mánudagur, maí 17, 2004

Evróvisjón deluxe!
Ég er mjög ánægð með úrslitin þetta árið. Íslenska lagið var lélegt þannig að þó að Jónsi syngi vel þá var bar ekki um neitt annað að ræða en eitt neðstu sætanna. En Úkraína var að gera virkilega góða hluti. Og áttu þar með sigurinn fullkomlega skilið, sérstaklega þar sem hún Rúslana samdi lag, texta og dansa sjálf. Fjölhæft kvendi það.

Sól og sumarfrí
Nú er ég komin í sumarfrí fyrir löngu en samt finnst mér sumarið nýkomið á Klakann. En það er gott að sumarið er komið því að með því komu Hildigunnur og Ingibjörg frá útlöndum :). Því miður fer Bryndís burt í staðinn en það verður bara að hafa það. Ces't la vie (eða hvurnig í fjandanum sem það er skrifað). Og sömuleiðis ætla ég að skreppa til Maríu pæju í the U.S. of A. Svo ég segi bara: Walmart, I'm on my way, baby!

Steik vikunnar
Tvímælalaust myndin Bill & Ted's Bogus Journey. Vanmetið meistaraverk, eða þannig ;). En stórgóð skemmtun hvað sem Óskars-verðlaunum líður og ég hvet þig eindregið að leigja hana ef þú ert einhvern tímann í steikarstuði!

miðvikudagur, maí 12, 2004

Jesús, María og Jósep!
Ég datt áðan inn á eitthvað mest niðurdrepandi blogg sem ég hef séð! Þetta er blogg stelpu sem að sér ekki jákvæðu hliðina á neinu! Anti-pollýanna. Ég fann hvernig ég dróst niður í leiðinda og neikvæðni hyldýpið sem greyið hafði búið sér til. Á svona fólki sér maður hvað lífið getur verið hræðilegt ef maður leyfir því það. Ég bara næ því ekki að fólk geti leyft sér þetta. Sama hvað bjátar á, það er alltaf eitthvað lán í óláni!
Eftir hræðilegan lesturinn (því ég get ekki hætt að lesa eitthvað ef ég er einu sinni byrjuð)leið mér svo illa að ég þurfti að nota adrenalín-gleði sprautu (í formi the Far Side myndasagna Gary Larson) til þess að verða eitthvað lík sjálfri mér í "attitude-i" !

föstudagur, maí 07, 2004

Kill Bill vol. 2
Vá. Það er ekkert orð í mínum orðaforða sem getur lýst hrifningu minni á þessari mynd. En eins og með þá fyrri: Ef þú ert ekki búin að sjá hana, farðu þá núna!

Sex in the City...
...Lauk göngu sinni í gærkveldi. Mér fannst þetta æðislegur lokaþáttur, með svona Hollywood-endi eins og við könnumst öll við. Það er ekki frá því að mér hafi vöknað um augun (=skælt eins og smákrakki) af hamingju yfir málalokunum.

Sumarið er tíminn
Það er heldur margt sem ég ætla mér að gera í sumar. Svo margt að það er spurning hvort að sumarið sjálft endist í það. Smá dæmi: Ég ætla að vinna eins og mo-fo, fara í heimsóknir til útlanda og út í sveit, synda, verða brún, teikna, fara í bíó, fara á djammið, halda upp á afmæli, labba reglulega niður Laugaveginn, fara í útilegur, fara upp í sumarbústað og synda svo meir! Það verður spennandi að sjá hvað af þessu ég kem í verk!

Brot og braml
Gleraugun mín brotnuðu áðan. Og ég missti þau ekki eða neitt Kristínarlegt. Dularfullt. Ég er farin að halda að þetta séu mótmæli gegn linsukaupunum í seinustu færslu. Nú eða bloggöfund, þar sem ég hef aldrei séð ástæðu til að blogga um gleraugun mín áður. Well, mission accomplished hjá þeim ef svo er í pottinn í búið :) !

miðvikudagur, maí 05, 2004

Verkefni-smerkefni
Nú þykir mér ég dugleg í meira lagi, bara búin að skila öllum verkefnum og möppum í einu lagi! Fannst reyndar skrýtið að ganga um bæinn með líkan af sumarhúsi í mælikvarðanum 1:20. Mikil upplifun.

