fimmtudagur, desember 30, 2004

Hunderte
Seinasta færsla var númer hundrað frá upphafi. Og ég var bara að fatta það núna. Eftirtektin alveg í hámarki hjá minni.

Julen
Stóðu algjörlega undir miklum væntingum. Reyndar voru þau með heldur óhefðbundnu sniði en breytingar eru af hinu góða ekki satt? Mín fékk margar fínar jólagjafir og þeirra fínust var mini Ipod frá Die Eltern. Það tæki er að gera stormandi lukku á heimilinu (og já, í stór-fjölskyldunni) og ég held ég sé bara ástfangin. Hér er mynd af beauty-inu:




Gamlar glæður
Ég ákvað að skoða bloggið mitt frá fyrstu færslu. Það var fræðandi lesning þar sem ég mundi ekki eftir helmingnum af því sem ég hef bloggað um. Kósí að eiga svona auka minni á netinu :). Og fyrir þá sem eiga blogg þá mæli ég með svona memory-lane gönguferð af og til.

Fagnaðarfundir
Núna fyrir jólin hitti ég Jóhönnu mína á kaffihúsi þar sem margt var skrafað og til að kóróna þá gleði þá fórum ég, Katrín, Jóhanna og Britta í bíó og á kaffihús í gær. Da Iðnskóla Posse bara mætt í heild sinni, ótrúlegt en satt :). Og The Incredibles reyndist vera snilldar mynd við annað áhorf!

mánudagur, desember 20, 2004

Jedinn snýr aftur...
Ég er nú reyndar enginn jedi en ég hef snúið aftur í bloggheiminn. Próf og leti hömluðu afköstum mínum svo að nú verð ég bara að vera extra dugleg!

Þetta er helst í fréttum...
Það hefur nú ekki margt á daga mína drifið síðan ég bloggaði síðast. En ég ætla að reyna að setja þetta skipulega fram ykkur til ánægju og yndisauka. Ef ég gleymi einhverjum stórviðburði með einhverjum þá verður bara að láta mig vita!
Prófin voru svona lala. Fékk samt 10 í hönnunarsögu og kennarinn sagði ritgerðina mína um Antoni Gaudí vera bestu Gaudí ritgerð sem hún hafi fengið í hendurnar. Er sem sagt vel sátt.
Jólafrí er yndislegt.
Jóla-David var slegið saman við jólamyndamaraþon í ár. Þar hittust frænkurnar úr báðum ættum (plús Gumminn), horfðu á jólamyndir, borðuðu pizzur og alltof mikið af nammi. Mæli með því við hvern sem er.
Pössun Sara frænka kom til að föndra með mér eins og í fyrra. Sýndi almenna snilldartakta eins og venjulega og sannaði enn og aftur að hún er meiri og betri föndrari en ég. Næsta stopp myndlistarskóli segi ég nú bara! Föndruðum jóla-kort og -gjafir og borðuðum smákökur með bestu lyst meðan Björgin lék Garfield fyrir framan sjónvarpið. Kötturinn Pjakkur Jósafat Gunnarsson var skírður við formlega athöfn og ýmislegt grín var í gangi. Takk fyrir mig!
Annað ísbíltúrar, afmæli, smákökubakstur, jólakortagerð o.s.frv.

T-t-t-tilvitnun...
Héðan í frá ætla ég alltaf að svara svona í símann:
"Hi, this is Buddy the elf! What's your favorite colour?!"

mánudagur, nóvember 29, 2004

Flavermus
Ég ætla til Danaveldis í febrúar. Húrra, húrra, húrra! Ég mun ferðast með föðurömmu minni og gista með henni á hóteli. Það verður meiriháttar tjútt að fara á söfn með ömmu. Hún veit allt um allt held ég bara. Auk þessa mun ég heimsækja fjölskylduna mína úti og svo að sjálfsögðu Jóhönnu danadrottningu og sprella eitthvað með henni. Og fá að kíkja í vonandi tilvonandi skólann minn í leiðinni. Allt þetta, auk verslunargleði á Strikinu, gerir ferð til Köben að meiriháttar ævintýri, þó að um vetur sé :)!

Stoooooopid
Ég er að blogga þegar ég á að vera að læra. Ég í hnotskurn.

