Heim í heiðardalinn...
Það er alltaf jafn gott að koma heim, sama hversu skemmtilegt er í ferðalögum. Þessi ferð er með þeim skemmtilegri sem ég hef farið í, þrátt fyrir leiðinda veikindi sem breyttu seinasta deginum úr svakalegu búðarápi í hangs á hótelherbergi. Það var nú ekki alslæmt þar sem við gátum þá slappað af í staðinn. Seinni helmingurinn af Oxford Street og Regent's Street í heild sinni bíða bara næstu ferðar til London ;).
Við fórum með Halla til Bath á sunnudeginum. Það er rosalega sætur bær, sérstaklega í samanburði við Swindon. Við röltum um allan miðbæinn og skoðuðum meðal annars búðina í Jane Austen safninu (en ekki safnið sjálft, búðaróðu Íslendingarnir sem við erum) og fórum á ekta enskan pöbb. Fórum svo á fínan sjávarréttastað um kvöldið þar sem ég hesthúsaði heilum krabba (reyndar ekki alveg heilum) og skvetti krabbakjöti í allar áttir. Í Bath gafst ég líka endanlega upp á að vera í Converse skóm í útlöndum og keypti mér Asics hlaupaskó í mikilli neyð. Fæturnir mínir andvörpuðu af feginleika í hverju skrefi það sem eftir var kvöldsins.
Á leiðinni til London á mánudeginum urðu miklar tafir á öllum lestarleiðum til og frá Paddington-stöðinni þar sem einhver hafði kastað sér fyrir lest nálægt London. Það kippti sér enginn upp við þetta, virðist vera hversdagslegur atburður í stórborginni. Þegar við vorum búnar að koma töskunum upp á hótelherbergi (á hreinu, tiltölulega ódýru og æðislega vel staðsettu hóteli), skunduðum við í neðanjarðarlestina. Það er æðislegt fyrirbæri sem sparaði okkur heilmikið labb. Við fórum á Leicester Square og keyptum miða á fremsta bekk fyrir miðju á söngleikinn 'We will rock you' á hálfvirði í þar til gerðum bás. Þar sáum við að frumsýna átti 'Music & Lyrics' um kvöldið í Odeon bíóinu. Veltum því fyrir okkur hvort við ættum að taka Ásgerði á þetta og hitta fræga fólkið en nenntum því svo ekki. Söngleikurinn var mjög skemmtilegur, þrátt fyrir að við sæum ekki hálfa sýninguna. Ástæðan fyrir því var að sviðið lyftist upp og hluti þess snérist út í salinn. Þá sátum við Björgu undir heilum helling af stáli sem einhver dansaði upp á. Queen lögunum var fléttað inn í söguþráðinn og það var skemmtilega heimilislegur fílingur í salnum. Þegar Bohemian Rhapsody var sungið fóru nær allir handleggir í salnum upp í loft og fólk söng hástöfum með. Maðurinn sem lék aðalhlutverkið var myndarlegur í meðallagi fannst mér, en annað fannst asísku stelpunni sem sat í þriðju röð. Þegar klappað var upp kom hún fremst og kraup við hliðina á mér. Hélt fyrir munninn að asískra stelpna sið og gaf frá sér skræk hljóð af og til. Þegar aðalleikarinn kom svo fremst á sviðið fór hún að sviðinu og rétti út hendurnar til þess að snerta hann. Hætti alltaf við hálfa leið og reyndi svo aftur. Við Björg sátum og vorum að kafna af hlátri. Gaurinn sendi henni að lokum fingurkoss og hún fór hálfgrátandi af hamingju og í sætið sitt aftur. Ég sá fyrir mér að hún sæti fyrir honum þegar að hann færi heim og tjaldaði fyrir utan hjá honum.
