þriðjudagur, apríl 22, 2008

Don't talk back to Darth Vader, he'll getcha...




Svona fer þá fyrir börnum nörda. Kannski ætti ég bara að hætta við barneignir strax í dag :).

mánudagur, apríl 14, 2008

Zzzzz...





Nákvæmlega svona leið mér í amerískum bókmenntum áðan.

sunnudagur, apríl 13, 2008

Reverent so I accept, doubtful because I revere...
Ég hefði haldið að ég yrði æst í að blogga, svona svo ég hefði enga ástæðu til að vera að læra. Ég virðist samt hafa vitkast eitthvað í seinni tíð þar sem þessu hefur verið öfugt farið þetta vorið. En betur má ef duga skal því skiladagurinn á BA-ritgerðinni er 2. maí og það er mikil vinna eftir.

Í saumaklúbb sem ég var með í gær tengdi ég mynda-slideshow við sjónvarpið og sýndi skvísunum. Nú finnst mér yfirhöfuð gaman að skoða myndir, en skemmtunin er tíföld þegar allir geta horft á sömu myndina í einu og hlegið saman. Það er víst að þetta verður endurtekið sem fyrst og þá með ennþá fleiri myndum. Og jafnvel réttri tónlist...

Í öðrum fréttum er ég ennþá algjörlega hooked á gripnum í færslunni hér að neðan. Mér hefur reyndar tekist ótrúlega vel að halda mig frá honum þegar ég á að vera að læra. Fer bara á fyllerí þegar ritgerðar-skil og próf eru yfirstaðin.

Og fyrir tónlistarunnendur: Tjékkið á plötunni The Reminder með Feist. Hún er söngkonan úr Broken Social Scene og þessi þriðja (að ég held) sólóplata hennar kemur vel út. Reyndar finnst mér hún kannski ekki í nægu jafnvægi þegar kemur að stemningunni í lögunum. Þeim er raðað mjög skringilega með tilliti til þess hvort þau eru róleg eða hröð. Lögin eru öll mjög skemmtileg, en það pirrar mig stundum að hlusta á plötuna í heild sinni. Engu að síður er einstaklega gaman að syngja með völdum lögum þegar maður loksins lærir textana :). Hægt er að heyra nokkur lög í fullri lengd á myspace music síðu hennar.

þriðjudagur, apríl 01, 2008

1. apríl!
Ég get ekki toppað það að hafa gabbað Bryndísi í fyrra svo ég ætla ekki einu sinni að reyna :).

Fór í boði Maríu á Stóra planið á föstudagskvöldið. Hún var hin besta skemmtun, þægilega súr og vandræðalegur húmor. Var reyndar dálítið of grátbrosleg á köflum þar sem persónunum var svo mikil vorkunn að ekki var hægt að hlæja að þeim. Mæli engu að síður með henni.

Í fréttum er þetta helst...
Nördinn í mér er glaður þessa dagana. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að ég keypti Nintendo DS lite handa sjálfri mér. Upphaflega átti það að vera jólagjöf en æxlaðist öðruvísi.
Ég geri bara ráð fyrir að þú sért ekki alveg með á nótunum og vitir ekki hvað DS er. Gripurinn er sem sagt nýjasta kynslóðin af Gameboy leikjatölvunni og er alveg svakalega skemmtilegt tæki. Neðri skjárinn er snertiskjár og í mörgum leikjum notar maður takkana ekki neitt, bara pennann sem fylgir með.
En skemmtunin er líklegast ekki bestuð fyrr en maður kaupir svona kubb eins og ég, sem gerir mér kleift að spila *hóst*niðurhalaða*hóst* leiki og einnig video og tónlist í tækinu. Ekki amaleg nýting það. Næstu flugferðir verða í það minnsta fljótar að líða með heldur minni hræðslu en venjulega ;). Og ef þú veist eitthvað um þetta og lumar á hugmyndum um skemmtilega leiki máttu gjarnan segja mér frá næst þegar við hittumst.


Hér er dýrðin. Finnst þér myndin ekki virka skemmtilega skökk?


fimmtudagur, mars 20, 2008

This is one doodle that can't be un-did, Homeskillet...
Mánudagur er hreint ekki til mæðu hjá mér. Nýliðinn slíkur var síður en svo undantekning á þeirri reglu. Fyrir utan vikulegan hádegismat með Bryndísi, þar sem við hittum hálfa Reykjavík eða í það minnsta hálfan árgang úr MR, kom Dagbjört til sögunnar og gerði það að verkum að þessi tiltekni mánudagur varð hálfævintýralegur.

