sunnudagur, september 19, 2004

Sigillum Universitatis Islandiae
Nám í háskóla er ólíkt öllu öðru námi sem ég hef reynt. Það er krafist meira af manni, maður stressar sig frekar yfir hlutunum og lítil sem engin vægð er sýnd aumum nemendum á fyrsta ári í enskuskori. Eða það hélt ég. Kennararnir reyndust svo bara vera ósköp venjulegt fólk með lítil sem engin horn. Klaufir og hala get ég ekki dæmt um þar sem ég mun vonandi aldrei sjá neinn kennara minna nakinn eða skólausan. Kröfurnar og stressið reyndust hins vegar vera á rökum reist svo ég var tilneydd að segja mig úr einum kúrsinum. Reyndar líkaði mér ekki sá kúrs svo ég tapaði nú ekki miklu. Að öðru leyti er ég að fíla mig sem háskólanema. Sérstaklega þar sem ég hitti fyrir tvo fyrrum MR-inga í enskunni svo að nú sit ég ekki ein úti í horni, borandi í nefið af einskærri minnimáttarkennd. Það er alltaf betra að vera fleiri en einn í skólanum þó að fáir nái að slá MR~Friends út ;).

Status
Þessa helgi horfði ég á fjórar spólur og lék mér í tölvuleik í ótalda klukkutíma. Þar af leiðandi á ég ekkert líf. Hins vegar hef ég séð ansi margar bíómyndir og er mjög góð í Sims 2. Er það eitthvað til að vera stolt af?

Nota Bene
Ringenes Herre er gífurlega dramatísk mynd.

föstudagur, september 17, 2004

Some people stand in the darkness
Á föstudaginn tókum við frænkurnar okkur til og héldum nostalgíu kvöld. Þar horfðum við á spólu sem við höfðum beðið í heilt ár eftir að sjá, en það var myndin Baywatch Hawaiian Wedding. Við horfðum nefnilega alltaf á Baywatch þegar við vorum litlar og skemmtum okkur síðan við að leika Baywatch í snjósköflum og sundlaugum fyrir norðan...Myndin reyndist vera schnilld í öðru veldi, aðallega vegna þess að við tókum gönguferð niður Memory Lane við að horfa á hana.
Pamela Andersson í gallastuttbuxum og bundnum topp standandi berfætt á stein í miðri á spilandi á saxófón. Gerist það betra ;)?

mánudagur, september 13, 2004

Shake-a-do
Helgin á undan nýliðinni helgi var svakaleg. Föstudagurinn var tekinn í hvíld því á laugardagskvöldið var stefnan tekin á matarboð og kokteilpartý í boði Bryndísar og Ásgerðar. Þar var boðið upp á fáranlega góðan núðlurétt og góðan félagsskap fólks sem ég hitti alltof sjaldan. Eftir matinn (og bráðnauðsynlegan tíma til að liggja aðeins á meltunni)settu þær stöllur á fót kokteilaframleiðslulínu sem vakti mikla lukku. Ég og minn Magic dönsuðum útum allt í sællri ofvirkni og létum fólk ekki í friði. Eins gott að flestir gestanna höfðu fengið sér í aðra tána (nú eða í báðar fætur upp að öxlum), því annars hefði okkur örugglega verið hent út med det samme ;)!
Eftir heljarinnar partý og gleði var svo rennt niður í bæ á Jarðarberinu og öðrum óþekktum fararskjóta. Áður en þangað var farið hafði ég látið í ljósi óskir mínar um að ekki yrði farið á Hverfisbarinn vegna eftirfarandi: leiðinleg röð, leiðinleg tónlist, leiðinlegt fólk og glerbrot í tonnatali á dansgólfinu. Eyrún og Dagbjört fóru samt af einhverjum ástæðum að tala við dyraverðina. Ég horfði bara út í loftið og fylgdist ekkert með þannig að mér brá heldur mikið þegar einhver tók utan um hausinn á mér og henti mér inn á staðinn. Við stóðum þarna þrjár inni í anddyrinu og horfðum ringlaðar hver á aðra. Og ekki batnaði "ringlan" þegar ég heyri ljúfa tóna fljúga frá dansgólfinu (ekkert 50-cent allt kvöldið). Við enduðum á því að dansa þar til staðurinn lokaði og enginn hrinti mér, steig á mig né hellti á mig vökva af neinu tagi! Og svo var Gunni að vinna á barnum og ég fékk allt það vatn sem mig langaði í ;).
Mórall sögunnar: Gefðu fólki/stöðum/hlutum séns. Kannski koma þau/þeir þér á óvart.
Nema glerbrotin. Helvítis glerbrotin verða alltaf á sínum stað.

fimmtudagur, september 02, 2004

Mússí mússí gú gú
Föstudaginn 27. ágúst klukkan 17:20 eignaðist ég lítinn frænda! Hann er, að sjálfsögðu, fallegasta barnið í heiminum og er strax orðinn algjör hjartaknúsari :)! Reyndar skammast ég mín fyrir að blogga um hann fyrst núna en svona er lífið...auk þess sem að hvernig sem ég reyndi gat ég ekki resize-að myndir af honum til að setja með þessari færslu. Þar af leiðandi ætla ég að setjast út í horn og gráta smá af skömm.