miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Oooooo...
Ég gæti grátið. Ég var búin að einsetja mér að nú skyldi ég vera dugleg að blogga, en það hefur aldeilis ekki gengið eftir. Ég veit hreinlega ekki af hverju ég á svona erfitt með þetta, það er ekki eins og það sé eitthvað flókið að opna blogger og drita niður nokkrum línum um ekki neitt. Ætli ég lofi ekki öllu góðu sem fyrr, með fingur í kross fyrir aftan bak?

Ef líf mitt væri bíómynd, með tilheyrandi tónlist...
Sá þetta hjá Atla Viðari og geng skrefi lengra í steleríi en hann: Ég stel ekki bara hugmyndinni, heldur snilldarlegu þýðingunni hans líka. Versgú:


IF YOUR LIFE WAS A MOVIE, WHAT WOULD THE SOUNDTRACK BE?
(Viltu vinur minn vita, ef líf þitt kvikmynd væri, hvurskyns músík hún bæri?)
So, here's how it works:
(Soddan virkar havaríið )
1. Open your library (iTunes, Winamp, Media Player, iPod, etc)
(Opn þinn tónsarp (iTóna, alvöru pc mp3spilara, drasl mp3 spilara, iBú, o.s.frv)
2. Put it on shuffle
(Lát á vanröðun)
3. Press play
(Þrýst á leika)
4. For every question, type the song that's playing
(Sérhverri spurningu skal fylgja það lag sem leikið er á þeim tíma)
5. When you go to a new question, press the next button
(Þegar næsta spurning er tækluð, þrýstu á "Næsta" hnappinn)
6. Don't lie and try to pretend you're cool...
(Berðu ekki ljúgvitni um eiginn nördaskap).

Og hér er svo afraksturinn úr mínum "tónsarpi":

Opnunartitlar: Boomboomboom - Vengaboys (ja, kúl faktorinn er strax floginn út í buskann...)

Við uppvakningu: Real love - David Gray (vakna þó afslöppuð...)

Fyrsti skóladagurinn: Little Respect - Erasure (Bryndís er greinilega með í þessum skóla...)

Verða ástfanginn: Only this moment - Röyksopp (geeeðveikt, ef Lindsay Lohan hefði ekki orðið á undan mér. Damn you Salazar!)

Slagsmálalagið: It's over - the Beta Band (Gamalmenni í hjólastólum í slag? Í orðabókinni undir rólegasti slagur í heimi? Möguleikarnir eru endalausir!)

Sambandsslit: Comfortably numb - Pink Floyd (Heldur betur fullkomið...)

Prom: What is love - Haddaway (þetta lag var samið til að dansa við í ljótum kjólum...)

Daglegt líf: Lately - Skunk Anansie (Hmmm...)

Við andlegt áfall: My oh my - David Gray (Gæti virkað...)

Keyra í bíl atriðið: Tribute - Tenacious D (klassa road-trip lag...)

Flassbakk: We're not here - Mogwai (fortíð mín er greinilega dálítið "dark and twisty"...)

Ná saman á ný við kærastann: Crooked Teeth - Death Cab for Cutie (Öfugmælavísur, einhver?)

Brullaup: Final Countdown - Europe (Ja, kannski ekki beint það sem ég hafði séð fyrir mér. Hverjum er ég eiginlega að giftast? Eyrúnu "þetta er BESTA lag í heimi!" Gestsdóttur?)

Barnsfæðing: Litaður - Hárið (Uuuuuu, ókei...)

Lokabardaginn: Murr Murr - Mugison (Voðalega slappir bardagar í þessari mynd, sé mig samt fyrir mér með katana í svona Face off slómó-stíl svo það gæti virkað...)

Dauðasena: Hope there's someone - Antony & the Johnsons (vá, ég fæ bara hroll...)

Jarðarfaralag: Untitled - Blonde Redhead (smellpassar...)

Lokatitlar: Í guðs friði - KK (Gæti ekki verið betra: Í endinum upphafið býr...)

Jæja, þetta byrjaði slappt en rétti svo heldur betur úr kútnum í endann. Kemur mér samt á óvart að flytjendur á borð við Hasselhoff hafi ekkert látið í sér heyra en Vengaboys sjá þá bara um kjánahrollinn í þetta skiptið ;)!

Extreme Tracker...
Ég sá einhvern tímann á blogginu hennar Unu hvernig maður sér hverjir koma inn á síðuna manns og hvaðan þeir koma. Þar sér maður líka hvaða leitir á Google leiðir fólk á síðuna. Hér kemur topp 5 af listanum fyrir mína síðu:
1. Þjóðhátíð 2005 myndaalbúm (ég hef aldrei á þjóðhátíð komið, hvað þá tekið myndir þar)
2. Flassa myndir (alveg eðlilegt)
3. Daybright (ef þú þarft að leita að Dagbjörtu á Google þá ertu ekki kúl)
4. Stelpur í fimleikabolum (ókei, a) krípí og b) ég þekki engar slíkar til að skrifa um)
5. Atli Viðar á ferðalagi (Spes leit)

Kristínin...



Vel við hæfi samkvæmt Extreme Tracker...

mánudagur, október 16, 2006

Októberfest...
Reyndist ekki jafnslæm og ég hafði gert ráð fyrir. Reyndist meira að segja bara mjög skemmtileg, svona eftir að búið var að hella yfir mig það miklum bjór að frekari yfirhellingar skiptu bara engu máli. Og síðan hitti ég fólk sem ég hef ekki séð í mörg ár. Það er alltaf jafnfurðulegt að hitta fólk sem maður hitti fimm daga vikunnar í 9 mánuði á ári í fjögur ár og hafa svo ekkert að segja við það. Og alltaf jafngaman að hitta fólkið sem maður hefur ekki hitt í mörg ár og finnast eins og maður hafi séð það seinast í gær. Spurning um að fara að hafa meira samband við það fólk.

Munich...
Ég veit að Munich er góð mynd. (Fyrir utan það hvað nafnið pirrar mig: München, gott fólk. München.) Ég veit að ég hefði gott af því að horfa á hana til enda. En ég fæ mig bara ekki til þess. Í bæði skiptin sem ég reyndi sofnaði ég næstum. Yfir bíómynd. ÉG. Mér finnst hún svo ógeðslega leiðinleg að ég fæ mig ekki til þess að eyða dýrmætum tíma mínum, sem ég hef reyndar ekki hikað við að eyða í sjónvarps-/myndagláp hingað til, í að horfa á þetta slys. Til hamingju Hollywood, ykkur tókst hið ómögulega, að láta mér leiðast yfir bíómynd!

Kristínin...



Jafnast þetta á við kynfæramyndirnar hennar Dagbjartar?

föstudagur, október 06, 2006

Ha og humm...
Ég er alveg dottin út úr þessu blogg dæmi. Hef það ekki í mér að fara inn á blogger og skrifa eitthvað bull. En þar sem ég er nú svo góð í að bulla ætla ég að reyna að halda áfram ;).