Í fyrsta lagi fékk ég að fara með henni í Blóðbankann. Hversu kúl er það? Ég geri ekki ráð fyrir að eiga þangað erindi aftur, þó ég vildi gjarnan hafa það öðruvísi, þannig að þetta var þvílíkt stuð. Það kemur í ljós að nálastungur og blóðtökur eru mjög spennandi þegar viss skilyrði eru uppfyllt. Og takið eftir, því þetta er mikilvægt: Það þarf bara að vera að stinga einhvern ANNAN en mig. Sönnun lokið. X er fundið. Leyndardómar lífsins afhjúpaðir.

Eftir þessa hugljómun og skemmtilegu upplifun, fyrir mig alla vega, skelltum við okkur í bíó á Juno. Við (og hinir fimm Reykvíkingarnir sem ekki höfðu séð hana þá þegar) skemmtum okkur vel. Við Dagbjört skemmtum okkur reyndar áberandi best í salnum, en það er svo sem ekkert nýtt. Þessi mynd er eitthvað svo heillandi, ég veit samt ekki af hverju það er. Kannski vegna þess að hún er svo eðlileg. Og hún reynir ekki of mikið. Það er sjaldgæft í indí mynd. En þó ekki jafnsjaldgæft og í Hollywood-myndum.

Og já, stanslaust vesen á tollinum, póstinum og flugfélögum. Vill heimurinn ekki að ég sleppi nördanum lausum? Er þetta alheims samsæri til að láta mig einbeita mér að skólanum? Maður spyr sig.


Og og já, ég veit ekki hvort þú hefur tekið eftir því, en ég ætla að breyta textanum efst nokkuð reglulega (lesist: þegar ég man eftir því). Allar eru tilvitnanirnar fengnar úr Discworld bókum Terry Pratchett. Svona ef þú hefur áhuga á að lesa meira ;).

laugardagur, mars 15, 2008

Lúmsk...
Seinasta vika fór að miklu leyti í að snúa á skötuhjú sem afar erfitt er að gabba. Hér á ég við afmælisóvissuferðahefðina sem skapast hefur á seinustu árum. Sú hefð felur í sér að í kringum afmæli viðkomandi er honum eða henni rænt, bundið er fyrir augun og farið út í óvissuna.

Óvissan hefur nú ekki verið meiri en svo að við höfum alltaf gert það sama, Friday's og bíó. Það stendur jú alltaf fyrir sínu en það má alltaf breyta til.

Þar sem það fórst fyrir að fara með Snorra í óvissuferð í október og líka Bryndísi í desember þá ákvað ég að slá tvær flugur í einu höggi. Reyndar vissi ég það fyrirfram að það væri lítil von til þess að mér tækist a) að fá þau til liðs við mig, sitt í hvoru lagi og án þess að vekja grunsemdir og b) að kjafta ekki óvart frá öllu saman sjálf.

Þetta tókst þó á endanum, stórslysalaust. Reyndar talaði ég af mér við Snorra, svo hann grunaði að við Bryndís værum eitthvað að bralla, en hún var bara svo sannfærandi saklaus að hann var ekki viss.

Við enduðum á að borða á Reykjavík pizza co. og fara á Horton hears a who í Regnboganum. Róttækar breytingar það ;). Sú mynd er einber snilld og skylduáhorf fyrir fólk með hláturtaugar í lagi. Reyndar er mikilvægt að fara gætilega, á tímabili var fólk hætt að anda af hlátri.


Dude, you're a warrior poet!

föstudagur, mars 14, 2008

Vúhú...
Ert þú jafn spennt/ur og ég? Tjékk it!

fimmtudagur, mars 13, 2008

Kór og kvein...
Þar sem við systurnar erum einlægir áhugamenn um kórsöng og kórtónlist almennt, ákvað mamma að bjóða okkur á páskatónleika Vox feminae sem haldnir voru í gærkvöldi. Við urðum voða glaðar og buðum ömmu að koma með okkur. Ég var, þrátt fyrir áðurnefnda gleði, frekar þreytt og þar sem ég gekk að kirkjunni í kuldanum langaði mig mikið að vera undir teppi með góða bók. Það breyttist snögglega þegar ég heyrði Á föstudaginn langa óma úr kirkjunni. Þar var fyrir kórinn á lokaæfingu. Það minnti mig á ást mína á kórsöng en ég velti því jafnframt fyrir mér hvers vegna í ósköpunum kórinn var að æfa HÁLFTÍMA fyrir tónleika, inni í kirkjunni, fyrir framan tilvonandi tónleikagesti. Ekki hefur slíkt tíðkast í mínum kórum.

