sunnudagur, mars 28, 2004

Hárið...
Nei, ekki hárið á mér, þó svo að ég sé nýkomin úr klippingu. Ég meina myndina Hárið, einhverja bestu söngleikja mynd sem gerð hefur verið! Hún var einmitt að koma í hús frá the U.S. of A. ásamt The Sound of Music (annarri frábærri mynd) og því verður glatt á hjalla hjá söngglöðu systrunum :). Og þar sem myndin var mætt á svæðið varð ég auðvitað að sýna lit og setja geisladiskinn Hárið í spilarann. Helber schnilld!

Týnd í bókalausri auðn...
Borgarbókasafnið gerði mér þann óleik að loka í heila ellefu daga. Reyndar eru þeir að skipta yfir í MIKLU betra útlánakerfi (sem er ekki DOS-based, hallelúja lofið Drottni) en engu að síður er skrýtið að geta ekki skroppið á bókasafnið. Ég fór reyndar þangað til að birgja mig upp, daginn áður en lokaði, þannig að ég hef svo sem nóg af bókum, en engu að síður vantar eitthvað í tilveruna.

Lagið...
Í spilaranum þessa stundina er lagið Syndir holdsins/lifi ljósið úr söngleiknum Hárinu. Svaka lag. Svaka vel þýddur texti.

miðvikudagur, mars 24, 2004

Kvef og læti...
Ég er nú stigin uppúr úr veikindunum eins og fönix úr ösku. Líkt og endurfædd og til í hvað sem er. Núeh, eða ekki. En ég er þó loksins komin í skólann og skemmti mér ágætlega í AutoCAD tíma. Og ég má til með að deila því með alþjóð að ég svaf í heila níu (!) klukkutíma í nótt. Geri aðrir betur!

Tónleikastand...
Mig langar að skella mér á meirihlutann af tónleikunum sem verða á næstunni. Hefði meira að segja alveg viljað fara á Sugababes til að vökva gelgjuna í mér. En löngunin er samt mun meiri að fara á tónleika hjá Pixies, Placebo og slíku og hvað ég hefði viljað hlusta á Damien Rice live. Það er svakalegt að vera svo útúr umheiminum að maður veit ekkert hvað er að gerast, fyrr en það er búið :(.

Ég elska þig, þótt þú sért úr steini...
Þar sem ég átti inneignarnótu í Hagkaupum ákvað ég að gera eitthvað sem ég geri MJÖG sjaldan. Ég keypti mér eitt stykki spánnýjan geisladisk. Og svo annan ekki alveg jafnnýjan :). Fyrri diskurinn er enginn annar en Placebo: Sleeping with ghosts og hann venst mjög vel. En það er seinni diskurinn sem að stendur upp úr. Já, og tilvitnunin að ofan er einmitt af honum. Diskurinn Borgarbragur er snilldin ein. Við áttum svoleiðis hljómplötu (já, hljómplötu!) þegar ég var lítil og það var mikið dansað og sungið með þeirri plötu í den! Og alltaf af og til yfir árin, höfum við systurnar fengið brot úr lögum á heilann. Og nú loksins getum við sungið heil lög, með textann fyrir framan okkur, diskinn í tækinu og hátalarana í botni! Vúhú, segi ég nú bara! Og í tilefni dagsins ætla ég að setja textabrot úr lagi hér fyrir neðan...

Vesturgata
Hann afi minn gekk um á alræmdum flókaskóm
með albönskum hrágúmmísólum sem skelltu í góm.
Hann klæddist vínrauðum náttfötum nótt jafnt sem dag
og nótaði í örsmáar kompur stef eða lag.
Og þeir Steingrímur rakari hlustuðu á Händel og Bach
og horfðu á skýin og sögðu í lotningu: Takk!

...

Víðast í heiminum heyrist nú urgur og kíf.
Hvar er vor draumur um fegurra og betra líf?
Erum við öllsömul dauðadæmt drullupakk?
Er takmarkið kannski að deyða þá Händel og Bach?