Time is an illusion...
Það er heldur mikið að gera hjá mér þessa dagana. Það snýst allt (og þá meina ég allt) um að mæta í skólann og læra heima. Geðveiki. Ég leyfi mér þó að fara á æfingu einu sinni í viku og lesa mér til skemmtunar. Enda yrði ég geðveik án þess. Akkúrat núna er ég að skríða upp úr einhverju ógeðis kvefi og hef því verið heldur agalaus seinustu viku. Það er ekkert hægt að reikna og skrifa ritgerðir og leysa verkefni ef maður er með höfuðið fullt af hori og harðsperrur af hóstakjöltri. Lítið geðslegt en alveg dagsatt. (Og stuðlar!) Þar af leiðandi hef ég verið mikið stödd í netheimum, sem ætti kannski að vera ávísun á meiri bloggvirkni en er það greinilega ekki. Fnus.

Airwaves...
Næst uppáhaldshátíðin mín byrjar eftir einungis 12 daga. Þetta verður maaaagnað held ég bara. Þetta langar mig að sjá:

Apparat, Benni Hemm Hemm, Dikta, Jeff Who?, Ske, Kaiser Chiefs, The Telepathetics, MATES OF STATE!, The Go! Team, Wolf Parade, TILLY AND THE WALL!, We are Scientists (ef þeir taka ekki Hoppípolla coverið verð ég fúl), The Whitest Boy Alive, Jenny Wilson, Hermigervill, Mugison og My Summer as a Salvation Soldier.

Og svo er bara að púsla! Ef þig langar að koma með mér og Björgu á einhverja þessara tónleika þá bara láttu vita ;).

Tilly and the Wall...
Er fráhábært band. Tjékk it!

Kristínin...


Þessi er hress!

mánudagur, ágúst 28, 2006

Kristínarnám?...
Var að koma af fundi uppi í skóla, þetta er vægast sagt mjööög spennandi. Þeir eru líka búnir að breyta stundatöflunum þannig að ég er mun betur sett en áður. Það eru sko engir árekstrar sem stoppa mig í vetur :).

Okrið...
Ég keypti mér skólabækur fyrir 18.000 kr. áðan. Hvað voru þær margar? Þrjú stykki.
Þetta er ekki í lagi.

Myndin...
Lucky number Slevin. Fléttumynd sem kemur á óvart og er vel þessi virði að sjá.

föstudagur, ágúst 25, 2006

Hvert fór sumarið?...
Komið haust og ég gerði ekkert í sumar frekar en venjulega. Ég þoli ekki framtaksleysið í mér, það er alveg sama hverjar áætlanirnar eru í byrjun sumarsins, að hausti standast þær ekki. Orðin frekar þreytt á þessu.
En það þýðir ekki að vera að væla, það er bara að gera eitthvað í málunum í vetur ;)!

The New Pornographers...
...er frábær hljómsveit. Hún fer ekkert úr tækjunum hjá mér í bráð. Tjékk it.

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Ferðasaga af öðru tagi...
Þar seinustu helgi skellti ég mér í sumarbústað með Bryndísi og hennar föruneyti. Ég hef sjaldan, ef nokkurn tímann, gist í svo troðnum bústað en það var bara partur af upplifuninni. Það sem stóð hæst í þessari ferð var upptaka fyrsta grænmetisins úr garðinum mínum, svakalegt heilsdags-sólbað og síðast en ekki síst: Pólska fjölskyldan sem reyndi við mig, Bryndísi en þó aðallega Betu á Loga balli á Útlaganum. Ég hef sjaldan lent í öðru eins og þessu blessaða balli. Fyrsta sveitaballið mitt olli mér a.m.k. ekki neinum vonbrigðum.

Það var þrennt sem stóð upp úr á fyrrnefndu balli. Fyrst kom albínóinn, sem var þó enginn albínói. Hann gerði sig til við Betu með því að setja upp og taka niður hettuna á hettupeysunni sinni í tíma og ótíma. Þetta toppaði hann með því að toga í kragann á jakkanum sínum, svona eins og Danny Zuko forðum. Stærri hlutverk í drama kvöldsins lék þó pólska fjölskyldan, sem samanstóð af mömmu, pabba, syni og dóttur sem voru óð í að næla sér í íslensk tengdabörn. Fyrst komu þau dótturinni á sauðdrukkin strák sem var fyrr en varði kominn með lúkurnar upp undir peysuna hennar, fyrir framan foreldrana sem brostu út í bæði. Því næst tóku þau til við að dansa við okkur stöllurnar við eitthvað kántrí lag sem þau höfðu beðið um. Við tókum nú vel í það enda bara flipp að taka smá vondudansakeppni við útlendinga sem vita ekki hvaðan á þá stendur veðrið. Þegar þau slepptu okkur ekki í burtu þegar laginu lauk fór gamanið að kárna. Strákurinn var sem límdur við Betu en pabbinn slefaði á hendurnar á okkur Bryndísi og snéri okkur, nauðugum viljugum í endalausa hringi. Loksins sluppum við þó í burtu með því að gefa honum ekkert færi á okkur og nota hvora aðra sem skjöld. Því miður fyrir Betu var strákurinn nú orðinn hálfsamgróinn henni og lítil von virtist fyrir frelsun. Þegar laginu lauk stukkum við á hana og góluðum: Pissa? í eyrun á henni. Hún uppveðraðist öll og næstum öskraði yfir staðinn: JÁ! JÁ! PISSA! Þar með sluppum við frá Pólverjunum og þóttumst góðar með að hafa haldið öllum útlimum. Það sem eftir var dvalar okkar þarna héldum við okkur hinum megin í "salnum" og gættum okkur á að þau kæmu ekki auga á okkur. Allt í einu stekkur strákurinn, með mjaðmirnar (og sitthvað fleira) á undan, út úr mannmergðinni og gerir sig líklegan til að ráðast á Betu á nýjan leik. Við ýttum honum í burtu og sendum honum eitrað augnaráð en það tók hann samt laaaaangan tíma að fatta að hann var ekki velkominn.


Hressir Pólverjar með mjaðmirnar á undan


Þegar þessi hætta var liðin hjá tók lítið betra en mun fyndnara við. Að dansa rétt hjá okkur voru nokkur lesbíupör. Þegar ein þeirra skellti sér á barinn gerði hún sér lítið fyrir og kleip hressilega í rassinn á Bryndísi. Svipurinn sem kom á mína var hreint óborganlegur og ég er ekki frá því að þetta hafi fullkomnað skemmtunina. En kvöldið var ekki úti enn og þar sem við röltum heim í bústað tókum við eftir strák sem kom í humátt á eftir okkur. Beta upphóf í snarhasti hræðsluáróður sem McCarthy hefði verið stoltur af. Hún hélt því fram að þetta væri pólski strákurinn og því hringdum við í Nönnö sem kom um hæl og sótti okkur. Þar sem við stigum upp í bílinn kom í ljós að þetta var hreint ekkert sá pólski og við héldum heim á leið.

Tónleikar á tónleika ofan...
Seinasta fimmtudag fórum við Björg saman á Belle & Sebastian og Emiliönu Torrini tónleika á Nasa. Það er ekki lítið sem við vorum búnar að hlakka til en við vorum þó dálítið seinar að vanda. Þegar ég kem inn sný ég mér við til að leita að Björgu og sé þá Hildigunni þjóta hjá. Hún bættist í hópinn og við tróðum okkur eitthvað inn í salinn. Því miður sá ég ekki nema rétt glitta í Emiliönu en það bætti úr skák að hún flutti tvö glæný lög og það seinna var alveg geðveikt. Þegar Belle & Sebastian voru svo að koma sér fyrir tókst okkur að troða okkur alveg fremst hægra megin við sviðið. Þegar hér var komið sögu var Hrönn mætt og hitastigið í húsinu fór stighækkandi. Tónleikarnir voru æðislegir og ég hef sjaldan séð jafnskemmtilega live hljómsveit. Ég held að einungis Sigurrós toppi þetta.



