miðvikudagur, júní 21, 2006

Zurück zu Zukunft 3 minn rass...
Jæja, enn einn parturinn af ferðasögunni er tilbúinn fyrir bloggheima. Eitthvað sækjast mér skrifin nú hægt en ég ætla að reyna að herða mig. Það gengur ekki að vera lengur að skrifa ferðasöguna en ferðin sjálf tók.

Dagur 4
Að morgni dags ætlaði ég í sakleysi mínu út í bíl að ná í eitthvað. Þar sem ég opnaði dyrnar á herberginu blasti við mér undarleg sjón. Á jörðinni lá pakki með ‘German garlic sausage’ sem hafði runnið út daginn áður. Líklegast hefur gefandinn haldið að við værum þýskar (eins og svo margir aðrir í ferðinni) og viljað gleðja okkur með einhverju sem minnti okkur á föðurlandið. Bryndís tók mynd af gjöfinni og fjarlægði hana svo með aðstoð tissjús. Að morgunverði loknum (mmmmm, pakkahafragrautur!) lögðum við af stað til Salt Lake City.
Þegar við keyrðum inn í Utah fór landslagið loksins að breytast. Allt í einu voru fjöll mætt til leiks og við keyrðum mikið upp og niður til skiptis. Þegar við stoppum á bensínstöð sjáum við sprungu í framrúðunni á bílnum. Okkur fannst það skrýtið en við ákváðum að fylgjast bara með henni. Þegar við lögðum aftur af stað fór sprungan svo að stækka. Það var lítið hægt að gera annað en halda áfram að keyra. Þegar við fórum að nálgast Salt Lake City hringdum við í Thrifty, bílaleiguna okkar, og spurðum þá ráða. Þau áttu engan bíl handa okkur í Salt Lake City en buðu okkur að fá bíl daginn eftir í San Francisco. Sprungan væri hreint ekkert hættuleg meðan hún væri ekki fyrir okkur við aksturinn. Við önduðum léttar og héldum áfram að keyra. En viti menn, allt í einu varð grunsamleg þögn í bílnum. Var þá ekki ísskápurinn, með lyfjunum mínum í, steinhættur að virka. Mér var hreint ekki skemmt og leist ekkert á blikuna. En sem betur fór var ekki langt í áfangastaðinn og þegar þangað var komið brunuðum við beint út í næsta Walmart sem, ótrúlegt en satt, var bara í næstu götu. Þar skiluðum við ísskápnum og fengum nýjan, í Walmart hefur viðskiptavinurinn nefnilega ALLTAF rétt fyrir sér. Ef þú ert ósátt/ur við vöruna færðu bara nýja. Þar með héldum við að hasarnum væri lokið þann daginn og eftir ágætis kvöldverð á einhverjum lókal stað skelltum við okkur í sund á mótelinu. Þegar við komum að sundlauginni sá ég mér til mikillar gleði að þar leyndust einnig æfingatæki, þar á meðal gönguskíðavél. Svoleiðis tæki eru í miklu uppáhaldi hjá mér og að sjálfsögðu skellti ég mér á það. Stelpunum leist ekkert á svoleiðis vitleysu í fríinu og skelltu sér beint í laugina. Þar sem ég stend á tækinu skrikar mér fótur og handfangsdæmið á tækinu þeytist af öllu afli í upphandlegginn á mér og klemmir hann upp að stjórnborðinu. Ég man voða lítið eftir næstu mínútum. Ég veit að ég staulaðist inn á klósettið hjá sundlauginni og stóð þar smástund, frá mér af sársauka og ógleði. Síðan rankaði ég örlítið við mér og fór þar sem stelpurnar sátu í heita potti. Þar hnipraði ég mig saman á stól og þegar þær spurðu mig hvað væri að sagði ég ekki að ég hefði meitt mig heldur stundi ég upp: Það er rétt hjá ykkur, líkamsrækt er stórhættuleg! Eftir frekari útskýringar skellti ég mér í pottinn og svo voru teknar sundmyndir í lauginni. Morguninn eftir skartaði ég heljarinnar kolsvörtum marbletti til minningar um þetta ævintýri. Og ég er ekki frá því að það leynist örlítil dæld í upphandleggnum á mér ennþá ;).


Gönguskíðatækið er ekki þarna en þetta er engu að síður herbergið þar sem hin fólskulega árás átti sér stað


Edit: Þegar ísskápurinn bilaði fór ég alveg á taugum vegna hræðslu við að lyfin myndu skemmast svo ég, (sem var að keyra) setti loftkælinguna í kaldasta svo ekkert heitt loft kæmi neitt nálægt ísskápnum. Bryndís og Eyrún og ég sjálf vorum því að frjósa á leiðinni til Salt lake city.

When I get older, losing my hair...
Afmælishelgin var heldur betur kósí og skemmtileg. Ég fór upp í sumarbústað með fjölskyldunni og skemmti mér vel. Á þjóðhátíðardaginn var fólki boðið í mat, sem einnig taldist sem afmælismatarboðið mitt og þar át ég eins og Loki í Útgarði forðum. Á afmælisdagsmorguninn fékk ég pakka í hausinn, engin myndlíking hér á ferð: Björg þrykkti pakkanum í mig þar sem ég lá nývöknuð á dýnu við hliðina á henni. Innihald pakkans gaf þó tilefni til fyrirgefningar þar sem pils og eyrnalokkar gleðja mig alltaf. Ég er einmitt að nota bæði þegar þetta er skrifað og fíla mig svakalega pimpin'. Reyndar gaf ég mér eiginlega sjálf bestu gjöfina. Ég bjó nefnilega til matjurtagarð upp í sumarbústað, með dyggri hjálp fjölskyldunnar. Ég elska nefnilega garða þó svo ég hafi engan slíkan átt sjálf. Svo er bara að bíða og sjá hvenær afmælispartý verður haldið :)!

