sunnudagur, maí 29, 2005

Singstar eður ei?
Þegar ég var úti nældi ég í eintak af Singstar Pop, þriðja Singstar leiknum, fyrir Bryndísi og partýið hennar. Sá diskur vakti að sjálfsögðu mikla lukku og fyrir mína parta þá söng ég mig hása þetta kvöld (nótt?). Ég hitti Ingu og Dagbjörtu í fyrsta sinn síðan um jólin og þurfti alltaf að vera að koma við þær og athuga hvar þær væru til að fullvissa mig um að þær væru örugglega ennþá með. Svona fer margra mánaða aðskilnaður með mann! Ég veit ekki hvernig þetta verður ef ég flyt út. Jeremías minn. En aftur að partýinu: Ég hef ekki skemmt mér svona vel lengi og augljóst á sumum *hóst*Sævari*hóst* að Singstar er málið. Þessir sömu sumir tóku líka Shut up með Black eyed peas, kvenpartinn, við mikinn fögnuð samgesta sinna. Lifi Singstar! Ég hlakka mest til í júní ;)!

Tilvitnunin

Kiss of all kisses. No debate.

úr Bollywood/Hollywood, sem er með betri myndum sem ég hef séð. Allar myndir þar sem fólkið byrjar að syngja út af engu (og allir kunna textann og dansinn) eru að mínu skapi...

fimmtudagur, maí 26, 2005

Komin heim í heiðardalinn
Jæja, önnur megastór færsla í tilefni heimkomu frá Danaveldi. Þolinmæði þín, lesandi góður, að nenna að kíkja aftur á þessa síðu þrátt fyrir sjaldgæfa uppfærslur, fær mig til að skammast mín. Ég stend mig að því að hlaupa yfir ákveðin blogg á "bloggrúntinum" vegna lítilla skrifa höfundanna. Ætti kannski að endurskoða það...

Kunstakademiens Arkitekskole með meiru
Ég gisti hjá Birgit frænku minni í góðu yfirlæti fyrstu tvær næturnar en flutti mig síðan inn í hjarta Kaupmannahafnar til hennar Jóhönnu vinkonu. Fagnaðarfundir miklir hjá tveimur ruglurum áttu sér stað ;). Á þriðjudagsmorguninn, klukkan 8:45 vorum við mættar upp í skóla og prófið hófst klukkan 9:00. Ein matarpása. Klukkan 17:00 leit ég upp frá verkefninu mínu, gekk frá og við Jóhanna hjóluðum heim. Ég fékk meira að segja hjólið hennar lánað því löggiltir aumingjar geta ekki verið á erfiðu túristahjólunum. Jóhanna massaði það eins og sannur Hjóla-Dani. Vorum sofnaðar klukkan hálf tólf eftir amstur dagsins. Miðvikudagurinn fór eins, 9:00 til 17:00 sat ég yfir verkefninu mínu, nema engin matarpása var tekin. Glorhungruð staulaðist ég út úr prófinu en Jóhanna reddaði deginum og fór með mig á besta bakaríið í Kaupmannahöfn, Lagkagehuset við Christianshavn. Þar keypti ég mér m.a. brownie sem mér tókst að gleyma að borða þangað til í flugvélinni á leiðinni heim. Húrra fyrir mér og súperheilanum! Fimmtudagurinn fór svo eins og miðvikudagurinn, með engri matarpásu þ.e.a.s., en um kvöldið var próflokum fagnað. Við Jóhanna fórum út að borða á Rimini, ótrúlega ódýrum ítölskum veitingastað og mættum síðan í íslenskt Eurovision partý á Öresundskolleginu. Þvílík vonbrigði sem þar áttu sér stað. Hvað er með að við komumst ekki einu sinni upp úr forkeppninni?! Við þóttum ekki einu sinni betri en Lettland. Come on, people! Eftir partýið fórum við bara snemma að sofa, yet again. Föstudagurinn fór í rölt á Strikinu eftir útsofelsi og eftir að hafa kvatt Jóhönnu (óvelkomin þögn eftir að hafa talað/hlustað nær stanslaust síðan ég hitti hana) var stefnan tekin á Alleröd að nýju. Þar var allt á hvolfi í eldhúsinu vegna eldavéla-skipta svo við Birgit fórum bara út að borða áður en hún skutlaði mér á flugvöllinn. Hún er svo mikið yndi :)!
Það er gott að vera komin heim!

föstudagur, maí 13, 2005

Sjö, níu, þrettán
Mér fannst ekki annað hægt en að blogga á föstudaginn þrettánda. Sem ætti í raun ekki að vera óheilladagur því þegar ráðist var á musterisriddarana var júlíanska tímatalið í notkun. Þannig að það var ekki föstudagur og ekki þrettándi dagur mánaðarins heldur. Merkilegt!