Á sunnudaginn var ég þvílíkt slöpp svo við systurnar tókum því rólega heima í sófa. Við gerðumst reyndar svo frægar að rölta niður eftir og hlusta á göngunni en hlustuðum svo bara með svaladyrnar opnar. Ég hef sagt það áður og segi það enn: Sigurrós live er ólýsanlegt. Ég hef í alvörunni engin orð sem að lýsa réttilega þeirri tilfinningu að standa og finna tónlistina þeirra flæða yfir sig. Þetta er bara eitthvað sem að hver og einn verður að upplifa.



Det var brennivin i flasken da vi kom...
Danmerkur ferðin færist nær og nær og ég er að ærast úr spenningi. Ég elska Kaupmannahöfn og gæti verið þar í marga mánuði á hverju ári. Núna er stefnan sett á gott veður (sem er nú reyndar mætt hingað líka), Strikið, girnilega garða með tónlist og bókalestri, Glyptotekið, fjölskylduhitting og vonandi strandferð. Eintóm gleði og hamingja.

fimmtudagur, júlí 20, 2006

Ferðasagan enn og aftur...
Dagur 5
Á leiðinni til San Francisco fórum við yfir Salt Lake eyðimörkina. Bryndís og Eyrún voru nú ekki á þeim buxunum að gútera þetta sem eyðimörk. Það væri gróður þarna og líka eitthvað af vatni. Ætli Sahara hefði ekki verið þeim meira að skapi. Við gættum okkur á því að fylla tankinn áður en við lögðum inn í sjálfa eyðimörkina. Það var gert á Skull station (minnir mig) bensínstöðinni þar sem hauskúpa af longhorn nauti hékk uppi. Villta vestrið er sem sagt ekki dautt, það var bara keypt af Shell eða einhverri annarri bensínstöðvakeðju og gert fjölskylduvænt og plastað að hætti ameríkana. Eftir langan og tíðindalausan akstur í eyðimörkinni komum við aftur að fjöllum. Í þetta skiptið vorum við þó að fara niður í móti og það var heldur betur ævintýri. Alls staðar við hlykkjóttan og brattan veginn voru skilti sem ráðlögðu vörubílstjórum að gefa bremsunum frí. Það er nefnilega tiltölulega algengt að bremsurnar eyðist upp og bílarnir verða stjórnlausir. Einmitt þess vegna eru nokkurs konar malar-afreinar sem liggja samhliða veginum. Þangað stýra þeir stjórnlausum bílum til að stöðva þá. Malar-afreinin, eða run-away truck lane, liggur upp þegar vegurinn liggur niður svo að það hægist verulega á bílnum þegar hann fer inn á hana.

Þegar við keyrðum inn í Californiu settum við að sjálfsögðu the Beach boys á hæsta styrk í tækið. Það gengur ekkert annað í gullfylkinu. Reyndar var fyrsta sýn okkar á Californiu eitthvað sem ég persónulega hafði ekki búist við. Eintóm fjöll og grenitré. Efst í fylkinu örlaði meira að segja á snjó! Ekki að það sé slæmt að geta farið á skíði fyrir hádegi og slappað svo af á ströndinni síðdegis :). Að keyra niður þessa hlykkjóttu vegi tók heldur betur á taugarnar. Það voru líka leysingar á svæðinu svo að smávegis af vatni rann yfir veginn á stöku stað. Það þýddi ekkert nema að hægja verulega á sér í verstu hlykkjunum. Kambarnir my behind! Ég keyrði fyrri partinn af leiðinni niður og svo tók Eyrún við. Þegar við vorum komnar niður sáum við fyrstu semi-pálmatrén. Þau voru nú bara fá og það bar meira á lauftrjám og grenitrjám. Ekki mjög Californiu-legt ennþá. Á leiðinni sáum við svakalegt slys. Þar hafði svona átján hjóla trukkur farið út af okkar megin á veginum og yfir á hinn helminginn í gegnum steinsteypublokkir. Hann lá á hliðinni og löggubílar allt í kring. Við sáum glitta í bílstjórann og það virtust ekki hafa orðið nein slys á fólki en þetta var samt svakalegt. Út af þessu hægðist dálítið á umferðinni á okkar vegarhelmingi en það er ekkert miðað við umferðarstoppið á slys-helmingnum. Bryndís mældi það og komst að því að það var 10 kílómetra löng röð af bílum sem voru alveg stopp. Fólk var farið út úr bílunum og allt. Alveg eins og í bíó.

Ég sofnaði aftur í og veit því ekkert hvað fram fór, hvorki innan bílsins né utan hans, fyrr en rétt hjá Sacramento. Þá vakna ég upp við einhvern dynk og hélt fyrst að það hefði farið stór grein eða eitthvað upp undir bílinn (sem gerðist einmitt oft). Þegar ég hins vegar opnaði augun sá ég að ekki var allt með felldu. Það var RISA stór sprunga í framrúðunni og gamla sprungan hafði stækkað um helming. Eyrún og sérstaklega Bryndís voru kríthvítar í framan og ég held ég hafi sjaldan séð jafnsvakalega stór augu á nokkurri manneskju. Svona undirskálar eins og á hundinum sem dátinn hitti. Ennþá hálfsofandi fór ég eitthvað að röfla um að festa þetta á video, svo að fólkið heima myndi nú trúa okkur. Stelpunum leist ekki vel á þá hugmynd, skiljanlega ennþá í sjokki. Þær sögðu mér að jeppi á harða spani hefði keyrt yfir einhvern málmhlut og skotið honum á bílinn okkar. Hluturinn skrapaði húddið og lenti á framrúðunni með svaka höggi. Ef hann hefði farið í gegn hefði hann líklegast lent framan í Bryndísi. Persónulega líkar mér vel við andlitið á henni eins og það er og finn enga þörf fyrir að breyta því. Ætli forsjóninni hafði ekki fundist það sama því að við fengum ekkert meira en slæmt sjokk þennan dag. Stelpurnar ákváðu að taka þetta föstum tökum og innbyrða sem mestan sykur á sem skemmstum tíma. Þeim gekk bara ágætlega held ég og ekki spillti fyrir að við lentum í alvöru traffic-jam á leiðinni inn í San Francisco. Fyrr um daginn höfðum við komist að því að engin okkar var með San Francisco lagið á iPodinum sínum. Algjör byrjendamistök. Þess vegna ákvaðum við að syngja lagið bara sjálfar þegar við loksins ækjum inn í borgina. Við byrjuðum hressilega en komumst að því að engin okkar kunni lagið og textann í heild sinni. En því var fljótt reddað, byrjunin var bara sungin aftur og aftur.