þriðjudagur, maí 23, 2006

Ferðasagan heldur áfram...
Það gildir sem fyrr að allar villur og rangfærslur er hægt að leiðrétta, ef ferðafélagar mínir koma auga á slíkt.

Dagur 2
Keyrslan gekk vel og ég man ekki eftir neinum sköndulum í svipinn. Helst það að þegar við komum til Lansing, Illinois þá villtist Kellingin allillilega og Eyrún keyrði í tvo stóra hringi þangað til við loksins rötuðum á mótelið. (Ég mana þig til að telja l-in í þessari setningu). Það var heldur hrörlegt og hvorki meira né minna en í frekar fátæku hverfi. Við vorum 3 af kannski 10 hvítum sem við sáum. (Reyndar voru MJÖG flott hús og bílar nokkrar götur í burtu. Við vorum bara vitlausu megin við brautarteinana svo ekki sé meira sagt). Áður en við fengum okkur að borða skunduðum við í ekta amerískt moll svo Eyrún gæti fengið amerískuna beint í æð. Þar fundum við forláta passamynda-kassa (þann eina í ferðinni) og skelltum okkur að sjálfsögðu í hann. Eftir það gerðust undur og stórmerki: Ég keypti mér Rainbow Brite náttföt! Eftir sú kaup sagðist ég geta farið heim þá og þegar. Þetta yrði ekki toppað.
Þegar við höfðum ekið nokkra hringi í viðbót ákváðum við að borða á Bennigan’s. Það hefði eflaust verið mjög skemmtileg lífsreynsla ef að sumir *hóst*ég*hóst* hefðu ekki gleymt að drekka um daginn. Ég þurr og þreytt í frekar leiðinlegu hverfi í Bandaríkjunum er ekki skemmtileg upplifun, ef þú varst að velta því fyrir þér. (Krít anyone?) Að lokum stakk Bryndís upp á því að sumir ættu kannski að hætta bara að tala sem fyrst. Sem betur fer fyrir áframhaldandi vinskap okkar þriggja tók ég það til greina og opnaði ekki munninn fyrr en ég sagði góða nótt.
Morguninn eftir fengum við morgunmat hjá hressustu konu veraldar. Það beinlínis lak af henni þjónustulundin og hún hreytti matnum ekki í okkur. Alls ekki.
Þegar við keyrðu svo burt frá þessu skúmmel Day’s Inn móteli sáum við barnaheimili í nágrenninu. Það væri svo sem ekki í frásögu færandi ef ekki væri fyrir háspennulínurnar sem mættust fyrir ofan það.

Dagur 3
Við keyrðum sem leið lá til North Platte, Nebraska. Sá bær er betur þekktur sem bærINN í ferðinni. Það gerðist allt í tengslum við þennan bæ. Í fyrsta lagi vorum við á góðum tíma og ákváðum að stoppa og fá okkur Pizza Hut í kvöldmatinn.
Fyrir þá sem ekki vita eru alls staðar við Highways og interstates svona þjónustusvæði eða litlir bæir. Áður en maður kemur að afreininni sem leiðir mann að slíkum stöðum, sér maður skilti sem segja hvað er á hverjum stað.
En aftur að Pizza Hut. Þar hittum við vinkonu okkar, hana Rhondeu. Hún var eiturhress og fannst hreimurinn okkar spes (líkt og öðrum í ferðinni, en það er önnur saga). Við vorum líka eina fólkið á staðnum svo hún hefur verið fegin að fá von um þjórfé. Pizzurnar komu eftir stutta stund en hún sagðist hafa gleymt brauðstöngunum og fór eftir þeim. Rétt fyrir sjö kom hún í hefðbundna “Hvernig bragðast þetta?” heimsókn (sem ætíð á sér stað þegar ég er nýbúin að stútfylla á mér túlann). Þegar við spurðum svo um brauðstangirnar sagði hún að þær hefðu verið gamlar og hún hefði látið búa til nýjar handa okkur. Þær kæmu að vörmu spori. Tíminn leið og sporið kólnaði en ekki kom Rhondea. Við sáum engan nema einvherja stelpu sem var að þrífa. Við vorum ekkert að flýta okkur og biðum bara sallarólegar. Reyndar þótti okkur heldur skrýtið að glösin okkar stóðu tóm í lengri tíma. Í þjórfés-samfélagi sem BNA er það mjög óalgengt. Héldum að Rhondea hefði kannski farið út á akur að skera hveitið í stangirnar. Ég skellti mér á klósettið og þegar ég kom til baka sást hvorki tangur né tetur af stöngunum. Þá vorum við komnar á það að Rhondea væri að sá hveitinu, hvaða önnur skýring gæti verið á öllum þessum töfum. Nú var klukkan orðin átta og ræstitækni-stelpan kom til okkar með reikninginn og sagðist halda að við ættum þetta. Þegar við kíktum svo á reikninginn voru brauðstangirnar þar, svart á hvítu. Þegar við svo spurðum starfsmann út í þetta kom í ljós að Rhondea var búin í vinnunni klukkan sjö og þar af leiðandi löngu farin heim. Hún hafði engum sagt frá okkur eða brauðstöngunum okkar og konurnar þarna héldu að við værum einvherjir ruglaðir útlendingar sem ætluðu bara ekkert að fara. Eftir enn eitt hláturkastið drifum við okkur út af þessum skemmtilegasta Pizza Hut stað sem ég hef nokkurn tímann farið á.
Ferðin á Howard Johnson’s Inn gekk vel og það leit ekki illa út. Og punkturinn yfir i-ið: það var sundlaug á staðnum. Við drifum okkur í bikini og röltum (í fötum yfir að sjálfsögðu) að sundlauginni. Á leiðinni sáum við kalla á öllum aldri að drekka bjór á bílastæðinu. Sitjandi í sólstólum. Á meðan við syntum og svömluðum í innanhúss lauginni var einhver gaur alltaf að labba framhjá gluggunum. Geðveikt smooth og ekkert grunsamlegur. Eftir sundið fórum við bara beint að sofa og ekki dró frekar til tíðinda þann daginn.