Í tækinu
Ég var að enduruppgötva snilldar listamann að nafni Elliott Smith. Hann sá að mestu um tónlistina í Good Will Hunting og eitt laganna hans hljómaði í the Royal Tenenbaums (vanmetnu meistaraverki að mínu mati). Það kemst ekkert annað að þessa dagana, nema ef vera skyldi Bad moon rising með Creedence Clearwater Revival, en það á einmitt 36 ára afmæli í dag!

Sílíkon
Já, enn ein sönnun á komu sumars: linsukaup. Flott sólgleraugu verða málið í sumar ;)

sunnudagur, maí 02, 2004

Tenglar
Ég bætti við tveimur tenglum núna áðan. Sá fyrri er á myndaalbúmið mitt (með örfáum myndum í) og sá seinni er á www.wulffmorgenthaler.com. Þá síðu eiga danskir myndasögusnillingar sem skrifa og teikna mjög svo súrar teiknimyndir.

Vorprófa mánuðurinn
Þó ég taki bara tvö próf þetta árið þá er nú samt nóg að gera. Verkefnaskil eru í nánd og nú sér kona eftir leti helgum í vetur. En ég er þó í ágætum málum og er vel sátt við mitt. Það verður samt þungu fargi af mér létt í vikulok þegar öll verkefnin eru komin í hús :).

Kill Bill vol.1
Í seinustu viku horfði ég í annað skiptið á Kill Bill. Þetta áhorf mitt var hugsað sem undirbúningur fyrir ferð á mynd númer tvö og þjónaði sínum tilgangi vel. Ég var búin að gleyma ýmsum atriðum sem að hafa núna espað enn meira upp í mér löngunina til að sjá vol. 2. Ef þú ert ekki búin að sjá hana þá skaltu gera það núna!

Bíósumar
Sumarið í sumar verður bíósumar. Það er alltof mikið af spennandi myndum á leiðinni sem ég hlakka til að sjá.

Megasumar í alla staði!

sunnudagur, apríl 25, 2004

Gleðilegt sumar!
Vorið er komið og grundirnar gróa, gilin og lækirnir fossa af brún! Samkvæmt dagatalinu er vorið reyndar búið og sumarið sjálft mætt í góðum gír. Veðrið hefur verið svona venjulegt snemm-sumarveður, sól-rigning-vindur-logn-sól-rigning og svo framvegis allt á einum hálftíma :) ! Eins og einhver útlendingur sagði: Hvergi nema hér getur maður upplifað allar árstíðirnar á einum og sama deginum. Ísland, bezt í heimi!

Afmælisgjöfin góða
Bókaormurinn átti eins árs afmæli í mars síðastliðnum. Ég er nú ekki betri en það að ég tók bara ekkert eftir því og til þess að gera gott úr öllu saman ákvað ég að skrifa síðuna upp á nýtt, enn eina ferðina. Það má sem sagt líta á þessa breytingu sem síðbúna afmælisgjöf!

Bíó, bíó og aftur bíó
Í gærkvöldi horfði ég á myndina A mighty wind í góðra vina hópi. Algjör steypa af bestu gerð og ég hló eins og brjáluð korktafla ;) ! Þess má líka geta að þó ég horfi svona mikið á bíómyndir þá horfi ég voða lítið á sjónvarps-dagskrána. Ég horfi bara á sjónvarpið á mánudögum og stundum á föstu-dögum, svo það ætti að gefa mér plús í kladdann!

laugardagur, apríl 24, 2004

Akið varlega, vegavinna framundan...
Já, framkvæmdir standa yfir á útliti Bókaormsins. Við biðjum lesendur um að sýna þolinmæði þó comment væru vel þegin hvatning :Þ !

mánudagur, apríl 12, 2004

Páskahérinn...
Gleðilega páska! Vonandi voru þínir eins góðir og mínir :). Við systurnar og aðrir fórum upp í sumarbústað og eyddum páskunum í ró og næði með sjálfum okkur. Páskaegg, góður matur og Trivial í góðra vina hópi. Himnaríki á jörð!