Eníhú, hálftíma síðar hófust svo tónleikarnir á verkinu Stabat mater, sem samið var fyrir kórinn. Og hvað fannst mér? Leiðinlegasta kórverk sem ég hef nokkurn tímann heyrt. Alltof þungt og einhvern veginn enginn heillandi hljómur. Ég þekki ekki fræðilegu orðin til að lýsa þessu en niðurstaðan er, Stabat mater = grútleiðinlegt.

Ég hélt mér vakandi á meðan flutningi stóð með því að fylgjast með Margréti Pálmadóttur, kórstjóra flestra barnakóra landsins, syngja með nótnamöppuna fyrir andlitinu. Fyrir þá sem ekki þekkja til í kórum, þá er þetta big no-no. Af og til sveiflaði hún reyndar möppunni frá og kastaði höfðinu nokkrum sinnum til en annað sást ekki af henni á meðan hún söng.

Þegar þessu hræðilega þunga og leiðinlega verki lauk loksins tók annað og mun betra við. Þær dreifðu sér dálítið um gangana og sungu nokkra páskasálma, á íslensku, þýsku og latínu og tókst bara ágætlega til. Þær fá plús í kladdann fyrir að flytja Á föstudaginn langa eftir Davíð Stefánsson og Maríukvæði eftir Laxness, sem eru báðir í uppáhaldi hjá mér.

Mínusstig fær kórinn fyrir að standa engan veginn undir væntingum okkar systranna. Miðað við hvað allir lofa þennan kór í hástert hefði ég haldið að mér þætti meira til þeirra koma. Svo var ekki, niðurstaða tónleikanna er að ég hef næstum misst allan áhuga á þessum kór. Ætla engu að síður að gefa þeim annað tækifæri ef það býðst, en þó ekki ef Stabat mater kemur við sögu.

miðvikudagur, mars 12, 2008

Vesenis tesen...
Ég kann ekki nógu vel á þetta nýja útlit. Lenti í heljarinnar vandræðum við að koma kommentunum inn, sat við tölvuna og fiktaði og fiktaði og fiktaði. Komst svo að því að ég þurfti einungis að haka í eitt box og þá komu þau inn. Jahá.
Auk þess kann ég ekki að setja inn svona title fyrir póstana mína. Ef ég gæti gert það þá yrði listinn með gömlu póstunum mun snyrtilegri. Ef einhver blogger notandi á leið um síðuna væri það kærkomið að fá smá leiðsögn um þennan frumskóg. Maður getur gleymt ansi mörgu á einu ári, það er nokkuð ljóst :).

þriðjudagur, mars 11, 2008

Heimt úr helju?

Það er kannski einum of mikið sagt en ég hef snúið aftur eftir ársfrí frá bloggi. Nú er spurning hvort fríið hefur gert mér gott eður ei.

Ég byrjaði á þessari færslu full bjartsýni og vonar. Dettur svo ekkert í hug til að skrifa um. Vísbending að ofan? Eða kannski neðan? Mér er spurn.

sunnudagur, mars 11, 2007

Vinnan mín...
Deildin sem ég vinn á er mjög svo notaleg. Allt starfsfólkið er frábært og deildarstjórinn er eins og hlýtt og mjúkt teppi sem breiðir sig yfir allt og alla. Get einhvern veginn ekki lýst henni betur en það. Læknarnir eru reyndar, hér eins og á öðrum deildum, dálítið sér á parti. Þeir eru ekki alltaf á deildinni og teljast þess vegna ekki til starfsfólksins í mínum huga. Þeir eru þó allir með tölu frábærir og það eru ekki nema einn eða tveir sem gefa sér ekki tíma til að svara kjánalegu (og eflaust augljósu) spurningunum mínum, daginn út og inn. En einn læknirinn er öðruvísi en hinir. Sá læknir hræðir mig dálítið. Reyndar hefur hann alltaf reynst mér mjög vel, en það virðist ekki skipta miklu. Þegar maður hringir í hann er röddin hvöss og maður veit alveg að hann hefur sko engan tíma til að tala í símann. Þegar maður gengur inn á vakt og vogar sér að yrða á hann fær maður hvasst augnatillit og sömu óþolinmóðu röddina og í símanum. En best þykir mér þegar hann gengur inn ganginn. Þá sveiflast sloppurinn í vindinum sem ekki er og það heyrast og sjást staðbundnar þrumur og eldingar í kringum hann. Það er stundum mjög gott að hafa ofvirkt ímyndunarafl ;).