þriðjudagur, maí 16, 2006

Varúð! Löng færsla framundan...
Svakalegt ferðalag er á enda og það reyndist bæði æðislegt og leiðinlegt að koma heim. Hér á eftir fylgir ferðasagan, frá mínum sjónarhóli séð. Gefið er að ég gleymi einhverju og að mig misminni annað en ferðafélagar mínir verða þá bara að láta í sér heyra ;).

Formáli
Ferðin hófst, eins og flestar ferðir, í Leifsstöð. Þar var fríhafnarrúnturinn tekinn en vegna breytinga voru ýmsar búðir hreinlega horfnar. Þegar við löbbuðum í áttina að okkar hliði (sem var að sjálfsögðu eins langt í burtu frá innganginum og mögulegt er) komumst við að heldur óskemmtilegum breytingum á stöðinni. Þar er búið að koma fyrir eins konar ormagöngum sem fara þarf í gegnum til að komast að öllum hliðunum. Um leið og komið er inn í göngin er eins og maður sé í útlöndum, þetta er ekki ósvipað tilfinningunni sem hellist yfir mig þegar ég kem inn í Smáralindina. Eftir að hafa hitt mömmu mína, sem var að koma frá Brüssel, gengum við um borð í vélina. Við vorum óvenju óheppnar með sætin þar sem Eyrún sat ein í röð 17 en við Bryndís sitthvoru megin við ganginn í öftustu röð. Auk þess var vélin full af breskum skólakrökkum (13-15 ára) sem voru á stöðugu rápi fram og til baka. Ég var nú sátt við það þar sem stelpurnar sem sátu með mér voru alltaf með vinum sínum fremst í vélinni, svo ég hafði þrjú sæti fyrir mig eina. Hljóðið var líka bilað hægra megin í vélinni svo hvorki ég né Eyrún gátum horft á sjónvarpið. Sem betur fer var Terry Pratchett með í för og svo sofnaði (!) ég líka á leiðinni. Þriðja óskemmtilega atvikið í þessu flugi var það að maturinn kláraðist áður en kom að mér að fá að borða. Í staðinn fékk ég mat sem einhver af áhöfninni átti að fá og hann var heldur betri en annar flugvélamatur sem ég hef bragðað.

Boston
Þegar vélin lenti á Boston Logan fórum við Eyrún í röðina hjá vegabréfaskoðuninni. Bryndís, kaninn að tarna, fór í mun styttri röð með græna kortið sitt. Við Eyrún þurftum að bíða í klukkutíma í röðinni, í hitabrækju og blaðrandi krökkum. Þar sem við komum út hafði Bryndís gert sér lítið fyrir og náð í allar töskurnar okkar og sett á vagn. Miðað við þyngd minnar tösku einnar verður það að teljast til afreka hennar í ferðinni.

Þar sem töskurnar voru komnar á vagn fórum við beina leið niður í anddyri og hringdum á rútu frá bílaleigunni sem kom og sótti okkur eftir dálitla bið fyrir utan flugstöðina. Á bílaleigunni afgreiddi hann Harry okkur. Og þarna fyrsta kvöldið kom í ljós að það er hreint ekki slæmt að vera þrjár sætar, íslenskar stelpur einar á ferð í Bandaríkjunum. Harry hafði nefnilega unnið lengi hjá Icelandair og meira að segja komið á Klakann. Honum fannst við svo æðislegar að hann bauð okkur upp á annað hvort blæjubíl eða svakalegan Dodge Charger. Þótt blæjubíllinn hafi vissulega kitlað hégómagirndina völdum við Dodge-inn. Hann var stærri, öruggari og mun betra að keyra hann, fullvissaði Harry okkur um. Við vorum að sjálfsögðu sáttar og eftir að hafa fengið gsm númerið hjá Harry (call me if ANYthing happens...), troðið töskunum í bílinn, kveikt á GPS-tækinu og komið okkur fyrir keyrði Bryndís sem leið lá í gegnum The Big-Dig og heim til pabba síns.

Hér verður að skjóta inn að ofantalið GPS-tæki, sem við vorum fljótar að nefna Kellinguna, er algjörlega ómetanlegt í svona ferð. Ég veit ekki hversu oft við hefðum týnst og tekið vitlausa exit-a ef hennar hefði ekki notið við. Hvað þá þegar við vorum að keyra inni í borgunum. Reyndar er ég fegin, núna þegar ferðin er búin, að ég fái gott frí frá frösum eins og “Keep left”, “Keep right”, “Recalculating” og síðast en ekki síst “As soon as possible, make a U-turn”.

Róbert var að sjálfsögðu glaður að sjá okkur og bauð okkur upp á fínustu steikur. Ranch-dressingin átti sitt fyrsta innslag í ferðinni þetta kvöld og kom svo mikið við sögu þegar salöt voru annars vegar, þjónustufólki oft til mikillar undrunar. Eftir matinn endurpökkuðum við í töskurnar og fórum svo í háttinn. Morguninn eftir fór í undirbúning, fyrst fórum viðí BJ’s wholesale club, sem er Gripið og greitt í hundraðasta veldi. Eftir að hafa kvatt Róbert með knúsi í stórum pakkningum héldum við í Big-Y að klára innkaupin. Og síðan var það bara kall þjóðvegarins sem glumdi í eyrunum.