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Shooooosh
Ég var að vinna mitt fyrsta uppboð á Ebay. Það er rosaleg adrenalínsprauta, sérstaklega seinustu sekúndurnar. Skyldi einhver yfirbjóða mig? Refresh-ar síðan mín of hægt? Af hverju keypti ég þetta ekki úti í búð? Spurningarnar hellast alveg hreint yfir mann! Ég var sem sagt að vinna bókina Abarat eftir Clive Barker. Hún er harðspjalda, fæst ekki hér á landi, kostar einungis 1.700 kr. í stað 3.000 kr. út úr íslenskri búð og síðast en alls ekki síst: Hún er árituð af höfundi. Men, hvað ég er lukkuleg!

Breytingar
Já, prófunum mínum slúttar þann 13. desember í stað þess 18. sama mánaðar. Ýmsar ákvarðanir voru teknar sem hafði þessi aukaáhrif. Mín er vel sátt get þá bara föndrað tvöfalt meira en venjulega. Hvað er aftur 2 sinnum 0?

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Skírn!
Litli kútur var skírður í morgun. Ég missti af því og er þess vegna önnur tveggja ömurlegustu frænkna á jarðríki. Ég náði samt partinum í athöfninni þegar allir stóðu upp, settu handleggina upp í loft og kölluðu 'Hallelúja!' af mikilli innlifun. Samt var þetta enginn sértrúarsöfnuður eða neitt, nema Fríkirkjan í Reykjavík teljist til þeirra. Er ekki með alveg allt á hreinu í því máli. Anyways...Til hamingju með daginn, Guðmundur Ómar :)!

Veðurblíða?
Það vefst fyrir mér, á dögum eins og þessum, af hverju í andsk***num ég bý ekki á Hawaii eða í Ástralíu eða e-u öðru 'Sumarlandi' eins og það var kallað í dag. Er einhver með góða ástæðu fyrir því af hverju ég er ekki löngu flutt af landi brott?

Supercalifragilisticexpialidocius!
Ég ætla að læra japönsku, fara til Köben og Edinborgar að heimsækja fólk, kaupa mér flott föt, fara að hreyfa mig reglulega, vera ekki veik, dreyma eðlilega, sleppa því að borða það sem ég má ekki borða og horfa minna á sjónvarpið. Sem sagt vera practically perfect in every way! En þú?

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Próftöflur
Ég var að komast að því hvernig prófin mín verða þetta árið. Iðnskólinn er ljúfur sem fyrri daginn og þar klára ég 3. desember. En hvað gerir þá Háskólinn? Jú, mín próf eru 13. til 18. desember. Hvað er ég að gera í þeim skóla, ég bara spyr? Í alvöru, hvað var ég að pæla?

Verkefnaflóð
Þetta verður augljóslega skólafærsla út í gegn. Nú hrynja yfir mig verkefni í Iðnskólanum auk þess sem ég sit sveitt við að ná samnemendum mínum í enskunni. Breskar bókmenntir eru sko ekkert grín þó ég hafi haldið að sá kúrs yrði eins og að drekka vatn fyrir mig. Dramb er falli næst, gott fólk!

Saumó
Helmingurinn af saumaklúbbnum mínum skellti sé í sumarbústað um helgina. Það var mjög svo gaman þrátt fyrir að mín væri illa upplögð. Við spiluðum, hlógum og átum ALLTOF mikið af gölluðu gotteríi á verksmiðjuverði. Við stoppuðum á Selfossi á leiðinni og fengum okkur að borða á Pizza 67. Þar fékk ég mér pizzu með sveppum sem að brögðuðust skringilega. Enda kom í ljós að mér var óglatt allt heila kvöldið og nóttina. Mórall sögunnar er: ekki fá þér sveppi á pizzuna þína hjá Pizza 67 á Selfossi. Aldrei að vita nema þeir komi af næstu umferðareyju ;)!

fimmtudagur, október 21, 2004

Bleh!
Er eina orðið sem gæti lýst lífi mínu þessa dagana. Andlát mikils manns og veikindi í fjórða veldi að baki og meiri veikindi fram undan. Og ekki meira um það á þessum opinbera vettvangi.

Ljósið í myrkrinu
Bróðir minn kom heim yfir helgina.
Bryndís og Anna Lísa eignuðust litla frænku þann 18. október síðastliðinn.
Ég á yndislega fjölskyldu og vini sem allir eru hraustir (þar með talið alla veganna 1 aukamömmu, 3 aukasystur og 1 aukabróður. Ætli blóð og vatn séu ekki bara jafnþykk).
Hausinn á mér er í lagi þó annað sé kannski ekki í toppstandi.
Bækur eru til.