Bíóferðir...
Ég fer oft í bíó. Mér finnst það gaman, er til í að borga fyrir forréttindin og finnst bíóvélagos miklu betra en það sem fæst út úr búð. Nokkrar af mörgum ástæðum þér til ánægju og yndisauka :Þ. Núna nýlega fór ég að sjá myndirnar Whale rider, 50 first dates, Starsky & Hutch og The whole ten yards. Og já, ég tel þær upp í gæðaröð.
Whale Rider er meistaraverk að mínu mati. Þetta er mynd sem að allir ættu tvímælalaust að sjá. Undantekningarlaust. Hún er í alla staði frábær en vissara er að hafa vasaklút við hendina. Og ekki mæta eftir að myndin er byrjuð því að ólíkt flestum myndum byrjar sagan á fyrstu sekúndu.
Í 50 first dates fer Adam Sandler á kostum. Að öllu jöfnu fer maðurinn óstjórnlega í taugarnar á mér, þar sem hann getur ekki leikið fyrir fimmaura, en þessi mynd kom mér skemmtilega á óvart. Hún er ólík öðrum Adam Sandler myndum, sem venjulega eru háð á alvarlegri myndir. Sem dæmi Happy Gilmore = gert grín að íþróttamyndum og Big daddy = gert grín að rómantískum gamanmyndum. 50 first dates er rómantísk gamanmynd þó að gamanið sé hærra sett en rómantíkin.
Starsky & Hutch er bara svona lala mynd. Hún er í sama stíl og þættirnir voru (þ.e.a.s. ekki færð í nútímalegan búning eins og Charlie's angels) og þess vegna er hún falleg ásýndar en við nánari kynni minnkar álitið heldur.
The whole ten yards nenni ég ekkert að segja um nema þetta: Videospólu-mynd!!!

Too lost in you...
Mér áskotnaðist fríkeypis miði á Sugababes tónleikana seinasta fimmtudag. Þar sem Katrín og sameiginlegir kunningjar okkar voru á leiðinni þangað ákvað ég að slást í hópinn með þeim og berja dýrðina augum. Ja, sér er nú hver dýrðin. Það var ekkert "show" í kringum þetta hjá stúlkunum þremur, Heidi, Keisha og S e-ð. Þær voru bara í ofur venjulegum fötum og stóðu bara og sungu. Ég skemmti mér nú samt ágætlega og mér virtist sem restin af áheyrendum sveitarinnar (sem flestir voru ekki mikið hærri en 140 cm) skemmti sér stórvel, enda án efa fyrstu tónleikar meirihluta salarins. Það var ofgnótt af píkuöskrum og öðrum aðdáunarhljóðum og það kitlaði hégómagirndina hjá mér að vera allt í einu orðin hávaxin í samanburði við aðra hlustendur. Queen of the world o.s.frv.
En stóra augnablikið mitt þetta kvöld (já, og reyndar þessarar viku) átti sér ekki stað fyrr en að tónleikunum loknum. Ég kvaddi Katrínu og stelpurnar inni og labbaði ein út um aðaldyrnar, á leið minni í bílinn. Þar er að sjálfsögðu löng bílalest sem bíður eftir að komast í burt og meðan ég geng meðfram henni er ég að slefa yfir svörtum Mercedes Benz jeppa. Þegar ég kem að jeppanum sjálfum þá sé ég að afturglugginn er opinn og að fyrir innan sitja allar þrjár Sugababes og allar sem eina brosa þær til mín (ég leit næstum við til að athuga hvort þær væru að horfa á einhvern annan...). Sú svarta (ég held hún heiti Keisha) segir:
Hi, thanks for coming!
og þar sem ég er veluppalinn Íslendingur rétti ég þeirri sem var næst mér (það reyndist vera Heidi) hendina og segi:
Thanks for a great show!
að því loknu (því ég "fancy-a" sjálfa mig sem ó-uppáþrengjandi manneskju) veifaði ég til þeirra og gekk sem leið lá að bílnum mínum. Ég var að rifna úr stolti yfir því að vera svona kúl augliti-til-auglitis við heimsfrægar manneskjur. Það að þessar heimsfrægu manneskjur eru yngri eða jafngamlar mér og virka þar að auki mjög baby-legar á sviði vona ég að gleymist snögglega ;).