That's so funny...
Rakst á þessa síðu á b2.is. Hún bjargaði alveg þessum þreytta morgni í vinnunni.

“við a stór hluti af okkar líf skammtur fólk í okkar spítali æfa sig, nú varúlfur’ hjartnæmur búpeningur þúsund af mílusteinn burt. Þess’ gefandi til hluti this vitneskja með fólk frá allur hornsteinn af the hnöttur”


Svona varúlfur?


Og svo má ekki gleyma þýðingu á nafni höfundar, Dr. Mark Moore = Dr. Blettur Lyngheiði! Gerist það betra?

laugardagur, mars 03, 2007

Fnus...
Já, þetta var ekki skemmtilegasti febrúar í heimi. Ég hef held ég bara aldrei haft um svo margt leiðinlegt að hugsa í einum og sama mánuðinum. En nú eru horfur betri og um leið og hraðkúrsinn í japönskum bókmenntum byrjar í næstu viku hef ég ekki tíma til að anda, hvað þá hugsa. Ætli þessi færsla verði því ekki bara að duga í bili ;).

Óóóperurýni...
Ég fór um daginn með Maríunum á Flagara í framsókn í Óperunni. Verkið kom mér skemmtilega á óvart og bætti mikið til upp fyrir það hvað Tosca var fáránlega leiðinleg um árið. Það sem stóð upp úr í sýningunni var Madonna í Material Girl myndbandinu og rauðu latexgallarnir. Hverjum sem tekst að koma slíku inn í uppsetningu á óperu á skilið gott klapp á bakið. Það kom mér algjörlega að óvörum að svona týpa eins og asíska stelpan á 'We will Rock you' skyldi einmitt lenda fyrir aftan mig þetta kvöld. Þegar sýningu lauk stappaði hún fótunum (á pinnahælum) af ákefð í gólfið svo glumdi í öllu húsinu. Á meðan á þessu stóð klappaði hún svo það söng í eyrunum á mér, öskraði BRAVÓ!!! eins hátt og lungu hennar leyfðu (ég er ekki frá því að hún hafi verið hálf antilópa miðað við lungnarými) og klikkti svo út með því að hósta þvílíkum halló-ég-er-með-ógeðslega-smitandi-flensu hósta í hárið á mér. Ég held, svei mér þá, að hún vinni asísku stelpuna í fagnaðarlátum og réðu þar lungun úrslitum.

Wiiiiiiiiiiiiiii...
Þó ekki leikjatölvan, heldur bara almenn fagnaðarlæti. Búin með eitt midterm af tveimur (booya!), búin að skila heimaverkefni í bókmenntafræði og byrjuð á hópverkefni. Ný og endurbætt Kristín? Það getur bara vel verið!

Eurovision...
Eftir sérlega skemmtilegt afmælispartý hjá Mörtu Maríu skelltum við stelpurnar okkur á Eurovision eftirpartý á Nasa. Þar þeytti góðkunningi minn hann Páll Óskar skífum og skellti sér meira að segja í gallann og tók nokkur lög! Hápunktur kvöldsins var tvímælalaust þegar Silvia dró mig með upp á svið (þar sem hálf dansgólfið skók sig sem mest það mátti) og ég tók sjálfsmynd af mér og Palla. Og viti menn, þessi mynd er svo fáránlega vel heppnuð að ég hef aldrei séð annað eins. Ég hef alla veganna ekki tekið svona fína sjálfsmynd síðan þá og mun líklegast aldrei gera. Ef ég hitti einhvern tímann Captain Jack Sparrow vona ég bara að það sé myndavélin mín sem bregst svona vel við þegar uppáhöldin mín eru fyrir framan linsuna ;).

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Heim í heiðardalinn...
Það er alltaf jafn gott að koma heim, sama hversu skemmtilegt er í ferðalögum. Þessi ferð er með þeim skemmtilegri sem ég hef farið í, þrátt fyrir leiðinda veikindi sem breyttu seinasta deginum úr svakalegu búðarápi í hangs á hótelherbergi. Það var nú ekki alslæmt þar sem við gátum þá slappað af í staðinn. Seinni helmingurinn af Oxford Street og Regent's Street í heild sinni bíða bara næstu ferðar til London ;).