Til að komast inn í sjálfa San Francisco (og við teljum ekki úthverfin með í slíku) þurftum við að keyra yfir Bay bridge, sem er svakalega flott brú. Fyrst þurftum við samt að borga $3 í toll-booth og við veltum því mikið fyrir okkur hvað myndi gerast ef við ættum ekki 3 dollara. Hvað ef við ættum bara 2.50? Þyrftum við þá að snúa við? Það var alla veganna hvergi staður til þess að gera það og allt of mikið af bílum fyrir einhverjar akreina-skipta kúnstir. En við áttum 3 dollara svo að það skipti litlu máli. Við komumst heilu og höldnu á Days Inn mótelið sem við ætluðum að gista á í tvær nætur. Það var í the Theater district og leit bara svona allt í lagi út. Reyndar var beygjan niður í bílageymsluna mjög svo brött og kröpp en það var ekkert í samanburði við fyrri ævintýri dagsins. Sem betur fer kom maður til okkar á hótelið með nýja bílinn, því enga okkar langaði til að keyra meira þann daginn. Það tók sinn tíma að taka allt draslið úr gamla bílnum en þetta hófst og nýi bíllinn okkar, sem fljótlega fékk nafnið Helgi, leit miklu betur út en sá gamli.

Eftir ævintýri dagsins ákváðum við bara að panta mat á hótelherbergið og einhver pizza-staður varð fyrir valinu. Pizzan bragðaðist ágætlega, enda vorum við glorsoltnar og síðan var bara farið í bólið.

Sól, sól skín á mig...
Loksins er sumarið komið. Ég ætla að skunda út úr bænum og upp í sumarbústað um leið og samferðarmenn ljúka vinnu á morgun. Fyrri part dags ætla ég að liggja í sólbaði á einhverjum skjólgóðum stað og jafnvel synda eitthvað örlítið. Svona hljómar planið mitt fyrir þessa tilvonandi æðislegu helgi. Hljómar þitt jafnvel?

Búin að meikaða...
Ætla að skella mér til Köben með litlu frænku í byrjun ágúst. Við verðum 5. - 8. ágúst og það verður sko slappað af eins og ég veit ekki hvað. Og nú spyr ég eins og Atli Viðar gerir gjarnan: Hvað gerir maður í Köben á 3 og 1/2 degi?

Tilvitnunin...
Too much rock for one hand!

Ef þú ert ekki búin að sjá Stick It! skaltu gera það sem fyrst. Eðal hlæja-asnalega mynd, en gættu þín á öllum miðaldra köllunum sem mæta einir til þess að sjá 16 ára stelpur hlaupa um í þröngum fimleikabolum. Svakalegur ick-factor.

miðvikudagur, júní 21, 2006

Zurück zu Zukunft 3 minn rass...
Jæja, enn einn parturinn af ferðasögunni er tilbúinn fyrir bloggheima. Eitthvað sækjast mér skrifin nú hægt en ég ætla að reyna að herða mig. Það gengur ekki að vera lengur að skrifa ferðasöguna en ferðin sjálf tók.

Dagur 4
Að morgni dags ætlaði ég í sakleysi mínu út í bíl að ná í eitthvað. Þar sem ég opnaði dyrnar á herberginu blasti við mér undarleg sjón. Á jörðinni lá pakki með ‘German garlic sausage’ sem hafði runnið út daginn áður. Líklegast hefur gefandinn haldið að við værum þýskar (eins og svo margir aðrir í ferðinni) og viljað gleðja okkur með einhverju sem minnti okkur á föðurlandið. Bryndís tók mynd af gjöfinni og fjarlægði hana svo með aðstoð tissjús. Að morgunverði loknum (mmmmm, pakkahafragrautur!) lögðum við af stað til Salt Lake City.
Þegar við keyrðum inn í Utah fór landslagið loksins að breytast. Allt í einu voru fjöll mætt til leiks og við keyrðum mikið upp og niður til skiptis. Þegar við stoppum á bensínstöð sjáum við sprungu í framrúðunni á bílnum. Okkur fannst það skrýtið en við ákváðum að fylgjast bara með henni. Þegar við lögðum aftur af stað fór sprungan svo að stækka. Það var lítið hægt að gera annað en halda áfram að keyra. Þegar við fórum að nálgast Salt Lake City hringdum við í Thrifty, bílaleiguna okkar, og spurðum þá ráða. Þau áttu engan bíl handa okkur í Salt Lake City en buðu okkur að fá bíl daginn eftir í San Francisco. Sprungan væri hreint ekkert hættuleg meðan hún væri ekki fyrir okkur við aksturinn. Við önduðum léttar og héldum áfram að keyra. En viti menn, allt í einu varð grunsamleg þögn í bílnum. Var þá ekki ísskápurinn, með lyfjunum mínum í, steinhættur að virka. Mér var hreint ekki skemmt og leist ekkert á blikuna. En sem betur fór var ekki langt í áfangastaðinn og þegar þangað var komið brunuðum við beint út í næsta Walmart sem, ótrúlegt en satt, var bara í næstu götu. Þar skiluðum við ísskápnum og fengum nýjan, í Walmart hefur viðskiptavinurinn nefnilega ALLTAF rétt fyrir sér. Ef þú ert ósátt/ur við vöruna færðu bara nýja. Þar með héldum við að hasarnum væri lokið þann daginn og eftir ágætis kvöldverð á einhverjum lókal stað skelltum við okkur í sund á mótelinu. Þegar við komum að sundlauginni sá ég mér til mikillar gleði að þar leyndust einnig æfingatæki, þar á meðal gönguskíðavél. Svoleiðis tæki eru í miklu uppáhaldi hjá mér og að sjálfsögðu skellti ég mér á það. Stelpunum leist ekkert á svoleiðis vitleysu í fríinu og skelltu sér beint í laugina. Þar sem ég stend á tækinu skrikar mér fótur og handfangsdæmið á tækinu þeytist af öllu afli í upphandlegginn á mér og klemmir hann upp að stjórnborðinu. Ég man voða lítið eftir næstu mínútum. Ég veit að ég staulaðist inn á klósettið hjá sundlauginni og stóð þar smástund, frá mér af sársauka og ógleði. Síðan rankaði ég örlítið við mér og fór þar sem stelpurnar sátu í heita potti. Þar hnipraði ég mig saman á stól og þegar þær spurðu mig hvað væri að sagði ég ekki að ég hefði meitt mig heldur stundi ég upp: Það er rétt hjá ykkur, líkamsrækt er stórhættuleg! Eftir frekari útskýringar skellti ég mér í pottinn og svo voru teknar sundmyndir í lauginni. Morguninn eftir skartaði ég heljarinnar kolsvörtum marbletti til minningar um þetta ævintýri. Og ég er ekki frá því að það leynist örlítil dæld í upphandleggnum á mér ennþá ;).


Gönguskíðatækið er ekki þarna en þetta er engu að síður herbergið þar sem hin fólskulega árás átti sér stað


Edit: Þegar ísskápurinn bilaði fór ég alveg á taugum vegna hræðslu við að lyfin myndu skemmast svo ég, (sem var að keyra) setti loftkælinguna í kaldasta svo ekkert heitt loft kæmi neitt nálægt ísskápnum. Bryndís og Eyrún og ég sjálf vorum því að frjósa á leiðinni til Salt lake city.