þriðjudagur, október 05, 2004

Fréttaþurrð
Á föstudaginn fór ég á Októberfest. Það var spes. Ég hitti ýmsa gamla og góða kunningja og suma ekki eins góða sem ég forðaðist í lengstu lög að hitta ;). En hápunktur kvöldsins var samt þegar við Bryndís og Eyrún löbbuðum upp í Úlfarsfell til að taka þátt í ísáts kveðjuathöfninni hennar Bjarneyjar. Og svo löbbuðum við til baka. Sátum og spjölluðum í smástund og fórum svo heim. Voða skrýtið en þó skemmtilegt kvöld.
Á laugardagskvöldið var ég skilin alein eftir heima þar sem Litla-systir fór í afmælismatarboð. Þar af leiðandi fékk ég mér himneskan kvöldmat á Austurlanda hraðlestinni. Aloo Bonda og Naan-brauð. Sleeeeef! Og leigði mér Little Nicky sem ég hafði barasta aldrei séð. Reyndar fussaði vídjóleigustarfsmaðurinn endalaust yfir myndavali mínu en ég kippti mér ekkert upp við það. Og hló mig svo máttlausa yfir steypunni enda búin að drekka alltof mikið kók ;)!
Á sunnudaginn tók ég það rólega, lék Guð fyrri part dags (fyrir þá sem vita hvað það þýðir) og fór svo á The Bagel Company með Katrínu minni. Þar sannaðist enn og aftur hvað við hittumst alltof sjaldan því ég fékk nærri því harðsperrur í munninn og eyrun því ég talaði og hlustaði svo mikið. En það var góður endir a góðri helgi :)!

Fallegastur
Ég ætla að leyfa ykkur að njóta fegurðar frænda míns með mér. Af því að ég er so góð ;)!




Fréttir af Mekka
Ég rakst á frétt um tilvonandi Wal-mart superstore í Teotihuacan, Mexico. Nú vita þeir sem þekkja mig að ég dýrka Wal-mart. Samt væri þessi frétt svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að á byggingarsvæðinu fannst lítið, fornt altari. Ætla þeir að stoppa að byggja þarna? Nei, þeir ætla að byggja plexi-gler kassa utan um altarið og hafa bílastæðið í kring! Fólk er mis. Any ways þá er fréttin hérna:

Bónus Kanamanna

Og ég verð bara að deila því með ykkur hvað ég vorkenni Camilo Olivas, fjögurra barna föður. Ef að þeir hætta við að byggja búðina á þessum ómetanlegu rústum þá verður hann að halda áfram að keyra í heilar 10 MÍNÚTUR til að að komast í næstu Walmart búð. Vinsamlegast sendið honum baráttukveðjur hérna

sunnudagur, september 19, 2004

Sigillum Universitatis Islandiae
Nám í háskóla er ólíkt öllu öðru námi sem ég hef reynt. Það er krafist meira af manni, maður stressar sig frekar yfir hlutunum og lítil sem engin vægð er sýnd aumum nemendum á fyrsta ári í enskuskori. Eða það hélt ég. Kennararnir reyndust svo bara vera ósköp venjulegt fólk með lítil sem engin horn. Klaufir og hala get ég ekki dæmt um þar sem ég mun vonandi aldrei sjá neinn kennara minna nakinn eða skólausan. Kröfurnar og stressið reyndust hins vegar vera á rökum reist svo ég var tilneydd að segja mig úr einum kúrsinum. Reyndar líkaði mér ekki sá kúrs svo ég tapaði nú ekki miklu. Að öðru leyti er ég að fíla mig sem háskólanema. Sérstaklega þar sem ég hitti fyrir tvo fyrrum MR-inga í enskunni svo að nú sit ég ekki ein úti í horni, borandi í nefið af einskærri minnimáttarkennd. Það er alltaf betra að vera fleiri en einn í skólanum þó að fáir nái að slá MR~Friends út ;).

Status
Þessa helgi horfði ég á fjórar spólur og lék mér í tölvuleik í ótalda klukkutíma. Þar af leiðandi á ég ekkert líf. Hins vegar hef ég séð ansi margar bíómyndir og er mjög góð í Sims 2. Er það eitthvað til að vera stolt af?