Þriðjudagurinn fór í skoðunarferð í tveggja-hæða strætó (sem við gáfumst fljótt upp á í kuldanum) og verslun á Oxford Street. Ég tíunda ekki hvað ég keypti (eða í mínu tilfelli þúsunda) en þeir sem ég hitti á næstunni fá að sjá marga nýja spjör. Um kvöldið kom Halli til okkar og við skunduðum af stað til að finna einhvern góðan indverskan stað. við fundum engan en enduðum í staðinn á Lýbönskum stað og vissum ekki hvað við áttum í vændum. Við báðum yfirþjóninn (sem virtist vera eigandinn líka) að hjálpa okkur að velja mat. Hann mælti með einhverri girnilegri blöndu. Þegar maturinn kom voru þetta margir litlir réttir, svakalega girnilegir og góðir eftir því. Þegar við vorum sirka hálfnuð með þá kom hann aftur og minnti okkur á að geyma pláss fyrir aðalréttinn. Og eftirréttinn. Og Kaffið. Óóóókei. Aðalrétturinn voru ótrúlega góðir Shish-Khebab pinnar. Namminamminamm. Eftir að Halli fór skunduðum við systur heim á hótel og leigðum okkur bíómynd í sjónvarpinu. The Fast and the Furious: Tokyo Drift varð fyrir valinu (segir margt um úrvalið) og hún var æðislega léleg. Næstum því eins æðislega léleg og Bring it on Again. Reyndar var ekkert talað um the Bomb Diggity og engir frasar í myndinni toppuðu: Make like a Tom and cruise svo að Bring it on Again hefur vinninginn.
Miðvikudagurinn hefði, eins og áður sagði, farið í enn meira búðaráp ef ekki hefði verið fyrir veikindi. Í staðinn borðuðum við Frosties með mjólk, drukkum glæra gosdrykki og hlutum samúð íbúa stórborgarinnar, eitthvað sem sjónvarpið og fréttirnar segja okkur að sé dáið og grafið. Í flugvélinni batnaði Björgu til muna og þá hætti hægri fótleggurinn á mér að virka. Svo hún keyrði mig í hjólastól í gegnum flugstöðina. Það er ótrúlegt hvað attitude fólks breytist þegar það sést á manni að eitthvað er að. Einn starfsmaður fríhafnarinnar var eiginlega ekki til í að hjálpa Björgu þegar hún leitaði liðsinnis, en umbreyttist svo í eitt sólskinsbros þegar ég tjáði mig við hann. Merkilegt.
fimmtudagur, febrúar 08, 2007
mánudagur, febrúar 05, 2007
Jedúdda...
Tekurðu einhver lyf? Ef svo er skaltu ekki gleyma að taka þau daginn sem þú ferð til útlanda í viku! Ég er svo bólgin og aum í hægri öxlinni að mig dreymdi í nótt að Björg væri að naga hana. Það gæti samt tengst því að áður en ég sofnaði spurði hún mig upp úr svefni hvort ég væri gómsæt!
Tjúúú, tjúúú...
Ég eeeelska lestir. Þær eru þægilegasti ferðamáti í heimi. Þær koma manni hratt á milli staða, maður þarf ekkert að hugsa, maður getur lesið í þeim og það sem skiptir meira máli: ÞÆR POMPA EKKI!
sunnudagur, febrúar 04, 2007
London, baby!
Er stödd í svefnbænum Swindon sem er ca. klukkustundar akstur vestur af Lundúnum. Vistin hjá Halla er góð og við Björg erum bústnar og vel aldar. Fáum svo mikið súrefni í kroppinn að við erum við það að líða út af klukkan tíu á kvöldin. Enda ætla ég að skríða í bólið um leið og þessari færslu lýkur. Á morgun höldum við systur inn til Lundúna þar sem við gistum á hóteli í tvær nætur. Þar verður verslað þar til kviknar í kortunum og góður matur etinn í bílförmum. Ef einhvern sem mér tengist skyldi vanta eitthvað sem einungis fæst á Bretlandseyjum þá er um að gera að sms-a beiðni um hæl.
Tally-ho, pip-pip og aðrar breskar kveðjur.