þriðjudagur, apríl 01, 2008

1. apríl!
Ég get ekki toppað það að hafa gabbað Bryndísi í fyrra svo ég ætla ekki einu sinni að reyna :).

Fór í boði Maríu á Stóra planið á föstudagskvöldið. Hún var hin besta skemmtun, þægilega súr og vandræðalegur húmor. Var reyndar dálítið of grátbrosleg á köflum þar sem persónunum var svo mikil vorkunn að ekki var hægt að hlæja að þeim. Mæli engu að síður með henni.

Í fréttum er þetta helst...
Nördinn í mér er glaður þessa dagana. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að ég keypti Nintendo DS lite handa sjálfri mér. Upphaflega átti það að vera jólagjöf en æxlaðist öðruvísi.
Ég geri bara ráð fyrir að þú sért ekki alveg með á nótunum og vitir ekki hvað DS er. Gripurinn er sem sagt nýjasta kynslóðin af Gameboy leikjatölvunni og er alveg svakalega skemmtilegt tæki. Neðri skjárinn er snertiskjár og í mörgum leikjum notar maður takkana ekki neitt, bara pennann sem fylgir með.
En skemmtunin er líklegast ekki bestuð fyrr en maður kaupir svona kubb eins og ég, sem gerir mér kleift að spila *hóst*niðurhalaða*hóst* leiki og einnig video og tónlist í tækinu. Ekki amaleg nýting það. Næstu flugferðir verða í það minnsta fljótar að líða með heldur minni hræðslu en venjulega ;). Og ef þú veist eitthvað um þetta og lumar á hugmyndum um skemmtilega leiki máttu gjarnan segja mér frá næst þegar við hittumst.


Hér er dýrðin. Finnst þér myndin ekki virka skemmtilega skökk?