Nota Bene
Ringenes Herre er gífurlega dramatísk mynd.

föstudagur, september 17, 2004

Some people stand in the darkness
Á föstudaginn tókum við frænkurnar okkur til og héldum nostalgíu kvöld. Þar horfðum við á spólu sem við höfðum beðið í heilt ár eftir að sjá, en það var myndin Baywatch Hawaiian Wedding. Við horfðum nefnilega alltaf á Baywatch þegar við vorum litlar og skemmtum okkur síðan við að leika Baywatch í snjósköflum og sundlaugum fyrir norðan...Myndin reyndist vera schnilld í öðru veldi, aðallega vegna þess að við tókum gönguferð niður Memory Lane við að horfa á hana.
Pamela Andersson í gallastuttbuxum og bundnum topp standandi berfætt á stein í miðri á spilandi á saxófón. Gerist það betra ;)?

mánudagur, september 13, 2004

Shake-a-do
Helgin á undan nýliðinni helgi var svakaleg. Föstudagurinn var tekinn í hvíld því á laugardagskvöldið var stefnan tekin á matarboð og kokteilpartý í boði Bryndísar og Ásgerðar. Þar var boðið upp á fáranlega góðan núðlurétt og góðan félagsskap fólks sem ég hitti alltof sjaldan. Eftir matinn (og bráðnauðsynlegan tíma til að liggja aðeins á meltunni)settu þær stöllur á fót kokteilaframleiðslulínu sem vakti mikla lukku. Ég og minn Magic dönsuðum útum allt í sællri ofvirkni og létum fólk ekki í friði. Eins gott að flestir gestanna höfðu fengið sér í aðra tána (nú eða í báðar fætur upp að öxlum), því annars hefði okkur örugglega verið hent út med det samme ;)!
Eftir heljarinnar partý og gleði var svo rennt niður í bæ á Jarðarberinu og öðrum óþekktum fararskjóta. Áður en þangað var farið hafði ég látið í ljósi óskir mínar um að ekki yrði farið á Hverfisbarinn vegna eftirfarandi: leiðinleg röð, leiðinleg tónlist, leiðinlegt fólk og glerbrot í tonnatali á dansgólfinu. Eyrún og Dagbjört fóru samt af einhverjum ástæðum að tala við dyraverðina. Ég horfði bara út í loftið og fylgdist ekkert með þannig að mér brá heldur mikið þegar einhver tók utan um hausinn á mér og henti mér inn á staðinn. Við stóðum þarna þrjár inni í anddyrinu og horfðum ringlaðar hver á aðra. Og ekki batnaði "ringlan" þegar ég heyri ljúfa tóna fljúga frá dansgólfinu (ekkert 50-cent allt kvöldið). Við enduðum á því að dansa þar til staðurinn lokaði og enginn hrinti mér, steig á mig né hellti á mig vökva af neinu tagi! Og svo var Gunni að vinna á barnum og ég fékk allt það vatn sem mig langaði í ;).
Mórall sögunnar: Gefðu fólki/stöðum/hlutum séns. Kannski koma þau/þeir þér á óvart.
Nema glerbrotin. Helvítis glerbrotin verða alltaf á sínum stað.

fimmtudagur, september 02, 2004

Mússí mússí gú gú
Föstudaginn 27. ágúst klukkan 17:20 eignaðist ég lítinn frænda! Hann er, að sjálfsögðu, fallegasta barnið í heiminum og er strax orðinn algjör hjartaknúsari :)! Reyndar skammast ég mín fyrir að blogga um hann fyrst núna en svona er lífið...auk þess sem að hvernig sem ég reyndi gat ég ekki resize-að myndir af honum til að setja með þessari færslu. Þar af leiðandi ætla ég að setjast út í horn og gráta smá af skömm.

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Heimt úr helju
Mín hefur gilda og góða afsökun fyrir að hafa ekki bloggað í háa herrans tíð. Það var nefnilega verið að krukka í nefið á mér svo að ég þurfti að halda til á spítalanum. Ég fæ svo oft kvef og leiðindapestir þannig að læknirinn minn taldi réttast að laga það bara í einum hvelli. Það var gert með því að brjóta upp nefið og laga einhver þrengsli. Skemmtilegt ekki satt?