sunnudagur, mars 28, 2004

Hárið...
Nei, ekki hárið á mér, þó svo að ég sé nýkomin úr klippingu. Ég meina myndina Hárið, einhverja bestu söngleikja mynd sem gerð hefur verið! Hún var einmitt að koma í hús frá the U.S. of A. ásamt The Sound of Music (annarri frábærri mynd) og því verður glatt á hjalla hjá söngglöðu systrunum :). Og þar sem myndin var mætt á svæðið varð ég auðvitað að sýna lit og setja geisladiskinn Hárið í spilarann. Helber schnilld!

Týnd í bókalausri auðn...
Borgarbókasafnið gerði mér þann óleik að loka í heila ellefu daga. Reyndar eru þeir að skipta yfir í MIKLU betra útlánakerfi (sem er ekki DOS-based, hallelúja lofið Drottni) en engu að síður er skrýtið að geta ekki skroppið á bókasafnið. Ég fór reyndar þangað til að birgja mig upp, daginn áður en lokaði, þannig að ég hef svo sem nóg af bókum, en engu að síður vantar eitthvað í tilveruna.

Lagið...
Í spilaranum þessa stundina er lagið Syndir holdsins/lifi ljósið úr söngleiknum Hárinu. Svaka lag. Svaka vel þýddur texti.

miðvikudagur, mars 24, 2004

Kvef og læti...
Ég er nú stigin uppúr úr veikindunum eins og fönix úr ösku. Líkt og endurfædd og til í hvað sem er. Núeh, eða ekki. En ég er þó loksins komin í skólann og skemmti mér ágætlega í AutoCAD tíma. Og ég má til með að deila því með alþjóð að ég svaf í heila níu (!) klukkutíma í nótt. Geri aðrir betur!

Tónleikastand...
Mig langar að skella mér á meirihlutann af tónleikunum sem verða á næstunni. Hefði meira að segja alveg viljað fara á Sugababes til að vökva gelgjuna í mér. En löngunin er samt mun meiri að fara á tónleika hjá Pixies, Placebo og slíku og hvað ég hefði viljað hlusta á Damien Rice live. Það er svakalegt að vera svo útúr umheiminum að maður veit ekkert hvað er að gerast, fyrr en það er búið :(.

Ég elska þig, þótt þú sért úr steini...
Þar sem ég átti inneignarnótu í Hagkaupum ákvað ég að gera eitthvað sem ég geri MJÖG sjaldan. Ég keypti mér eitt stykki spánnýjan geisladisk. Og svo annan ekki alveg jafnnýjan :). Fyrri diskurinn er enginn annar en Placebo: Sleeping with ghosts og hann venst mjög vel. En það er seinni diskurinn sem að stendur upp úr. Já, og tilvitnunin að ofan er einmitt af honum. Diskurinn Borgarbragur er snilldin ein. Við áttum svoleiðis hljómplötu (já, hljómplötu!) þegar ég var lítil og það var mikið dansað og sungið með þeirri plötu í den! Og alltaf af og til yfir árin, höfum við systurnar fengið brot úr lögum á heilann. Og nú loksins getum við sungið heil lög, með textann fyrir framan okkur, diskinn í tækinu og hátalarana í botni! Vúhú, segi ég nú bara! Og í tilefni dagsins ætla ég að setja textabrot úr lagi hér fyrir neðan...

