Kreppuhúmor...
Ég hló næstum því upphátt í lessalnum í skólanum við að lesa frétt um ferð Hjaltalín(s?) til London. Þar mælti Sigríður Thorlacius, söngkona sveitarinnar:
„Viktor ætlar að taka með bollasúpu, svo við verðum með bæði bollasúpur og samlokur. Verst að við getum ekki tekið með okkur vatn í flugið. Nú dugar ekkert annað en að vera með nesti og hlýja skó. Allavega ekki nýja skó. Það hefur enginn efni á nýjum skóm."
Það er sko ókeypis að hlægja, sjáðu til.
miðvikudagur, október 08, 2008
föstudagur, september 26, 2008
Bloggþörfin...
...kom mér á óvart rétt í þessu. Skyndilega þurfti ég bara að skella nokkrum orðum inn og tjá mig eitthvað á veraldarvefnum. Þetta mætti nú alveg gerast oftar. Verra er að komið var að sækja mig í miðjum klíðum svo þetta er opinberlega í fyrsta skipti sem ég blogga á ferð í bíl :). Stór stund í lífi allra bloggara.
Aðalástæðan fyrir þessu bloggi er samt eftirfarandi linkur: McDonalds kemur ekki á óvart. Ef þú getur farið á McDonalds eftir að hafa lesið þessa grein þá ertu eitthvað mis.
þriðjudagur, júlí 15, 2008
Að heiman...
Engin ferðasaga enn, en tilkynning um frekari ferðalög í staðinn :). Ég er nefnilega að leggja í ferð um fagra Ísland á morgun. Með í för verður Ásgerður og gríðarstóra tjaldið hennar. Þetta verður megastuð því hvorug okkar hefur farið hringinn í fjöldamörg ár. Auk þess förum við í heimsókn til Ceciliu og ef heppnin er með mér hitti ég fleira skemmtilegt fólk á leiðinni. Hafið það gott í bænum, útlandi eða hvar sem þið haldið ykkur. Sé ykkur ekki fyrr en 25. ágúst :)!
laugardagur, júní 21, 2008
Heima...
Það er gott að vera komin heim. Þrátt fyrir að ég hafi einungis verið í Philly í eina viku var ég alveg búin á því þegar flugvélin lenti í gærmorgun. Allt skipulagið og stressið í kringum brúðkaupið hefur eflaust átt sinn þátt í því. Þetta var svakalega skemmtileg upplifun og vonandi get ég gefið sjálfri mér nógu gott spark í rassinn á næstu dögum til að segja nánar frá ferðinni á þessari síðu. Þar sem ég gat ekki tekið myndir sjálf í athöfninni, og var mest að pæla í að taka video á nýju kameruna mína út ferðina, verð ég víst að leita annarra leiða til að redda myndum af brúðhjónunum og svo okkur Björgu í kjólunum alræmdu. Þær finnast eflaust en það tekur bara lengri tíma :).
Og já, ég er formlega orðin Kristín Guðmundsdóttir B.A. eins og stendur á umslaginu sem geymir nýprentaða skírteinið mitt úr HÍ. Varð líka kvartaldargömul í vikunni. Stór mánuður hjá mér og mínum. Ef þú ert svo heppin/n að vera vinur/vinkona mín máttu eiga von á boðskorti í eitthvað húllumhæ. Ef þú telur þig eiga slíkt boðskort inni en færð það ekki sent máttu láta mig vita, ég er nefnilega ennþá utan við mig eftir ferðina og þjáist einnig af þotuþreytu (mjög skemmtilegt orð sem ég legg mig í líma við að nota).
fimmtudagur, maí 22, 2008
Húrra! Húrra! Húrra!
Klukkan 15:05 í dag, 22. maí árið 2008 skilaði ég BA-ritgerðinni minni í ensku við Hí. Það leið næstum því yfir mig af feginleik þegar ég skutlaði henni í hólf leiðbeinandans. Nú þarf ég ekkert að hugsa um hana meir...þ.e.a.s. þangað til einkunnin kemur í hús ;)! Ég veit reyndar ekki hvenær það verður...
Þegar ég er búin að jafna mig á þessu margra vikna ritgerðar-stressi kemur ferðasagan frá London beinustu leið hingað inn. Endilega bíðið spennt.