Lestur myndasagna = nörd?
Reyndar ekki. Jú, kannski ég en það eru ekki allar myndasögur myndasögur, if you know what I mean. Til dæmis er sagan Strangers in Paradise ekki myndasaga. Hún er skáldsaga sem höfundurinn kýs að deila með okkur hinum í myndum og stuttum texta. Reyndar koma inn á milli síður með óbrotnum texta og engum myndum sem gerir þetta ennþá óhefðbundnara. Og það sem er svo sérstakt við þessa sögu er að þó að þú hatir myndasögur og finnist ekkert jákvætt við þær þá getur þér samt líkað við Strangers in Paradise. Þannig að ef þig vantar eitthvað gott að lesa þá skaltu skella þér á Borgarbókasafn Reykjavíkur, Bókasafn Kópavogs eða í Nexus og verða þér út um fyrsta bindið í sögunni. Og trúðu mér, þú sérð ekki eftir því!

Afþreyingin
Hefurðu ekkert að gera í vinnunni/heima/í skólanum? Farðu þá á Anomalies unlimited og lestu þér til um hversu evil Disney-fyrirbærið er í raun ;).

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Lukkunnar pamfíll
Die Eltern hafa snúið aftur til landsins í norðri og mín er húrrandi glöð yfir því. Sérstaklega þar sem með þeim í för var bikiní og yndislega bláir Converse skór handa undirritaðri :). Þeir voru númer 2 á top five fataóskalistanum mínum, rétt á undan rauðri kápu úr H&M og rétt á eftir svörtum Sheperd stígvélum. Þrátt fyrir þessa gjöf sé ég fram á stóreflis fjárútlát til undirbúnings fyrir veturinn ;).

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Allt í lukkunnar velstandi
Bryndísin er komin heim, seinasta vikan í vinnunni er hafin og allt er fallið í ljúfa löð. Ég fór að sjálfsögðu í heimsókn til Bryndísar þegar hún var búin að jafna sig eftir heimkomuna og þar biðu góðar gjafir (nú fyrir utan það að hitta hana og familíuna audda. Það væri í sjálfu sér alveg nóg :)!). Hún hafði keypt afmælisgjafir handa minni úti og þær féllu aldeilis vel í kramið. Eyrnaslapa-bolli, japanskt-gsm dinglumdangl og síðast en hreint ekki síst: Rainbow Brite dúkka og Twink bangsi!!!



Veðrið
Þegar ég kom út úr húsi klukkan hálf átta í morgun gekk ég á vegg. Og ekki neinn venjulegan Kristínar-vegg. Nei, þetta var svona sólarlandahita-veggur. Loftið bragðaðist meira segja eins og loftið við Miðjarðarhafið bragðast snemma á morgnana. Þetta var allsvakaleg upplifun og alls ekki leiðinleg :)!

Viðbót
Vinkona mín, hún Jóhanna Himinbjörg er komin út úr bloggskápnum. Þess vegna fær hún að sjálfsögðu tengil undir vinir og vandamenn :). Endilega kíkið á bloggið hennar og fylgist með ævintýrum hennar í kóngsins Köbenhavn þar sem hún mun stunda nám við Kunstakademiens Arkitekturskole. Sem er einmitt draumaskólinn minn ;)!

Múhahahahaha dagsins
Köttur að taka Flashdance. Priceless!!!

föstudagur, júlí 30, 2004

Þriggja daga helgi = Bliss
Mín er með lítil plön fyrir verslunarmannahelgina og hefur í raun aldrei verið mikið fyrir að fara á útihátíðir. Þess vegna er stefnan sett á kósístemmningu með familíunni í sumarbústaðnum um helgina. O, ég finn hvernig þreytan líður úr mér...

Steikin
Þetta bjargaði deginum í dag þó svo að Titanic sé eina myndin af þessum sem ég hef séð. Ýttu á myndirnar vinstra megin við textann :).

mánudagur, júlí 26, 2004

Helgin...
...var bara afspyrnu skemmtileg. Ég fór meðal annars í bíó á Spiderman 2 og á djammið í fyrsta skipti í ALLTOF langan tíma þar sem ég skemmti mér bara mjög vel. Já, og svaf úti á svölum í sólinni á laugardeginum. Ofsalega þægilegt og brúnkandi.