Ó, hlustaðu bróðir, ég strengina varlega strýk;
helgnýrinn þagnar, þín sál verður aftur rík.
Sittu hjá mér, hlustum á Händel og Bach
og horfum á skýin og segjum í lotningu: Takk!

fimmtudagur, mars 11, 2004

I'm fine-d...
Ég er að deyja úr kvefi. Bara langaði að deila því með umheiminum.

It's a small world after all...
Fann svona kortagerðardæmi. Mér finnst svona svo gaman og hugsaði með mér að nú gæti ég sýnt heiminum hversu mikið af honum ég hefði séð með eigin augum. Svo kom í ljós að ég hef ekkert komið til það margra landa. Og það lítur út fyrir að ég hafi ferðast um ÖLL Bandaríkin, sem er náttúrulega ekki satt...



create your own visited country map
or write about it on the open travel guide

þriðjudagur, mars 09, 2004

Akureyri taka 2...
Það reyndist vera dálítið af snjó í Hlíðarfjalli svo að við gátum sýnt tilþrif í hálfslöppu færi. Það r sem skíðin mín eru biluð voru leigð handa mér carving skíði og þvílíkur munur! Ég ætla svo innilega að fá mér þannig. Reyndar var ég bara á skíðum annan daginn því á sunnudaginn var svo klikkað veður að ég barasta treysti mér ekki upp í fjall. Og á leiðinni heim, vá! Ég hélt að bíllinn myndi fjúka þegar við keyrðum í 21 m/s uppi á Holtavörðuheiði. Mikið ævintýri.

Já, og nokkurn vegin svona leit Hlíðarfjall út um helgina:

fimmtudagur, mars 04, 2004

Öðruvísi dagar...
Já, í dag og í gær eru öðruvísi dagar í Iðnskólanum í Reykjavík. Allir nemendur á hönnunarbraut þurftu að vera með í undirbúningi fyrir a.m.k. eina vinnustofu og ég var í kaffihúsanefnd. Bakaði ca. 150 bollur og skemmti mér vel við það. Í gær slysaðist ég svo inn í vinnustofu í bókbandi og kom ekkert út þaðan aftur. Vá, hvað það var gaman! Ég bjó til mína fyrstu bók og er alveg rosalega stolt af henni!

Akureyri...
Á morgun skundum við fjölskyldan og ýmist vinafólk hennar á Akureyri. Þetta á náttúrulega að vera skíðaferð en sökum snjóleysis verður bara slappað af og veðurguðunum færðar fórnir.



Á skíðum skemmt' ég mér, tralalalala, tralalalala, tralalala!

fimmtudagur, febrúar 26, 2004

Bolla, bolla, bolla...
Já, bolludagurinn var á mánudaginn og var það vel. Hér á heimilinu var tekið forskot á sæluna á sunnudeginum og sultu og rjóma skellt í keyptar (en mjög góðar) vatnsdeigsbollur með súkkulaði ofan á. Á bolludaginn sjálfan borðaði ég svo enn fleiri bollur og þá var sérstaklega vinsælt að mamma skyldi búa til púns. Minns finnst nefnilega rjómi ógeð á öðru en vöfflum og pönnukökum.

Sprengidagur með meiru...
Nú má ekki gleyma sprengideginum á þriðjudaginn var. Saltkjöt og baunir er eitthvað það besta sem ég fæ og ég borðaði því á mig gat eins og á að gera. Eftir matinn ákvað ég að skella mér á Kópavogssafn og skila bókum og öðrum safnkosti (sem er n.b. mjög skrýtið orð). Ég var bara að dunda mér við að læra á safnið og skoða bækur þegar að það slokknar á ljósunum í safninu. Ég flýtti mér að afgreiðslunni og þar voru bókasafnsverðir að fara í yfirhafnir. Ég spurði hvort að það væri búið að loka og þær hrukku allar í kút. Klukkan var sem sagt EINA mínútu yfir lokunartíma og þær tjékka ekkert hvort að allir séu komnir út úr safninu. Og þar sem þær voru á leiðinni út þá munaði nú ekki miklu að ég lokaðist inni í annarri heimsókn minni á safnið :) !