When I get older, losing my hair...
Afmælishelgin var heldur betur kósí og skemmtileg. Ég fór upp í sumarbústað með fjölskyldunni og skemmti mér vel. Á þjóðhátíðardaginn var fólki boðið í mat, sem einnig taldist sem afmælismatarboðið mitt og þar át ég eins og Loki í Útgarði forðum. Á afmælisdagsmorguninn fékk ég pakka í hausinn, engin myndlíking hér á ferð: Björg þrykkti pakkanum í mig þar sem ég lá nývöknuð á dýnu við hliðina á henni. Innihald pakkans gaf þó tilefni til fyrirgefningar þar sem pils og eyrnalokkar gleðja mig alltaf. Ég er einmitt að nota bæði þegar þetta er skrifað og fíla mig svakalega pimpin'. Reyndar gaf ég mér eiginlega sjálf bestu gjöfina. Ég bjó nefnilega til matjurtagarð upp í sumarbústað, með dyggri hjálp fjölskyldunnar. Ég elska nefnilega garða þó svo ég hafi engan slíkan átt sjálf. Svo er bara að bíða og sjá hvenær afmælispartý verður haldið :)!

þriðjudagur, maí 23, 2006

Ferðasagan heldur áfram...
Það gildir sem fyrr að allar villur og rangfærslur er hægt að leiðrétta, ef ferðafélagar mínir koma auga á slíkt.

Dagur 2
Keyrslan gekk vel og ég man ekki eftir neinum sköndulum í svipinn. Helst það að þegar við komum til Lansing, Illinois þá villtist Kellingin allillilega og Eyrún keyrði í tvo stóra hringi þangað til við loksins rötuðum á mótelið. (Ég mana þig til að telja l-in í þessari setningu). Það var heldur hrörlegt og hvorki meira né minna en í frekar fátæku hverfi. Við vorum 3 af kannski 10 hvítum sem við sáum. (Reyndar voru MJÖG flott hús og bílar nokkrar götur í burtu. Við vorum bara vitlausu megin við brautarteinana svo ekki sé meira sagt). Áður en við fengum okkur að borða skunduðum við í ekta amerískt moll svo Eyrún gæti fengið amerískuna beint í æð. Þar fundum við forláta passamynda-kassa (þann eina í ferðinni) og skelltum okkur að sjálfsögðu í hann. Eftir það gerðust undur og stórmerki: Ég keypti mér Rainbow Brite náttföt! Eftir sú kaup sagðist ég geta farið heim þá og þegar. Þetta yrði ekki toppað.
Þegar við höfðum ekið nokkra hringi í viðbót ákváðum við að borða á Bennigan’s. Það hefði eflaust verið mjög skemmtileg lífsreynsla ef að sumir *hóst*ég*hóst* hefðu ekki gleymt að drekka um daginn. Ég þurr og þreytt í frekar leiðinlegu hverfi í Bandaríkjunum er ekki skemmtileg upplifun, ef þú varst að velta því fyrir þér. (Krít anyone?) Að lokum stakk Bryndís upp á því að sumir ættu kannski að hætta bara að tala sem fyrst. Sem betur fer fyrir áframhaldandi vinskap okkar þriggja tók ég það til greina og opnaði ekki munninn fyrr en ég sagði góða nótt.
Morguninn eftir fengum við morgunmat hjá hressustu konu veraldar. Það beinlínis lak af henni þjónustulundin og hún hreytti matnum ekki í okkur. Alls ekki.
Þegar við keyrðu svo burt frá þessu skúmmel Day’s Inn móteli sáum við barnaheimili í nágrenninu. Það væri svo sem ekki í frásögu færandi ef ekki væri fyrir háspennulínurnar sem mættust fyrir ofan það.

Dagur 3
Við keyrðum sem leið lá til North Platte, Nebraska. Sá bær er betur þekktur sem bærINN í ferðinni. Það gerðist allt í tengslum við þennan bæ. Í fyrsta lagi vorum við á góðum tíma og ákváðum að stoppa og fá okkur Pizza Hut í kvöldmatinn.
Fyrir þá sem ekki vita eru alls staðar við Highways og interstates svona þjónustusvæði eða litlir bæir. Áður en maður kemur að afreininni sem leiðir mann að slíkum stöðum, sér maður skilti sem segja hvað er á hverjum stað.
En aftur að Pizza Hut. Þar hittum við vinkonu okkar, hana Rhondeu. Hún var eiturhress og fannst hreimurinn okkar spes (líkt og öðrum í ferðinni, en það er önnur saga). Við vorum líka eina fólkið á staðnum svo hún hefur verið fegin að fá von um þjórfé. Pizzurnar komu eftir stutta stund en hún sagðist hafa gleymt brauðstöngunum og fór eftir þeim. Rétt fyrir sjö kom hún í hefðbundna “Hvernig bragðast þetta?” heimsókn (sem ætíð á sér stað þegar ég er nýbúin að stútfylla á mér túlann). Þegar við spurðum svo um brauðstangirnar sagði hún að þær hefðu verið gamlar og hún hefði látið búa til nýjar handa okkur. Þær kæmu að vörmu spori. Tíminn leið og sporið kólnaði en ekki kom Rhondea. Við sáum engan nema einvherja stelpu sem var að þrífa. Við vorum ekkert að flýta okkur og biðum bara sallarólegar. Reyndar þótti okkur heldur skrýtið að glösin okkar stóðu tóm í lengri tíma. Í þjórfés-samfélagi sem BNA er það mjög óalgengt. Héldum að Rhondea hefði kannski farið út á akur að skera hveitið í stangirnar. Ég skellti mér á klósettið og þegar ég kom til baka sást hvorki tangur né tetur af stöngunum. Þá vorum við komnar á það að Rhondea væri að sá hveitinu, hvaða önnur skýring gæti verið á öllum þessum töfum. Nú var klukkan orðin átta og ræstitækni-stelpan kom til okkar með reikninginn og sagðist halda að við ættum þetta. Þegar við kíktum svo á reikninginn voru brauðstangirnar þar, svart á hvítu. Þegar við svo spurðum starfsmann út í þetta kom í ljós að Rhondea var búin í vinnunni klukkan sjö og þar af leiðandi löngu farin heim. Hún hafði engum sagt frá okkur eða brauðstöngunum okkar og konurnar þarna héldu að við værum einvherjir ruglaðir útlendingar sem ætluðu bara ekkert að fara. Eftir enn eitt hláturkastið drifum við okkur út af þessum skemmtilegasta Pizza Hut stað sem ég hef nokkurn tímann farið á.
Ferðin á Howard Johnson’s Inn gekk vel og það leit ekki illa út. Og punkturinn yfir i-ið: það var sundlaug á staðnum. Við drifum okkur í bikini og röltum (í fötum yfir að sjálfsögðu) að sundlauginni. Á leiðinni sáum við kalla á öllum aldri að drekka bjór á bílastæðinu. Sitjandi í sólstólum. Á meðan við syntum og svömluðum í innanhúss lauginni var einhver gaur alltaf að labba framhjá gluggunum. Geðveikt smooth og ekkert grunsamlegur. Eftir sundið fórum við bara beint að sofa og ekki dró frekar til tíðinda þann daginn.

þriðjudagur, maí 16, 2006

Varúð! Löng færsla framundan...
Svakalegt ferðalag er á enda og það reyndist bæði æðislegt og leiðinlegt að koma heim. Hér á eftir fylgir ferðasagan, frá mínum sjónarhóli séð. Gefið er að ég gleymi einhverju og að mig misminni annað en ferðafélagar mínir verða þá bara að láta í sér heyra ;).