Samkvæmt frábæru skipulagi okkar byrjaði ég að keyra þennan dag. Fyrrnefnt skipulag hefur örugglega átt stóran þátt í að viðhalda geðheilsu okkar í ferðinni þar sem sætaskipan var rist í stein áður en við fórum frá Íslandi. Þannig var að ein byrjaði að keyra. Sú sem sat í farþegasætinu þurfti að vera vakandi, halda bílstjóranum vakandi með öllum tiltækum ráðum og fylgjast með Kellingunni og kortabókinni. Aftursætisdýrið mátti gera það sem henni sýndist sem oftar en ekki reyndist vera langþráður lúr með púðann góða. Þegar bílstjórinn hafði keyrt í um tvo tíma stoppuðum við á bensínstöð, pissuðum, tókum bensín og fengum okkur eitthvað að borða. Eftir stoppið fór bílstjórinn aftur í, kortamaðurinn í bílstjórasætið og aftursætisdýrið í farþegasætið. Svona gekk þetta alla ferðina og með þessu var enginn ósáttur við sitt hlutverk J.

Dagur 1
Fyrsti dagurinn gekk mjög vel, framar öllum vonum m.a.s. Þrátt fyrir dálítil vandræði á gatnamótum á leiðinni frá Big-Y keyrðum við eins og vindurinn þar til við stoppuðum til að fá okkur kvöldmat. Þá völdum við hið víðfræga veitingahús Country Pride, sem oftar en ekki er staðsett í svokölluðum TA travel center-um. Sá kvöldmatur var frekar ómerkilegur en, eins og sjá má á myndum, mjög svo seðjandi ;). Þegar við héldum aftur af stað keyrðum við þangað til við gátum ekki meira og fundum þá Days-inn motel og gistum þar. Voða fínt Days-inn, með bestu mótelum sem við gistum á í ferðinni.

Ahem...<
Ég hef farið með ósannindi. Síðurnar tvær sem ég hafði skrifað voru einungis fyrsti dagurinn í ferðinni sem og undirbúningur. Þetta verður því að teljast sem kafli 1 í ferðasögunni og þú verður bara að bíða spennt/ur eftir framhaldinu ;)!

þriðjudagur, maí 09, 2006

Jæja...
Ég kom heim fyrir viku og hef lítið gert annað en að læra, svala hittingsþorsta og skrifa ferðasöguna. Og ég er samt ekki búin með hana. Svo þessi færsla er bara svona til friða lesendur og láta þá vita að það ER færsla á leiðinni, en hún kemur líklegast ekki fyrr en eftir síðasta prófið sem er 15. maí ;)!

laugardagur, apríl 08, 2006

Say goodbye and go...
Bara örstutt færsla þar sem ég er að leggja af stað út á flugvöll eftir 2 tíma. Á bara eftir að leggja lokahönd á undirbúning, setja tannburstann í snyrtibudduna, snyrtibudduna í töskuna og svoleiðis. Ætli við reynum ekki að finna net-kaffihús einhvers staðar á leiðinni svo þið farið nú ekki að hafa áhyggjur ;). Og ég get lofað rosalegu eftir-Road trip bloggi þegar við komum heim. Á ekki færri en þremur bloggsíðum. Svo þið bíðið bara spennt :)!

þriðjudagur, mars 28, 2006

Pffff...
Ég er hundveik. Ég var að stíga upp úr kvefpest þegar að flensan stakk mig í bakið í dimmu húsasundi. Hvers á ég að gjalda? En maður verður nú samt að líta á björtu hliðarnar á þessu sem öllu öðru. Núna hef ég tvær vikur til að jafna mig áður en Ameríkuferðin mikla hefst. Og ég tek sko ekki í mál að vera veik úti. Það er bara ekki séns í helvíti.

Dream a little dream of me...
Nú segi ég draumfarir mínar ekki sléttar. Þrátt fyrir að mig dreymi venjulega mjög óvenjulega drauma þá finnst mér þetta nú einum of. Draumurinn sem mig dreymdi í fyrrinótt nær næstum því að toppa Star Trek drauminn fræga. Þannig er mál með vexti að ég var skyndilega stödd í útlöndum. Einhverra hluta vegna var ég viðstödd blaðamannafund hjá norsku konungsfjölskyldunni þar sem Georgiana, litla systir Mette Marit (sem á held ég enga systur) var að koma út úr skápnum. Ókei, fínt bara. Hún var búin að vera að slá sér upp með Viktoríu Svíaprinsessu og mamma hennar var ekki sátt. Þegar fundurinn var búinn ákvað ég að labba heim. Allt í einu var ég komin á leikvöllinn hjá Breiðagerðisskóla og þar var fjöldinn allur af þrífættum kanínum með sólgleraugu hoppandi og skoppandi. Leggur einhver í að túlka hvað þessi steypa þýðir?

Yearly hightide?
Árshátíð Aisukuriimu, félags japönskunema, var haldin um daginn. Það var mega skemmtilegt. Ég dansaði næstum því af mér lappirnar og söng næstum því úr mér raddböndin. Nú þarf ég bara að fá að sjá vidjóið sem var tekið og hlæja mig máttlausa. Vondudansakeppnin blívur.

mánudagur, mars 06, 2006

Nú erum við í góðum málum lalalalala...
Innanfélagsmótið í bogfimi um seinustu helgi gekk vonum framar. Ég lenti í
þriðja sæti í mínum riðli og fékk verðlaunapening. Ég hef aldrei unnið til
slíks áður og er því mjög svo stolt af þessu afreki mínu. Eftir mótið fór ég
svo í partý með japönskunemum sem var snilldin ein að venju. Skrýtið fólk er svo
miklu skemmtilegra en fólk sem þykist alltaf vera eðlilegt. Í partýinu
fengum við kari raisu (curry rice) og eitthvað hlaup í boði sensei. Hún er
sjálf ekki hrifin af sætindum en þetta hlaup var svo sætt að það ískraði í
tönnunum á mér.

Falleg tengi?
Hélt líka saumaklúbb þar sem var loksins fundið nafn á klúbbinn. Fallegt engi varð fyrir valinu eftir miklar vangaveltur og flókna úrfellingarkeppni. Það er að
sjálfsögðu einkahúmor í hæsta veldi.