Gleði dagsins...
Orlando er aftur inni í myndinni. Það kemur svo bara í ljós hvort hann heldur sig þar eða flýr aftur ;) !

sunnudagur, febrúar 22, 2004

Gigli...
Já, um daginn fékk Bryndís vinka boðsmiða á bíómyndina Along came Polly. Við skunduðum því fullar tilhlökkunar upp í Álfabakka og ætluðum sko að skemmta okkur ærlega. En viti menn, það var uppselt. Og stelpan í afgreiðslunni sagði okkur að Þessir miðar hefðu verið sendir á öll heimili sem eiga viðskipti við Símann. Óóóóókei, ég þekki engan annan en Bryndísi sem fékk svona og samt á mitt heimili viðskipti við Símann. Skandall!
En þar sem við skakklöppuðumst vonsviknar heim, ákváðum við að gera gott úr öllu saman og leigja bara vídjó. Og myndirnar Alex & Emma og Gigli urðu fyrir valinu. Alex & Emma reyndist voða fín en Gigli...ja, ég held ég geti sagt, með nokkurri vissu, að Gigli sé LÉLEGASTA mynd sem ég hef nokkurn tíma séð. Það var alveg rosalegt að horfa á hana. En sem betur fer var hún fríspóla svo ég sé ekki eftir neinum peningum :) !

McFlurry...
Já, svona er það þegar maður vafrar um netið án þess að leita að neinu sérstöku. Þá finnur maður gjarnan skrýtna og/eða skemmtilega hluti sem deila má með öðrum. Þetta apparat hér fyrir neðan fann ég á síðu Toys R Us og fannst það alveg gífurlega amerískt ;).



McFlurry-vélin! Tilvalin til að búa til McFlurry ef að maður er of latur til að ganga þessa 50 metra yfir á næsta McDonalds...

miðvikudagur, febrúar 18, 2004

Skyndipróf...
Í dag var skellt skyndiprófi á okkur í AutoCAD tíma. Mér fannst ganga mjög vel en engu að síður reynir nú á fullyrðingu mína um rosalega færni í AutoCAD.

Hreyfing...
Haldiði að ég sé ekki bara orðin dugleg að fara í ræktina. Ú, je beibe! Hvað ég elska gönguskíðavélar!

Himnaríki...
Einhvern veginn tókst mér að verða tuttugu vetra án þess að fatta að ég gæti fengið mér bókasafnsskírteini í öðrum bæjarfélögum. En ekki lengur! Nú er ég stoltur handhafi skírteinis í bókasafni Kópavogs og prísa mig sæla með það. Hugsið ykkur, ókannaðar víddir bóka, tölvuleikja, tímarita og myndasagna. Já, ég held barasta að ég sjái ljósið við enda ganganna!

mánudagur, febrúar 09, 2004

Hæ, hó! Hæ, hó! Við höfum fengið nóg...
Já, ég hafði sko aldeilis fengið nóg af gamla tölvugreyinu heima. Og einmitt þá, á ögurstundu, kom súpertölvukallinn (aka. pabbi) og reddaði málunum! Nú eigum við nýja og fína tölvu með hröðu og fínu ADSl-i og stórum og góðum hörðum disk. Nú er bara eftir að bíða og sjá hvort gamli harði diskurinn, með öllum myndum undirritaðrar, hafi bjargast úr tölvuslysinu mikla og fræga. Við bíðum spennt!

Snilldin...
Ég er ÓGEÐSLEGA klár í AutoCAD. Egóið ætlar mig lifandi að drepa.

