sunnudagur, mars 11, 2007

Vinnan mín...
Deildin sem ég vinn á er mjög svo notaleg. Allt starfsfólkið er frábært og deildarstjórinn er eins og hlýtt og mjúkt teppi sem breiðir sig yfir allt og alla. Get einhvern veginn ekki lýst henni betur en það. Læknarnir eru reyndar, hér eins og á öðrum deildum, dálítið sér á parti. Þeir eru ekki alltaf á deildinni og teljast þess vegna ekki til starfsfólksins í mínum huga. Þeir eru þó allir með tölu frábærir og það eru ekki nema einn eða tveir sem gefa sér ekki tíma til að svara kjánalegu (og eflaust augljósu) spurningunum mínum, daginn út og inn. En einn læknirinn er öðruvísi en hinir. Sá læknir hræðir mig dálítið. Reyndar hefur hann alltaf reynst mér mjög vel, en það virðist ekki skipta miklu. Þegar maður hringir í hann er röddin hvöss og maður veit alveg að hann hefur sko engan tíma til að tala í símann. Þegar maður gengur inn á vakt og vogar sér að yrða á hann fær maður hvasst augnatillit og sömu óþolinmóðu röddina og í símanum. En best þykir mér þegar hann gengur inn ganginn. Þá sveiflast sloppurinn í vindinum sem ekki er og það heyrast og sjást staðbundnar þrumur og eldingar í kringum hann. Það er stundum mjög gott að hafa ofvirkt ímyndunarafl ;).

That's so funny...
Rakst á þessa síðu á b2.is. Hún bjargaði alveg þessum þreytta morgni í vinnunni.

“við a stór hluti af okkar líf skammtur fólk í okkar spítali æfa sig, nú varúlfur’ hjartnæmur búpeningur þúsund af mílusteinn burt. Þess’ gefandi til hluti this vitneskja með fólk frá allur hornsteinn af the hnöttur”


Svona varúlfur?


Og svo má ekki gleyma þýðingu á nafni höfundar, Dr. Mark Moore = Dr. Blettur Lyngheiði! Gerist það betra?

laugardagur, mars 03, 2007

Fnus...
Já, þetta var ekki skemmtilegasti febrúar í heimi. Ég hef held ég bara aldrei haft um svo margt leiðinlegt að hugsa í einum og sama mánuðinum. En nú eru horfur betri og um leið og hraðkúrsinn í japönskum bókmenntum byrjar í næstu viku hef ég ekki tíma til að anda, hvað þá hugsa. Ætli þessi færsla verði því ekki bara að duga í bili ;).

Óóóperurýni...
Ég fór um daginn með Maríunum á Flagara í framsókn í Óperunni. Verkið kom mér skemmtilega á óvart og bætti mikið til upp fyrir það hvað Tosca var fáránlega leiðinleg um árið. Það sem stóð upp úr í sýningunni var Madonna í Material Girl myndbandinu og rauðu latexgallarnir. Hverjum sem tekst að koma slíku inn í uppsetningu á óperu á skilið gott klapp á bakið. Það kom mér algjörlega að óvörum að svona týpa eins og asíska stelpan á 'We will Rock you' skyldi einmitt lenda fyrir aftan mig þetta kvöld. Þegar sýningu lauk stappaði hún fótunum (á pinnahælum) af ákefð í gólfið svo glumdi í öllu húsinu. Á meðan á þessu stóð klappaði hún svo það söng í eyrunum á mér, öskraði BRAVÓ!!! eins hátt og lungu hennar leyfðu (ég er ekki frá því að hún hafi verið hálf antilópa miðað við lungnarými) og klikkti svo út með því að hósta þvílíkum halló-ég-er-með-ógeðslega-smitandi-flensu hósta í hárið á mér. Ég held, svei mér þá, að hún vinni asísku stelpuna í fagnaðarlátum og réðu þar lungun úrslitum.

Wiiiiiiiiiiiiiii...
Þó ekki leikjatölvan, heldur bara almenn fagnaðarlæti. Búin með eitt midterm af tveimur (booya!), búin að skila heimaverkefni í bókmenntafræði og byrjuð á hópverkefni. Ný og endurbætt Kristín? Það getur bara vel verið!

