sunnudagur, janúar 16, 2005

What a wonderful world...
Ég hef verið að reyna að kaupa mér nýjan síma í tvær og hálfa viku. Ástæðan fyrir því er sú að síminn sem ég vil er uppseldur og ný sending af honum er á leiðinni frá Svíþjóð, og sú kemur vonandi fljótlega. Ég er nú þegar búin að fara þó nokkrar fýluferðir til Gumma frænda í Símabúðinni í Kringlunni og fór í enn eina slíka á síðastliðinn föstudag. Þar sem ég geng inn upp rampinn hjá "Ævintýraveröldinni" (frekar súr vegna verkefnaskila og símaleysis) þá kemur manneskja hlaupandi fyrir hornið og á mig. Ég gerði mig líklega til að blasta aumingja manneskjuna fyrir að rekast á hæstvirta mig en sleppti því þegar ég sá hver þetta var.
Rauðar fléttur sem standa út í loftið.
Nóg af freknum á nefinu.
Stuttur blár kjóll.
Mislitir háir sokkar með sokkaböndum.
Já, það er rétt. LÍNA LANGSOKKUR hljóp mig niður. Ég sá það auðvitað í hendi mér að í veröld, þar sem maður rekst (bókstaflega) á Línu Langsokk á harðaspretti í Kringlunni, þar er gott að búa. Ég steinhætti við að vera súr og sagði sem satt var við Línu: "You made my day!"