mánudagur, september 13, 2004

Shake-a-do
Helgin á undan nýliðinni helgi var svakaleg. Föstudagurinn var tekinn í hvíld því á laugardagskvöldið var stefnan tekin á matarboð og kokteilpartý í boði Bryndísar og Ásgerðar. Þar var boðið upp á fáranlega góðan núðlurétt og góðan félagsskap fólks sem ég hitti alltof sjaldan. Eftir matinn (og bráðnauðsynlegan tíma til að liggja aðeins á meltunni)settu þær stöllur á fót kokteilaframleiðslulínu sem vakti mikla lukku. Ég og minn Magic dönsuðum útum allt í sællri ofvirkni og létum fólk ekki í friði. Eins gott að flestir gestanna höfðu fengið sér í aðra tána (nú eða í báðar fætur upp að öxlum), því annars hefði okkur örugglega verið hent út med det samme ;)!
Eftir heljarinnar partý og gleði var svo rennt niður í bæ á Jarðarberinu og öðrum óþekktum fararskjóta. Áður en þangað var farið hafði ég látið í ljósi óskir mínar um að ekki yrði farið á Hverfisbarinn vegna eftirfarandi: leiðinleg röð, leiðinleg tónlist, leiðinlegt fólk og glerbrot í tonnatali á dansgólfinu. Eyrún og Dagbjört fóru samt af einhverjum ástæðum að tala við dyraverðina. Ég horfði bara út í loftið og fylgdist ekkert með þannig að mér brá heldur mikið þegar einhver tók utan um hausinn á mér og henti mér inn á staðinn. Við stóðum þarna þrjár inni í anddyrinu og horfðum ringlaðar hver á aðra. Og ekki batnaði "ringlan" þegar ég heyri ljúfa tóna fljúga frá dansgólfinu (ekkert 50-cent allt kvöldið). Við enduðum á því að dansa þar til staðurinn lokaði og enginn hrinti mér, steig á mig né hellti á mig vökva af neinu tagi! Og svo var Gunni að vinna á barnum og ég fékk allt það vatn sem mig langaði í ;).
Mórall sögunnar: Gefðu fólki/stöðum/hlutum séns. Kannski koma þau/þeir þér á óvart.
Nema glerbrotin. Helvítis glerbrotin verða alltaf á sínum stað.