ég hef séð, með nemendaleikhúsinu fyrir nokkrum árum, var í upphaflegum búningi og báðar sýningarnar standast vel samanburðinn. Það ískraði í öxlunum á mér í einu atriðinu: Fólk á ekki að geta sippað með handleggjunum á sér!

Road trip...
Við Bryndís og Eyrún erum á leið til Bandaríkjanna í apríl og ætlum að keyra um eins og vitleysingar í þrjár vikur. Fljúgum til Boston, keyrum þvert yfir Bandaríkin og aftur til Boston í gegnum Texas. Inga, Bjarney, pabbi hennar Bryndísar og Debbie verða heimsótt, óteljandi flöskur af vatni verða kláraðar, óteljandi mílur verða keyrðar(og þ.a.l. óteljandi plús óteljandi kílómetrar einnig) og óteljandi myndir verða teknar. Eitt er víst og það er að við munum þurfa frí eftir þetta frí.

Platan...
Er Death before Disco með Jeff who?. Þeir komu mér virkilega á óvart þar sem mér hefur aldrei líkað vel við einn liðsmanninn í bandinu. Ég er að reyna að hætta að láta persónulega skoðun mína á leikurum eða meðlimum hljómsveita eyðileggja hlutina fyrir mér. Og er bara vel ágengt sjá næsta...

Myndin...
Ég fór að sjá Pride & Prejudice í bíó um daginn. Ég er einlægur aðdáandi BBC þáttaraðarinnar sem sýnd var 1995 og var því ansi hrædd um að mér þætti myndin ekki nógu góð. Sérstaklega þar sem Keira Knightly fer með hlutverk Elizabeth Bennet og Mr. Darcy fer ekki með hlutverk Mr. Darcy. Vegna þessa ákvað ég að ég yrði bara að láta mér finnast myndin fín sama hvernig hún yrði. Sagan sjálf stendur jú alltaf fyrir sínu. Og viti menn, með því að láta góðvinkonu mína ekki fara í taugarnar á mér skemmti ég mér bara stórvel. Það vantaði bara að Ósk væri með á sýningunni, verandi jafnmikill aðdáandi sögunnar og ég er.

Allt komið?