Hugleiðingin...
Af hverju segir maður að eitthvað: "...ætli mann lifandi að drepa!"
Ef eitthvað á að drepa mann, verður maður þá ekki að lifandi áður en það er gert? Er kannski hægt að drepa mann dauðann? Reyndar hljómar setningin,
"Hann ætlaði mig dauðann að drepa!", ekkert sérstaklega eðlilega svo kannski er það skýringin...

miðvikudagur, janúar 28, 2004

Nýtt útlit...
Gamla útlitið á síðunni var farið að fara ansi mikið í mínar fínustu. Og endurlitunarmöguleikar template-anna sem Blogspot býður upp á eru ekki neitt sérstaklega miklir. Fyrir utan það að það var enginn áskorun lengur í að fikta í því. Svo ég áttaði mig á því að róttækra aðgerða var þörf. Síðan þurfti að endurfæðast. Og það hefur hún gert, guði sé lof. Og hver veit nema ég verði duglegri að blogga í skemmtilegra umhverfi!

Commentakerfi...
En eins og sjá má þá reyndist mér erfitt að setja commenta kerfið inn á síðuna. Það verður því bara að bíða betri tíma og þeir sem að vilja kommenta geta bara geymt kommentin til betri tíma.

Friends...
Uppáhaldsþátturinn minn í öllum heiminum held ég bara. En þar sem að ég hef ekki verið áskrifandi af Stöð 2 í mörg, mörg ár þá hef ég aldrei getað fylgst almennilega með. Ég hef alltaf bara séð einn og einn þátt hjá vinkunum eða þá fengið seríur sem þær eiga lánaðar. En núna loksins, loksins þá er ég að verða með á nótunum. Ég á sjálf 7.seríu og er með 8. í láni. Svo ég þarf eingöngu að verða mér úti um 9. seríu og þá er ég klár í slaginn. Og ekki seinna vænna, því seinasta serían fer í loftið 6. febrúar n.k. Því miður er ég ekki enn komin með Stöð 2 svo að ég verð bara að snapa mér sæti hjá einhverjum sem á afruglara. Það verður sem sagt svona Idol stemmning yfir þessu hjá mér.

mánudagur, janúar 19, 2004

Bloggþurrð...
Nú er vorönn í Iðnskólanum í Reykjavík hafin af krafti. Þegar ég sá stundatöfluna mína fyrst var ég gráti næst því mér leist hreint ekkert á málið. En eftir fyrstu vikuna er komið annað hljóð í skrokkinn. Nú er ég mjög svo ánægð með mína fjögurra daga skólaviku og þriggja daga helgi. Ég er sem sagt vel sátt ;)!

Dansi, dansi dúkkan mín...
Og þar sem maður verður alltaf að taka nýtt ár með trompi, þá ákvað ég að skella mér í leikfimi uppi í Hreyfigreiningu. Það er sko algjör snilli. Þar eru nefnilega svona gönguskíðavélar sem að mér finnst svo gaman að. Og ekki spilla danstímarnir sjálfir fyrir.

Svekkelsi dagsins...
Það kostar 100.000 kr. að fara til Orlando.

Gimmí, gimmí, gimmí!...

Zodiac!

mánudagur, janúar 05, 2004

Jól og nýtt ár...
Gleðileg jól og farsælt nýtt ár! Ég er kannski í seinna lgai með þetta en er mætt engu að síður. Þettar eru búin að vera æðisleg jól og áramót en því miður líður að lokum núna. En ég kvarta ekki. Eða alla veganna ekki mikið :).

Catan...
Ég fékk aldeilis tækifæri til þess að spila þetta nýja uppáhaldsspil mitt, um þessi áramót. Á gamlársdag komu Nína og Marthe nefnilega með það í mat og ég fékk að halda því eftir. Og á nýársdagskveld kom Bryndís í sérlega Catan-spilaheimsókn og þá varð nú glatt á hjalla!

Kvóti dagsins...
- Oh, Rexy! You're so sexy!

miðvikudagur, desember 17, 2003

Jólafrí...
Ef ég myndi hitta manninn sem fann upp jólafríið þá myndi ég kyssa hann rembingskossi. Jólafrí eru nefnilega æðisleg!