Formáli
Ferðin hófst, eins og flestar ferðir, í Leifsstöð. Þar var fríhafnarrúnturinn tekinn en vegna breytinga voru ýmsar búðir hreinlega horfnar. Þegar við löbbuðum í áttina að okkar hliði (sem var að sjálfsögðu eins langt í burtu frá innganginum og mögulegt er) komumst við að heldur óskemmtilegum breytingum á stöðinni. Þar er búið að koma fyrir eins konar ormagöngum sem fara þarf í gegnum til að komast að öllum hliðunum. Um leið og komið er inn í göngin er eins og maður sé í útlöndum, þetta er ekki ósvipað tilfinningunni sem hellist yfir mig þegar ég kem inn í Smáralindina. Eftir að hafa hitt mömmu mína, sem var að koma frá Brüssel, gengum við um borð í vélina. Við vorum óvenju óheppnar með sætin þar sem Eyrún sat ein í röð 17 en við Bryndís sitthvoru megin við ganginn í öftustu röð. Auk þess var vélin full af breskum skólakrökkum (13-15 ára) sem voru á stöðugu rápi fram og til baka. Ég var nú sátt við það þar sem stelpurnar sem sátu með mér voru alltaf með vinum sínum fremst í vélinni, svo ég hafði þrjú sæti fyrir mig eina. Hljóðið var líka bilað hægra megin í vélinni svo hvorki ég né Eyrún gátum horft á sjónvarpið. Sem betur fer var Terry Pratchett með í för og svo sofnaði (!) ég líka á leiðinni. Þriðja óskemmtilega atvikið í þessu flugi var það að maturinn kláraðist áður en kom að mér að fá að borða. Í staðinn fékk ég mat sem einhver af áhöfninni átti að fá og hann var heldur betri en annar flugvélamatur sem ég hef bragðað.

Boston
Þegar vélin lenti á Boston Logan fórum við Eyrún í röðina hjá vegabréfaskoðuninni. Bryndís, kaninn að tarna, fór í mun styttri röð með græna kortið sitt. Við Eyrún þurftum að bíða í klukkutíma í röðinni, í hitabrækju og blaðrandi krökkum. Þar sem við komum út hafði Bryndís gert sér lítið fyrir og náð í allar töskurnar okkar og sett á vagn. Miðað við þyngd minnar tösku einnar verður það að teljast til afreka hennar í ferðinni.

Þar sem töskurnar voru komnar á vagn fórum við beina leið niður í anddyri og hringdum á rútu frá bílaleigunni sem kom og sótti okkur eftir dálitla bið fyrir utan flugstöðina. Á bílaleigunni afgreiddi hann Harry okkur. Og þarna fyrsta kvöldið kom í ljós að það er hreint ekki slæmt að vera þrjár sætar, íslenskar stelpur einar á ferð í Bandaríkjunum. Harry hafði nefnilega unnið lengi hjá Icelandair og meira að segja komið á Klakann. Honum fannst við svo æðislegar að hann bauð okkur upp á annað hvort blæjubíl eða svakalegan Dodge Charger. Þótt blæjubíllinn hafi vissulega kitlað hégómagirndina völdum við Dodge-inn. Hann var stærri, öruggari og mun betra að keyra hann, fullvissaði Harry okkur um. Við vorum að sjálfsögðu sáttar og eftir að hafa fengið gsm númerið hjá Harry (call me if ANYthing happens...), troðið töskunum í bílinn, kveikt á GPS-tækinu og komið okkur fyrir keyrði Bryndís sem leið lá í gegnum The Big-Dig og heim til pabba síns.

Hér verður að skjóta inn að ofantalið GPS-tæki, sem við vorum fljótar að nefna Kellinguna, er algjörlega ómetanlegt í svona ferð. Ég veit ekki hversu oft við hefðum týnst og tekið vitlausa exit-a ef hennar hefði ekki notið við. Hvað þá þegar við vorum að keyra inni í borgunum. Reyndar er ég fegin, núna þegar ferðin er búin, að ég fái gott frí frá frösum eins og “Keep left”, “Keep right”, “Recalculating” og síðast en ekki síst “As soon as possible, make a U-turn”.

Róbert var að sjálfsögðu glaður að sjá okkur og bauð okkur upp á fínustu steikur. Ranch-dressingin átti sitt fyrsta innslag í ferðinni þetta kvöld og kom svo mikið við sögu þegar salöt voru annars vegar, þjónustufólki oft til mikillar undrunar. Eftir matinn endurpökkuðum við í töskurnar og fórum svo í háttinn. Morguninn eftir fór í undirbúning, fyrst fórum viðí BJ’s wholesale club, sem er Gripið og greitt í hundraðasta veldi. Eftir að hafa kvatt Róbert með knúsi í stórum pakkningum héldum við í Big-Y að klára innkaupin. Og síðan var það bara kall þjóðvegarins sem glumdi í eyrunum.

Samkvæmt frábæru skipulagi okkar byrjaði ég að keyra þennan dag. Fyrrnefnt skipulag hefur örugglega átt stóran þátt í að viðhalda geðheilsu okkar í ferðinni þar sem sætaskipan var rist í stein áður en við fórum frá Íslandi. Þannig var að ein byrjaði að keyra. Sú sem sat í farþegasætinu þurfti að vera vakandi, halda bílstjóranum vakandi með öllum tiltækum ráðum og fylgjast með Kellingunni og kortabókinni. Aftursætisdýrið mátti gera það sem henni sýndist sem oftar en ekki reyndist vera langþráður lúr með púðann góða. Þegar bílstjórinn hafði keyrt í um tvo tíma stoppuðum við á bensínstöð, pissuðum, tókum bensín og fengum okkur eitthvað að borða. Eftir stoppið fór bílstjórinn aftur í, kortamaðurinn í bílstjórasætið og aftursætisdýrið í farþegasætið. Svona gekk þetta alla ferðina og með þessu var enginn ósáttur við sitt hlutverk J.

Dagur 1
Fyrsti dagurinn gekk mjög vel, framar öllum vonum m.a.s. Þrátt fyrir dálítil vandræði á gatnamótum á leiðinni frá Big-Y keyrðum við eins og vindurinn þar til við stoppuðum til að fá okkur kvöldmat. Þá völdum við hið víðfræga veitingahús Country Pride, sem oftar en ekki er staðsett í svokölluðum TA travel center-um. Sá kvöldmatur var frekar ómerkilegur en, eins og sjá má á myndum, mjög svo seðjandi ;). Þegar við héldum aftur af stað keyrðum við þangað til við gátum ekki meira og fundum þá Days-inn motel og gistum þar. Voða fínt Days-inn, með bestu mótelum sem við gistum á í ferðinni.

Ahem...<
Ég hef farið með ósannindi. Síðurnar tvær sem ég hafði skrifað voru einungis fyrsti dagurinn í ferðinni sem og undirbúningur. Þetta verður því að teljast sem kafli 1 í ferðasögunni og þú verður bara að bíða spennt/ur eftir framhaldinu ;)!

