fimmtudagur, mars 20, 2008

This is one doodle that can't be un-did, Homeskillet...
Mánudagur er hreint ekki til mæðu hjá mér. Nýliðinn slíkur var síður en svo undantekning á þeirri reglu. Fyrir utan vikulegan hádegismat með Bryndísi, þar sem við hittum hálfa Reykjavík eða í það minnsta hálfan árgang úr MR, kom Dagbjört til sögunnar og gerði það að verkum að þessi tiltekni mánudagur varð hálfævintýralegur.

Í fyrsta lagi fékk ég að fara með henni í Blóðbankann. Hversu kúl er það? Ég geri ekki ráð fyrir að eiga þangað erindi aftur, þó ég vildi gjarnan hafa það öðruvísi, þannig að þetta var þvílíkt stuð. Það kemur í ljós að nálastungur og blóðtökur eru mjög spennandi þegar viss skilyrði eru uppfyllt. Og takið eftir, því þetta er mikilvægt: Það þarf bara að vera að stinga einhvern ANNAN en mig. Sönnun lokið. X er fundið. Leyndardómar lífsins afhjúpaðir.

Eftir þessa hugljómun og skemmtilegu upplifun, fyrir mig alla vega, skelltum við okkur í bíó á Juno. Við (og hinir fimm Reykvíkingarnir sem ekki höfðu séð hana þá þegar) skemmtum okkur vel. Við Dagbjört skemmtum okkur reyndar áberandi best í salnum, en það er svo sem ekkert nýtt. Þessi mynd er eitthvað svo heillandi, ég veit samt ekki af hverju það er. Kannski vegna þess að hún er svo eðlileg. Og hún reynir ekki of mikið. Það er sjaldgæft í indí mynd. En þó ekki jafnsjaldgæft og í Hollywood-myndum.

Og já, stanslaust vesen á tollinum, póstinum og flugfélögum. Vill heimurinn ekki að ég sleppi nördanum lausum? Er þetta alheims samsæri til að láta mig einbeita mér að skólanum? Maður spyr sig.


Og og já, ég veit ekki hvort þú hefur tekið eftir því, en ég ætla að breyta textanum efst nokkuð reglulega (lesist: þegar ég man eftir því). Allar eru tilvitnanirnar fengnar úr Discworld bókum Terry Pratchett. Svona ef þú hefur áhuga á að lesa meira ;).