Skreytum hús með greinum grænum...
Við systurnar og Anna frænka fórum í heimsókn til Bjargar ömmu áðan til þess að skreyta jólatréð hennar. Yfirjólatrésskreytarinn er nefnilega í Kanalandi og kemur ekki aftur þaðan fyrr en eftir marga mánuði. Og ekki gat amma veirð jólatréslaus á meðan!

Prófsýning...
Dómur er fallinn: Mér gekk vel í jólaprófunum og reyndist hafa brillerað í byggingarlistasögu. Iðnskólinn í Reykjavík er algjör draumur.

Spilakvöld...
Ég er farin að finna alveg óstjórnlega löngun til þess að hafa spilakvöld. Og þá helst til þess að spila Catan. Það er spil sem ég elska, þrátt fyrir að ég hafi bara spilað kennsluspilið hálfu sinni ;). Það er þess vegna spurning hvort ég hóa ekki í einhverjar vinkur til þess að sprella með mér.

fimmtudagur, desember 11, 2003

Jólaskraut...
Já, já sumir fara soldið overboard! Tékkið á þessu.

Byggingarlistasaga...
Hah, ég er ekki frá því að ég hafi barasta brillerað prófinu í dag! Og þá er bara eitt próf eftir og svo jólafrí!

þriðjudagur, desember 09, 2003

Helgin...
Var svona skítsæmileg held ég bara. Ég horfði á Idol með Bryndísinni á föstudaginn (eins og venjulega) og fór seinna um kveldið í bíó með Katrínu. Love actually er bara skrattagóð mynd! Klisja dauðans, en hver hefur ekki þörf fyrir smáklisju á þessum síðustu og verstu tímum? En það fyndnasta var að Bryndís var líka í salnum en við vorum samt ekki saman í bíó! Hah, geðsjúklingar á ferð og flugi.
Á laugardaginn svaf ég til klukkan 14:30 (!) um kvöldið fór ég að passa hjá nýju fólki. Skrýtnu fólki.
Á sunnudaginn gerði ég ekkert nema að fara í hina vikulegu Charmed-heimsókn :).

Stafsetning...
Sumt fólk bara getur ekki notað greinarmerki. Og hvað þá stafsett rétt. Það talar um að versla sér hluti og skrifar um sgreitingar = skreytingar, að vita um eitthvað með löngum tíma = góðum fyrirvara og ligt = lykt . Og þetta var allt í sama e-mailinu sem ég fékk rétt áðan. Fólk er svakalegt!

Ég heiti Kristín og ég er sjónvarpsfíkill...
Mér til mikillar hrellingar gerði ég mér grein fyrir því fyrir stuttu, að ég stefni hraðbyri í víti sjónvarpsfíkilsins. Þegar mér fannst ég ekki getað misst af þættinum Fastlane þá féll mér allur ketill í eld. Ég sleppti því að horfa á sjónvarp þann daginn og hef þar með hafið bata minn. Eða við skulum alla veganna vona að það sé raunin!

laugardagur, desember 06, 2003

Próf...
Hér er svona öðruvísi próf, til að létta lífið í prófunum :Þ.

You are DORY!
What Finding Nemo Character are You?

brought to you by Quizilla

Who'da thunk it?

föstudagur, desember 05, 2003

Jiiiiii...
Gwyneth Paltrow og Chris Martin bara ólétt. Ég á barasta ekki orð! Jú, annars er ég með spár um það hvernig krakkinn verður.
Annað hvort: Fjallmyndarlegur með geggjaðan hreim og þvílíka sönghæfileika
Eða: Litlaus (og alltaf við það að fara að gráta) með versta enska hreim í heimi og mun þá leika eins og undin tuska.
Og nei, ég er aldrei með sleggjudóma ;) !

