Ferðasagan heldur áfram...
Það gildir sem fyrr að allar villur og rangfærslur er hægt að leiðrétta, ef ferðafélagar mínir koma auga á slíkt.
Dagur 2
Keyrslan gekk vel og ég man ekki eftir neinum sköndulum í svipinn. Helst það að þegar við komum til Lansing, Illinois þá villtist Kellingin allillilega og Eyrún keyrði í tvo stóra hringi þangað til við loksins rötuðum á mótelið. (Ég mana þig til að telja l-in í þessari setningu). Það var heldur hrörlegt og hvorki meira né minna en í frekar fátæku hverfi. Við vorum 3 af kannski 10 hvítum sem við sáum. (Reyndar voru MJÖG flott hús og bílar nokkrar götur í burtu. Við vorum bara vitlausu megin við brautarteinana svo ekki sé meira sagt). Áður en við fengum okkur að borða skunduðum við í ekta amerískt moll svo Eyrún gæti fengið amerískuna beint í æð. Þar fundum við forláta passamynda-kassa (þann eina í ferðinni) og skelltum okkur að sjálfsögðu í hann. Eftir það gerðust undur og stórmerki: Ég keypti mér Rainbow Brite náttföt! Eftir sú kaup sagðist ég geta farið heim þá og þegar. Þetta yrði ekki toppað.
Þegar við höfðum ekið nokkra hringi í viðbót ákváðum við að borða á Bennigan’s. Það hefði eflaust verið mjög skemmtileg lífsreynsla ef að sumir *hóst*ég*hóst* hefðu ekki gleymt að drekka um daginn. Ég þurr og þreytt í frekar leiðinlegu hverfi í Bandaríkjunum er ekki skemmtileg upplifun, ef þú varst að velta því fyrir þér. (Krít anyone?) Að lokum stakk Bryndís upp á því að sumir ættu kannski að hætta bara að tala sem fyrst. Sem betur fer fyrir áframhaldandi vinskap okkar þriggja tók ég það til greina og opnaði ekki munninn fyrr en ég sagði góða nótt.
Morguninn eftir fengum við morgunmat hjá hressustu konu veraldar. Það beinlínis lak af henni þjónustulundin og hún hreytti matnum ekki í okkur. Alls ekki.
Þegar við keyrðu svo burt frá þessu skúmmel Day’s Inn móteli sáum við barnaheimili í nágrenninu. Það væri svo sem ekki í frásögu færandi ef ekki væri fyrir háspennulínurnar sem mættust fyrir ofan það.
Dagur 3
Við keyrðum sem leið lá til North Platte, Nebraska. Sá bær er betur þekktur sem bærINN í ferðinni. Það gerðist allt í tengslum við þennan bæ. Í fyrsta lagi vorum við á góðum tíma og ákváðum að stoppa og fá okkur Pizza Hut í kvöldmatinn.
Fyrir þá sem ekki vita eru alls staðar við Highways og interstates svona þjónustusvæði eða litlir bæir. Áður en maður kemur að afreininni sem leiðir mann að slíkum stöðum, sér maður skilti sem segja hvað er á hverjum stað.
En aftur að Pizza Hut. Þar hittum við vinkonu okkar, hana Rhondeu. Hún var eiturhress og fannst hreimurinn okkar spes (líkt og öðrum í ferðinni, en það er önnur saga). Við vorum líka eina fólkið á staðnum svo hún hefur verið fegin að fá von um þjórfé. Pizzurnar komu eftir stutta stund en hún sagðist hafa gleymt brauðstöngunum og fór eftir þeim. Rétt fyrir sjö kom hún í hefðbundna “Hvernig bragðast þetta?” heimsókn (sem ætíð á sér stað þegar ég er nýbúin að stútfylla á mér túlann). Þegar við spurðum svo um brauðstangirnar sagði hún að þær hefðu verið gamlar og hún hefði látið búa til nýjar handa okkur. Þær kæmu að vörmu spori. Tíminn leið og sporið kólnaði en ekki kom Rhondea. Við sáum engan nema einvherja stelpu sem var að þrífa. Við vorum ekkert að flýta okkur og biðum bara sallarólegar. Reyndar þótti okkur heldur skrýtið að glösin okkar stóðu tóm í lengri tíma. Í þjórfés-samfélagi sem BNA er það mjög óalgengt. Héldum að Rhondea hefði kannski farið út á akur að skera hveitið í stangirnar. Ég skellti mér á klósettið og þegar ég kom til baka sást hvorki tangur né tetur af stöngunum. Þá vorum við komnar á það að Rhondea væri að sá hveitinu, hvaða önnur skýring gæti verið á öllum þessum töfum. Nú var klukkan orðin átta og ræstitækni-stelpan kom til okkar með reikninginn og sagðist halda að við ættum þetta. Þegar við kíktum svo á reikninginn voru brauðstangirnar þar, svart á hvítu. Þegar við svo spurðum starfsmann út í þetta kom í ljós að Rhondea var búin í vinnunni klukkan sjö og þar af leiðandi löngu farin heim. Hún hafði engum sagt frá okkur eða brauðstöngunum okkar og konurnar þarna héldu að við værum einvherjir ruglaðir útlendingar sem ætluðu bara ekkert að fara. Eftir enn eitt hláturkastið drifum við okkur út af þessum skemmtilegasta Pizza Hut stað sem ég hef nokkurn tímann farið á.
Ferðin á Howard Johnson’s Inn gekk vel og það leit ekki illa út. Og punkturinn yfir i-ið: það var sundlaug á staðnum. Við drifum okkur í bikini og röltum (í fötum yfir að sjálfsögðu) að sundlauginni. Á leiðinni sáum við kalla á öllum aldri að drekka bjór á bílastæðinu. Sitjandi í sólstólum. Á meðan við syntum og svömluðum í innanhúss lauginni var einhver gaur alltaf að labba framhjá gluggunum. Geðveikt smooth og ekkert grunsamlegur. Eftir sundið fórum við bara beint að sofa og ekki dró frekar til tíðinda þann daginn.
þriðjudagur, maí 23, 2006
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|