Við fórum með Halla til Bath á sunnudeginum. Það er rosalega sætur bær, sérstaklega í samanburði við Swindon. Við röltum um allan miðbæinn og skoðuðum meðal annars búðina í Jane Austen safninu (en ekki safnið sjálft, búðaróðu Íslendingarnir sem við erum) og fórum á ekta enskan pöbb. Fórum svo á fínan sjávarréttastað um kvöldið þar sem ég hesthúsaði heilum krabba (reyndar ekki alveg heilum) og skvetti krabbakjöti í allar áttir. Í Bath gafst ég líka endanlega upp á að vera í Converse skóm í útlöndum og keypti mér Asics hlaupaskó í mikilli neyð. Fæturnir mínir andvörpuðu af feginleika í hverju skrefi það sem eftir var kvöldsins.

Á leiðinni til London á mánudeginum urðu miklar tafir á öllum lestarleiðum til og frá Paddington-stöðinni þar sem einhver hafði kastað sér fyrir lest nálægt London. Það kippti sér enginn upp við þetta, virðist vera hversdagslegur atburður í stórborginni. Þegar við vorum búnar að koma töskunum upp á hótelherbergi (á hreinu, tiltölulega ódýru og æðislega vel staðsettu hóteli), skunduðum við í neðanjarðarlestina. Það er æðislegt fyrirbæri sem sparaði okkur heilmikið labb. Við fórum á Leicester Square og keyptum miða á fremsta bekk fyrir miðju á söngleikinn 'We will rock you' á hálfvirði í þar til gerðum bás. Þar sáum við að frumsýna átti 'Music & Lyrics' um kvöldið í Odeon bíóinu. Veltum því fyrir okkur hvort við ættum að taka Ásgerði á þetta og hitta fræga fólkið en nenntum því svo ekki. Söngleikurinn var mjög skemmtilegur, þrátt fyrir að við sæum ekki hálfa sýninguna. Ástæðan fyrir því var að sviðið lyftist upp og hluti þess snérist út í salinn. Þá sátum við Björgu undir heilum helling af stáli sem einhver dansaði upp á. Queen lögunum var fléttað inn í söguþráðinn og það var skemmtilega heimilislegur fílingur í salnum. Þegar Bohemian Rhapsody var sungið fóru nær allir handleggir í salnum upp í loft og fólk söng hástöfum með. Maðurinn sem lék aðalhlutverkið var myndarlegur í meðallagi fannst mér, en annað fannst asísku stelpunni sem sat í þriðju röð. Þegar klappað var upp kom hún fremst og kraup við hliðina á mér. Hélt fyrir munninn að asískra stelpna sið og gaf frá sér skræk hljóð af og til. Þegar aðalleikarinn kom svo fremst á sviðið fór hún að sviðinu og rétti út hendurnar til þess að snerta hann. Hætti alltaf við hálfa leið og reyndi svo aftur. Við Björg sátum og vorum að kafna af hlátri. Gaurinn sendi henni að lokum fingurkoss og hún fór hálfgrátandi af hamingju og í sætið sitt aftur. Ég sá fyrir mér að hún sæti fyrir honum þegar að hann færi heim og tjaldaði fyrir utan hjá honum.

Þriðjudagurinn fór í skoðunarferð í tveggja-hæða strætó (sem við gáfumst fljótt upp á í kuldanum) og verslun á Oxford Street. Ég tíunda ekki hvað ég keypti (eða í mínu tilfelli þúsunda) en þeir sem ég hitti á næstunni fá að sjá marga nýja spjör. Um kvöldið kom Halli til okkar og við skunduðum af stað til að finna einhvern góðan indverskan stað. við fundum engan en enduðum í staðinn á Lýbönskum stað og vissum ekki hvað við áttum í vændum. Við báðum yfirþjóninn (sem virtist vera eigandinn líka) að hjálpa okkur að velja mat. Hann mælti með einhverri girnilegri blöndu. Þegar maturinn kom voru þetta margir litlir réttir, svakalega girnilegir og góðir eftir því. Þegar við vorum sirka hálfnuð með þá kom hann aftur og minnti okkur á að geyma pláss fyrir aðalréttinn. Og eftirréttinn. Og Kaffið. Óóóókei. Aðalrétturinn voru ótrúlega góðir Shish-Khebab pinnar. Namminamminamm. Eftir að Halli fór skunduðum við systur heim á hótel og leigðum okkur bíómynd í sjónvarpinu. The Fast and the Furious: Tokyo Drift varð fyrir valinu (segir margt um úrvalið) og hún var æðislega léleg. Næstum því eins æðislega léleg og Bring it on Again. Reyndar var ekkert talað um the Bomb Diggity og engir frasar í myndinni toppuðu: Make like a Tom and cruise svo að Bring it on Again hefur vinninginn.