The Hitchhiker's Guide to the Galaxy
Yep, honum tókst það. Að gera fína mynd eftir einni fyndnustu bók í heimi. Ég hélt það væri ekki mögulegt að kvikmynda Hithchiker's guide. Var alveg handviss um að þeir myndu ameríkanisera söguna og láta Orlando Bloom leika Arthur og Keiru Knightly leika Trillian. Guði sé lof að svo er ekki. Þeim tókst að láta Arthur Dent leika Arthur Dent. Ég held, án gríns, að Douglas Adams hafi byggt Arthur Dent á Martin Freeman. Þessi mynd er algjörlega að gera sig þó að mér sé nú ekki vel við breytingarnar sem gerðar voru. Er sátt við að fá meira af Trillian (samt ekki sátt við hve mikið var gert úr Arthur+Trillian) en saknaði Marvin-lætur-löggugeimskipið-fremja-sjálfsmorð-bara-með-því-að-tala-við-það atriðsins mikið. Ég hlæ bara við að hugsa um það. Hlæhlæhlæ!

FF = Fyndin Flygildi



Vá, þetta eru næstfyndnustu fuglar sem ég hef séð! Allir á www.indietits.com!

Garden State...
...er uppáhaldsmyndin mín í heiminum. Hún er frábær. Og tónlistin maður. Gæsahúð. Það ætti að setja hana á skyldulista hvers manns og Napoleon Dynamite líka. Ég er búin að sjá hana fimm sinnum og hún hættir ekkert að vera fyndin. Cast-listinn á matnum er frábær. Hvernig fær fólk þessar hugmyndir?

mánudagur, maí 09, 2005

Eurovision/Evróvisjón
Ég er algjör Eurovision fíkill. Hef horft á keppnina á nær hverju ári (líkt og meirihluti þjóðarinnar) og engst yfir því hversu hryllilega lélegt framlag okkar er (á nær hverju ári líka). Mér líst heldur betur á framlagið í ár en það er kannski bara vegna þess hve stjarnfræðilega lélegt það hefur verið seinustu tvö skipti. Angel með 2-Tricky? Don't even get me started...

Sumargjöf
Ég finn fyrir óstjórnlegri löngun í brennibolta. Svona brúnan gamaldags. Þá gæti ég farið í eggja-varp-hoppleikinn og sprite(?). Þ.e.a.s. ég gæti það ef ég gæti hoppað. Ég er hoppheft. Og hlaupheft. Og, eins og sannaðist núna rétt áðan (enn einu sinni), labba-upp/niður-stigann-heima-hjá-mér heft. Gaman að þessu!

Tónlistin
Aðallagið þessa dagana er lagið Afi með Björk. Hversu mikil snilld er þessi texti?

Afi stundum segir mér,
hve hrikalega virtur
okkar ættstofn er,
útfríkaðir fræðimenn - fyndnir og allt.
Sjáðu nú með sjálfum þér,
hvernig þetta færi mér - ég meina 'ða.
Með spekingssvip í feisinu,
þambandi Malt.


Ég á svona ömmu. Og afi minn heitinn átti alltaf Malt. Malltaf.

miðvikudagur, maí 04, 2005

Celebrate good times, come on!
Ég fékk mjög svo skemmtilegt bréf frá Danmörku á mánudaginn. Það var frá arkítektaskóla konunglegu dönsku listakademíunni og í því stóð að ég hefði komist inn í inntökuprófið í skólann! Það fer fram 17. 18. og 19. maí svo ég er á leiðinni til Danmerkur þann 14. maí og verð til 20. maí. Gaman gaman :)! Það voru ca. 600 manns sem sóttu um skólann og rétt tæplega 300 komast í inntökuprófið. Ég var búin að ákveða að ég kæmist ekki inn og þar af leiðandi búin að sætta mig við að fara í ensku í HÍ í haust. Svo þetta bréf kom mér mjög skemmtilega á óvart ;).

Bráðavaktin
Sei, sei serían bara búin. Og lokaatriðið alveg naga-sig-í-handarbökin spennandi. Ég veit ekki hvernig ég tóri þangað til næsta vetur! Á ekki einhver allar seríurnar?

sunnudagur, maí 01, 2005

Ekki fyrst með fréttirnar...
Nýja frænkan var skírð í gær. Hún hlaut nafnið Vaka Líf. Nafnið Vaka þýðir sú sem vakir og 46 Íslendingar bera það sem 1. eiginnafn. Nafnið Líf skýrir sig sjálft og 342 Íslendingar bera það sem 2. eiginnafn. Þannig er nú það.