Kór og kvein...
Þar sem við systurnar erum einlægir áhugamenn um kórsöng og kórtónlist almennt, ákvað mamma að bjóða okkur á páskatónleika Vox feminae sem haldnir voru í gærkvöldi. Við urðum voða glaðar og buðum ömmu að koma með okkur. Ég var, þrátt fyrir áðurnefnda gleði, frekar þreytt og þar sem ég gekk að kirkjunni í kuldanum langaði mig mikið að vera undir teppi með góða bók. Það breyttist snögglega þegar ég heyrði Á föstudaginn langa óma úr kirkjunni. Þar var fyrir kórinn á lokaæfingu. Það minnti mig á ást mína á kórsöng en ég velti því jafnframt fyrir mér hvers vegna í ósköpunum kórinn var að æfa HÁLFTÍMA fyrir tónleika, inni í kirkjunni, fyrir framan tilvonandi tónleikagesti. Ekki hefur slíkt tíðkast í mínum kórum.
Eníhú, hálftíma síðar hófust svo tónleikarnir á verkinu Stabat mater, sem samið var fyrir kórinn. Og hvað fannst mér? Leiðinlegasta kórverk sem ég hef nokkurn tímann heyrt. Alltof þungt og einhvern veginn enginn heillandi hljómur. Ég þekki ekki fræðilegu orðin til að lýsa þessu en niðurstaðan er, Stabat mater = grútleiðinlegt.
Ég hélt mér vakandi á meðan flutningi stóð með því að fylgjast með Margréti Pálmadóttur, kórstjóra flestra barnakóra landsins, syngja með nótnamöppuna fyrir andlitinu. Fyrir þá sem ekki þekkja til í kórum, þá er þetta big no-no. Af og til sveiflaði hún reyndar möppunni frá og kastaði höfðinu nokkrum sinnum til en annað sást ekki af henni á meðan hún söng.
Þegar þessu hræðilega þunga og leiðinlega verki lauk loksins tók annað og mun betra við. Þær dreifðu sér dálítið um gangana og sungu nokkra páskasálma, á íslensku, þýsku og latínu og tókst bara ágætlega til. Þær fá plús í kladdann fyrir að flytja Á föstudaginn langa eftir Davíð Stefánsson og Maríukvæði eftir Laxness, sem eru báðir í uppáhaldi hjá mér.
Mínusstig fær kórinn fyrir að standa engan veginn undir væntingum okkar systranna. Miðað við hvað allir lofa þennan kór í hástert hefði ég haldið að mér þætti meira til þeirra koma. Svo var ekki, niðurstaða tónleikanna er að ég hef næstum misst allan áhuga á þessum kór. Ætla engu að síður að gefa þeim annað tækifæri ef það býðst, en þó ekki ef Stabat mater kemur við sögu.
fimmtudagur, mars 13, 2008
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|