Miðvikudagurinn hefði, eins og áður sagði, farið í enn meira búðaráp ef ekki hefði verið fyrir veikindi. Í staðinn borðuðum við Frosties með mjólk, drukkum glæra gosdrykki og hlutum samúð íbúa stórborgarinnar, eitthvað sem sjónvarpið og fréttirnar segja okkur að sé dáið og grafið. Í flugvélinni batnaði Björgu til muna og þá hætti hægri fótleggurinn á mér að virka. Svo hún keyrði mig í hjólastól í gegnum flugstöðina. Það er ótrúlegt hvað attitude fólks breytist þegar það sést á manni að eitthvað er að. Einn starfsmaður fríhafnarinnar var eiginlega ekki til í að hjálpa Björgu þegar hún leitaði liðsinnis, en umbreyttist svo í eitt sólskinsbros þegar ég tjáði mig við hann. Merkilegt.

mánudagur, febrúar 05, 2007

Jedúdda...
Tekurðu einhver lyf? Ef svo er skaltu ekki gleyma að taka þau daginn sem þú ferð til útlanda í viku! Ég er svo bólgin og aum í hægri öxlinni að mig dreymdi í nótt að Björg væri að naga hana. Það gæti samt tengst því að áður en ég sofnaði spurði hún mig upp úr svefni hvort ég væri gómsæt!

Tjúúú, tjúúú...
Ég eeeelska lestir. Þær eru þægilegasti ferðamáti í heimi. Þær koma manni hratt á milli staða, maður þarf ekkert að hugsa, maður getur lesið í þeim og það sem skiptir meira máli: ÞÆR POMPA EKKI!

sunnudagur, febrúar 04, 2007

London, baby!
Er stödd í svefnbænum Swindon sem er ca. klukkustundar akstur vestur af Lundúnum. Vistin hjá Halla er góð og við Björg erum bústnar og vel aldar. Fáum svo mikið súrefni í kroppinn að við erum við það að líða út af klukkan tíu á kvöldin. Enda ætla ég að skríða í bólið um leið og þessari færslu lýkur. Á morgun höldum við systur inn til Lundúna þar sem við gistum á hóteli í tvær nætur. Þar verður verslað þar til kviknar í kortunum og góður matur etinn í bílförmum. Ef einhvern sem mér tengist skyldi vanta eitthvað sem einungis fæst á Bretlandseyjum þá er um að gera að sms-a beiðni um hæl.
Tally-ho, pip-pip og aðrar breskar kveðjur.

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Þabbara svona...
Fann mig knúna til að henda inn svo sem einni færslu. Er að byrja í skólanum á eftir og er ekki frá því að hlakka dálítið til. Literary Theory hljómar þvílíkt spennandi þó ég viti eiginlega ekki hvað það er. En það er bara gaman!

Kemur á óvart...
Rakst á svona internet-próf. Fæ alltaf svo skemmtilegar niðurstöður...


How evil are you?


Ég vissi ekki einu sinni að þetta væri möguleg útkoma úr prófinu. Endilega prófaðu og láttu mig vita hvað þú færð.

Æ, já...
Gleðileg jól, farsælt komandi ár, takk fyrir allt liðið og svo framvegis.

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Oooooo...
Ég gæti grátið. Ég var búin að einsetja mér að nú skyldi ég vera dugleg að blogga, en það hefur aldeilis ekki gengið eftir. Ég veit hreinlega ekki af hverju ég á svona erfitt með þetta, það er ekki eins og það sé eitthvað flókið að opna blogger og drita niður nokkrum línum um ekki neitt. Ætli ég lofi ekki öllu góðu sem fyrr, með fingur í kross fyrir aftan bak?