Með lingóið á hreinu...
MSN-samtal við föður minn, 57 ára. Umræðuefnið er áðurnefnd skil á BA-ritgerð:
Gudmundur Ingi says:
okkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkeiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii til lukku í krukkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkkku
Kristín - bloggar á ný says:
taaaaaaakkkkkk
Kristín - bloggar á ný says:
steik
Gudmundur Ingi says:
hvað er í steik?
Kristín - bloggar á ný says:
þú ert steik. Þú ert steiktur, þeas heilinn á þér er steiktur og þess vegna ertu svona klikk.
Gudmundur Ingi says:
þú ert leim
Hann klikkar ekki á smáatriðunum!
fimmtudagur, maí 01, 2008
LOLcats
Í prófum eða verkefnaskilum virðist það alltaf hittast þannig á að maður finnur sér eitthvað nýtt og spennandi internetdæmi til að eyða dýrmætum tíma sínum. Í þetta skiptið uppgötvaði ég LOLcats, sem ég hafði rekist á áður en ekki vitað hvað var. LOLcats er þegar maður tekur mynd, sérstaklega af dýrum, og skrifar texta á hana með vitlausri ensku. Textinn verður að vera hvítur með svörtum útlínum og enskan verður að vera rétt vitlaus. Hljómar furðulega en er alveg óendanlega fyndið. Tjékkaðu á ICHC og skemmtu þér vel.
Svo fyndið
þriðjudagur, apríl 22, 2008
mánudagur, apríl 14, 2008
sunnudagur, apríl 13, 2008
Reverent so I accept, doubtful because I revere...
Ég hefði haldið að ég yrði æst í að blogga, svona svo ég hefði enga ástæðu til að vera að læra. Ég virðist samt hafa vitkast eitthvað í seinni tíð þar sem þessu hefur verið öfugt farið þetta vorið. En betur má ef duga skal því skiladagurinn á BA-ritgerðinni er 2. maí og það er mikil vinna eftir.
Í saumaklúbb sem ég var með í gær tengdi ég mynda-slideshow við sjónvarpið og sýndi skvísunum. Nú finnst mér yfirhöfuð gaman að skoða myndir, en skemmtunin er tíföld þegar allir geta horft á sömu myndina í einu og hlegið saman. Það er víst að þetta verður endurtekið sem fyrst og þá með ennþá fleiri myndum. Og jafnvel réttri tónlist...
Í öðrum fréttum er ég ennþá algjörlega hooked á gripnum í færslunni hér að neðan. Mér hefur reyndar tekist ótrúlega vel að halda mig frá honum þegar ég á að vera að læra. Fer bara á fyllerí þegar ritgerðar-skil og próf eru yfirstaðin.
Og fyrir tónlistarunnendur: Tjékkið á plötunni The Reminder með Feist. Hún er söngkonan úr Broken Social Scene og þessi þriðja (að ég held) sólóplata hennar kemur vel út. Reyndar finnst mér hún kannski ekki í nægu jafnvægi þegar kemur að stemningunni í lögunum. Þeim er raðað mjög skringilega með tilliti til þess hvort þau eru róleg eða hröð. Lögin eru öll mjög skemmtileg, en það pirrar mig stundum að hlusta á plötuna í heild sinni. Engu að síður er einstaklega gaman að syngja með völdum lögum þegar maður loksins lærir textana :). Hægt er að heyra nokkur lög í fullri lengd á myspace music síðu hennar.
þriðjudagur, apríl 01, 2008
1. apríl!
Ég get ekki toppað það að hafa gabbað Bryndísi í fyrra svo ég ætla ekki einu sinni að reyna :).
Fór í boði Maríu á Stóra planið á föstudagskvöldið. Hún var hin besta skemmtun, þægilega súr og vandræðalegur húmor. Var reyndar dálítið of grátbrosleg á köflum þar sem persónunum var svo mikil vorkunn að ekki var hægt að hlæja að þeim. Mæli engu að síður með henni.
Í fréttum er þetta helst...
Nördinn í mér er glaður þessa dagana. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að ég keypti Nintendo DS lite handa sjálfri mér. Upphaflega átti það að vera jólagjöf en æxlaðist öðruvísi.