Vesturgata
Hann afi minn gekk um á alræmdum flókaskóm
með albönskum hrágúmmísólum sem skelltu í góm.
Hann klæddist vínrauðum náttfötum nótt jafnt sem dag
og nótaði í örsmáar kompur stef eða lag.
Og þeir Steingrímur rakari hlustuðu á Händel og Bach
og horfðu á skýin og sögðu í lotningu: Takk!

...

Víðast í heiminum heyrist nú urgur og kíf.
Hvar er vor draumur um fegurra og betra líf?
Erum við öllsömul dauðadæmt drullupakk?
Er takmarkið kannski að deyða þá Händel og Bach?

Ó, hlustaðu bróðir, ég strengina varlega strýk;
helgnýrinn þagnar, þín sál verður aftur rík.
Sittu hjá mér, hlustum á Händel og Bach
og horfum á skýin og segjum í lotningu: Takk!

fimmtudagur, mars 11, 2004

I'm fine-d...
Ég er að deyja úr kvefi. Bara langaði að deila því með umheiminum.

It's a small world after all...
Fann svona kortagerðardæmi. Mér finnst svona svo gaman og hugsaði með mér að nú gæti ég sýnt heiminum hversu mikið af honum ég hefði séð með eigin augum. Svo kom í ljós að ég hef ekkert komið til það margra landa. Og það lítur út fyrir að ég hafi ferðast um ÖLL Bandaríkin, sem er náttúrulega ekki satt...



create your own visited country map
or write about it on the open travel guide

þriðjudagur, mars 09, 2004

Akureyri taka 2...
Það reyndist vera dálítið af snjó í Hlíðarfjalli svo að við gátum sýnt tilþrif í hálfslöppu færi. Það r sem skíðin mín eru biluð voru leigð handa mér carving skíði og þvílíkur munur! Ég ætla svo innilega að fá mér þannig. Reyndar var ég bara á skíðum annan daginn því á sunnudaginn var svo klikkað veður að ég barasta treysti mér ekki upp í fjall. Og á leiðinni heim, vá! Ég hélt að bíllinn myndi fjúka þegar við keyrðum í 21 m/s uppi á Holtavörðuheiði. Mikið ævintýri.

Já, og nokkurn vegin svona leit Hlíðarfjall út um helgina:

fimmtudagur, mars 04, 2004

Öðruvísi dagar...
Já, í dag og í gær eru öðruvísi dagar í Iðnskólanum í Reykjavík. Allir nemendur á hönnunarbraut þurftu að vera með í undirbúningi fyrir a.m.k. eina vinnustofu og ég var í kaffihúsanefnd. Bakaði ca. 150 bollur og skemmti mér vel við það. Í gær slysaðist ég svo inn í vinnustofu í bókbandi og kom ekkert út þaðan aftur. Vá, hvað það var gaman! Ég bjó til mína fyrstu bók og er alveg rosalega stolt af henni!

Akureyri...
Á morgun skundum við fjölskyldan og ýmist vinafólk hennar á Akureyri. Þetta á náttúrulega að vera skíðaferð en sökum snjóleysis verður bara slappað af og veðurguðunum færðar fórnir.



Á skíðum skemmt' ég mér, tralalalala, tralalalala, tralalala!

fimmtudagur, febrúar 26, 2004

Bolla, bolla, bolla...
Já, bolludagurinn var á mánudaginn og var það vel. Hér á heimilinu var tekið forskot á sæluna á sunnudeginum og sultu og rjóma skellt í keyptar (en mjög góðar) vatnsdeigsbollur með súkkulaði ofan á. Á bolludaginn sjálfan borðaði ég svo enn fleiri bollur og þá var sérstaklega vinsælt að mamma skyldi búa til púns. Minns finnst nefnilega rjómi ógeð á öðru en vöfflum og pönnukökum.