þriðjudagur, maí 09, 2006

Jæja...
Ég kom heim fyrir viku og hef lítið gert annað en að læra, svala hittingsþorsta og skrifa ferðasöguna. Og ég er samt ekki búin með hana. Svo þessi færsla er bara svona til friða lesendur og láta þá vita að það ER færsla á leiðinni, en hún kemur líklegast ekki fyrr en eftir síðasta prófið sem er 15. maí ;)!

laugardagur, apríl 08, 2006

Say goodbye and go...
Bara örstutt færsla þar sem ég er að leggja af stað út á flugvöll eftir 2 tíma. Á bara eftir að leggja lokahönd á undirbúning, setja tannburstann í snyrtibudduna, snyrtibudduna í töskuna og svoleiðis. Ætli við reynum ekki að finna net-kaffihús einhvers staðar á leiðinni svo þið farið nú ekki að hafa áhyggjur ;). Og ég get lofað rosalegu eftir-Road trip bloggi þegar við komum heim. Á ekki færri en þremur bloggsíðum. Svo þið bíðið bara spennt :)!

þriðjudagur, mars 28, 2006

Pffff...
Ég er hundveik. Ég var að stíga upp úr kvefpest þegar að flensan stakk mig í bakið í dimmu húsasundi. Hvers á ég að gjalda? En maður verður nú samt að líta á björtu hliðarnar á þessu sem öllu öðru. Núna hef ég tvær vikur til að jafna mig áður en Ameríkuferðin mikla hefst. Og ég tek sko ekki í mál að vera veik úti. Það er bara ekki séns í helvíti.

Dream a little dream of me...
Nú segi ég draumfarir mínar ekki sléttar. Þrátt fyrir að mig dreymi venjulega mjög óvenjulega drauma þá finnst mér þetta nú einum of. Draumurinn sem mig dreymdi í fyrrinótt nær næstum því að toppa Star Trek drauminn fræga. Þannig er mál með vexti að ég var skyndilega stödd í útlöndum. Einhverra hluta vegna var ég viðstödd blaðamannafund hjá norsku konungsfjölskyldunni þar sem Georgiana, litla systir Mette Marit (sem á held ég enga systur) var að koma út úr skápnum. Ókei, fínt bara. Hún var búin að vera að slá sér upp með Viktoríu Svíaprinsessu og mamma hennar var ekki sátt. Þegar fundurinn var búinn ákvað ég að labba heim. Allt í einu var ég komin á leikvöllinn hjá Breiðagerðisskóla og þar var fjöldinn allur af þrífættum kanínum með sólgleraugu hoppandi og skoppandi. Leggur einhver í að túlka hvað þessi steypa þýðir?

Yearly hightide?
Árshátíð Aisukuriimu, félags japönskunema, var haldin um daginn. Það var mega skemmtilegt. Ég dansaði næstum því af mér lappirnar og söng næstum því úr mér raddböndin. Nú þarf ég bara að fá að sjá vidjóið sem var tekið og hlæja mig máttlausa. Vondudansakeppnin blívur.

mánudagur, mars 06, 2006

Nú erum við í góðum málum lalalalala...
Innanfélagsmótið í bogfimi um seinustu helgi gekk vonum framar. Ég lenti í
þriðja sæti í mínum riðli og fékk verðlaunapening. Ég hef aldrei unnið til
slíks áður og er því mjög svo stolt af þessu afreki mínu. Eftir mótið fór ég
svo í partý með japönskunemum sem var snilldin ein að venju. Skrýtið fólk er svo
miklu skemmtilegra en fólk sem þykist alltaf vera eðlilegt. Í partýinu
fengum við kari raisu (curry rice) og eitthvað hlaup í boði sensei. Hún er
sjálf ekki hrifin af sætindum en þetta hlaup var svo sætt að það ískraði í
tönnunum á mér.

Falleg tengi?
Hélt líka saumaklúbb þar sem var loksins fundið nafn á klúbbinn. Fallegt engi varð fyrir valinu eftir miklar vangaveltur og flókna úrfellingarkeppni. Það er að
sjálfsögðu einkahúmor í hæsta veldi.

LaLAlaLAlalala...
Ég ætlaði að fara á tónleika með Diktu, Jeff who? og Days of our lives(sem ég þekki ekkert per se) en vegna leiðinda vanlíðan fór ég ekki. Sé mikið eftir því að hafa látið það eftir mér að aumingjast en maður fær víst ekki allt í lífinu.

Óskar frændi...
Árlegt óskarsverðlaunasleepoverparty Bryndísar var í nótt. Það var erfitt. Nú er ég
komin á þá skoðun að þó að sleepover og Óskarinn séu skemmtileg,þá eru þau ekki þess virði að sofa ekkert í heila nótt og þurfa svo að mæta í skólann. Núna er ég að halda mér vakandi og fer svo bara snemma í háttinn í kvöld. Það verður ágætis tilbreyting að sofa í 10 klukkutíma svona einu sinni.

Kjánaprik...
Mér tókst að eyða færslunni sem var á undan fjórum sinnum dæminu. Ég veit ekki ennþá hvernig. Og ég man ekki einu sinni hvað var í henni svo það breytir kannski engu...

laugardagur, febrúar 25, 2006

Enn og aftur...
Enn einn bloggleikurinn. Að þessu sinni var enginn sem sagði mér að gera hann, ég bara rakst á hann á einhverri síðu og langaði að taka þátt. Og já, mér leiddist og mig langaði ekki að lesa amerískar bókmenntir.

Fjórum sinnum taflan

Fjórar plötur sem ég get hlustað á aftur og aftur:
Antony & the Johnsons - I am a bird now
Damien Rice - O
Death cab for cutie - allar
Elliott Smith - allar, en samt sérstaklega XO

Fjórar bækur sem ég hef lesið oft:
Good Omens - Terry pratchett og Neil Gaiman
Narníusafnið - C.S. Lewis (lesið óteljandi oft)
Óradís - Ruth park (í algjöru uppáhaldi, lesin oftar en Narníusafnið)
Hroki og hleypidómar - Jane Austen ('95 sá ég þættina. Strax á eftir þeim las ég bókina og svo alltaf af og til)

Fjórir sjónvarpsþættir sem eru í uppáhaldi:
House M.D.
Bráðavaktin
Gilmore Girls
Little Britain

Fjórar manneskjur sem ég myndi vilja hitta:
David Hasselhoff - í fylgd með frænkunum og systurinni
George W. Bush - en yrði samt örugglega fangelsuð fyrir það sem ég myndi segja
Gilsenegger - en bara til þess að spyrja hann að þessu: Peter? Nah,was machst du hier im Island?!
Captain Jack Sparrow - ekki til í alvörunni en bíttar það nokkru máli?