Ég geri bara ráð fyrir að þú sért ekki alveg með á nótunum og vitir ekki hvað DS er. Gripurinn er sem sagt nýjasta kynslóðin af Gameboy leikjatölvunni og er alveg svakalega skemmtilegt tæki. Neðri skjárinn er snertiskjár og í mörgum leikjum notar maður takkana ekki neitt, bara pennann sem fylgir með.
En skemmtunin er líklegast ekki bestuð fyrr en maður kaupir svona kubb eins og ég, sem gerir mér kleift að spila *hóst*niðurhalaða*hóst* leiki og einnig video og tónlist í tækinu. Ekki amaleg nýting það. Næstu flugferðir verða í það minnsta fljótar að líða með heldur minni hræðslu en venjulega ;). Og ef þú veist eitthvað um þetta og lumar á hugmyndum um skemmtilega leiki máttu gjarnan segja mér frá næst þegar við hittumst.
fimmtudagur, mars 20, 2008
This is one doodle that can't be un-did, Homeskillet...
Mánudagur er hreint ekki til mæðu hjá mér. Nýliðinn slíkur var síður en svo undantekning á þeirri reglu. Fyrir utan vikulegan hádegismat með Bryndísi, þar sem við hittum hálfa Reykjavík eða í það minnsta hálfan árgang úr MR, kom Dagbjört til sögunnar og gerði það að verkum að þessi tiltekni mánudagur varð hálfævintýralegur.
Í fyrsta lagi fékk ég að fara með henni í Blóðbankann. Hversu kúl er það? Ég geri ekki ráð fyrir að eiga þangað erindi aftur, þó ég vildi gjarnan hafa það öðruvísi, þannig að þetta var þvílíkt stuð. Það kemur í ljós að nálastungur og blóðtökur eru mjög spennandi þegar viss skilyrði eru uppfyllt. Og takið eftir, því þetta er mikilvægt: Það þarf bara að vera að stinga einhvern ANNAN en mig. Sönnun lokið. X er fundið. Leyndardómar lífsins afhjúpaðir.
Eftir þessa hugljómun og skemmtilegu upplifun, fyrir mig alla vega, skelltum við okkur í bíó á Juno. Við (og hinir fimm Reykvíkingarnir sem ekki höfðu séð hana þá þegar) skemmtum okkur vel. Við Dagbjört skemmtum okkur reyndar áberandi best í salnum, en það er svo sem ekkert nýtt. Þessi mynd er eitthvað svo heillandi, ég veit samt ekki af hverju það er. Kannski vegna þess að hún er svo eðlileg. Og hún reynir ekki of mikið. Það er sjaldgæft í indí mynd. En þó ekki jafnsjaldgæft og í Hollywood-myndum.
Og já, stanslaust vesen á tollinum, póstinum og flugfélögum. Vill heimurinn ekki að ég sleppi nördanum lausum? Er þetta alheims samsæri til að láta mig einbeita mér að skólanum? Maður spyr sig.
Og og já, ég veit ekki hvort þú hefur tekið eftir því, en ég ætla að breyta textanum efst nokkuð reglulega (lesist: þegar ég man eftir því). Allar eru tilvitnanirnar fengnar úr Discworld bókum Terry Pratchett. Svona ef þú hefur áhuga á að lesa meira ;).
laugardagur, mars 15, 2008
Lúmsk...
Seinasta vika fór að miklu leyti í að snúa á skötuhjú sem afar erfitt er að gabba. Hér á ég við afmælisóvissuferðahefðina sem skapast hefur á seinustu árum. Sú hefð felur í sér að í kringum afmæli viðkomandi er honum eða henni rænt, bundið er fyrir augun og farið út í óvissuna.
Óvissan hefur nú ekki verið meiri en svo að við höfum alltaf gert það sama, Friday's og bíó. Það stendur jú alltaf fyrir sínu en það má alltaf breyta til.
Þar sem það fórst fyrir að fara með Snorra í óvissuferð í október og líka Bryndísi í desember þá ákvað ég að slá tvær flugur í einu höggi. Reyndar vissi ég það fyrirfram að það væri lítil von til þess að mér tækist a) að fá þau til liðs við mig, sitt í hvoru lagi og án þess að vekja grunsemdir og b) að kjafta ekki óvart frá öllu saman sjálf.