LaLAlaLAlalala...
Ég ætlaði að fara á tónleika með Diktu, Jeff who? og Days of our lives(sem ég þekki ekkert per se) en vegna leiðinda vanlíðan fór ég ekki. Sé mikið eftir því að hafa látið það eftir mér að aumingjast en maður fær víst ekki allt í lífinu.

Óskar frændi...
Árlegt óskarsverðlaunasleepoverparty Bryndísar var í nótt. Það var erfitt. Nú er ég
komin á þá skoðun að þó að sleepover og Óskarinn séu skemmtileg,þá eru þau ekki þess virði að sofa ekkert í heila nótt og þurfa svo að mæta í skólann. Núna er ég að halda mér vakandi og fer svo bara snemma í háttinn í kvöld. Það verður ágætis tilbreyting að sofa í 10 klukkutíma svona einu sinni.

Kjánaprik...
Mér tókst að eyða færslunni sem var á undan fjórum sinnum dæminu. Ég veit ekki ennþá hvernig. Og ég man ekki einu sinni hvað var í henni svo það breytir kannski engu...

laugardagur, febrúar 25, 2006

Enn og aftur...
Enn einn bloggleikurinn. Að þessu sinni var enginn sem sagði mér að gera hann, ég bara rakst á hann á einhverri síðu og langaði að taka þátt. Og já, mér leiddist og mig langaði ekki að lesa amerískar bókmenntir.

Fjórum sinnum taflan

Fjórar plötur sem ég get hlustað á aftur og aftur:
Antony & the Johnsons - I am a bird now
Damien Rice - O
Death cab for cutie - allar
Elliott Smith - allar, en samt sérstaklega XO

Fjórar bækur sem ég hef lesið oft:
Good Omens - Terry pratchett og Neil Gaiman
Narníusafnið - C.S. Lewis (lesið óteljandi oft)
Óradís - Ruth park (í algjöru uppáhaldi, lesin oftar en Narníusafnið)
Hroki og hleypidómar - Jane Austen ('95 sá ég þættina. Strax á eftir þeim las ég bókina og svo alltaf af og til)

Fjórir sjónvarpsþættir sem eru í uppáhaldi:
House M.D.
Bráðavaktin
Gilmore Girls
Little Britain

Fjórar manneskjur sem ég myndi vilja hitta:
David Hasselhoff - í fylgd með frænkunum og systurinni
George W. Bush - en yrði samt örugglega fangelsuð fyrir það sem ég myndi segja
Gilsenegger - en bara til þess að spyrja hann að þessu: Peter? Nah,was machst du hier im Island?!
Captain Jack Sparrow - ekki til í alvörunni en bíttar það nokkru máli?

Fjórar bíómyndir sem ég hef horft á oft:
Bring it on og Charlie's angels - þær eru teymi í mínum huga. Veit ekki af hverju.
Spirited Away - get alltaf horft á hana. Hún er snilld.
The Royal Tenenbaums - sama með hana. Get horft á hana hvar sem er og hvenær sem er.
Mulan - besta old-school Disney myndin

Fjögur störf sem ég hef unnið:
Afgreiðslustúlka í bakaríi
Hjúkrunarritari
Móttökuritari og tæknimaður
Þýðandi

Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Bólstaðarhlíð 62
Bólstaðarhlíð 62
Bólstaðarhlíð 62
Bólstaðarhlíð 62

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt:
Danmörk
USA
Krít og Aþena
Edinborg

Fjórir staðir sem ég vildi heldur vera á núna:
Á Waikiki ströndinni á Hawaii
Í Hlíð
Á Brimbretti í Kaliforníu
Í Noregi eða Danmörku

Fjórar heimasíður sem ég skoða daglega:
Mín eigin
Wulffmorgenthaler.com
Bíóbrot
mapquest.com - til þess að undirbúa road trip

Fjórir hlutir sem ég hlakka til:
Að fara í Road-trip
Að vera búin í Road-trip (flókið)
Að keppa í fyrsta mótinu mínu etir hálftíma
Að borða bollur á morgun

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Jájájá...
Ekki komnar þrjár vikur og ég bara búin að blogga aftur. Voða, voða dugleg.

Deluxe David...
Það var David fundur í seinustu viku. Þetta var eiginlega Jóla-David en var þó ekki með neinu jóla-ívafi. Ég veit ekki betur en óvænti glaðningurinn sem ég keypti á ebay fyrir skid og ingenting hafi bjargað mánuðinum ef ekki árinu fyrir hópinn. Ég var alla veganna ekki svikin. Það toppar enginn Hoffarann ;)! Nú er bara að redda fundi sem fyrst aftur stelpur. Hvernig væri að flytja lókalinn yfir á ykkar heimaslóðir næst? Það er alltaf gott að prufa eitthvað nýtt.

Lagið...
Er að þessu sinni Let go með Frou Frou. Það fær 7,5 af 10 mögulegum í einkunn á gæsahúðarstuðlinum og telst það bara nokkuð gott. Ekkert textabrot gefur rétta hugmynd um lagið svo ég læt það ekki fylgja með. Ef þú hefur ekki séð myndina Garden State (snilld á snilld ofan) ættirðu að gera það hið fyrsta. Ef þú hefur séð myndina en tókst ekki mikið eftir tónlistinni í henni, ættirðu annað hvort að sjá myndina aftur eða hreinlega verða þér út um soundtrack-ið úr henni. Hildigunnur á það ef þú ert í vandræðum ;) !