Fjórar bíómyndir sem ég hef horft á oft:
Bring it on og Charlie's angels - þær eru teymi í mínum huga. Veit ekki af hverju.
Spirited Away - get alltaf horft á hana. Hún er snilld.
The Royal Tenenbaums - sama með hana. Get horft á hana hvar sem er og hvenær sem er.
Mulan - besta old-school Disney myndin

Fjögur störf sem ég hef unnið:
Afgreiðslustúlka í bakaríi
Hjúkrunarritari
Móttökuritari og tæknimaður
Þýðandi

Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Bólstaðarhlíð 62
Bólstaðarhlíð 62
Bólstaðarhlíð 62
Bólstaðarhlíð 62

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt:
Danmörk
USA
Krít og Aþena
Edinborg

Fjórir staðir sem ég vildi heldur vera á núna:
Á Waikiki ströndinni á Hawaii
Í Hlíð
Á Brimbretti í Kaliforníu
Í Noregi eða Danmörku

Fjórar heimasíður sem ég skoða daglega:
Mín eigin
Wulffmorgenthaler.com
Bíóbrot
mapquest.com - til þess að undirbúa road trip

Fjórir hlutir sem ég hlakka til:
Að fara í Road-trip
Að vera búin í Road-trip (flókið)
Að keppa í fyrsta mótinu mínu etir hálftíma
Að borða bollur á morgun

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Jájájá...
Ekki komnar þrjár vikur og ég bara búin að blogga aftur. Voða, voða dugleg.

Deluxe David...
Það var David fundur í seinustu viku. Þetta var eiginlega Jóla-David en var þó ekki með neinu jóla-ívafi. Ég veit ekki betur en óvænti glaðningurinn sem ég keypti á ebay fyrir skid og ingenting hafi bjargað mánuðinum ef ekki árinu fyrir hópinn. Ég var alla veganna ekki svikin. Það toppar enginn Hoffarann ;)! Nú er bara að redda fundi sem fyrst aftur stelpur. Hvernig væri að flytja lókalinn yfir á ykkar heimaslóðir næst? Það er alltaf gott að prufa eitthvað nýtt.

Lagið...
Er að þessu sinni Let go með Frou Frou. Það fær 7,5 af 10 mögulegum í einkunn á gæsahúðarstuðlinum og telst það bara nokkuð gott. Ekkert textabrot gefur rétta hugmynd um lagið svo ég læt það ekki fylgja með. Ef þú hefur ekki séð myndina Garden State (snilld á snilld ofan) ættirðu að gera það hið fyrsta. Ef þú hefur séð myndina en tókst ekki mikið eftir tónlistinni í henni, ættirðu annað hvort að sjá myndina aftur eða hreinlega verða þér út um soundtrack-ið úr henni. Hildigunnur á það ef þú ert í vandræðum ;) !

Bókin...
Er Zeit zu leben und Zeit zu sterben eftir Erich Maria Remarque (reyndar á ensku þar sem ég er ekki nógu sleip í þýskunni til að lesa heilu skáldsögurnar án mikillar heilaleikfimi). Frábær bók enda ekki við öðru að búast úr bókasafni afa. Eintakið sem ég á hefur verið lesið svo oft að það er að detta í sundur (kápan datt af henni í dag og ég fékk sáran sting í bókataugarnar). Ég veit ekki hvaðan titillinn er fenginn en hann minnir mig óneitanlega mikið á lagið Turn, turn, turn með The Byrds sem hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Textinn í því er sóttur í Biblíuna eins og texti Trúbrots í laginu Kærleikur (annað uppáhald) svo það virðist vera formúla sem varla bregst. Alla veganna hefur það virkað vel á mig, en ég er nú svo mikil bibliophile í mér ;) (varúð: nördahúmor!).

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Úff!
Ég trúi því ekki hvað ég hef verið löt að blogga. Eina afsökunin mín er hreinn og klár bloggleiði. Nennti bara ekki að setjast niður og skrifa. Nennti heldur ekki að setjast niður og skoða síður annarra. Það er mér, netfíklinum, ekki eðlilegt.

Jólin...
Voru svona líka glimrandi fín. Gaf margt gott, fékk margt gott og allt var eftir kúnstarinnar reglum. Heimkoma stóra bróður var algjörlega toppurinn á hátíðinni í þetta sinn. Og vegna einstaklega skemmtilegra einkunna úr jólaprófum gat árið eiginlega ekki endað betur.
Og já, ég söng á kórtónleikum um jólin líka.

Ammli...
Björg systir, Anna Lísa og Eyrún áttu allar afmæli. Til hamingju!

Japan Festival...
Nemar við japönsku skor Háskóla Íslands héldu heilmikið húllum hæ 21. janúar. Allur undirbúningurinn reyndist vera þess virði þar sem að um 500 manns létu sjá sig. Ég veit ekki hvort ég mun nokkurn tíman bera þess bætur að hafa brotið saman origami í fjóra klukkutíma samfleytt. Ef að Óskin mín hefði ekki verið að hjálpa mér veit ég ekki alveg hvernig þetta hefði endað. Hún fékk einmitt vinkonuverðlaun janúarmánaðar fyrir vikið.

Leikhús...
Amma bauð stórfjölskyldunni að sjá Túskildingsóperuna í uppfærslu Þjóleikhússins. Fínasta sýning og mér fannst mjög skemmtilegt hvernig hún var færð í nútímalegri búning. Hin uppfærslan sem ég hef séð, með nemendaleikhúsinu fyrir nokkrum árum, var í upphaflegum búningi og báðar sýningarnar standast vel samanburðinn. Það ískraði í öxlunum á mér í einu atriðinu: Fólk á ekki að geta sippað með handleggjunum á sér!

Road trip...
Við Bryndís og Eyrún erum á leið til Bandaríkjanna í apríl og ætlum að keyra um eins og vitleysingar í þrjár vikur. Fljúgum til Boston, keyrum þvert yfir Bandaríkin og aftur til Boston í gegnum Texas. Inga, Bjarney, pabbi hennar Bryndísar og Debbie verða heimsótt, óteljandi flöskur af vatni verða kláraðar, óteljandi mílur verða keyrðar(og þ.a.l. óteljandi plús óteljandi kílómetrar einnig) og óteljandi myndir verða teknar. Eitt er víst og það er að við munum þurfa frí eftir þetta frí.

Platan...
Er Death before Disco með Jeff who?. Þeir komu mér virkilega á óvart þar sem mér hefur aldrei líkað vel við einn liðsmanninn í bandinu. Ég er að reyna að hætta að láta persónulega skoðun mína á leikurum eða meðlimum hljómsveita eyðileggja hlutina fyrir mér. Og er bara vel ágengt sjá næsta...

Myndin...
Ég fór að sjá Pride & Prejudice í bíó um daginn. Ég er einlægur aðdáandi BBC þáttaraðarinnar sem sýnd var 1995 og var því ansi hrædd um að mér þætti myndin ekki nógu góð. Sérstaklega þar sem Keira Knightly fer með hlutverk Elizabeth Bennet og Mr. Darcy fer ekki með hlutverk Mr. Darcy. Vegna þessa ákvað ég að ég yrði bara að láta mér finnast myndin fín sama hvernig hún yrði. Sagan sjálf stendur jú alltaf fyrir sínu. Og viti menn, með því að láta góðvinkonu mína ekki fara í taugarnar á mér skemmti ég mér bara stórvel. Það vantaði bara að Ósk væri með á sýningunni, verandi jafnmikill aðdáandi sögunnar og ég er.

Allt komið?

mánudagur, janúar 09, 2006

Jamm og jamm og já...
Þetta er svona "færsla" eins og Dagbjörtu finnast skemmtilegastar ;). Um ekkert annað en það að það er færsla á leiðinni. Hún verður bara að fá að bíða aaaðeins betri tíma. Ekki gefast upp á mér alveg strax...