Ef líf mitt væri bíómynd, með tilheyrandi tónlist...
Sá þetta hjá Atla Viðari og geng skrefi lengra í steleríi en hann: Ég stel ekki bara hugmyndinni, heldur snilldarlegu þýðingunni hans líka. Versgú:


IF YOUR LIFE WAS A MOVIE, WHAT WOULD THE SOUNDTRACK BE?
(Viltu vinur minn vita, ef líf þitt kvikmynd væri, hvurskyns músík hún bæri?)
So, here's how it works:
(Soddan virkar havaríið )
1. Open your library (iTunes, Winamp, Media Player, iPod, etc)
(Opn þinn tónsarp (iTóna, alvöru pc mp3spilara, drasl mp3 spilara, iBú, o.s.frv)
2. Put it on shuffle
(Lát á vanröðun)
3. Press play
(Þrýst á leika)
4. For every question, type the song that's playing
(Sérhverri spurningu skal fylgja það lag sem leikið er á þeim tíma)
5. When you go to a new question, press the next button
(Þegar næsta spurning er tækluð, þrýstu á "Næsta" hnappinn)
6. Don't lie and try to pretend you're cool...
(Berðu ekki ljúgvitni um eiginn nördaskap).

Og hér er svo afraksturinn úr mínum "tónsarpi":

Opnunartitlar: Boomboomboom - Vengaboys (ja, kúl faktorinn er strax floginn út í buskann...)

Við uppvakningu: Real love - David Gray (vakna þó afslöppuð...)

Fyrsti skóladagurinn: Little Respect - Erasure (Bryndís er greinilega með í þessum skóla...)

Verða ástfanginn: Only this moment - Röyksopp (geeeðveikt, ef Lindsay Lohan hefði ekki orðið á undan mér. Damn you Salazar!)

Slagsmálalagið: It's over - the Beta Band (Gamalmenni í hjólastólum í slag? Í orðabókinni undir rólegasti slagur í heimi? Möguleikarnir eru endalausir!)

Sambandsslit: Comfortably numb - Pink Floyd (Heldur betur fullkomið...)

Prom: What is love - Haddaway (þetta lag var samið til að dansa við í ljótum kjólum...)

Daglegt líf: Lately - Skunk Anansie (Hmmm...)

Við andlegt áfall: My oh my - David Gray (Gæti virkað...)

Keyra í bíl atriðið: Tribute - Tenacious D (klassa road-trip lag...)

Flassbakk: We're not here - Mogwai (fortíð mín er greinilega dálítið "dark and twisty"...)

Ná saman á ný við kærastann: Crooked Teeth - Death Cab for Cutie (Öfugmælavísur, einhver?)

Brullaup: Final Countdown - Europe (Ja, kannski ekki beint það sem ég hafði séð fyrir mér. Hverjum er ég eiginlega að giftast? Eyrúnu "þetta er BESTA lag í heimi!" Gestsdóttur?)

Barnsfæðing: Litaður - Hárið (Uuuuuu, ókei...)

Lokabardaginn: Murr Murr - Mugison (Voðalega slappir bardagar í þessari mynd, sé mig samt fyrir mér með katana í svona Face off slómó-stíl svo það gæti virkað...)

Dauðasena: Hope there's someone - Antony & the Johnsons (vá, ég fæ bara hroll...)

Jarðarfaralag: Untitled - Blonde Redhead (smellpassar...)

Lokatitlar: Í guðs friði - KK (Gæti ekki verið betra: Í endinum upphafið býr...)

Jæja, þetta byrjaði slappt en rétti svo heldur betur úr kútnum í endann. Kemur mér samt á óvart að flytjendur á borð við Hasselhoff hafi ekkert látið í sér heyra en Vengaboys sjá þá bara um kjánahrollinn í þetta skiptið ;)!

Extreme Tracker...
Ég sá einhvern tímann á blogginu hennar Unu hvernig maður sér hverjir koma inn á síðuna manns og hvaðan þeir koma. Þar sér maður líka hvaða leitir á Google leiðir fólk á síðuna. Hér kemur topp 5 af listanum fyrir mína síðu:
1. Þjóðhátíð 2005 myndaalbúm (ég hef aldrei á þjóðhátíð komið, hvað þá tekið myndir þar)
2. Flassa myndir (alveg eðlilegt)
3. Daybright (ef þú þarft að leita að Dagbjörtu á Google þá ertu ekki kúl)
4. Stelpur í fimleikabolum (ókei, a) krípí og b) ég þekki engar slíkar til að skrifa um)
5. Atli Viðar á ferðalagi (Spes leit)

Kristínin...