Bókin...
Er Zeit zu leben und Zeit zu sterben eftir Erich Maria Remarque (reyndar á ensku þar sem ég er ekki nógu sleip í þýskunni til að lesa heilu skáldsögurnar án mikillar heilaleikfimi). Frábær bók enda ekki við öðru að búast úr bókasafni afa. Eintakið sem ég á hefur verið lesið svo oft að það er að detta í sundur (kápan datt af henni í dag og ég fékk sáran sting í bókataugarnar). Ég veit ekki hvaðan titillinn er fenginn en hann minnir mig óneitanlega mikið á lagið Turn, turn, turn með The Byrds sem hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Textinn í því er sóttur í Biblíuna eins og texti Trúbrots í laginu Kærleikur (annað uppáhald) svo það virðist vera formúla sem varla bregst. Alla veganna hefur það virkað vel á mig, en ég er nú svo mikil bibliophile í mér ;) (varúð: nördahúmor!).

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Úff!
Ég trúi því ekki hvað ég hef verið löt að blogga. Eina afsökunin mín er hreinn og klár bloggleiði. Nennti bara ekki að setjast niður og skrifa. Nennti heldur ekki að setjast niður og skoða síður annarra. Það er mér, netfíklinum, ekki eðlilegt.

Jólin...
Voru svona líka glimrandi fín. Gaf margt gott, fékk margt gott og allt var eftir kúnstarinnar reglum. Heimkoma stóra bróður var algjörlega toppurinn á hátíðinni í þetta sinn. Og vegna einstaklega skemmtilegra einkunna úr jólaprófum gat árið eiginlega ekki endað betur.
Og já, ég söng á kórtónleikum um jólin líka.

Ammli...
Björg systir, Anna Lísa og Eyrún áttu allar afmæli. Til hamingju!

Japan Festival...
Nemar við japönsku skor Háskóla Íslands héldu heilmikið húllum hæ 21. janúar. Allur undirbúningurinn reyndist vera þess virði þar sem að um 500 manns létu sjá sig. Ég veit ekki hvort ég mun nokkurn tíman bera þess bætur að hafa brotið saman origami í fjóra klukkutíma samfleytt. Ef að Óskin mín hefði ekki verið að hjálpa mér veit ég ekki alveg hvernig þetta hefði endað. Hún fékk einmitt vinkonuverðlaun janúarmánaðar fyrir vikið.

Leikhús...
Amma bauð stórfjölskyldunni að sjá Túskildingsóperuna í uppfærslu Þjóleikhússins. Fínasta sýning og mér fannst mjög skemmtilegt hvernig hún var færð í nútímalegri búning. Hin uppfærslan sem ég hef séð, með nemendaleikhúsinu fyrir nokkrum árum, var í upphaflegum búningi og báðar sýningarnar standast vel samanburðinn. Það ískraði í öxlunum á mér í einu atriðinu: Fólk á ekki að geta sippað með handleggjunum á sér!

Road trip...
Við Bryndís og Eyrún erum á leið til Bandaríkjanna í apríl og ætlum að keyra um eins og vitleysingar í þrjár vikur. Fljúgum til Boston, keyrum þvert yfir Bandaríkin og aftur til Boston í gegnum Texas. Inga, Bjarney, pabbi hennar Bryndísar og Debbie verða heimsótt, óteljandi flöskur af vatni verða kláraðar, óteljandi mílur verða keyrðar(og þ.a.l. óteljandi plús óteljandi kílómetrar einnig) og óteljandi myndir verða teknar. Eitt er víst og það er að við munum þurfa frí eftir þetta frí.

Platan...
Er Death before Disco með Jeff who?. Þeir komu mér virkilega á óvart þar sem mér hefur aldrei líkað vel við einn liðsmanninn í bandinu. Ég er að reyna að hætta að láta persónulega skoðun mína á leikurum eða meðlimum hljómsveita eyðileggja hlutina fyrir mér. Og er bara vel ágengt sjá næsta...

Myndin...
Ég fór að sjá Pride & Prejudice í bíó um daginn. Ég er einlægur aðdáandi BBC þáttaraðarinnar sem sýnd var 1995 og var því ansi hrædd um að mér þætti myndin ekki nógu góð. Sérstaklega þar sem Keira Knightly fer með hlutverk Elizabeth Bennet og Mr. Darcy fer ekki með hlutverk Mr. Darcy. Vegna þessa ákvað ég að ég yrði bara að láta mér finnast myndin fín sama hvernig hún yrði. Sagan sjálf stendur jú alltaf fyrir sínu. Og viti menn, með því að láta góðvinkonu mína ekki fara í taugarnar á mér skemmti ég mér bara stórvel. Það vantaði bara að Ósk væri með á sýningunni, verandi jafnmikill aðdáandi sögunnar og ég er.

Allt komið?

mánudagur, janúar 09, 2006

Jamm og jamm og já...
Þetta er svona "færsla" eins og Dagbjörtu finnast skemmtilegastar ;). Um ekkert annað en það að það er færsla á leiðinni. Hún verður bara að fá að bíða aaaðeins betri tíma. Ekki gefast upp á mér alveg strax...

laugardagur, desember 17, 2005

Ertu geim?
Nú tröllríður þessi spurningalisti flestum bloggsíðum sem ég hef farið á. Ég hef fengið svör um mig hjá Dagbjörtu, Eyrúnu og Atla Viðari. Á síðu þess síðastnefnda er sagt að maður verði að setja listann upp á sinni eigin síðu og ekki get ég skorast undan því.

Kommentaðu í kommentakerfið og:
1. Ég segi þér eitthvað handahófskennt um þig
2. Ég segi þér hvaða lag/mynd minnir mig á þig
3. Ég segi þér hvaða bragð/matur minnir mig á þig
4. Ég segi þér fyrstu ljósu minninguna mína af þér eða þá eftirminnilegustu
5. Ég segi þér hvaða dýr þú minnir mig á
6. Ég spyr þig að einhverju sem ég hef velt fyrir mér lengi um þig
7. Ef þú lest þetta verðuru að setja þetta á bloggið þitt

Hvernig er það...
Á ekkert að taka eftir breytingunum á blogginu? Mig langar alveg að vita hvernig þér finnst beinin mín koma út ;)!

mánudagur, desember 05, 2005

...