Spiderman 2
Hún fer ekki bara með tærnar þar sem fyrri myndin er með hælana, nei, hún traðkar á tám hinnar eins og kókoshneta með mikilmennskubrjálæði. Þetta er sko mynd sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara, en betra er að vera búin að sjá fyrri myndina. Já, nei nauðsynlegt er að hafa séð fyrri myndina :).

Kanntað flassa BIOS?
Ef svo er þá þarf ég að ná tali af þér.

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Bling bling
Sem fyrr horfði ég á vídeo um helgina. Í þetta skipti varð myndin Marci X fyrir valinu. Reyndar var ég efins um það hvort ég ætti yfir höfuð að vera að leigja hana. Vissi ekki neitt um hana annað en að Lisa Kudrow léki hvíta yfirstéttarstelpu. En ég lét slag standa og viti menn, Marci X reyndist vera snilldarræma. Vissulega dálítið mikil steypa en það átti bara vel við stemmninguna hjá okkur systrunum.  Ég ætti nú orðið að vita betur en að efast um hæfileika Lisu Kudrow, hún er schnilld í hvaða hlutverki í hvaða mynd sem er. Mæli tvímælalaust með þessari næst þegar þú veist ekkert hvað þú vilt leigja.

Bara fyndið...
Allir að kíkja á þetta og setja hljóðið í botn! Þetta bjargaði deginum mínum í gær. Og sjúklingar og samstarfsmenn horfðu á mig mjög svo stórum augum :).

miðvikudagur, júlí 14, 2004

Vinna, borða, sofa, vinna, borða, sofa
Einhvern veginn hefur mér tekist að gera ekki neitt það sem af er sumri. Jú, ég hef farið í bíó og horft á sjónvarp en það er ekkert til að hrópa húrra fyrir. En nú ætla ég að taka mér tak og gera eitthvað almennilegt. Til dæmis ætla ég í sund eftir vinnu og hlakka bara ansi mikið til þess :). Ég er svo easily amused, greyin mín.

Tilhlökkun
Já, ég hlakka til svo margra hluta. Þeirra léttvægastir eru útgáfudagur The Sims 2 og post-mortem disks Elliott Smith. En það er svona í peanuts-þyngdarflokknum ;). Meira skemmtilegt er að það eru 43 dagar í að María mín komi heim (ekki það að ég sé neitt að telja :S) og enn færri þangað til Bryndísin snýr aftur. Og báðar koma þær frá Kanalandi. Og svo er fleira sem ég hlakka til en það er líka leyndó ;)! Og ef þú veist það ekki nú þegar þá veistu ekki neitt, vissirðu það?

Bond, James Bond
Ég fékk allt í einu gífurlega löngun til þess að vitna í vin minn Bond, líklegast vegna þess að ég horfði á mynd með honum í gær :).

-That's a nice little nothing you're almost wearing...

Ég man nú reyndar ekki úr hvaða mynd þetta er en finnst það skemmtilegt engu að síður. Og að lokum: Rétti upp hendi þeir sem horfa á Bond!

föstudagur, júlí 09, 2004

Nýir tenglar
Ég ákvað að láta verða af því að uppfæra tenglana mína. Eftirfarandi síður fengu tengil:

1. Bjarneyjar-blogg þar sem lesa má um inter-rail ævintýri hennar og Óskar.
2. Síða um snillinginn Elliott Smith. Ef þú hefur ekki heyrt lag með honum skaltu horfa á Good Will Hunting og hafa eyrun opin.
3. Heimasíða The Sims 2, sem er framhald af The Sims, skemmtilegasta leik í heimi. Endilega kíkið og heillist.

Bíó, bíó baby
Í gær fórum við Berget á VISA-forsýningau á Raising Helen. Sú mynd er ofsalega mikil feel-good mynd. Sem er mjög gott ;). Við systurnar skemmtum okkur alla veganna mjög vel og ferðin, alla leið upp í Mjódd, var því vel heppnuð.

Útsölur
Ég er ekki búin að kaupa mér neitt á útsölu! Það verður að gera meiriháttar breytingar hér á þar sem mín helstu fatakaup eiga sér stað í útlöndum og á júlí-útsölunum. Ég held ég skelli mér bara eftir vinnu í dag og kaupi mér eitthvað fínt. Smá retail-therapy ætti að láta mér líða betur ;)!

Frasi dagsins
Er í boði Völlu í Völlu-sjó:
"Ég meina...Sorrí!"