Sprengidagur með meiru...
Nú má ekki gleyma sprengideginum á þriðjudaginn var. Saltkjöt og baunir er eitthvað það besta sem ég fæ og ég borðaði því á mig gat eins og á að gera. Eftir matinn ákvað ég að skella mér á Kópavogssafn og skila bókum og öðrum safnkosti (sem er n.b. mjög skrýtið orð). Ég var bara að dunda mér við að læra á safnið og skoða bækur þegar að það slokknar á ljósunum í safninu. Ég flýtti mér að afgreiðslunni og þar voru bókasafnsverðir að fara í yfirhafnir. Ég spurði hvort að það væri búið að loka og þær hrukku allar í kút. Klukkan var sem sagt EINA mínútu yfir lokunartíma og þær tjékka ekkert hvort að allir séu komnir út úr safninu. Og þar sem þær voru á leiðinni út þá munaði nú ekki miklu að ég lokaðist inni í annarri heimsókn minni á safnið :) !

Gleði dagsins...
Orlando er aftur inni í myndinni. Það kemur svo bara í ljós hvort hann heldur sig þar eða flýr aftur ;) !

sunnudagur, febrúar 22, 2004

Gigli...
Já, um daginn fékk Bryndís vinka boðsmiða á bíómyndina Along came Polly. Við skunduðum því fullar tilhlökkunar upp í Álfabakka og ætluðum sko að skemmta okkur ærlega. En viti menn, það var uppselt. Og stelpan í afgreiðslunni sagði okkur að Þessir miðar hefðu verið sendir á öll heimili sem eiga viðskipti við Símann. Óóóóókei, ég þekki engan annan en Bryndísi sem fékk svona og samt á mitt heimili viðskipti við Símann. Skandall!
En þar sem við skakklöppuðumst vonsviknar heim, ákváðum við að gera gott úr öllu saman og leigja bara vídjó. Og myndirnar Alex & Emma og Gigli urðu fyrir valinu. Alex & Emma reyndist voða fín en Gigli...ja, ég held ég geti sagt, með nokkurri vissu, að Gigli sé LÉLEGASTA mynd sem ég hef nokkurn tíma séð. Það var alveg rosalegt að horfa á hana. En sem betur fer var hún fríspóla svo ég sé ekki eftir neinum peningum :) !

McFlurry...
Já, svona er það þegar maður vafrar um netið án þess að leita að neinu sérstöku. Þá finnur maður gjarnan skrýtna og/eða skemmtilega hluti sem deila má með öðrum. Þetta apparat hér fyrir neðan fann ég á síðu Toys R Us og fannst það alveg gífurlega amerískt ;).



McFlurry-vélin! Tilvalin til að búa til McFlurry ef að maður er of latur til að ganga þessa 50 metra yfir á næsta McDonalds...

miðvikudagur, febrúar 18, 2004

Skyndipróf...
Í dag var skellt skyndiprófi á okkur í AutoCAD tíma. Mér fannst ganga mjög vel en engu að síður reynir nú á fullyrðingu mína um rosalega færni í AutoCAD.

Hreyfing...
Haldiði að ég sé ekki bara orðin dugleg að fara í ræktina. Ú, je beibe! Hvað ég elska gönguskíðavélar!

Himnaríki...
Einhvern veginn tókst mér að verða tuttugu vetra án þess að fatta að ég gæti fengið mér bókasafnsskírteini í öðrum bæjarfélögum. En ekki lengur! Nú er ég stoltur handhafi skírteinis í bókasafni Kópavogs og prísa mig sæla með það. Hugsið ykkur, ókannaðar víddir bóka, tölvuleikja, tímarita og myndasagna. Já, ég held barasta að ég sjái ljósið við enda ganganna!

mánudagur, febrúar 09, 2004

Hæ, hó! Hæ, hó! Við höfum fengið nóg...
Já, ég hafði sko aldeilis fengið nóg af gamla tölvugreyinu heima. Og einmitt þá, á ögurstundu, kom súpertölvukallinn (aka. pabbi) og reddaði málunum! Nú eigum við nýja og fína tölvu með hröðu og fínu ADSl-i og stórum og góðum hörðum disk. Nú er bara eftir að bíða og sjá hvort gamli harði diskurinn, með öllum myndum undirritaðrar, hafi bjargast úr tölvuslysinu mikla og fræga. Við bíðum spennt!

Snilldin...
Ég er ÓGEÐSLEGA klár í AutoCAD. Egóið ætlar mig lifandi að drepa.