Ég er bara orðlaus. Horfðu og hlæðu að þessu. Tónlist er algjört möst!

Edit: Það virðist bera búið að taka þetta niður á mínum link. Prófið þennan hérna.

föstudagur, desember 02, 2005

Er klukkan orðin jæja?
Það gerist stundum að ég hef frá svo miklu að segja að ég kem því ekki frá mér. Ég hef sest niður níu sinnum staðráðin í því að koma ferðasögunni og öðru 'niður á blað' en allt kom fyrir ekki. Bloggstíflan herjaði á mig og virtist ekkert ætla að láta undan. En viti menn! Upplestrarfríið kom mér til bjargar líkt og riddarinn á hvíta hestinum. Því hvað gerir maður ekki frekar en að læra fyrir próf?

America: Fuck yeah!
Við Bryndís lögðum af stað þann 10. nóvember síðast liðinn í heimsókn til pabba hennar í Kanalandi. Flugferðin með flugvélinni Bryndísi var leiðinleg, löng, heit og ókyrr en Charlie & the Chocolate Factory kom okkur til bjargar. Hvað er málið með að hafa ekki nóg af drykkjum til staðar í flugvél? Það er ekki eins og maður geti bara skroppið út í sjoppu og keypt sér vatn á miðri leið. Róbert tók á móti okkur og eftir að hafa borðað á Piccadilly pub þar sem "the Piccadilly gift card is the right'pic'!" (physically painful) fórum við að sofa. Það sem gerðist næstu daga er hægt að segja í örfáum orðum: kapítalisminn í sínu æðsta formi. Já, það var keypt, keypt og keypt. Í mínum töskum á leiðinni heim var t.d.= ný myndavél :), kærleiksbjörn(af því ég er 5 ára), föt fyrir næstu árin og fallegasti kjóll í geimi. Auk annars góðgætis. Róbert eldaði fyrir okkur eitt kvöldið og það var einhver besti matur sem ég hef borðað. Filet mignoin (sp?), bakaðar kartöflur og Ranch dressing. Namminamminamm. Og ekki má gleyma elsku Walmart, Best buy og BigY sem að sjálfsögðu voru heimsótt. Einhverjir strákar hlógu að mér þegar ég faðmaði hillur í BigY. Ég þyki greinilega eðlileg í Ameríku...

Viltu sjá læknamistök?
Reyndar er ekkert um læknamistök að ræða. Meira bara lýsandi dæmi um líf mitt almennt og hversu gasalega heppin ég er alltaf ;). Fyrir þá sem ekki vita þá fékk ég nýtt gigtarlyf í sumar. Lyf sem er gefið í æð á átta vikna fresti. Það virkaði svona líka ljómandi vel eins og ég hef áður lýst, t.d. gekk ég á Helgafell í Mosfellsdalnum í sumar sem var mikið afrek. En að kjarna málsins: Í síðustu lyfjagjöf fékk ég bráðaofnæmi fyrir lyfinu góða og má því ekki fá það meir. Enda finnst mér gott að geta andað og kæri mig ekkert um lyf sem lokar á mér öndunarveginum (sástu House í gær? hrollur, hrollur) :). En ekki er öll nótt úti enn, bráðum fæ ég nýtt lyf sem verður bara miklu, miklu betra (krossa putta og allar tær). Er það ekki bara málið?

Girls on film...
Nánar um nýja barnið mitt: Hún heitir Canon eos 350D og er bjútífúl. Það er svo mikið af fítusum í henni að ég er ekki hálfnuð með að læra á þá alla. Ég skemmti mér konunglega við að taka myndir af mismygluðu fólki í kringum mig.


bjútífúl


Tónlistin...
Hljómsveitin er ennþá Death cab for cutie enda eðalband þar á ferð. Platan er Transatlantism sem er fyrri plata þeirra. Ég get ekki gert upp á milli Plans og Transatlantism, þær eru báðar svo góðar. Lagið What Sarah said er af plötunni Plans. Ég veit ekki hvað það er við það sem mér líkar svona vel. Hvað sem það er þá er þetta uppáhalds lagið í dag:

What Sarah said
And it came to me then that every plan
is a tiny prayer to Father time
As I stared at my shoes in the ICU
that reeked of piss and 409
And I rationed my breaths 'cause I said to myself
that I'd already taken too much today
As each descending peak on the LCD
took you a little farther away from me

Amongst the vending machines and the year-old magazines
in a place where we only say goodbye
It stung like a violent wind that our memories depend
on a faulty camera in our minds
But I knew that you were a truth I would rather lose
than to have never lain beside at all
And I looked around at all the eyes on the ground
as the TV entertained itself

'Cause there's no comfort in the waiting room
Just nervous pacers bracing for bad news
Then the nurse comes round
and everyone lifts their heads
But I'm thinking of what Sarah said:
"Love is watching someone die."

So who's gonna watch you die?

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Karókí...
Í gær fór ég í fyrsta sinn í partý með japönskunemum. Fyrst var matarboð þar sem japanskur mautr var á boðstólum. Dálítið mikill fiskur fyrir minn smekk en ramenið bætti það algjörlega upp. Kennararnir okkar og tveir japanskir skiptinemar voru með í boðinu og ekki var annað að sjá en að þau skemmtu sér vel. Ég held að Umezawa sensei hafi verið sérstaklega upprifin þegar Diðrik san og Steinn san tóku One með Metallica og við þurftum að loka þá inni í herbergi til að bjarga hljóðhimnunum. Karókí síðan sló algjörlega í gegn og sérstaklega fór Kuma san á kostum. Öllum til mikillar gleði fór hann samt ekki úr buxunum þegar hann söng Total eclipse. Í falsettu might I add. Okkur tókst meira að segja að fá Umezawa sensei til að syngja eitt lag með okkur. Yukiko beilaði því miður...