Eurovision...
Eftir sérlega skemmtilegt afmælispartý hjá Mörtu Maríu skelltum við stelpurnar okkur á Eurovision eftirpartý á Nasa. Þar þeytti góðkunningi minn hann Páll Óskar skífum og skellti sér meira að segja í gallann og tók nokkur lög! Hápunktur kvöldsins var tvímælalaust þegar Silvia dró mig með upp á svið (þar sem hálf dansgólfið skók sig sem mest það mátti) og ég tók sjálfsmynd af mér og Palla. Og viti menn, þessi mynd er svo fáránlega vel heppnuð að ég hef aldrei séð annað eins. Ég hef alla veganna ekki tekið svona fína sjálfsmynd síðan þá og mun líklegast aldrei gera. Ef ég hitti einhvern tímann Captain Jack Sparrow vona ég bara að það sé myndavélin mín sem bregst svona vel við þegar uppáhöldin mín eru fyrir framan linsuna ;).

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Heim í heiðardalinn...
Það er alltaf jafn gott að koma heim, sama hversu skemmtilegt er í ferðalögum. Þessi ferð er með þeim skemmtilegri sem ég hef farið í, þrátt fyrir leiðinda veikindi sem breyttu seinasta deginum úr svakalegu búðarápi í hangs á hótelherbergi. Það var nú ekki alslæmt þar sem við gátum þá slappað af í staðinn. Seinni helmingurinn af Oxford Street og Regent's Street í heild sinni bíða bara næstu ferðar til London ;).

Við fórum með Halla til Bath á sunnudeginum. Það er rosalega sætur bær, sérstaklega í samanburði við Swindon. Við röltum um allan miðbæinn og skoðuðum meðal annars búðina í Jane Austen safninu (en ekki safnið sjálft, búðaróðu Íslendingarnir sem við erum) og fórum á ekta enskan pöbb. Fórum svo á fínan sjávarréttastað um kvöldið þar sem ég hesthúsaði heilum krabba (reyndar ekki alveg heilum) og skvetti krabbakjöti í allar áttir. Í Bath gafst ég líka endanlega upp á að vera í Converse skóm í útlöndum og keypti mér Asics hlaupaskó í mikilli neyð. Fæturnir mínir andvörpuðu af feginleika í hverju skrefi það sem eftir var kvöldsins.

Á leiðinni til London á mánudeginum urðu miklar tafir á öllum lestarleiðum til og frá Paddington-stöðinni þar sem einhver hafði kastað sér fyrir lest nálægt London. Það kippti sér enginn upp við þetta, virðist vera hversdagslegur atburður í stórborginni. Þegar við vorum búnar að koma töskunum upp á hótelherbergi (á hreinu, tiltölulega ódýru og æðislega vel staðsettu hóteli), skunduðum við í neðanjarðarlestina. Það er æðislegt fyrirbæri sem sparaði okkur heilmikið labb. Við fórum á Leicester Square og keyptum miða á fremsta bekk fyrir miðju á söngleikinn 'We will rock you' á hálfvirði í þar til gerðum bás. Þar sáum við að frumsýna átti 'Music & Lyrics' um kvöldið í Odeon bíóinu. Veltum því fyrir okkur hvort við ættum að taka Ásgerði á þetta og hitta fræga fólkið en nenntum því svo ekki. Söngleikurinn var mjög skemmtilegur, þrátt fyrir að við sæum ekki hálfa sýninguna. Ástæðan fyrir því var að sviðið lyftist upp og hluti þess snérist út í salinn. Þá sátum við Björgu undir heilum helling af stáli sem einhver dansaði upp á. Queen lögunum var fléttað inn í söguþráðinn og það var skemmtilega heimilislegur fílingur í salnum. Þegar Bohemian Rhapsody var sungið fóru nær allir handleggir í salnum upp í loft og fólk söng hástöfum með. Maðurinn sem lék aðalhlutverkið var myndarlegur í meðallagi fannst mér, en annað fannst asísku stelpunni sem sat í þriðju röð. Þegar klappað var upp kom hún fremst og kraup við hliðina á mér. Hélt fyrir munninn að asískra stelpna sið og gaf frá sér skræk hljóð af og til. Þegar aðalleikarinn kom svo fremst á sviðið fór hún að sviðinu og rétti út hendurnar til þess að snerta hann. Hætti alltaf við hálfa leið og reyndi svo aftur. Við Björg sátum og vorum að kafna af hlátri. Gaurinn sendi henni að lokum fingurkoss og hún fór hálfgrátandi af hamingju og í sætið sitt aftur. Ég sá fyrir mér að hún sæti fyrir honum þegar að hann færi heim og tjaldaði fyrir utan hjá honum.