Hugleiðingin...
Af hverju segir maður að eitthvað: "...ætli mann lifandi að drepa!"
Ef eitthvað á að drepa mann, verður maður þá ekki að lifandi áður en það er gert? Er kannski hægt að drepa mann dauðann? Reyndar hljómar setningin,
"Hann ætlaði mig dauðann að drepa!", ekkert sérstaklega eðlilega svo kannski er það skýringin...

miðvikudagur, janúar 28, 2004

Nýtt útlit...
Gamla útlitið á síðunni var farið að fara ansi mikið í mínar fínustu. Og endurlitunarmöguleikar template-anna sem Blogspot býður upp á eru ekki neitt sérstaklega miklir. Fyrir utan það að það var enginn áskorun lengur í að fikta í því. Svo ég áttaði mig á því að róttækra aðgerða var þörf. Síðan þurfti að endurfæðast. Og það hefur hún gert, guði sé lof. Og hver veit nema ég verði duglegri að blogga í skemmtilegra umhverfi!

Commentakerfi...
En eins og sjá má þá reyndist mér erfitt að setja commenta kerfið inn á síðuna. Það verður því bara að bíða betri tíma og þeir sem að vilja kommenta geta bara geymt kommentin til betri tíma.

Friends...
Uppáhaldsþátturinn minn í öllum heiminum held ég bara. En þar sem að ég hef ekki verið áskrifandi af Stöð 2 í mörg, mörg ár þá hef ég aldrei getað fylgst almennilega með. Ég hef alltaf bara séð einn og einn þátt hjá vinkunum eða þá fengið seríur sem þær eiga lánaðar. En núna loksins, loksins þá er ég að verða með á nótunum. Ég á sjálf 7.seríu og er með 8. í láni. Svo ég þarf eingöngu að verða mér úti um 9. seríu og þá er ég klár í slaginn. Og ekki seinna vænna, því seinasta serían fer í loftið 6. febrúar n.k. Því miður er ég ekki enn komin með Stöð 2 svo að ég verð bara að snapa mér sæti hjá einhverjum sem á afruglara. Það verður sem sagt svona Idol stemmning yfir þessu hjá mér.

mánudagur, janúar 19, 2004

Bloggþurrð...
Nú er vorönn í Iðnskólanum í Reykjavík hafin af krafti. Þegar ég sá stundatöfluna mína fyrst var ég gráti næst því mér leist hreint ekkert á málið. En eftir fyrstu vikuna er komið annað hljóð í skrokkinn. Nú er ég mjög svo ánægð með mína fjögurra daga skólaviku og þriggja daga helgi. Ég er sem sagt vel sátt ;)!

Dansi, dansi dúkkan mín...
Og þar sem maður verður alltaf að taka nýtt ár með trompi, þá ákvað ég að skella mér í leikfimi uppi í Hreyfigreiningu. Það er sko algjör snilli. Þar eru nefnilega svona gönguskíðavélar sem að mér finnst svo gaman að. Og ekki spilla danstímarnir sjálfir fyrir.

Svekkelsi dagsins...
Það kostar 100.000 kr. að fara til Orlando.

Gimmí, gimmí, gimmí!...

Zodiac!

mánudagur, janúar 05, 2004

Jól og nýtt ár...
Gleðileg jól og farsælt nýtt ár! Ég er kannski í seinna lgai með þetta en er mætt engu að síður. Þettar eru búin að vera æðisleg jól og áramót en því miður líður að lokum núna. En ég kvarta ekki. Eða alla veganna ekki mikið :).

Catan...
Ég fékk aldeilis tækifæri til þess að spila þetta nýja uppáhaldsspil mitt, um þessi áramót. Á gamlársdag komu Nína og Marthe nefnilega með það í mat og ég fékk að halda því eftir. Og á nýársdagskveld kom Bryndís í sérlega Catan-spilaheimsókn og þá varð nú glatt á hjalla!

Kvóti dagsins...
- Oh, Rexy! You're so sexy!