Þetta eru strákar úr japönskunni, þeir Louise, Ben og Dóri vicegrip. Eins og sést eru þeir Selfyssingar í húð og hár og Hyundai-inn hans Louise er með þrjá spoilera. Tvo að aftan og einn að framan.


Lagið...
...er I will follow you into the dark með sveitinni Death cab for cutie. Það gerir mig svo mushy inni í mér.

You and me we've seen everything to see
From Bangkok to Calgary and the soles of your shoes
Are all worn down: the time for sleep is now
But it's nothing to cry about
'Cause we'll hold each other soon in the blackest of rooms

But if heaven and hell decide that they both are satisfied
And illuminate the NOs on their vacancy signs
If there's no one beside you when your soul embarks
Then I'll follow you into the dark

miðvikudagur, október 26, 2005

Bird Gehrl...
Mér finnst ég frjáls eins og fuglinn því miðannarpróf eru á enda. Nú þarf ekki að læra fyrir nein stór próf fyrr en í desember sem er bara endalaus hamingja! Verst að jólaprófin standa sem hæst þegar bróðir vor mætir á Klakann en það verður bara að hafa það.

Back to the middle of nowhere...
Vegna tímaskorts hef ég eingöngu horft á tvær af nýju myndunum mínum. Nausicaä og Kiki urðu fyrir valinu og stóðu algjörlega undir væntingum mínum til þeirra. Reyndar fær maður nett á tilfinninguna að þeir hafi verið of seinir með skilin og bara skellt endanum einhvern veginn á Nausicaä. Ætli mér finnist það ekki bara vegna þess að ég hef lesið bækurnar og ætlaðist þess vegna til að myndin fylgdi sömu sögu. Hvernig sem það er þá mæli ég með þessum myndum fyrir alla. Þær eru jette kjul!

Beeeeestur í ööööllum heiiiiminum...
Ætli ég hafi ekki gert margt skemmtilegt núna seinustu vikur. Verst að ég man ekkert eftir því hvað það var. Skemmtilegt er ekki það sama og merkilegt eftir allt saman. Reyndar plönuðum við Bryndís afmæli fyrir selinn en öll plönin enduðu í útaðborða á Friday's (með stjörnuljósaafmælisís) og í bíó á Wallace & Gromit. Ekki var annað að sjá en að kappinn væri vel sáttur með herlegheitin og spiladósinni frá okkur var vel tekið. Eyrún kom með og var sérlegur hnýta-trefil-fyrir-augun umsjónarmaður kvöldsins.

Lagið...
Þessa dagana er það Both sides now með Joni Mitchell. Alls ekki í meðförum Hildar Völu. Ég bara get ekki tekið hana alvarlega þegar hún syngur um hvað ástin og lífið séu erfið viðureignar. Röddin hennar er bara ekki nógu hrjúf og svo flækist spékoppurinn eitthvað fyrir mér líka. Er hún ekki bara of sweet, greyið?

laugardagur, október 15, 2005

Góðar fréttir...
Nær algjörlega skemmtanalaus vika skilar sínu. Haldiði ekki að ég hafi fengið 9,5 á miðannar-prófi í Breskum bókmenntum!!! Heillaóskir og peningargjafir eru vel þegnar ;).

...á góðar fréttir ofan
Í fyrradag fékk ég langþráða sendingu frá Asíulöndum fjær. Þetta er pakki frá anime_dvd_club sem seldi mér Studio Ghibli safn af tólf myndum eftir Hayao Miyazaki. Hann er einmitt einn af uppáhalds leikstjórunum mínum, svo nú horfi ég á sjónvarp mér til óbóta. Þ.e.a.s. eftir að öllum prófum er lokið í næstu viku :/!

Heaven can wait we're only watching the skies...
Lagið er Forever Young með Youth Group. Mér er sagt að það sé spilað í seríu þrjú af OC. Gaman að því.

mánudagur, október 10, 2005

Jibbý-kóla...
Ég fæ að fara í tvö próf sama dag. Gleði, gleði, gaman.

sunnudagur, október 09, 2005

Stjarnfræðilega gaman...
Þetta var læri-helgi vetrarins hingað til. Ég held ég hafi aldrei áður verið heima á föstudagskvöldi til að læra fyrir próf. Alla veganna ekki síðan í MR. Ég er mjög ánægð með hversu dugleg ég er og ætlaði að verðlauna sjálfa mig með því að fara á Howl's moving castle í gær. En nei, það var uppselt og þetta var síðasta sýningin. Þ.a.l. fór ég bara heim að læra og var extra dugleg. En viti menn, það kom sér vel að ég hafði lært aukalega um daginn því mér var "boðið" í stjörnuskoðun við Þingvelli. Það var í einu orði sagt: MAGNAÐ! Ætli það sé ekki bara ein besta upplifun lífs míns að fá að skoða stjörnurnar í gegnum alvöru kíki, með fólk í kring sem gat útskýrt allt sem ég velti vöngum um. Mér var m.a. sýnt hvar og hvernig stjörnumerkið tvíburinn er og ég vonast til að hitta það afur á förnum vegi (nú eða stjörnubjartri nóttu). Takk fyrir mig, strákar :).


laugardagur, október 08, 2005

I'm a bird now...
Heldurðu að það sé! Ég bara steingleymi að minnast á mín bestu kaup nýverið. Ég náði, með því að hertaka kennaratölvuna (þó ekki frá Umezawa sensei, því hefði ég ekki þorað), að festa kaup á tveimur miðum á aukatónleikana með Antony & the Johnsons. Ég missti af miðum á fyrri tónleikana þar sem ég komst ekki í tölvu fyrr en 20 mínútum eftir að miðarnir seldust upp. Nú hef ég þó bætt fyrir svekkelsið og er það vel.