Þriðjudagurinn fór í skoðunarferð í tveggja-hæða strætó (sem við gáfumst fljótt upp á í kuldanum) og verslun á Oxford Street. Ég tíunda ekki hvað ég keypti (eða í mínu tilfelli þúsunda) en þeir sem ég hitti á næstunni fá að sjá marga nýja spjör. Um kvöldið kom Halli til okkar og við skunduðum af stað til að finna einhvern góðan indverskan stað. við fundum engan en enduðum í staðinn á Lýbönskum stað og vissum ekki hvað við áttum í vændum. Við báðum yfirþjóninn (sem virtist vera eigandinn líka) að hjálpa okkur að velja mat. Hann mælti með einhverri girnilegri blöndu. Þegar maturinn kom voru þetta margir litlir réttir, svakalega girnilegir og góðir eftir því. Þegar við vorum sirka hálfnuð með þá kom hann aftur og minnti okkur á að geyma pláss fyrir aðalréttinn. Og eftirréttinn. Og Kaffið. Óóóókei. Aðalrétturinn voru ótrúlega góðir Shish-Khebab pinnar. Namminamminamm. Eftir að Halli fór skunduðum við systur heim á hótel og leigðum okkur bíómynd í sjónvarpinu. The Fast and the Furious: Tokyo Drift varð fyrir valinu (segir margt um úrvalið) og hún var æðislega léleg. Næstum því eins æðislega léleg og Bring it on Again. Reyndar var ekkert talað um the Bomb Diggity og engir frasar í myndinni toppuðu: Make like a Tom and cruise svo að Bring it on Again hefur vinninginn.

Miðvikudagurinn hefði, eins og áður sagði, farið í enn meira búðaráp ef ekki hefði verið fyrir veikindi. Í staðinn borðuðum við Frosties með mjólk, drukkum glæra gosdrykki og hlutum samúð íbúa stórborgarinnar, eitthvað sem sjónvarpið og fréttirnar segja okkur að sé dáið og grafið. Í flugvélinni batnaði Björgu til muna og þá hætti hægri fótleggurinn á mér að virka. Svo hún keyrði mig í hjólastól í gegnum flugstöðina. Það er ótrúlegt hvað attitude fólks breytist þegar það sést á manni að eitthvað er að. Einn starfsmaður fríhafnarinnar var eiginlega ekki til í að hjálpa Björgu þegar hún leitaði liðsinnis, en umbreyttist svo í eitt sólskinsbros þegar ég tjáði mig við hann. Merkilegt.

mánudagur, febrúar 05, 2007

Jedúdda...
Tekurðu einhver lyf? Ef svo er skaltu ekki gleyma að taka þau daginn sem þú ferð til útlanda í viku! Ég er svo bólgin og aum í hægri öxlinni að mig dreymdi í nótt að Björg væri að naga hana. Það gæti samt tengst því að áður en ég sofnaði spurði hún mig upp úr svefni hvort ég væri gómsæt!

Tjúúú, tjúúú...
Ég eeeelska lestir. Þær eru þægilegasti ferðamáti í heimi. Þær koma manni hratt á milli staða, maður þarf ekkert að hugsa, maður getur lesið í þeim og það sem skiptir meira máli: ÞÆR POMPA EKKI!

sunnudagur, febrúar 04, 2007

London, baby!
Er stödd í svefnbænum Swindon sem er ca. klukkustundar akstur vestur af Lundúnum. Vistin hjá Halla er góð og við Björg erum bústnar og vel aldar. Fáum svo mikið súrefni í kroppinn að við erum við það að líða út af klukkan tíu á kvöldin. Enda ætla ég að skríða í bólið um leið og þessari færslu lýkur. Á morgun höldum við systur inn til Lundúna þar sem við gistum á hóteli í tvær nætur. Þar verður verslað þar til kviknar í kortunum og góður matur etinn í bílförmum. Ef einhvern sem mér tengist skyldi vanta eitthvað sem einungis fæst á Bretlandseyjum þá er um að gera að sms-a beiðni um hæl.
Tally-ho, pip-pip og aðrar breskar kveðjur.

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Þabbara svona...
Fann mig knúna til að henda inn svo sem einni færslu. Er að byrja í skólanum á eftir og er ekki frá því að hlakka dálítið til. Literary Theory hljómar þvílíkt spennandi þó ég viti eiginlega ekki hvað það er. En það er bara gaman!

Kemur á óvart...
Rakst á svona internet-próf. Fæ alltaf svo skemmtilegar niðurstöður...


How evil are you?


Ég vissi ekki einu sinni að þetta væri möguleg útkoma úr prófinu. Endilega prófaðu og láttu mig vita hvað þú færð.

Æ, já...
Gleðileg jól, farsælt komandi ár, takk fyrir allt liðið og svo framvegis.