þriðjudagur, desember 02, 2003

Veikindi...
Hafa herjað á Bólstaðarhlíðargengið. Og þar varð ég verst úti eins og vanalega. *Grátur og gnístran tanna*. Óóææ aumingja ég o.s.frv. o.s.frv. En það er alla veganna góð ástæða fyrir lítilli hreyfingu á blogginu!

Jólaprófin...
Eru hafin í Iðnskólanum í Reykjavík. Ef að jólapróf skyldi kalla. Ég fer í þrjú próf; tækniteikningu, fríhendisteikningu og byggingarlistasögupróf. Og það þarf bara að læra fyrir byggingarlistasöguna. Og þar sem ég fór í tækniteikningarprófið í gær þá á ég núna eiginlega frí þangað til 8. des, en þá þarf ég að fara að lesa aftur. Og svo bara búið klukkan 12:00 þann 11. desember. Og þá hefst jólafrí sem stendur til 9. janúar. Húrra, húrra, húrra!

Sumarbústaður...
Um helgina hafði fjölskyldan það gott í sumarbústað í Efri-Reykjum sem vinnan hans pabba á. Þar var lesið, sofið, horft á DVD, hlustað á góða tónlist, farið í pottinn, kíkt í Hlíð og sofið. Og já, verkefni gerð fyrir skólann, en það fór nú kannski minnst fyrir því :S !

Kvóti dagsins
- Víst kveiktiru í typpinu á pabba! Eva systir segir það!
- Góði þegiðu og hugsaðu um þíns eigins typpi!

mánudagur, nóvember 17, 2003

Helgin...
Vá! Ein besta helgin hingað til, held ég bara. Á föstudaginn var mér boðið í óvissuheimabíó en sú sem bauð mér var algjörlega AWOL ;). En það var skemmtun engu að síður. Síðan var náttúrulega Idol hittingur og það var bara gaman! Reyndar hélt ég ekkert spes með þáttakenndum í þessum riðli en það bíttar engu.
Á laugardagskvöldið var partý með djammgrúppunni ehf. Fyrst í heimahúsi sem var svo sem nógu fínt (og þar sem ýmsir aðilar voru að STURTA í sig áfengi, með góðum árangri!) Svo var haldið í bæinn og djammað feitt fram á morgun.
Á sunnudaginn gerði ég, skiljanlega, ekki neitt. Lærði smá og fór í heimildaleit á bókasafninu. Voða gaman...

Kvóti dagsins...

-A whale! I wish I could speak whale...

fimmtudagur, nóvember 13, 2003

Ahemm...
Ég er alltaf með einhverjar svakalegar fullyrðingar um það hversu dugleg ég ætli að vera að blogga. Og svo gerist bara ekki neitt og ég roðna bara við að skoða mína eigin síðu. Og ég sem þoli ekki þegar að ekkert nýtt er á bloggunum sem ég les reglulega. Ég er barasta algjör hræsnari!

Machintosh...
Haha, í kveðjupartýi fyrir húsið hennar ömmu var dregin upp Machintosh dolla! Húrra, ég er sko spámaður! En það var mjög gaman á allan hátt í þessu boði því næstum allir voru mættir og svo var sprellað fram eftir. Litlurnar komu, allar þrjár, og hegðuðu sér mjög vel. Ég þurfti reyndar að fara því að vinkona mín hélt innflutningspartý þennan sama dag.

Stórmynd Grísla...
Á sunnudaginn fór ég svo í bíó með næstum-litlu-systur-mína, hana Sjöfn. Lítil frænka og aðeins stærri frænka ætluðu með en svo var sú minni veik og við vorum bara tvær. Og ég verð bara að segja að þessi mynd er schnilld! Frábær! Ég veinaði úr hlátri á köflum, og var vægast sagt litin hornauga af nærstöddum foreldrum. En Sjöfn skemmti sér vel og fannst greinilega allt í lagi að vera með skrýtnu manneskjunni í salnum :).

The Sims 2...
Ég hlakka til í maí 2004.

Kvóti dagsins...

- Sjaldan er ein bomsan stök!