Vel við hæfi samkvæmt Extreme Tracker...

mánudagur, október 16, 2006

Októberfest...
Reyndist ekki jafnslæm og ég hafði gert ráð fyrir. Reyndist meira að segja bara mjög skemmtileg, svona eftir að búið var að hella yfir mig það miklum bjór að frekari yfirhellingar skiptu bara engu máli. Og síðan hitti ég fólk sem ég hef ekki séð í mörg ár. Það er alltaf jafnfurðulegt að hitta fólk sem maður hitti fimm daga vikunnar í 9 mánuði á ári í fjögur ár og hafa svo ekkert að segja við það. Og alltaf jafngaman að hitta fólkið sem maður hefur ekki hitt í mörg ár og finnast eins og maður hafi séð það seinast í gær. Spurning um að fara að hafa meira samband við það fólk.

Munich...
Ég veit að Munich er góð mynd. (Fyrir utan það hvað nafnið pirrar mig: München, gott fólk. München.) Ég veit að ég hefði gott af því að horfa á hana til enda. En ég fæ mig bara ekki til þess. Í bæði skiptin sem ég reyndi sofnaði ég næstum. Yfir bíómynd. ÉG. Mér finnst hún svo ógeðslega leiðinleg að ég fæ mig ekki til þess að eyða dýrmætum tíma mínum, sem ég hef reyndar ekki hikað við að eyða í sjónvarps-/myndagláp hingað til, í að horfa á þetta slys. Til hamingju Hollywood, ykkur tókst hið ómögulega, að láta mér leiðast yfir bíómynd!

Kristínin...



Jafnast þetta á við kynfæramyndirnar hennar Dagbjartar?

föstudagur, október 06, 2006

Ha og humm...
Ég er alveg dottin út úr þessu blogg dæmi. Hef það ekki í mér að fara inn á blogger og skrifa eitthvað bull. En þar sem ég er nú svo góð í að bulla ætla ég að reyna að halda áfram ;).

Time is an illusion...
Það er heldur mikið að gera hjá mér þessa dagana. Það snýst allt (og þá meina ég allt) um að mæta í skólann og læra heima. Geðveiki. Ég leyfi mér þó að fara á æfingu einu sinni í viku og lesa mér til skemmtunar. Enda yrði ég geðveik án þess. Akkúrat núna er ég að skríða upp úr einhverju ógeðis kvefi og hef því verið heldur agalaus seinustu viku. Það er ekkert hægt að reikna og skrifa ritgerðir og leysa verkefni ef maður er með höfuðið fullt af hori og harðsperrur af hóstakjöltri. Lítið geðslegt en alveg dagsatt. (Og stuðlar!) Þar af leiðandi hef ég verið mikið stödd í netheimum, sem ætti kannski að vera ávísun á meiri bloggvirkni en er það greinilega ekki. Fnus.

Airwaves...
Næst uppáhaldshátíðin mín byrjar eftir einungis 12 daga. Þetta verður maaaagnað held ég bara. Þetta langar mig að sjá:

Apparat, Benni Hemm Hemm, Dikta, Jeff Who?, Ske, Kaiser Chiefs, The Telepathetics, MATES OF STATE!, The Go! Team, Wolf Parade, TILLY AND THE WALL!, We are Scientists (ef þeir taka ekki Hoppípolla coverið verð ég fúl), The Whitest Boy Alive, Jenny Wilson, Hermigervill, Mugison og My Summer as a Salvation Soldier.

Og svo er bara að púsla! Ef þig langar að koma með mér og Björgu á einhverja þessara tónleika þá bara láttu vita ;).

Tilly and the Wall...
Er fráhábært band. Tjékk it!

Kristínin...


Þessi er hress!

mánudagur, ágúst 28, 2006

Kristínarnám?...
Var að koma af fundi uppi í skóla, þetta er vægast sagt mjööög spennandi. Þeir eru líka búnir að breyta stundatöflunum þannig að ég er mun betur sett en áður. Það eru sko engir árekstrar sem stoppa mig í vetur :).

Okrið...
Ég keypti mér skólabækur fyrir 18.000 kr. áðan. Hvað voru þær margar? Þrjú stykki.
Þetta er ekki í lagi.

Myndin...
Lucky number Slevin. Fléttumynd sem kemur á óvart og er vel þessi virði að sjá.