Þetta tókst þó á endanum, stórslysalaust. Reyndar talaði ég af mér við Snorra, svo hann grunaði að við Bryndís værum eitthvað að bralla, en hún var bara svo sannfærandi saklaus að hann var ekki viss.
Við enduðum á að borða á Reykjavík pizza co. og fara á Horton hears a who í Regnboganum. Róttækar breytingar það ;). Sú mynd er einber snilld og skylduáhorf fyrir fólk með hláturtaugar í lagi. Reyndar er mikilvægt að fara gætilega, á tímabili var fólk hætt að anda af hlátri.
föstudagur, mars 14, 2008
fimmtudagur, mars 13, 2008
Kór og kvein...
Þar sem við systurnar erum einlægir áhugamenn um kórsöng og kórtónlist almennt, ákvað mamma að bjóða okkur á páskatónleika Vox feminae sem haldnir voru í gærkvöldi. Við urðum voða glaðar og buðum ömmu að koma með okkur. Ég var, þrátt fyrir áðurnefnda gleði, frekar þreytt og þar sem ég gekk að kirkjunni í kuldanum langaði mig mikið að vera undir teppi með góða bók. Það breyttist snögglega þegar ég heyrði Á föstudaginn langa óma úr kirkjunni. Þar var fyrir kórinn á lokaæfingu. Það minnti mig á ást mína á kórsöng en ég velti því jafnframt fyrir mér hvers vegna í ósköpunum kórinn var að æfa HÁLFTÍMA fyrir tónleika, inni í kirkjunni, fyrir framan tilvonandi tónleikagesti. Ekki hefur slíkt tíðkast í mínum kórum.
Eníhú, hálftíma síðar hófust svo tónleikarnir á verkinu Stabat mater, sem samið var fyrir kórinn. Og hvað fannst mér? Leiðinlegasta kórverk sem ég hef nokkurn tímann heyrt. Alltof þungt og einhvern veginn enginn heillandi hljómur. Ég þekki ekki fræðilegu orðin til að lýsa þessu en niðurstaðan er, Stabat mater = grútleiðinlegt.
Ég hélt mér vakandi á meðan flutningi stóð með því að fylgjast með Margréti Pálmadóttur, kórstjóra flestra barnakóra landsins, syngja með nótnamöppuna fyrir andlitinu. Fyrir þá sem ekki þekkja til í kórum, þá er þetta big no-no. Af og til sveiflaði hún reyndar möppunni frá og kastaði höfðinu nokkrum sinnum til en annað sást ekki af henni á meðan hún söng.
Þegar þessu hræðilega þunga og leiðinlega verki lauk loksins tók annað og mun betra við. Þær dreifðu sér dálítið um gangana og sungu nokkra páskasálma, á íslensku, þýsku og latínu og tókst bara ágætlega til. Þær fá plús í kladdann fyrir að flytja Á föstudaginn langa eftir Davíð Stefánsson og Maríukvæði eftir Laxness, sem eru báðir í uppáhaldi hjá mér.
Mínusstig fær kórinn fyrir að standa engan veginn undir væntingum okkar systranna. Miðað við hvað allir lofa þennan kór í hástert hefði ég haldið að mér þætti meira til þeirra koma. Svo var ekki, niðurstaða tónleikanna er að ég hef næstum misst allan áhuga á þessum kór. Ætla engu að síður að gefa þeim annað tækifæri ef það býðst, en þó ekki ef Stabat mater kemur við sögu.
miðvikudagur, mars 12, 2008
Vesenis tesen...
Ég kann ekki nógu vel á þetta nýja útlit. Lenti í heljarinnar vandræðum við að koma kommentunum inn, sat við tölvuna og fiktaði og fiktaði og fiktaði. Komst svo að því að ég þurfti einungis að haka í eitt box og þá komu þau inn. Jahá.
Auk þess kann ég ekki að setja inn svona title fyrir póstana mína. Ef ég gæti gert það þá yrði listinn með gömlu póstunum mun snyrtilegri. Ef einhver blogger notandi á leið um síðuna væri það kærkomið að fá smá leiðsögn um þennan frumskóg. Maður getur gleymt ansi mörgu á einu ári, það er nokkuð ljóst :).